22.10.2006

Öryggi, sagnfræði og pólitískt skítkast.

Laugardaginn 21. október héldum við Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sameiginlegan fund í Valhöll um öryggismál Íslands, gæslu ytra og innra öryggis. Við töldum nauðsynlegt að árétta með þessum hætti mikilvægi þess, að sjálfstæðismenn hefðu áfram ótvíræða forystu í þessum málaflokki og minna á, að við ræddum framtíðarstöðu þjóðarinnar á sama tíma og andstæðingar flokksins dveljast mest við það, sem er að finna í skjalasöfnum eða þeir telja sig sjálfa hafa reynt, án þess þó að vilja segja alla söguna og gera mönnum þannig kleift að upplýsa mál að fullu.

 

Mér þótti vænt um það, hve afdráttarlaus Geir var í stuðningi sínum við mig og málstað minn í tilefni af þeirri atlögu, sem gerð hefur verið að mér undanfarna daga og vikur í því skyni að gera hlut minn sem tortryggilegastan í tengslum við öryggisgæslu í þágu þjóðarinnar eða löngu liðna atburði, sem eru hluti af sögunni en ekki stjórnmálastörfum mínum á neinn hátt.

 

Ég tel mikla ábyrgð hvíla á dóms- og kirkjumálaráðherra þjóðarinnar á þeim tímamótum, sem nú eru í öryggismálum, þegar varnarliðið hverfur af landi brott og meiri ábyrgð en áður leggst óhjákvæmilega á innlendar stofnanir, sem heyra undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Við erum að stíga okkar fyrstu skref í gjörbreyttu umhverfi. Þau skref eru vel undirbúin og ígrunduð og nefni ég þar eflingu landhelgisgæslu og lögreglu. Ég hef leitast við að axla þessa ábyrgð um leið og ég tel það skyldu mína að vekja máls á þeim þáttum, þar sem ég tel, að gera þurfi enn betur.

 

Á fundinum í Valhöll spurði Ólafur Hrólfsson um baráttuna gegn fíkniefnum og nefndi dæmi um það, hvernig fíkniefnasalar herjuðu á ungt fólk og foreldrar stæðu varnarlausir gangvart þeim og hótunum þeirra. Hvort þetta væri ekki nærtækari hætta í okkar samfélagi en margt annað. Ég tók heilshugar undir með Ólafi og sagði svo vera. Ég sagði, að innan lögreglunnar væru menn að þróa nýjar aðferðir til að takast á við þessi mál með því að sameina krafta á skipulegri hátt en áður og greina upplýsingar, í þeim tilgangi hefði lögreglulögum til dæmis verið breytt 2. júní sl. en breytingin kæmi til framkvæmda 1. janúar 2007.

 

Ég bætti því við, að lögreglan hefði ekki þær heimildir, sem dygðu henni til að ná takmarki sínu og minnti á orð Jóhanns R. Benediktssonar, sýslumanns á Keflavíkurflugvelli, sem féllu á fundi okkar í Háskólanum í Reykjavík fimmtudaginn 19. október, þegar hann sagði, að á ákveðnu stigi mála ræki lögreglan sig á lögbundna eldveggi og kæmist ekki lengra vegna skorts á heimildum til að rannsaka mál. Þegar ég væri að tala um heimildir til að rannsaka mál, án þess að rökstuddur grunur lægi fyrir um afbrot, væri ég að ræða um mál, sem lögreglan stæði frammi fyrir á líðandi stundu í íslensku þjóðfélagi en ekki eitthvað, sem kynni að gerast einhvern tímann síðar. Þetta yrðu menn að hafa í huga, þegar um þessi mál væri rætt.

 

Eins og ég hef áður sagt, skil ég ekki málflutning tengdan þessu prófkjöri okkar sjálfstæðismanna, sem byggist á því, að flokkadrættir séu á milli mín og Geirs H. Haarde. Andstæðingar flokksins lifa margir í þeirri von, að þeim takist að koma höggi á flokkinn með slíkum áróðri, því að þeir vita sem er, að samstaða sjálfstæðismanna er þeirra besta vopn og átta sig á réttmæti kjörorðs míns í prófkjörinu: Samstaða til sigurs! Innan flokksins hljóta allir að átta sig á því og enn betur eftir hinn góða fund okkar í Valhöll á laugardaginn, að við Geir stöndum þétt saman um málstað flokks okkar og viljum veg hans og framgang sem mestan og bestan.

 

Mér kemur í sjálfu sér ekki í opna skjöldu, að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins beini spjótum sínum að mér og finnst það í raun nokkur heiður, að þeir telji mig helst standa í vegi fyrir því, að þeir nái þeim árangri að ýta okkur sjálfstæðismönnum til hliðar. Hið einkennilega við þessar umræður núna er, að engu er líkara en andstæðingar Sjálfstæðisflokksins kjósi að líta fram hjá því, sem er að gerast á líðandi stundu eða jafnvel hér á landi heldur velji sér bæði annan tíma og annað land.

 

Hvernig get ég rökstutt þetta? Jú, með því að vísa til umræðnanna um hleranir og að hér eigi að gera eitthvað í tilefni af þeim umræðum, af því að Norðmenn töldu sig knúna til sérstakra aðgerða hjá sér fyrir 10 árum eða svo. Um þetta geta menn auðvitað fjargviðrast endalaust og látið eins og mál af þessum toga skipti mestu um framvindu þjóðmála um þessar mundir – það er einfaldlega annað hvort hrapallegur misskilningur eða vísvitandi blekking.

 

Tilraunir til að saka okkur sjálfstæðismenn um að hafa beitt andstæðinga okkar ólögmætum aðferðum á tímum kalda stríðsins með aðstoð lögreglu eru dæmdar til að mistakast.

 

Össur Skarphéðinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, fór mikinn á vefsíðu sinni og í blöðum með yfirlýsingum um, að einhver „skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins“ hefði fram undir miðjan síðasta áratug verið að ofsækja pólitíska andstæðinga með því að rýna í skjöl Stasi, austur-þýsku öryggislögreglunnar.

 

Þór Whitehead sagnfræðingur hefur upplýst í grein í Fréttablaðinu 18. október  með vísan til gagna frá Róberti Trausta Árnasyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra og sendiherra, að það var árið 1989, þegar Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra og Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra, að þeir beindu þeim tilmælum til Róberts, að hann færi frá Brussel, þar sem hann starfaði í fastanefnd Íslands hjá NATO, til Þýskalands og kannaði Stasi-skjölin og liti til þess, hvort þar væri eitthvað að finna um meðráðherra þeirra Svavar Gestsson.

 

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður vinstri/grænna, hefur af þessu tilefni krafist þess, að þeir Steingrímur og Jón Baldvin bæðu Svavar afsökunar, en Jón Baldvin hafnar þeim tilmælum og af því tilefni segir Ögmundur:

 

„Af viðbrögðunum að dæma virðist Jón Baldvin vera blindur á það sem málið snýst um. Það snýst um siðferði í stjórnmálum og öndverðuna einnig: siðleysi.


Kjarninn er eftirfarandi:


1. JBH lét kanna hjá erlendum leyniþjónustumönnum feril manns sem sat með honum í ríkisstjórn. Hann lét þennan meðráðherra sinn ekki vita. Það er siðleysi.


2. JBH lét meðráðherra sinn ekki vita þegar könnuninni var lokið þó þeir sætu áfram saman í ríkisstjórn hlið við hlið. Í könnuninni kom þó fram að SG var eiginlega þríheilagur: Þrjár leyniþjónustur höfðu svarað til um íslenska námsmenn austantjalds: Vestur-þýsk, CIA og íslenska leyniþjónustan.


3. Hann lét SG ekki vita um niðurstöðuna þegar pólitískir andstæðingar hans neru honum því um nasir að hafa unnið fyrir Austur-Þjóðverja og lugu upp á hann fádæma óþverrahætti í ljósi þessa.


4. Hann lét SG ekki vita um niðurstöðuna þegar mynd af honum var birt á kápu bókarinnar Liðsmenn Moskvu - sem út kom um miðjan tíunda áratuginn - og þar með gefið í skyn að þar færi sérlegur agent Kremlar. Í bókinni var ekkert fjallað um SG en eftir sat myndin.


5. Hann lét SG ekki vita um niðurstöðuna þegar gerður var heill sjónvarpsþáttur rétt fyrir kosningarnar 1995 þar sem sömu dylgjum var flaggað frammi fyrir alþjóð.“

 

Hver var að tala um skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins?

 

Guðmundur Magnússon hefur fjallað um þessi mál öll af yfirsýn og viðleitni til að hafa það, sem sannara reynist.  Hann segir á vefsíðu sinni 18. október í tilefni af grein Þórs Whiteheads í Fréttablaðinu:

 

„Nú skýrir Þór Whitehead frá því í Fréttablaðinu í dag, að þegar þeir Steingrímur og Jón Baldvin, þá forsætis- og utanríkisráðherrar, báðu í desember 1989 embættismann í utanríkisráðuneytinu að afla með leynd upplýsinga um hugsanleg tengsl samráðherra þeirra, Svavars Gestssonar menntamálaráðherra, við austur-þýsku leyniþjónustuna fyrr á árum, hefðu þeir lagt blátt bann við að Árni Sigurjónsson fengi af þessu nokkrar fregnir.

Bíðum nú við.

Af hverju nefndu ráðherrarnir Árna í þessu samhengi? Hvað kom hann þessu máli við ef hvorugur þeirra vissi þá að Árni stýrði íslenskri leyniþjónustu?

 

Í Morgunblaðinu í dag, 22. október, er löng og ítarleg grein eftir Þór Whitehead, þar sem hann færir fyrir því óhrekjanleg rök, að allar getgátur um, að aðeins ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi vitað um öryggisþjónustu á vegum lögreglunnar í Reykjavík, séu einfaldlega úr lausu lofti gripnar og standist ekki gagnrýni. Fullyrðingar í þessa veru komust á kreik, þegar Kristinn Hrafnsson, fréttamaður á Stöð 2, fór að dylgja um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins, eftir að hann hafði rætt við Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing í tilefni af grein Þórs Whiteheads um þessi mál í Þjóðmálum.

 

Guðni Th. fékk á liðnum vetri aðgang að gögnum héraðsdóms Reykjavíkur og Þjóðskjalasafns,  þar sem er að finna úrskurði dómara um heimild lögreglunnar til hlerana, en svo virðist sem enginn annar sagnfræðingur hafi fengið aðgang að þessum gögnum og nú kvartar Kjartan Ólafsson undan því, að hann fái ekki sama aðgang og Guðni Th., Kjartan megi aðeins skoða gögn, sem kunna að varða hann sjálfan. Fyrir þá, sem utan standa, er erfitt að átta sig á því, hvers vegna Guðni Th. nýtur þessara sérréttinda í hópi sagnfræðinga og það eftir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur fellt úrskurð Kjartani Ólafssyni í vil.

 

Hér skal engu spáð um niðurstöðu athuguna á þessum gögnum en séu ummæli Guðna Th. um það, sem þau hafa að geyma, í þeim anda, sem leiddi Kristinn Hrafnsson ranglega inn á þá braut að fara að tala um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins getur fjöðrin kannski oftar en einu sinni breyst í fugl.

 

Þór staðfestir í grein sinni í Morgunblaðinu í dag þá skoðun mína, að undrun veki, hve fáir menn hafi sinnt þessum þætti á vegum lögreglunnar í Reykjavík á tímum kalda stríðsins. Það sýnir aðeins, að hér var síður en svo um nein þau umsvif að ræða, sem gera mál hér sambærileg við það, sem var í Noregi.

 

Geir H. Haarde vék að því í ræðu sinni á fundi okkar sjálfstæðismanna í Valhöll, að andstæðingar sjálfstæðismanna væru með andróður gegn þeim í þessum hleranamálum og taldi að líta bæri á þann andróður í því pólitíska ljósi. Þegar við sjálfstæðismenn tölum á þennan veg, er látið eins og við séum að víkja okkur undan því, að þessi mál séu upplýst að fullu og viljum forðast að ræða þau. Ekkert er fjær sanni. Við höfum beitt okkur fyrir ályktun og lagasetningu á alþingi til að sérfræðingar geti kynnt sér öll gögn frá tímum kalda stríðsins. Við styðjum rannsókn ríkissaksóknara vegna uppljóstrana Jóns Baldvins um að sími hans hafi verið hleraður og Þorgerður Katrín, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur beitt ráðherravaldi sínu til að Kjartan Ólafsson fái að skoða gögn í Þjóðskjalasafni.

 

Spyrja má í þessu samhengi: Hvernig brást Jón Baldvin Hannibalsson við, þegar Þór Whitehead ritaði grein sína í Fréttablaðið til að svara Össuri um skrímsladeildina? Guðfinnur Sigurvinsson, fréttamaður á sjónvarpinu, ræddi við Jón Baldvin í kvöldfréttum 19. október og segir:Róbert Trausti segir sérstaklega að þú hafir í þessu samhengi nefnt Svavar.  Af hverju ætti hann að gera það ef það væri ekki satt?

Jón Baldvin svarar: Nú, því að það hentar honum sennilega.

Guðfinnur: En hvernig getur það hentað honum að nefna Svavar og draga þig inn í það. Er hann að koma höggstað á þig með einhverjum hætti?

Jón Baldvin Hannibalsson:  Auðvitað, hann er kunnur hægri maður. Og þetta er pólitískt mál.

Guðfinnur: Þetta er af pólitískum toga. Þetta kemur beint á eftir hlerunarmálinu. Þetta er í rauninni bara einhvers konar.

Jón Baldvin Hannibalsson: Pólitískt skítkast.


Þá höfum við það – þetta er pólitískt mál og skítkast segir Jón Baldvin, maðurinn, sem gerir kröfur á hendur pólitískum andstæðingum sínum og krefst þess, að til hans sé litið sem hlutlauss aðila, sem hafi sannleikann einan að leiðarljósi. Hvort heldur um er ræða Þór Whitehead, Róbert Trausta Árnason, Boga Nilsson ríkissaksóknara eða Ögmund Jónasson – allir eru þeir marklausir, úr því að orð þeirra henta ekki málstað Jóns Baldvins!

Er ekki mál að linni?