15.10.2006

Höfðafundurinn – hleranir.

Yfirlit

Sömu daga og við vorum í Washington í síðustu viku til að ræða um samstarf á sviði öryggismála í tilefni af því, að ritað var undir sameiginlega yfirlýsingu ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um varnarsamstarf á grundvelli varnarsamningsins frá 1951, var þess minnst hér í Reykjavík, að 20 ár voru liðin frá fundi þeirra Ronalds Reagans, Bandaríkjaforseta, og Mikhaíls Gorbatsjovs, leiðtoga Sovétríkjanna, í Höfða.

Á tíma fundarins í Höfða starfaði ég við stjórn erlendra frétta á Morgunblaðinu og kom það í minn hlut að hafa daglega stjórn á fréttum blaðsins af fundinum en þær settu að sjálfsögðu mikinn svip á blaðið. Þetta var einstaklega spennandi og umfangsmikið verkefni, sem snerist einnig um að sinna erlendum blaðamönnum í landinu vegna fundarins, en þeir skiptu hundruðum. Þau kynni, sem þar tókust við erlenda starfsbræður, nýttust mér síðar við fréttaöflun fyrir Morgunblaðið. Ég hefði til dæmis aldrei náð fundi Andreis Sakharovs í Moskvu árið 1987, ef ég hefði ekki stofnað til góðra kynna við fréttamann Reuters, sem kom á leiðtogafundinn og mælti með því við yfirmann Reuters í Moskvu, að hann aðstoðaði mig, þegar ég var þar í tilefni af heimsókn Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra.

Í nýjasta hefti Þjóðmála skrifa ég stutta umsögn um nýja bók eftir John Lewis Gaddis prófessor en hún heitir The Cold War: A New History. Í umsögninni segi ég meðal annars:

„John Lewis Gaddis minnist að sjálfsögðu á fund þeirra Reagans og Gorbatsjovs í Höfða í október 1986 og segir, að þar hafi Reagan tekist hvað best upp á ferli sínum, þegar hann setti Gorbatsjov það skilyrði, að hann myndi afskrifa bandarísk kjarnorkuvopn á móti sovéskum, ef Gorbatsjov samþykkt geimvarnaáætlun Bandaríkjanna. Þegar Gorbatsjov sagði nei, reiddist Reagan og lauk fundinum. Í bók sinni vitnar Gaddis í bók eftir Paul Lettow frá 2005, þar sem sagt er að Reagan hafi lagt til við Gorbatsjov, að þeir kæmu aftur í Höfða árið 1996: „Hann og Gorbatsjov kæmu aftur til Íslands og hvor um sig hefði síðustu kjarnorkueldflaug lands síns með sér. Síðan myndu þeir efna til gríðarlegrar stórveislu fyrir allan heiminn. .... Forsetinn yrði þá orðinn fjörgamall og Gorbatsjov þekkti hann ekki. Forsetinn segði : Halló, Mikhaíl. Og þá spyrði Gorbatsjov: Ron, ert þetta þú? Síðan myndu þeir eyðileggja síðustu flaugarnar.“

 

Gaddis segir um fundinn í Höfða, að þar hafi rök Reagans sigrað og Gorbatsjov fallist á þau. Hann vitnar í blaðamannafund Gorbatsjovs í Háskólabíói, þar sem hann sagði, að fundurinn í Höfða hefði ekki mistekist. „Hann markar tímamót, vegna þess að okkur tókst í fyrsta sinn að horfa út fyrir sjóndeildarhringinn.““

 

Yfir Höfðafundinum hvílir ákveðin dulúð, þar sem hugmyndirnar í viðræðum þjóðarleiðtoganna voru í raun alltof róttækar til þess, að þær yrðu nokkru sinni að  veruleika. Á hinn bóginn sýndi hin afdráttarlausa afstaða Reagans til varnarkerfis gegn eldflaugum Sovétmönnum svart á hvítu, að Bandaríkjamenn ætluðu að grípa til gagnráðstafana, sem gerðu þeim kleift að gera sovésku kjarnorkuógnina að engu. Gorbatsjov og hans menn vissu sem var, að þeir höfðu enga burði til að svara þessum leik Reagans og þar með má segja, að upphaf endalokanna hafi hafist.

 

Mikhaíl Gorbatsjov vildi auðvitað ekki, að Sovétríkin yrðu að engu. Hann ætlaði sér að lappa upp á sovéska kerfið til að gera það betur í stakk búið til að takast á við Vesturlönd – en þegar hann tók að hreyfa við undirstöðunni hrundi allt stjórnkerfið eins og spilaborg og heima fyrir varð hann undir rústunum og Bóris Jeltsín tók völdin í sínar hendur.

 

Hleranir.

 

Blaðamenn voru í sambandi við mig, eftir að Jón Baldvin Hannibalsson upplýsti, að sími hans sem utanríkisráðherra hefði verið hleraður og nefndi síðan ónafngreindan tæknimann til sögunnar í því skyni að staðfesta réttmæti frásagnar sinnar. Vildu þeir, að ég segði álit mitt á þessu atviki og einnig hef ég heyrt látið að því liggja, að málið verði að upplýsa og opinberir aðilar eigi að beita sér fyrir því.

 

Ég svaraði á þann veg, að þetta væri meira en tíu ára gamalt atvik og þess vegna gæti ég engu um það svarað. Raunar getur enginn upplýst þetta til fulls nema Jón Baldvin sjálfur og þeir, sem hann hefur nefnt til sögunnar. Fram hefur komið, að hann ræddi þetta hvorki við Davíð Oddsson forsætisráðherra á þessum tíma né Þorstein Pálsson sem var dóms- og kirkjumálaráðherra. Böðvar Bragason, lögreglustjóri í Reykjavík, segir lögregluna ekki beita hlerunum nema á grundvelli dómsúrskurðar.

 

Mánudaginn 9. október voru umræður utan dagskrár um þessi hleranamál en upphafsmaður þeirra var Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna. Hann lauk ræðu sinni í síðari umferð með því að spyrja: Hvenær var þessu hætt eða stendur þetta enn yfir? Er enn verið að njósna? Er kannski verið að njósna um mig, hæstv. dómsmálaráðherra? Hef ég sætt á mínum 24 ára stjórnmálaferli njósnum af þessu tagi eins og forverar mínir margir hverjir sem ég þekkti vel hafa greinilega gert? Og hann klykkti síðan út með þessu: „Nei, hæstv. dómsmálaráðherra, þú ert nú ekki sloppinn svona billega.“

 

Í kjölfarið á þessari hótun sigldi síðan Jón Baldvin með fullyrðingar sínar um, að sími hans í utanríkisráðuneytinu hafi verið hleraður. Að breyta þessu í viðfangsefni fyrir mig, byggist á miklum misskilningi – afstaða mín kom fram á alþingi í svari við ræðu Steingríms J. en þá sagði ég meðal annars:

 

„Mér finnst þessar umræður fara alveg út úr öllu samhengi þegar hv. þingmaður stendur hér og hrópar: „Hefur kannski verið njósnað um mig?“ Ég hef ekki minnstu hugmyndir um það og tel — ja, nema þingmaðurinn hafi unnið sér eitthvað til saka því að samkvæmt lögum er ekki hægt að stunda hleranir hér á landi nema fyrir liggi rökstuddur grunur um saknæmt athæfi. ... Það er ekki nein spurning um hvort þetta sé löglegt eða ekki. Það liggur alveg skýrt fyrir að 1941 giltu hér lög, 1951 komu ný lög og það hefur alltaf verið farið að lögum við þessar ákvarðanir. Ef hv. þingmaður hefur gerst sekur um saknæmt athæfi sem kallar á rannsókn lögreglu þá fer lögregla væntanlega fram á það við dómara að fá úrskurð um það eins og vera ber. Ekki er ég að bera þingmanninn þeim sökum að ástæða sé fyrir lögreglu að stunda slíkar rannsóknir. Það finnst mér algjörlega sýna hvað þessar umræður fara í raun út um víðan völl og inn á andkannalegar brautir að þingmenn standi hér og hrópi: „Hef ég verið hleraður í 24 ár?“, þegar landslög heimila ekki slíkar athafnir af hálfu lögreglu nema fyrir liggi rökstuddur grunur um saknæmt athæfi. Ég tel að þingmaðurinn liggi ekki undir neinum slíkum grun og þess vegna leyfi ég mér að álykta að hann hafi ekki verið undir neinni smásjá hjá lögreglunni. “