1.10.2006

Prófkjör og stjórnmálastraumar.

 

Prófkjörsbaráttan er að fara formlega af stað í dag, þegar tveir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hér í Reykjavík opna skrifstofur sínar, þeir Illugi Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson. Ég  ætla að opna mína prófkjörsskrifstofu síðdegis sunnudaginn 8. október, en hún verður til húsa við Skúlagötu, þar sem áður var Sjóklæðagerðin. Húsið snýr að Snorrabraut og Sæbraut og verða þar settir upp borðar til að minna á frambjóðandann í 2. sætið.

 

Ég fór fyrst í prófkjör árið 1990 vegna þingkosninganna 1991 og setti þá markið á 3. sætið á listanum og náði því eftir mikla baráttu. Síðan hef ég notið góðs trausts sjálfstæðismanna í Reykjavík og vona, að ég geri það enn, þegar ég býð mig fram í síðasta sinn, því að ég hef ákveðið, að hið næsta verði lokakjörtímabil mitt á þingi.

 

Það getur verið vandasamt fyrir flokka að efna til prófkjörs, ef djúpstæður ágreiningur um menn og málefni ríkir innan þeirra. Raunar geta prófkjörin sjálf leitt til slíks ástands í flokkum, ef ekki er haldið á málum af yfirvegun og skynsemi. Okkur sjálfstæðismönnum hefur á farsælan hátt tekist að sigla flokki okkar í gegnum hið mikla breytingaskeið, sem óhjákvæmilega hlaut að verða við brotthvarf Davíðs Oddssonar af vettvangi stjórnmálanna. Síðan varð einnig breyting á forystu í ríkisstjórninni, þegar Halldór Ásgrímsson sagði af sér embætti forsætisráðherra.

 

Allt hefur þetta gengið þannig fyrir sig, að innan Sjálfstæðisflokksins er góður friður um þessar breytingar og Geir H. Haarde nýtur óskoraðs trausts þingmanna flokksins og flokksmanna almennt. Davíð Oddsson hikaði ekki við að nefna Geir sem augljósan eftirmann sinn, áður en hann lét af formennsku. Gekk Davíð þar fram með öðrum hætti en til dæmis Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins, sem hefur ekki lýst yfir stuðningi við Gordon Brown, fjármálaráðherra flokksins, til að taka við af sér sem flokksleiðtogi. Vék Blair sér fimlega undan því í sjónvarpsþætti fyrir þing Verkamannaflokksins á dögunum að styðja Brown.

 

Í fjölmiðlum var sagt frá því, að Cherie Blair, forsætisráðherrafrú, hefði verið á gangi utan fundarsalarins, þegar Gordon Brown flutti ræðu sína á flokksþinginu. Hún hefði staðið við sjónvarpsskjá, þegar Brown sagðist telja það „sérréttindi“ að hafa fengið að starfa með Blair. Sagt er, að þá hafi frú Blair sagt stundarhátt: „En sú lygi.“ Hún neitaði síðar að hafa látið þessi orð falla en The Economist segir, að besti brandarinn á flokksþinginu hafi verið, þegar Blair fór ekkert í felur með tilfinningar konu sinnar í garð fjármálaráðherrans með þeim orðum, að hann þyrfti að minnsta kosti ekki að óttast, að kona sín hlypi á brott með karlinum í næsta húsi – forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann búa hlið við hlið í Downing-stræti.

 

The Spectator vekur máls á því, að Tony Blair hafi verið einskonar skjöldur hins raunverulega Verkamannaflokks gagnvart kjósendum, sem aldrei hefðu annars litið við flokknum, honum hefði með því að flytja boðskapinn um nýja Verkamannaflokkinn tekist að draga athygli frá því, að á bakvið Blair væri gamli flokkurinn enn tifandi eins og tímasprengja og eftir að Blair hyrfi af vettvangi mundi flokkurinn koma í ljós og ekki þykja beint girnilegur. Brown er sagður samgróinn gamla flokknum auk þess sem hann njóti lítils trausts og fólk trúi honum til dæmis ekki, þegar hann segist ekki hafa verið á ýta á Blair að hætta, hafi jafnvel staðið á bakvið tilraunina núna fyrir skömmu til að koma Blair sem fyrst frá völdum. The Economist segir, að verði Brown forsætisráðherra sé líklegt, að innan Verkamannaflokksins muni menn sakna Blairs meira en nokkur gat ætlað fyrir nokkrum vikum.

 

Hér skal ekkert fullyrt um þróunina innan Verkamannaflokksins í Bretlandi en ekki eru síður athyglisverðir atburðir að gerast meðal jafnaðarmanna í Frakklandi en Ségolène Royal skýrði frá því föstudaginn 29. september, að hún byði sig fram til að verða næsti forseti Frakklands í kosningunum á næsta ári. Kannanir sýna, að meðal flokksmanna stendur hún mun betur að vígi en aðrir, sem nefndir eru til sögunnar með 49% stuðning ; Dominque Strauss Kahn (14%), Laurent Fabius (6%) og Jack Lang (8%). Lionel Jospin hefur sagt, að hann ætli ekki að taka þátt í prófkjöri á vettvangi flokksins.

 

Ségolène Royal gæti hæglega orðið sambærilegur skjöldur fyrir franska jafnaðarmenn, sem berjast hatrammlega innbyrðis bæði um menn og málefni, og Blair var fyrir hina bresku. Vandinn fyrir jafnaðarmannaflokkana er sá, að þeir eru enn að glíma við hina sósíalísku arfleifð, þar sem ríkisrekstur ríkisrekstrar vegna er leiðarljósið frekar en þjónusta við borgarana og viðleitni til að auka svigrúm þeirra.

 

Þessi vandi vinstri manna á rætur að rekja til þeirrar staðreyndar, að stjórnmálastefna, sem felur í sér ofurtrú á hlut ríkisvaldsins til að leysa allan vanda, hefur einfaldlega strandað á skeri.

 

Hér hefur verið forvitnilegt að fylgjast með því, hvernig vinstri/grænum hefur þrátt fyrir þetta tekist að draga Samfylkinguna til vinstri, þegar hún leitar sér að fótfestu gegn minnkandi fylgi í skoðanakönnunum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er ekki neinn skjöldur til að hylja vinstrimennsku innan Samfylkingarinnar – hún nálgast ekki viðfangsefni stjórnmálanna í anda Blairs og Royals, sem ræða um stjórnmál á jákvæðan hátt í von um að höfða til þeirra, sem trúa meira á eigið framtak en ríkisins.

 

Við Íslendingar vorum minntir á það við brottför varnarliðsins hinn 30. september, að ríkið hefur ótvíræðu hlutverki að gegna við að gæta öryggis borgaranna og búa þannig í haginn fyrir þá, að þeir geti notið sín sem best í friðsamlegu umhverfi án ógnar og glæpa.

 

Undanfarin misseri hefur markvisst verið unnið að því að teysta þá innviði íslenska þjóðfélagsins, sem mest reynir á við öryggisgæslu. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna brottfarar varnarliðsins er vakið máls á nauðsyn þess að sameina pólitíska og stjórnsýslulega krafta í þágu almannavarna, þá verði skýrar heimildir til að kalla út varalið, þurfi á því að halda, auk þess sem tryggt verði samstarf við þær stofnanir annarra ríkja, sem safna trúnaðarupplýsingum, loks verði tryggð örugg og öflug fjarskipti um land allt.

 

Ég hef unnið að þessum málum og hef fullan hug á að vinna að þeim áfram og hrinda í framkvæmd fái ég til þess umboð kjósenda og alþingis. Þessar miklu breytingar eru höfuðástæða þess, að ég ákvað að bjóða mig fram að nýju. Ég  tel, að þekking mín og reynsla muni nýtast vel á þessum tímamótum, þegar huga þarf að nýjum leiðum til að tryggja öryggi þjóðarinnar við gjörbreyttar aðstæður.

 

Þegar Bandaríkjamenn tilkynntu brottför varnarliðsins hinn 15. mars síðastliðinn skrifaði ég í dagbók mína hér á síðunni:

 

„Vara þig fimmtánda mars, sagði spámaðurinn við Júlíus Sesar, sem svaraði: Svo maðurinn er draumvís! Við skeytum ekk’ um hann; og höldum áfram. Og síðar segir Sesar hjá Shakespeare í þýðingu Helga Hálfdanarsonar: Fimmtándi mars er kominn. Og spámaðurinn svarar: Já kominn Sesar; kominn, ekki liðinn.

 

Síðar þennan dag var Sesar myrtur, árið 44 fyrir Krist.

 

Þótt sjálfur Sesar félli fyrir morðingjahendi þennan dag, lauk ekki sögu Rómaveldis, hún hélt áfram.

 

Um héraðsdóm í Baugsmáli  í dag ætla ég ekki að ræða. – jafnvel lýsing mín á staðreyndum, getur valdið uppnámi.

 

Þótt Bandaríkjamenn hafi tilkynnt í dag, að þeir ætli ekki að hafa orrustuþotur með fast aðsetur á Keflavíkurflugvelli, heldur varnarsamstarfið áfram. Frá mínum bæjardyrum séð hefur lengi verið ljóst, að við yrðum að axla meiri ábyrgð á eigin vörnum en á tímum kalda stríðsins. Við verðum einnig að meta hættuna, sem að öryggi okkar steðjar á annan hátt en þá var gert.“

Þróun varnarsamstarfsins hefur verið á þann veg, sem ég lýsti þarna – það heldur áfram í breyttri mynd, við öxlum meiri ábyrgð en áður og þurfum að meta hættuna, sem að öryggi okkar steðjar á annan hátt en þá var gert. Ég hef aldrei skilið, hvers vegna sumir fjölmiðlamenn hafa talið mig vera að fjalla um Baugsmálið með þessum orðum mínum, það var ég alls ekki, enda tek ég það sérstaklega fram eins og hin tilvitnuðu orð mín sýna.

 

Í Viðskiptablaðinu 29. september ræðir Ólafur Teitur Guðnason um þessa áráttu ýmissa fjölmiðlamanna að breyta því, sem sagt er á prenti eða í viðtali við þá, í eitthvað allt annað en í raun var skrifað eða sagt af þeim, sem til er vitnað. Nefnir hann þar til sögunnar, hvernig hugtakið „leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins“ var hannað af fréttastofu NFS og hefur síðan farið ljósum logum um fjölmiðla- og stjórnmálaakurinn, birtist meira að segja í Blaðinu í viðtali Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Kristján Kristjánsson söngvara og gítarleikara.

 

Notkun orðaleppa af þessum toga um stjórnmálaandstæðinga er meðal aðferða spunameistara vinstrisinna, sem vilja frekar, að stjórnmál snúist um það, sem er sérstaklega hannað en kjarna stjórnmálastefnunnar sjálfrar og hvað framkvæmd hennar felur í sér.