23.9.2006

Ritgerð Þórs – Staksteinar og umræðuvenjur.

Enn á ný vekur nýtt hefti af tímaritinu Þjóðmálum verðskuldaða athygli og að þessu sinni einkum vegna greinar dr. Þórs Whiteheads prófessors um öryggisþjónustu ríkisins frá því að fjórða áratugnum og fram undir lok kalda stríðsins. Grein dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors um Gunnar Gunnarsson og nóbelsverðlaunin hefur einnig verið fréttaefni. Margt annað fróðlegt og gott efni er í þessu hefti Þjóðmála og hvet ég lesendur síðu minnar til að gerast áskrifendur að tímaritinu en auðvelt er að gera það á www.andriki.is

Þegar ég var spurður af sjónvarpi ríkisins föstudaginn 22. september, hvað mér þætti um grein Þórs, sagði ég það koma mér helst á óvart, hvað þetta hefðu í raun verið lítil umsvif á vegum lögreglustjórans í Reykjavík, því að þá er unnt að telja á fingrum annarrar handar, sem koma þarna við sögu og hafa fengist við þessi mál. Að þessi fámenni hópur hafi getað stundað víðtækar símahleranir hjá fjölmennum hópi manna, eins og gefið hefur verið til kynna, er að sjálfsögðu fráleitt. Grein Þórs sannfærir mig um að, að tilmæli til dómara um heimild til símhlerana hafi verið varúðarráðstöfun, en með þeim fáu mönnum, sem til var að dreifa til að sinna þessu verkefni, hafi hleranir í raun verið takmarkaðar.

Af ályktunum, sem menn eru að draga um þessa starfsemi hér á landi, verður helst ráðið, að þeir séu einkum með í huga fréttir af stórfelldum eftirlitsaðgerðum í öðrum ríkjum – og að líkja starfi Árna Sigurjónssonar við það, sem tíðkaðist hjá Stasi, er að sjálfsögðu algjörlega fráleitt. Sýnir það enn einu sinni í hvaða villur menn geta ratað, þegar mál af þessum toga eru hér til umræðu.

Hér var vísir að öryggisþjónustu meðal annars til að sinna samstarfi við erlenda aðila, sem vildu fylgjast með gangi mála í samvinnu við íslensk stjórnvöld. Vitað var, að í sovéska sendiráðinu var stór hópur manna frá KGB og GRU, leyniþjónustu hersins, og var oft fjallað um slíka hluti í Morgunblaðinu við litla gleði Sovétvina og þeirra, sem gættu viðskiptahagsmuna Íslands gagnvart Sovétríkjunum, því að sovésk yfirvöld hótuðu oft að hætta þessum viðskiptum, ef ekki væri  þaggað niður í þeim blaðamönnum, sem sýndu þessari starfsemi sendiráðs þeirra áhuga – þekki ég það vel af eigin raun, því að ég var í hópi þessara blaðamanna.

 

Þegar ég fór, sem embættismaður í forsætisráðuneytinu, með Geir Hallgrímssyni, forsætisráðherra, til Rússlands árið 1977 í fyrstu opinberu heimsókn íslensks forsætisráðherra þangað, tók háttsettur embættismaður mig í einskonar einkatíma í kvöldverðarboði í Kreml til að fræða mig um, hve ég hefði miklar ranghugmyndir um Sovétríkin. Samtalið bar þess glögg merki, að embættismaðurinn var vel upplýstur um skoðanir mínar á öryggismálum og skrif. Embættismaðurinn benti mér meðal annars á gyllta umgjörð veislunnar og spurði mig, hvernig ég gæti talið, að þeim, sem viðhéldu slíkum menningarlegum glæsileika, væri ekki umhugað um íbúa lands síns og heimsfrið. Hvorki fyrr né síðar hef ég hitt gestgjafa af þessu tagi, sem beitti í senn blíðmælgi og hótunum til að sannfæra mig um, að ég væri á villigötum vegna skoðana minna. Sovétferðin staðfesti mér fordóma mína um stjórnarhætti kommúnista.

 

Þór Whitehead færir rök fyrir því, að með öryggisþjónustunni hafi lögregla verið að búa í haginn fyrir rétt viðbrögð, ef til valdbeitingar þyrfti að grípa. Sama meginsjónarmið á við enn þann dag í dag, rétt greining og mat á áhættu er besta leið lögreglu til að bregðast á réttan hátt við hættuástandi.

 

Af ritgerð Þórs má ráða, að leyniþjónustumenn hér á landi á tímum kalda stríðsins hafi ekki aðeins verið íslenskir og sovéskir heldur einnig frá bandamönnum okkar innan NATO, einkum Bandaríkjunum. Hið sama kann að gerast nú á tímum – haldi íslensk stjórnvöld ekki uppi óhjákvæmilegu eftirliti með þeim, sem kunna að vilja nota Ísland til að stofna öryggi almennra borgara hér og erlendis í hættu, munu önnur ríki leitast við að gera það leynt og ljóst. Að slíkt ástand sé hér á landi getur ekki verið neinum að skapi.

 

Kennslustundin í Kreml var hin eina, sem ég hlaut hjá talsmanni kommúnistastjórnir. Aðrir Íslendingar fóru á þessum árum hins vegar í sérstakar námsferðir til kommúnistalanda, einkum Austur-Þýskalands, til að kynnast hugmyndafræðinni og stjórnlistinni.

 

Þór Whitehead segir frá því, að Svavar Gestsson, síðar ráðherra og nú sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, hafi árið 1967 líklega verið síðasti námsmaðurinn, sem sendur var  á vegum Sósíalistaflokksins til Austur-Þýskalands, „en jafnframt var honum búinn þar æðri sess en öllum fyrirrennurum hans. Að sérstakri ósk Einars Olgeirssonar samþykkti sjálf miðstjórn kommúnistaflokksins að taka við „félaga Gestssyni“ til einstaklingsnáms í fræðum Marx og Leníns...“  Það olli austur-þýsku félögunum hins vegar vonbrigðum, hve illa Svavar var að sér í fræðunum og töldu þeir eftir hálft ár, að hann væri ekki búinn undir nám á æðsta skólastigi.

 

Staksteinar og umræðuvenjur.

 

Í Staksteinum Morgunblaðsins stóð þetta föstudaginn 22. september:

„Það má lesa margt út úr þeim aðsendu greinum, sem birtast hér í Morgunblaðinu dag hvern eftir fjölmarga höfunda. Langflestir þeirra skrifa á málefnalegan hátt og fjalla faglega um þau mál, sem skrifað er um.

Lítill minnihluti höfunda aðsendra greina notar þennan vettvang til persónulegra svívirðinga um nafngreinda einstaklinga.

Morgunblaðið teygir sig langt til þess að verja tjáningarfrelsi fólks og lengst þegar veitzt er að blaðinu sjálfu eða forráðamönnum þess.

Þeir sem byggja skrif sín á málefnalegri sannfæringu nota ekki stór orð og beita ekki persónulegum svívirðingum í garð annarra.

Þeir sem veitast að öðrum með persónulegu skítkasti og stóryrðum eru nánast undantekningarlaust að afhjúpa eigið sálarlíf með þeim hætti að það hlýtur að framkalla löngun hjá venjulegu fólki til þess að veita þeim hjálp.

Svo eru auðvitað til höfundar, sem eru svo forhertir, að þeir taka engum rökum, hirða ekkert um staðreyndir og þar af leiðandi engin ástæða til að rökræða við þá.

Í háskólum landsins er stór hópur ungs fólks, sem er að rannsaka allt milli himins og jarðar. Það væri verðugt rannsóknarefni fyrir þetta unga fólk að rannsaka umræðuvenjur Íslendinga og hverjir það eru, sem fyrir skítkastinu standa og úr hvaða átt það kemur. Ennfremur hverjir það eru, sem fást til þess að leggja nafn sitt við það.

Niðurstöðurnar yrðu afar athyglisverðar, ekki sízt þegar horft er til síðustu missera.“

Ég velti því fyrir mér, hvort skammargreinar Hreins Loftssonar, stjórnarformanns Baugs Group,  í Morgunblaðinu núna í vikunni hefðu verið tilefni þessarar hugleiðingar ritstjórans. Hreini þótti sér renna blóðið til skyldunnar, þegar ég gat þess í dagbókarfærslu hér á síðunni, að skuldir Dagsbrúnar væru 73 milljarðar og hærri en ríkisins. Taldi Hreinn mig fara með rangt mál en ég svaraði og sagði hreinar skuldir ríkisins vera 60 milljarða króna, þá svaraði Hreinn enn og nú á þann veg, að hreinar skuldir Dagsbrúnar væru 54 milljarðar króna – 73 milljarða skuldin væri ekki hrein skuld.

Kaupþing-Búnaðarbanki og  Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, keyptu fjölmiðlafyrirtækið Norðurljós af Jóni Ólafssyni, athafnamanni kenndum við Skífuna, í nóvember 2003.

Hinn 31. janúar 2004 birtist þetta í Morgunblaðinu:

„Norðurljós og Frétt, sem meðal annars gefur út Fréttablaðið og DV, hafa verið sameinuð og gengið hefur verið frá endurfjármögnun Norðurljósa. Eftir samruna Norðurljósa og Fréttar mun móðurfélagið Norðurljós eiga þrjú dótturfélög: Frétt, Íslenska útvarpsfélagið og Skífuna, en í gær var gengið frá kaupum Skífunnar á verslunarsviði Tæknivals.

Að sögn Skarphéðins Berg Steinarssonar, stjórnarformanns Norðurljósa og framkvæmdastjóra Baugs Group á Íslandi, er endurfjármögnun Norðurljósa lokið með samkomulagi við alla lánardrottna félagsins. Við það lækka langtímaskuldir félagsins úr 7,5 milljörðum króna í 5,7 milljarða króna. Skammtímaskuldir eru 2,7 milljarðar að meðtalinni næstaársafborgun langtímalána, sem einnig er inni í 5,7 milljarða króna tölunni hér að ofan. Skuldir Norðurljósa nema samanlagt 7,9 milljörðum króna“

Ég ætla ekki að rekja það, sem síðan hefur gerst í þessum fjölmiðlarekstri en eitt er víst, að skuldirnar hafa vaxið ört, eins og tölurnar bera með sér og nú virðist viðspyrna í rekstri hafa tekið við af útþenslu eins og lokun NFS  föstudaginn 22. september ber með sér. Sigurður G. Guðjónsson hrl. var forstjóri Norðurljósa og það varð fréttaefni, þegar hann birti ársskýrslu sína fyrir árið 2003 í mars 2004, eins og sjá má í pistli hér á síðunni frá 20. mars 2004.

Svo að ég snúi mér aftur að því, sem var Staksteinahöfundi efst í huga 22. september, er ekki líklegt, að það hafi verið skrif Hreins Loftssonar um hreinar skuldir Dagsbrúnar og ríkissjóðs, heldur forystugrein í systurblaði Morgunblaðsins, það er Blaðinu fimmtudaginn 21. september, þegar ritstjóri Blaðsins, Sigurjón M. Egilsson, vegur með þjósti að tveimur þingmönnum, sem hafa lýst yfir, að þeir sækist ekki eftir endurkjöri, þeim Sólveigu Pétursdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og forseta alþingis, og Jóhanni Ársælssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, auk þess sem spjótum er beint að Tómasi Inga Olrich vegna þingstarfa hans.

Ég hef setið í um nokkurt árabil á þingi með þessu fólki og finnst þau alls ekki njóta sannmælis í þessari forystugrein.

Sólveig Pétursdóttir var afkastamikill formaður allsherjarnefndar alþingis á þeim tíma, þegar unnið var að setningu mikilla lagabálka og leiddi þá af röggsemi í gegnum þingið. Hún hafði því góða þekkingu á þessum málaflokkum, þegar hún varð síðan dóms- og kirkjumálaráðherra. Hún hefur reynst farsæl sem forseti alþingis.

Jóhann Ársælsson er í hópi þeirra þingmanna stjórnarandstöðunnar, sem lýsir eigin afstöðu til mála á þann veg, að augljóst er, að hann hefur unnið heimavinnuna og sett sig inn í þau mál, sem hann helgar sér. Hann hafði til dæmis stefnumótandi áhrif innan flokks síns varðandi fiskveiðistjórnun.

Þegar Tómas Ingi Olrich sat á þingi, var vinnusemi hans viðbrugðið og hann tók að sér að fyrir þingflokk sinn að fylgja fram flóknum og vandasömum málum og má þar til dæmis nefna gagnagrunninn fræga á heilbrigðissviði, einnig lét hann orkumál verulega til sín taka bæði á alþingi og einnig á þingi Evrópuráðsins, þar sem hann naut trausts og virðingar. Í mars 2002 naut Tómas Ingi þess trausts að verða skipaður menntamálaráðherra.

Vonandi las ritstjóri Blaðsins Staksteina hins Árvakurblaðsins, föstudaginn 22. september.