17.9.2006

Kosningaskjálfti í flokkum - stjórnarskipti í Svíþjóð.

 

Af umræðum um stjórnmálastarfið í aðdraganda þess, að alþingi kemur saman, er ljóst, að innan allra flokka eru menn teknir til við að undirbúa framboð. Segja má, að tekið sé að gæta kosningaskjálfta á flokksvísu í aðdraganda þingkosninganna 12. maí 2007.

 

Þrír forystumenn í þingliði Samfylkingarinnar Rannveig Guðmundsdóttir í suðvesturkjördæmi, Jóhann Ársælsson í norðvesturkjördæmi og Margrét Frímannsdóttir í suðurkjördæmi hafa lýst yfir ákvörðun sinni um að gefa ekki kost á sér vegna þingkosninganna. Þau hafa öll verið einarðir málsvarar fyrir flokk sinn hver á sínu sviði. Rannveig var félagsmálaráðherra um skeið og hefur látið sig þau mál miklu skipta. Jóhann hefur einkum sinnt sjávarútvegsmálum og meira að segja hannað fiskveiðastjórnunarkerfi, en ég viðurkenni fúslega, að ég áttaði mig aldrei fyllilega á því um hvað það snerist. Margrét Frímannsdóttir gegndi mikilvægu hlutverki, þegar Samfylkingin fæddist, gott ef hún hefur ekki verið kölluð ljósmóðir flokksins. Ég hef einkum átt orðastað við Margréti um fangelsismál á þingi, en hún hefur löngum sýnt þeim mikinn áhuga.

 

Ég er ekki nógu kunnugur innan Samfylkingarinnar til að átta mig á því, hvernig landið liggur í einstökum kjördæmum, þegar litið er til eftirmanna þessa ágæta fólks. Það hefur hins vegar vakið athygli, að í norðausturkjördæmi, þar sem ekki er um neina breytingu hjá þingmönnum Samfylkingarinnar að ræða, eru háværar raddir um nauðsyn þess að ýta þeim til hliðar í prófkjöri og þar gengur Benedikt Sigurðarson á Akureyri fram fyrir skjöldu.

 

Stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, ákvað á fundi sínum 12. september, að leggja til við fulltrúaráðsfund, sem haldinn verður 19. september, að prófkjör verði hér í Reykjavík 27. og 28. október. Ég tel víst, að þessi tillaga verði samþykkt, en eins og áður hefur komið fram hér á síðunni, sækist ég eftir 2. sæti á listanum – en ég var í hinu þriðja síðast á eftir þeim Davíð Oddssyni og Geir H. Haarde. Þá voru fleiri, sem sóttust eftir þessu sama sæti. Raunar var svo einnig, þegar ég bauð mig fram í þriðja sætið fyrir þingkosningarnar 1995 en strax í fyrsta prófkjöri mínu 1991 bauð ég mig fram í þriðja sætið og hlaut það.

 

Af minni hálfu hefur jafnan verið lögð á það áhersla í prófkjöri, að ég sé ekki að berjast á móti neinum samherja minna heldur fyrir málstað Sjálfstæðisflokksins, veg hans og virðingu. Ég ætla ekki að hverfa frá þeirri meginskoðun minni, þegar ég býð mig fram til míns síðasta kjörtímabils. Þess vegna kom það mér í opna skjöldu, þegar ég heyrði sagt frá því í sjónvarpsfréttum ríkisins (hjá Finni Beck) að kvöldi 17. september, að nú stæðu fyrir dyrum einhver átök á milli mín og Geirs H. Haarde, flokksformanns og forsætisráðherra, fyrir tilstuðlan Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, alþingismanns, sem hefði ákveðið að keppa við mig um annað sætið á listanum. Fréttastofu sjónvarpsins finnst kannski dauft yfir stjórnmálunum og vill þess vegna stofna til slagsmála innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík – eitt er víst, að samstarf okkar Geirs er með ágætum. Átök á þeim forsendum, sem sjónvarpið boðaði, eru fráleit frá sjónarhóli allra þeirra, sem gera sér grein fyrir því, að samstaða innan flokks er besta leið hans til sigurs. Í þeim anda hef ég unnið bæði á alþingi og í borgarstjórn.

 

Stjórnarskipti í Svíþjóð.

 

Þegar ég sit og skrifa þetta að kvöldi sunnudags 17. september birtist þessi frétt á mbl.is:

 

„Fredrik Reinfeldt, leiðtogi Hægriflokksins í Svíþjóð, lýsti í kvöld yfir sigri í þingkosningunum, sem fóru fram í dag, og sagði að bandalag fjögurra stjórnarandstöðuflokkanna myndi stýra landinu næstu fjögur árin. Hægriflokkurinn er helsti sigurvegari kosninganna, fékk 25,9% atkvæða og bætti við sig 10,4% miðað við kosningarnar árið 2002. Göran Persson, forsætisráðherra og leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, játaði einnig ósigur ríkisstjórnarinnar.“

Mikið atvinnuleysi er talin helsta ástæðan fyrir ósigri sænskra jafnaðarmanna. Ekki hafi síðan bætt úr skák, að Göran Persson hafi neitað að horfast í augu við atvinnuleysið og leitast við að gera sem minnst úr því. 

 

Allt frá því að ég varð ráðherra hafa jafnaðarmenn farið með stjórn í Svíþjóð og hef ég kynnst nokkrum forystumönnum þeirra. Mér hefur til dæmis komið á óvart, hve mikil óeining er innan jafnaðarmannaflokksins um aðildina að Evrópusambandinu (ESB) og einn ráðherra sagði mér, að hann væri í ríkisstjórninni vegna andstöðu sinnar við ESB, það er til þess að hafa þann væng flokksins góðan.

 

Í sænska sjónvarpinu í kvöld sat Carl Bildt, fyrrverandi formaður hægriflokksins og forsætisráðherra, meðal annarra á rökstólum. Hann var spurður, hvað hann mundi gera, ef honum yrði boðið embætti utanríkisráðherra. Hann svaraði út í hött – en einn af fréttaskýrendum sjónvarpsins sagði, að Reinfeldt myndi ekki bjóða Bildt embættið af ótta við, að hann myndi skyggja á sig, auk þess sem hugur Bildts stæði til þess að verða fyrsti hægrisinnaði, sænski kommissarinn í framkvæmdastjórn ESB í Brussel.

 

Reinfeldt hefur sagt, að stjórn undir forystu sinni mundi leggja sig meira fram um það en jafnaðarmenn að efla starf Svía innan ESB. Svíar felldu á sínum tíma að taka upp evruna og var það Persson nokkuð áfall og dró úr trú á málstað hans, því að hann hafði spáð mun verri efnahag Svía, ef þeir segðu ekki já.

 

Þegar ég ræddi við háttsettan sænskan embættismann um væntanlegar kosningar síðastliðið vor, taldi hann ekki ástæðu fyrir jafnaðarmenn að óttast, þótt skoðanakannanir sýndu þá meirihluta borgaraflokkanna. Efnahagurinn væri svo góður með hagvexti, að fólk myndi kjósa jafnaðarmenn áfram – þessi spá, sem var í samræmi við málflutning jafnaðarmanna fyrir kosningar, rættist sem sagt ekki.

 

Göran Persson hefur verið forsætisráðherra í 10 ár og sett sterkan svip sinn á ríkisstjórnina og stjórnmálalífið allt. Hann hefur nú tilkynnt, að hann muni segja af sér á aukaflokksþingi í mars 2007. Stjórnsemi hans er viðbrugðið og engum mun hafa liðið vel, eftir að hafa verið kallaður á teppið til hans.

 

Fall ríkisstjórnar Perssons er nokkurt áfall fyrir jafnaðarmenn á Norðurlöndunum, sem löngum hafa getað hrósað sigri í sænskum kosningum og gjarnan litið þangað eftir fyrirmyndum í baráttu sinni heima fyrir.