9.9.2006

Borgarmál, Strætó og Björk.

Nú sit ég ekki lengur fundi borgarstjórnar Reykjavíkur og get því ekki flutt lesendum síðu mínar fréttir af þeim og því miður er enginn fjölmiðill svo þjónustulipur við Reykvíkinga, að hann flytji okkur fréttir af fundum borgarstjórnar, sem gefa skýra mynd af umræðum þar. (Hið sama á raunar við um fundi alþingis. Þingumræðurnar er hins vegar auðvelt að nálgast á netinu og þar er alþingi með góða leitarvél. Reykjavíkurborg stendur hvorki alþingi né stjórnarráðinu snúning í þessu efni.)

 

Frásagnir fjölmiðla af borgarmálum byggjast annars vegar á því, sem kemur frá yfirvöldum borgarinnar og snýr að ákvörðunum borgarstjóra eða annarra stjórnenda, og hins vegar á því sem minnihlutinn í borgarstjórn ákveður að skuli verða ágreiningsefni eða einstakir hagsmunahópar taka upp á sína arma. Það verður að segja þá sögu eins og hún er, að almennar féttir af því, sem er að gerast í Reykjavík eru af skornum skammti. Fari maður út á landsbyggðina og nái í litlu blöðin, sem þar er dreift ókeypis, er maður miklu fljótari að átta sig á því, hvað er að gerast þar, en ætli maður að fylgjast með því, sem er að gerast í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu í blöðum, sem þar eiga heimili.

 

Ég veit ekki, hvernig blöð í einstökum hverfum borgarinnar, þjóna lesendum sínum, þar sem ekkert slíkt blað er gefið út fyrir Hlíðarnar, þar sem ég bý og hef búið eins lengi og ég man.

 

Af setu minni í borgarstjórn og síðan mati á því, hvernig sagt var frá fundum þar, veit ég, að í fjölmiðlum er aðeins að finna toppinn á ísjakanum. Raunar segir það dapurlega sögu um þróun fjölmiðlunar, að ekki skuli neinn sérhæfa sig í borgarfréttum, það er í því, sem er að gerast í höfuðborginni, einstökum hverfum hennar og almennt á vettvangi borgaryfirvalda.

 

Á dögunum var ég að aka á milli staða og þá var verið að ræða við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fyrrverandi borgarstjóra, núverandi borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, verðandi frambjóðanda til alþingis fyrir Samfylkinguna. Hún var að velta fyrir sér úrslitum síðustu borgarstjórnarkosninganna og taldi, að framsóknarmenn hefðu komið aftan að öðrum framboðum með áherslu sinni á nýjan flugvöll á Lönguskerjum og um framtíð Vatnsmýrarinnar. Það hefði verið furðulegt að hamra svona mikið á þessu máli, því að ekkert ætti eftir að gerast í málefnum flugvallarins og Vatnsmýrarinnar næstu 20 til 30 ár.

 

Ég tel mig hafa heyrt þetta rétt, að minnsta kosti varð ég svo undrandi að heyra Steinunni Valdísi ræða um Vatnsmýrina á þennan veg, að ég lagði vel við hlustir. Hvers vegna? Jú, vegna þess að í kosningabaráttunni 2002 sagði ég einmitt þetta við frambjóðendur R-listans, Steinunni Valdísi og fleiri, að ég skildi ekki, hvers vegna þeir væru að leggja svona mikla áherslu á Vatnsmýrina og framtíð hennar, hún væri ákveðin til margra ára ef ekki áratuga með samningi ríkis og borgar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þá var ég sakaður um að hafa enga stefnu varðandi Vatnsmýrina! Það yrði að leysa hana úr læðingi flugvallarins á komandi kjörtímabili, það er 2002 til 2006 – og fjölmiðlaumræður hnigu til þessarar vitlausu áttar.

 

Á kjörtímabilinu 2002 til 2006 gerðist það eitt í málefnum Vatnsmýrarinnar, að Dagur B. Eggertsson, núverandi samfylkingarmaður, ætlaði að efna til alþjóðlegrar samkeppni, sem hann undirbjó svo illa, að hún rann út í sandinn. Þá var Háskólanum í Reykjavík lofað hornlóð í afkima á sérstæðu náttúrsvæði milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar. Ég andmælti þeirri ráðstöfun og um 70% þeirra, sem svöruðu í könnun um málið. Mér skilst nú, að sjálfstæðismenn telji sig bundna af þessu lóðarloforði R-listans og þeim hafi verið sagt, að gildi umhverfisins hafi verið metið svo rækilega, að jafnist á við umhverfismat. Einhvers staðar heyrði ég rektor HR tala á þann veg, að framkvæmdir væru á undirbúningsstigi.

 

Ég man ekki eftir því, að birtar hafi verið niðurstöður í samkeppni, sem HR ætlaði að hafa um byggingar og bílastæði á þessum viðkvæma stað. Sé ætlunin að reyna að ná friði um þessar framkvæmdir,er rétt að hefja kynningu á því, hvar málið er á vegi statt og gefa sér góðan tíma til hennar. Eitt af einkennum R-listans var klúður í skipulagsmálum og léleg upplýsingamiðlun (kannski vegna áhugaleysis fjölmiðla?) þar til allt var komið í eindaga, sbr. áformin um niðurrif Austurbæjarbíós, framtíð Alliance-húsanna við Ánanaust o. fl., o. fl. Hluti af vanda borgaryfirvalda við að þoka skiulagsmálum áfram felst í einkennilegum vinnubrögðum, sem hafa tíðkast á undirbúningsstigi, lélegri stjórnsýslu og þar með mistökum við kynningu og miðlun upplýsinga. Vonandi tekst nýjum meirihluta að þoka þessum málum til réttrar áttar.

 

Á stjórnmálaferli mínum hefði ég til dæmis ekki hafa viljað standa að neinu máli á sama hátt og gert var sumarið 2002, þegar tilkynnt var, að gera skyldi bílastæði undir Tjörninni og svo mikið lá á að halda blaðamannafund um málið, að ekki mátti fresta því á milli funda í borgarráði. Raunar hef ég aldrei skilið, hvers vegna Ingibjörgu Sólrúnu lá svona mikið á að halda þennan blaðamannafund og kynna þessi áform, sem síðan hafa reynst orðin tóm.

 

Afstaða R-listafólks til frétta af störfum sínum kom vel fram í orðum Bjarkar Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, en hún var formaður stjórnar Strætó í tíð R-listans. Björk sagði á Rás 2 7. september, þegar upplýst var, að ekki hefði verið sagt rétt frá vanda Strætó bs. fyrir kosningar: „[Ég vil] ekki eyðileggja jákvæða umfjöllun með neikvæðri umræðu um fjárhagsstöðu fyrirtækisins.“

 

Í fyrsta lagi sýnir setningin, að Björk vissi betur fyrir kosningar en hún vildi vera láta, þegar rætt var um þröngan fjárhag Strætó bs. Í öðru lagi var Björk svo viss um, að hún væri að gera rétt með því að rústa leiðakerfi Strætó bs., að hún heyrði ekki nema jákvæða umræðu um málið, þótt allir kvörtuðu hástöfum.

 

R-listafólkið leitaðist lengi við að leyna raunverulegri stöðu hjá Strætó bs. Ég man eftir því í einhverjum sjónvarpsumræðum okkar Ingibjargar Sólrúnar fyrir kosningarnar 2002 lýsti ég þeirri skoðun, að taka þyrfti málefni Strætó bs. nýjum og betri tökum. Ég vissi ekki, hvert Ingibjörg Sólrún ætlaði að komast, þetta sýndi best fávisku mína, Strætó væri sko á beinu brautinni. Við lok kjörtímabilsins var síðan svo komið, að formaður stjórnar Strætó bs. taldi best að þegja yfir vanda fyrirtækisins. Hann var orðinn svo mikill, að hún treysti sér ekki til að ræða hann.

 

Það var ekki nóg með, að Strætó væri settur í þann bómull, sem Björk lýsir, til að treysta ímynd fyrirtækisins, heldur var einnig markvisst unnið að því að fjölga viðskiptavinum hans með baráttu gegn einkabílnum. Einhverju sinni mátti ráða það af orðum Bjarkar í borgarstjórn, að hún vonaði, að bensínverð hækkaði enn meira, því að þá ykjust líkur á því, að fólk notaði strætó. Í sömu andrá lýsti hún þeirri einlægu von sinni, að unnt yrði að efla Strætó svo mikið, að hann kæmi í veg fyrir, að fólk keypti þriðja einkabílinn!

 

Önnur hlið á þessu Strætó-máli snýr að skyldu til upplýsingamiðlunar um stöðu fyrirtækja í opinberri eigu. Engir hafa talað meira og hærra um það en einmitt gamlir flokksbræður Bjarkar í vinstri/grænum. Þeir telja, að stjórnendur slíkra fyrirtækja eigi að leggja spilin á borðið og upplýsa eigendur sína um alla þætti rekstursins. Umræður af þessu tagi hafa greinilega alveg farið fram hjá Björk Vilhelmsdóttur.

 

Eitt er að afsaka sig með því að hafa ekki vitað betur, annað að afsaka sig á þann veg, að vilja ekki segja sannleikann, af því að hann er svo óþægilegur.

 

Umræður um athugasemdir Gríms Björnssonar vegna Kárahnjúkavirkjunar þögnuði jafnsnögglega og þær hófust. Hvers vegna? Var það vegna þess að Davíð Oddsson lýsti því vel í útvarpsviðtali, hvað þær væru innantómar? Eða var það vegna þess að í nóvember 2002 fékk Helgi Hjörvar, fulltrúi R-listans í stjórn Landsvirkjunar, vitneskju um athugasemdirnar og í janúar 2003 greiddi Ingibjörg Sólrún atkvæði með því í borgarstjórn, að lánsábyrgð yrði veitt til Landsvirkjunar til að hún gæti ráðist í Kárahnjúkavirkjun?

 

Ef Samfylkingin ætlaði að nota athugasemdir Gríms og viðbrögð við þeim, sem átyllu til að snúast gegn Kárahjúkavirkjun á lokastigi framkvæmda við hana, urðu þau áform að engu, þegar rýnt var í málið og hugað að því, hve faglega var brugðist við athugasemdum Gríms og hverjir höfðu aðgang að þeim. Í raun er fráleitt, að nokkur leynd hafi hvílt yfir þessum athugasemdum meðal þeirra, sem tóku beinar ákvarðanir í þágu þess, að Landsvirkjun gæti ráðist í stórvirkið.