3.9.2006

Fjórir leiðarar - uppreist æru - leyniþjónusta.

Að þessu sinni ætla ég að birta hér fjórar nýlegar forystugreinar úr jafnmörgum blöðum: Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, Blaðinu og DV um mál, sem hafa verið á borði mínu og segja nokkur orð um efni þeirra.

Uppreist á æru.

 

Að morgni miðvikudagsins 30. ágúst birtist frétt um það á forsíðu Fréttablaðsins, að handhafa forsetavalds (Geir H. Haarde, Sólveig Pétursdóttir og Gunnlaugur Claessen) hefðu í fjarveru forseta Íslands fallist á tillögu mína um uppreist æru fyrir Árna Johnsen, fyrrverandi alþingismann. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið gaf af þessu tilefni út fréttatilkynningu, þar sem skýrt var frá því, að réttur Árna Johnsens til að fá uppreist æru væri ótvíræður að lögum. Að stjórnlögum er forseta Íslands skylt að hlíta tillögu ráðherra um þetta efni.

 

NFS sjónvarpsstöðin leitaði þennan sama dag, 30. ágúst, álits Ágústs Þórs Árnasonar við lagadeild Háskólans á Akureyri á þessu máli og varð þetta álit Ágústs Þórs tilefni þess, að Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, skrifaði eftirfarandi leiðara í blað sitt hinn 1. september:

 

„Sérfræðiálit í fjölmiðlum:

Það er stórt orð háskóli

Í ört vaxandi þekkingarsamfélagi leita fjölmiðlar í ríkum mæli til sérfræðinga til þess að segja álit á einstökum viðburðum. Þetta er gert í þeim tilgangi að gefa lesendum blaða eða áheyrendum ljósvakamiðla sem gleggsta mynd af því sem til umfjöllunar er hverju sinni.

Mikilvægt er að fjölmiðlar og notendur þeirra geti treyst því að slík álit séu gefin á grundvelli raunverulegrar sérþekkingar og af sjónarhóli alhliða yfirsýnar.

Fréttir voru sagðar af því um miðja þessa viku að fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefði hlotið uppreist æru. Um það efni gilda ákvæði almennra hegningarlaga og venjur um túlkun sem byggðar eru á viðurkenndum lögskýringargögnum.

Af þessu tilefni kynnti ljósvakamiðill til sögunnar sérfræðing Háskólans á Akureyri í stjórnskipun. Í viðtalinu gerði sérfræðingurinn þrjár efnislegar athugasemdir við afgreiðslu málsins:


Í fyrsta lagi taldi hann að ákvörðunin væri klaufaleg. Í öðru lagi áleit sérfræðingurinn vafamál að hún væri til bóta fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Í þriðja lagi lýsti sérfræðingurinn þeirri skoðun sinni að heppilegt hefði verið í ljósi fyrri atburða eða sniðugt fyrir handhafa forsetavalds að láta undirskrift málsskjala bíða heimkomu forseta Íslands.

Það þarf ekki sérfræðing í stjórnskipunarrétti til þess að átta sig á því að klaufaskapur við afgreiðslu þessa máls getur aðeins snúist um það hvort ráðherra fór að réttum lögum eða ekki. Sérfræðingurinn gat enga veilu fundið þar á. Athugasemdin féll þar með dauð og ómerk.

Önnur athugasemd sérfræðingsins laut að því að ákvörðun ráðherrans hefði ekki verið til bóta fyrir flokk hans. Sérhverjum leikmanni er þó ljóst að ráðherrann hefði beinlínis gerst brotlegur við lög ef hann hefði við afgreiðslu slíks erindis látið hagsmuni flokks síns ráða ákvörðun þar um eða tímasetningu hennar.

Varðandi þriðju athugasemd sérfræðingsins er flestum ljós sú stjórnskipunarregla að ráðherra ber ábyrgð á embættis­athöfnum forseta Íslands. Handhafar forsetavalds áttu því ekki neitt sjálfstætt val um að ákveða tímasetningu undirskriftar. Pólitískur leikaraskapur af þeirra hálfu hefði beinlínis verið brot á stjórnarskrá og enn fremur strítt gegn rétti umsækjanda til eðlilegrar málsmeðferðar.

Þegar sérfræðingurinn vísar til fyrri atburða í áliti sínu er rétt að hafa í huga að einu atburðirnir sem ráðherra er heimilt að taka mið af við afgreiðslu slíks máls eru fordæmi um afgreiðslu sams konar erinda. Ef ráðherrann hefði notað aðra atburði sem fordæmi hefði hann brotið lög og brotið á rétti umsækjandans.

Eina gilda álitaefnið við meðferð þessa máls er spurning um það hvort ráðherra hefði átt að víkja sæti. Samkvæmt vanhæfis­reglum stjórnsýsluréttarins sýnist þó ekki hafa verið lagaleg þörf á því. Þessa spurningu nefndi sérfræðingurinn þó ekki einu orði. Í þessu sambandi er einnig rétt að hafa í huga að sérfræðingurinn lét ekki í ljós skoðun á því gilda pólitíska álitaefni hvort skynsamlegt hefði verið af þingmanninum fyrrverandi að sækja um uppreist æru.

Það er stórt orð háskóli. Til slíkra stofnana má gera lágmarkskröfur.“

Ég þarf varla að taka fram, að ég sammála niðurstöðu Þorsteins Pálssonar um þetta mál. Ég hef hér á síðunni oftar en einu sinni vakið máls á því, hve mönnum, kallað er til af fjölmiðlum sem fræðimanna í nafni háskóla, er hætt við að hrapa að niðurstöðu og gæta þess ekki að hafa efnisleg rök að leiðarljósi – láta frekar eigin persónulega afstöðu ráða, hvort sem hún stenst nánari skoðun eða byggist á fræðilegum grunni.

Ágúst Þór Árnason birtir svar sitt við leiðara Þorsteins í Fréttablaðinu 3. september. Þar segir meðal annars: „Í viðtalinu [við NFS] sagðist ég telja afrgreiðslu málsins formlega óaðfinnanlega en klaufalega í ljósi uppákomunnar í tengslum við 100 ára afmæli heimastjórnarinnar. Ritstjórinn snýr út úr orðum mínum að því er virðist í þeim tilgangi að vara við því að fjallað sé um umrætt mál með öðrum hætti en honum er þóknanlegt. Ábúðarfull orð hans um að gera lágmarkskröfur til sérþekkingar háskólafólks sem tjáir sig opinberlega um málefni líðandi stundar eru í litlu samræmi við þær athugasemdir sem hann gerir við ummæli mín.....Þorsteini Pálssyni sést hér yfir að í stjórnskipun vegast á lagaleg, samfélagsleg/lýðræðisleg og stjórnmálaleg álitaefni í ríkari mæli en í annarri löggjöf.“

Hvað gerðist á 100 ára afmæli heimastjórnarinnar? Jú, forseti Íslands var í skíðaferð, þegar efnt var til ríkisráðsfundar undir forsæti forseta alþingis til að ganga frá breytingum á reglugerð um stjórnarráð Íslands, sem forseti undirritar. Telur Ágúst Þór Árnason, að draga eigi þá ályktun af fjarveru forseta Íslands í byrjun ferbrúar 2004, að ráðherrar geti ekki gert tillögur til hans, á meðan hann dvelst erlendis og handhafar fara með forsetavaldið? Að til hafi orðið einhver ný stjórnskipuleg regla? Eða var Ágúst Þór Árnason aðeins að lýsa persónulegri skoðun sinni, sem byggist á afstöðu hans til Sjálfstæðisflokksins og okkar forystumanna hans, en ekki á þeim lögmæta gjörningi, að bregðast við erindi Árna Johnsens á sama hátt og erindum annarra, sem óska eftir uppreist æru?

Leyniþjónusta.

 

Ég hef orðið var við, að notkun mín á orðinu leyniþjónusta í ræðu hjá Rotary klúbbi Austurbæjar hinn 24. ágúst hefur farið fyrir brjóstið á einhverjum, sem eru mér sammála, en telja, að þetta orð eitt hræði. Ég ákvað að tala um leyniþjónustu að þessu sinni í staðinn fyrir til dæmis þjóðaröryggisdeild, þar sem ég var gagnrýndur fyrir það um mánaðamótin júní/júlí sl., að ekki væri nægilega skýrt hvað fælist í orðinu þjóðaröryggisdeild, þegar ég kynnti skýrslu sérfræðinga Evrópusambandsins í hryðjuverkavörnum.

 

Þegar við ræðum þessi mál er nauðsynlegt að koma sér niður á eitt orð og ég er að leita að því orði, með því að nota ekki alltaf hið sama. Leyniþjónusta er þýðing á secret service en í kringum þá starfsemi hafa þjóðir skapað stofnanir með ólíkum nöfnum og víða er starfseminni skipt milli fleiri en einnar stofnunar, eftir því hvort þær sinna störfum innan landamæra ríkja eða utan þeirra, þannig sinnir MI5 í Bretlandi öryggisgæslu innan Bretlands en MI6 er njósnastofnun með verkefni utan landamæra Bretlands.

 

Í Þýskalandi sinnir Bundesnachrichtendienst (BND) störfum utan lands en Bundesamt für Verfassungsschutz (BfV) gætir öryggis innanlands – en heitið vísar til varnar á stjórnskipan ríkisins.

 

Í Sviss sinnir Strategischer Nachrichtendienst störfum utan lands en Dienst für Analyse und Prävention innan lands. Mér finnst þetta heiti á svissnesku innanlandsstofnuninni lýsa því best, sem um er að ræða: Greininga- og öryggisþjónusta. Kannski ættum við að velja þessari starfsemi hér slíkt heiti?

 

Danir kalla sína stofnun Politiets Efterretningstjeneste (PET). Á fjórða áratugnum, þegar þeir Hermann Jónasson, forsætis- og dómsmálaráðherra, og Agnar Kofoed-Hansen lögreglustjóri lögðu á ráðin um innra öryggi ríkisins töluðu þeir um „eftirgrennslanakerfi“ og vísuðu þar til danska kerfisins. Finnar tala um Suojelupoliisi (SUPO), verndarlögregla. Hjá Norðmönnum starfar Politiets Sikkerhetstjeneste (PST) – öryggisþjónusta lögreglunnar. Svíar reka Säkerhetspolisen, öryggislögregluna.

 

Ég hallast að því að orðið þjóðaröryggisdeild sé of hátimbrað fyrir þá starfsemi, sem hér er um að ræða. Við ættum að íhuga að koma á fót þjóðaröryggisstofnun til að ná utan um alla þætti öryggismála okkar. Þegar litið er til þess starfs, sem þær stofnanir sinnar, sem ég hef nefnt hér að ofan er því best lýst með orðunum greiningar- og öryggisþjónusta.

 

Morgunblaðið nálgaðist þetta mál á þennan veg í leiðara sínum fimmtudaginn 31. ágúst:

 

Markmið eða merkimiðar.

 

Iðulega vakna spurningar um það í pólitískri umræðu á Íslandi hvort skipti meira máli, merkimiðinn eða innihaldið.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði í erindi, sem hann flutti á fundi Rótarýklúbbs Austurbæjar fyrir viku, að ræða þyrfti hvort hér væri nauðsynlegt að stofna leyniþjónustu og hvernig það yrði gert ef um það næðist pólitísk samstaða.

Í hugum margra er orðið leyniþjónusta bannorð. Merkimiðinn virðist gera innihaldið ótækt. Þó er það svo að innihaldið og markmiðið er í þessu tilfelli að miklu leyti óskilgreint.

Engum dylst að hér á landi þarf ákveðið eftirlit að fara fram. Ísland stendur ekki fyrir utan umheiminn. Ísland er ekki ónæmt fyrir umheiminum. Eiturlyf flæða inn í landið. Skipulögð glæpastarfsemi getur hæglega teygt anga sína til Íslands ef hún hefur ekki gert það nú þegar. Vitaskuld vona allir að hér verði aldrei framin hryðjuverk, en ekki er þar með sagt að skynsamlegt sé að útiloka að það geti gerst.

Það hlýtur að vera eðlilegt að nú verði rætt af alvöru um það hvernig brugðist verði við og með ákvörðun Bandaríkjamanna um að kveðja varnarliðið á Keflavíkurflugvelli heim hefur verið hnykkt á þeirri nauðsyn.

Sú umræða á ekki að snúast um merkimiða, heldur markmið og leiðir. Hvert á hlutverk slíks eftirlits að vera? Hvaða upplýsingum ber að safna saman? Hvernig ber að tryggja að upplýsingunum verði ekki bara safnað saman, heldur að þær nýtist til forvarna?

Ekki þarf síður að huga að því hvernig beri að takmarka eftirlit. Stjórnvöld allt í kringum okkur hafa verið gagnrýnd fyrir að ganga það langt í að koma á fót eftirlitssamfélagi að vegið hefur verið að hornsteinum réttarríkisins. Það þarf að skilgreina með hvaða hætti eftirlit á að fara fram, hvaða leyfi þarf til að mega til dæmis hlera síma og hverjir eigi að hafa aðgang að upplýsingunum. Hver á að fylgjast með þeim sem fylgist með? Í nágrannalöndunum eru það ýmist þjóðþing eða dómstólar, sem fylgjast með leyniþjónustu og öryggislögreglu, nema hvort tveggja sé. Hvaða leið viljum við fara?

Björn Bjarnason var spurður um notkun orðsins leyniþjónusta og í Morgunblaðinu á mánudaginn svaraði hann því til að hann hefði þar átt við þjóðaröryggisdeild, sem fjallað er um í skýrslu um hryðjuverkavarnir á Íslandi og kynnt var í sumar.

Ef vandað verður til þess að undirbúa stofnun slíkrar deildar og sérstaklega verður tekið fyrir að mannréttindi og ákvæði um persónufrelsi verði virt, gildir einu hvort notaður verður merkimiðinn leyniþjónusta eða þjóðaröryggisdeild. Aðalatriðið verður aldrei merkimiðinn, heldur markmiðið og innihaldið.“

Morgunblaðið ræðir þarna með málefnalegum rökum um þau álitaefni, sem þarf að hafa í huga, ef menn vilja skoða efni þessa máls af alvöru og átta sig á öllum hliðum þess. Það kveður hins vegar við annan tón í leiðara Blaðsins, sem Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri þess, ritar fimmtudaginn 31. ágúst. Hann segir:

Hreint borð.

Aðgerðaleysi er duglegu fólki hættulegt. Eins ef það finnur sér ekki verkefni þó nóg sé að gera. Þannig virðist komið fyrir Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra. Hann lætur einsog hann hafi ekkert þarft að gera og talar fyrir her og leyniþjónustu.

Ekki er það svo að af því sem heyrir undir Björn sé allt með þeim ágætum að ráðherrann hafi tíma til dekurverkefna. Flokkur Björns hefur fært honum völd sem eru vandmeðfarin.  Meðal þess sem honum er ætlað er ábyrgð á lögreglu og fangelsum. Þar virðist margt í kalda koli. Olíusvikamálið hreyfist með hraða snigilsins, annað hvort vantar getu eða áhuga til að koma málinu á þann hraða sem þarf. Ekki vantar peninga til rannsókna, það hefur sannast í öðrum málum. Sama er að segja um nánast allt sem snýr að fangelsum, þar er vægast sagt allt í kalda koli. Þau eru of fá, of þröng, of gömul og fangarnir hafa aðgang að fíkniefnum einsog hvern listir. Í stað þess að taka á því sem brýnast er virðist ráðherrann sitja og móta í huga sér framtíðarhugmyndir af leyniþjónustu og herjum.

Eflaust hefur ráðherrann þungar áhyggjur af Baugsmálinu. Hið opinbera hefur sennilega eytt meiri peningum í það mál en nokkurt annað meint sakamál. Hið opinbera hefur reynt aftur og aftur og engar sakir fengið viðurkenndar, allavega ekki enn. Í stað eirðarleysis og aðgerðaleysis getur Björn látið til sín taka þar sem þörf er á að hann leggi málum lið.

Fangelsismálastjóri hefur fengið nóg og hótar að hætta störfum sökum þess hve illa er staðið að málum. Hann segist hreinlega ekki geta verið ábyrgur fyrir því sleifarlagi sem er á öllu í þeim málaflokki, hefur fengið nóg. Þarna eru ærin verkefni fyrir Björn.

Það þarf að styrkja rannsóknina á olíusvikamálinu. Þó ekki væri nema vegna sakborninganna. Þeir eru menn og eiga líka rétt. Það er ekki hægt að gera nokkrum manni það að ganga ár eftir ár meðal fólks og vera sífellt dæmdur af samfélaginu. Til að dæma þá sem breyta rangt eru dómstólar og til að þeir geti dæmt þarf að rannsaka mál, ákæra og dæma. Sakborningar eiga rétt á því að reglur samfélagsins séu virtar og að dómar verði felldir yfir þeim sem hafa brotið af sér. Svo eiga þeir sem eru ítrekað sýknaðir af ákærum hins opinbera líka rétt. Kannski felst sá réttur í því að ráðherrann axli ábyrgð og sjái til þess að valdsmenn sem undir hann heyra virði fólk og fari vel með vald sitt. Allt eru þetta brýn verkefni sem dómsmálaráðherra þarf að taka á og koma áfram.

Það er nóg að gera fyrir dómsmálaráðherra og kannski fer best á því að hugmyndir um leyniþjónustu og her bíði þar til ekkert annað er á borði ráðherra.“

Segja má, að hér sé allt sett í einn pott og síðan byrjað að hræra. Að halda að ég sé að fjalla um þessi mál á kostnað annarra eða af því, að ég hafi ella ekki nóg fyrir stafni, er í besta falli mikil einföldun á þeim skyldum, sem á dómsmálaráðherra hvíla. Þá er það misskilningur hjá Sigurjóni, ef hann heldur mig stjórna hraða mála hjá ríkissaksóknari – hann er sjálfstæður í störfum sínum. Hvernig Sigurjón kemst að þeirri niðurstöðu að „allt“ sé í „kalda koli“  í fangelsum er mér hulin ráðgáta.

Daginn eftir að Sigurjón ritaði þennan leiðara sinn má segja, að Páll Baldvin Baldvinsson, ritstjóri DV, hafi svarað honum í leiðara blaðs síns, sem kom út föstudaginn 1. september, en þar sagði:

Leynilögga Björns og slakir mótherjar.

Dómsmálaráðherra er dapur og skilur ekki hversvegna hugmyndum hans um íslenska leyniþjónustu er tekið fálega.

Ekki að undra, Björn Bjarnason hefur reynst vinnusamur ráðherra á sínum ferli. Hann hefur reynst röskur í stefnumótun fyrir þá málaflokka sem fallið hafa honum í skaut í samhentri stjórn sjálfstæðismanna og Framsóknar. Embættismönnum ýtti hann ákveðið til hliðar og skipaði málum eins og honum þótti skynsamlegast, enda vanur yfirmannsstörfum í forsætisráðuneytinu. Hann var á sínum tíma í menntamálaráðuneytinu afkastamikill og stefnufastur þótt hann leitaði jafnan til hagsmunaaðila og hlustaði á rök manna, þótt hann tæki máske ekki alltaf nægilega mikið mark á þeim.

Björn veit hvað hann vill og fylgir því fast fram. Það er ekki öllum stjórnmálamönnum gefið sem oftar en ekki vilja falla flestum í geð. Þóttakennt fas hans hefur lengi farið í taugarnar á andstæðingum hans og jafnvel bandamönnum, en Björn er ekki þeirrar gerðar að hann sé í stjórnmálastarfi til að leita sér vinsælda með broskallasvip. Hann er enda einn fárra hugsjónamanna í íslenskri pólitík.

Í gagnrýni á vel rökstuddar hugmyndir hans um nýmæli í íslenskri löggæslu hafa menn verið fljótir til að benda á hvaðeina sem ekki hefur gengið upp; hrikalegt ástand í fangelsismálum, hörmungar á þjóðvegum, aðhald í fjármögnun löggæslu, yfirkeyrslu ríkislögreglustjórans í rekstri. Allt sem miður fer í málaflokkum sem undir dómsmálaráðherra heyra rifja menn upp þegar ráðherra vill ræða í alvöru um rannsóknarniðurstöður sem geti lagst í víðari netlagnir um samfélagið til að koma í veg fyrir vaxandi sókn skipulegrar glæpastarfsemi.

Andstæðingar hans fá létt ofsóknaræðiskast í versta falli eða vísa hugmyndum hans á bug sem lélegum brandara. Við nefnum engin nöfn.

Það er lágkúruleg afstaða í málefnalegri umræðu.

Í rökræðum um nýskipan lögreglumála blandast margt óskylt; persónulegar skoðanir ráðherrans á sagnfræði, gagnrýni hans í borgarmálefnum, forn og síný afstaða hans í utanríkismálum. Allt grautast þetta í hausnum á andstæðingum Björns Bjarnasonar um þessar mundir og gusast út úr þeim þegar vænst er skipulegra mótraka við hugmyndum hans og tillögum.

Von að maðurinn sé svekktur.

Í ljósi þess að greina má ótal merki um að samfélag okkar tengist í vaxandi mæli skipulagi erlendra glæpaflokka sem hafa að viðurværi mansal, ólöglega framleiðslu og innflutning eiturlyfja með nauðarflutningum, skipulega sölu þýfis úr landi, ber að skoða hugmyndir ráðherrans í alvöru. Ekki með upptalningu á því sem miður fer í dómsmálum, heldur vitrænu samtali. Hafi menn skýr rök gegn tillögum Björns Bjarnasonar hljóta þeir að þora í karlinn.

Þjóðin bíður spennt eftir því samtali og á til þess ríkan rétt. Þetta er jú fólk á kaupi hjá okkur.“

Ég veit ekki, hvort Páll Baldvin hafði Sigurjón M. Egilsson eða Björgvin G. Sigurðsson, þingmann Samfylkingarinnar, í huga, þegar hann skrifaði þennan leiðara sinn.

Um efni leiðarans ætla ég ekki hafa mörg orð, enda enginn dómari í eigin sök. Hitt vil ég leiðrétta, að um yfirkeyrslu  sé að ræða í rekstri ríkislögreglustjórans. Þessi fullyrðing á ekki við nein rök að styðjast, því að embættið hefur verið rekið innan fjárheimilda. Þótt vissulega megi bæta íslensk fangelsi og unnið sé markvisst að því, er of sterkt til orða tekið að kalla ástandið innan þeirra „hrikalegt“.