27.8.2006

Risaskip við Ísland – öryggismálaumræður.

 

Gunnar Hrafn Jónsson birtir viðtal við Trausta Valsson, prófessor við Háskóla Íslands, í lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 26. ágúst í tilefni af því að Trausti er að leggja lokahönd á bókina How the world will change with global warming (Hvernig heimurinn mun breytast að völdum hlýnunar jarðar) þar sem hann setur fram kenningar sínar um málið og varpar ljósi á eina mögulega framtíð jarðarbúa.

 

Trausti segir, að í bókinni leitist hann við að draga upp mynd af heiminum í heild sinni og þeim loftslagslegu áhrifum sem telja má líklegt að hækkandi hitastig á heimsvísu hafi í för með sér. Í samtali ræðir blaðamaðurinn við Trausta um áhrif hlýnunar á siglingaleiðina og segir Trausta taka fram stafla af skýrslum og hnattlíkan sem hann notar til að benda á þær löngu siglingaleiðir sem stærri flutningaskip þurfi nú að fara til að ferja varning á milli heimsálfa. Síðan er þetta haft eftir Trausta:

 

„Risaskip dagsins í dag komast ekki í gegnum Panamaskurðinn og þurfa því að sigla óralanga leið í kringum heilu heimsálfurnar til að komast á áfangastað. Það er ljóst að ef hafís heldur áfram að bráðna á þeim hraða sem við sjáum í dag mun ekki líða á löngu þar til Norðvesturhliðið svokallaða opnast og hægt verður að sigla beint yfir Norðurskautshafið. Þetta mun gjörbreyta öllum siglingasamgöngum og flutningaleiðum, enda verður um u.þ.b. fimm til níu þúsund kílómetra sparnað að ræða. Við getum, sem sagt, búist við því að skipaumferð fram hjá Íslandsströndum stóraukist og verði orðin töluverð innan tveggja áratuga; en því fylgja bæði tækifæri og hættur. Íslenska Landhelgisgæslan þarf að fjárfesta í mjög kostnaðarsömum tækjabúnaði til að geta aðstoðað skipverja í hættu stadda,í skipum af þeirri stærðargráðu sem búast má við að fari að sigla um landhelgi okkar. Svo geta þessi skip haft alls kyns hættulegan varning innanborðs. Tækifærin felast hins vegar í umskipun og almennri þjónustu við þessi mörgu og gríðarstóru skip.“

 

Hér hreyfir Trausti máli, sem við Íslendingar verðum að ræða. Endurnýjun á varðskipum landhelgisgæslunnar tekur mið af þessum breytingum, meðal annars er gerð miklu meiri krafa til dráttarafls hins nýja varðskips en þeirra, sem við eigum núna. Hið sama er að segja um flugvélina, sem á að leysa Fokker gæslunnar af velli, hún á að verða búin fullkomnum tækjakosti til að greina mengun í hafinu. Loks hljóta allar áætlanir um björgunarmál að taka mið af þessum siglingum risaskipanna, þar á meðal endurnýjun á þyrlukosti. Raunar gerði ég þetta að umræðuefni í ræðu, sem ég flutti fimmtudaginn 24. ágúst um varnar- og öryggismál.

 

Trausti bendir einnig á þá staðreynd, að mikið af óunnum olíu- og gaslindum jarðar eru á heimskautasvæðunum í norðri. Hann segir:

 

„Það er talið að um tuttugu prósent olíubirgða heimsins liggi á þessum svæðum. Vegna ástandsins í Miðausturlöndum eru Bandaríkjamenn farnir að setja mikla fjármuni í að leggja drög að innkomu olíufyrirtækja sinna á þetta svæði. Þau landsvæði sem þarna eru að opnast eru örugg hvað varðar hryðjuverk og auk þess eru þau mörg þúsund kílómetrum nær Norður-Ameríku. Olíuskip eru nú þegar farin að sigla með fram Íslandsströndum og það hafa alls sautján skip, hundrað þúsund tonn hvert, farið hér fram hjá á allra síðustu árum. Ef við tökum gasflutninga með í reikninginn tel ég að innan átta ára verði umferðin um hafsvæðið í kringum Ísland allt að eitt þúsund stærðarinnar eldsneytisflutningaskip á ári.“

 

Ég fagna því, að Trausti Valsson skuli hafa tekið sér fyrir hendur að skrifa um þessi mál og þar með væntanlega draga athygli fleiri að vaxandi mikilvægi siglingaleiðanna vestan og austan Íslands. Eins og ég sagði fyrrnefndri ræðu er á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins verið að undirbúa ráðstefnu sérfróðra manna um öryggismál á hafinu til að ræða, hvernig ríki í siglingaleið risaskipa með olíu og gas séu best búin undir nýjar aðstæður.

 

Öryggismálaumræður.

 

Viðbrögð fjölmiðlamanna við hugmyndum mínum um nauðsyn þess að ræða, hvort stofna eigi leyniþjónustu, þykja mér dálítið á þann veg, að engu sé líkara þeir vakni frekar úrillir við illan draum, klóri sér í höfðinu og spyrji síðan enn og aftur sömu spurninganna og spurt hefur verið síðan í febrúar, þegar ég lagði fram frumvarpið, sem varð að lögum 2. júní, um nýskipan lögreglumála, þar sem gert er ráð fyrir að efla greiningardeild lögreglunnar.

 

Ég velti því stundum fyrir mér, þegar ég fæ alltaf samskonar spurningar, hvernig í ósköpunum eigi að þoka fjölmiðlaumræðunum upp úr þessu fari um málið. Ef áhugasamir fjölmiðlamenn kynntu sér umræður um lögreglufrumvarpið á þingi, myndu þeir sjá þróun til þeirrar áttar í máli þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum, að ástæða sé til að ræða um það að koma á fót leyniþjónustu með þeim eftirlitsheimildum, sem um slíka starfsemi gilda.

 

Hinn 29. júní var lögð fram skýrsla sérfræðinga Evrópusambandsins um hryðjuverkavarnir, en þeir lögðu til að hér yrði komið á fót þjóðaröryggisdeild en þegar menn lesa, hvað slík deild á að gera, sjá þeir, að hlutverk hennar er að safna upplýsingum, greina þær, draga af þeim ályktanir og leggja mat á hættu. Svona starfsemi má kenna við leyniþjónustu, öryggislögreglu eða öryggisþjónustu á vegum lögreglu og með öllu ástæðulaust að tala einhverja tæpitungu um málið eða láta eins og þetta hljóti ávallt að vera eitthvert tabú í umræðum um íslensk öryggismál.

 

Það háir umræðum um þessi mál, að svo virðist sem engir fræðimenn, hvorki á sviði lögfræði né lögreglufræða séu tilbúnir að ganga fram fyrir skjöldu eins og til dæmis Trausti Valsson gerir varðandi umræðurnar um hlýnun heimsins, setja fram skoðanir og reifa þær með rökum með og á móti. Staðreynd er, að þeir fræðimenn, sem ræða öryggismál hér á landi eru annað hvort sagnfræðingar eða stjórnmálafræðingar, sem setja sig gjarnan í þær hefðbundnu stellingar að gagnrýna frekar stjórnmálamenn eða stjórnvöld í stað þess að leggja eitthvað efnislega til málanna.

 

Ég tel, að umræður um lögreglufrumvarpið á þingi sl. vetur hafi sýnt, að þingmenn úr öllum flokkum líta á málefnaleg rök, þegar rætt er um greiningarstarf á vegum lögreglu og áhættumat – þrátt fyrir mörg stóryrði við framlagningu frumvarps míns var góð samstaða um afgreiðslu þess 2. júní, eftir að þingmenn höfðu fengið tækifæri til að kynna sér málið.

 

Ef umræður fara alltaf á byrjunarreit, þegar minnst er á einhverja þætti öryggismálanna og nýjungar í þeim efnum, er ekki við því að búast, að þær verði annað en stagl og endurtekning. Þetta hefur alltof lengi verið ríkt einkenni á umræðum um íslensk öryggis- og varnarmál. Nú er mál að þessu skeiði stöðnunar ljúki og við taki umræður, byggðar á málefnalegum rökum.

 

Í grein, sem ég ritaði í Morgunblaðið 3. apríl 1991, þegar dró að lyktum fyrstu kosningabaráttunnar, sem ég háði sem frambjóðandi til alþingis, sagði meðal annars:

„Íslendingar verða að taka virkan þátt í mótun og framkvæmd öryggisstefnunnar. Við eigum að leysa bandaríska varnarliðið af hólmi, þar sem það samræmist markmiði varnarsamningsins um að tryggja öryggi landsins og hafsvæðanna umhverfis það. Við eigum einnig að knýja á dyr Evrópuþjóða og óska eftir nánara samstarfi við þær um öryggismál.

Vinstri stjórn getur ekki tekið á utanríkismálum í samræmi við kröfur líðandi stundar. Þess vegna er fyrsta og óhjákvæmilegt skref til endurnýjunar á stefnunni í utanríkis- og öryggismálum að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í kosningum 20. apríl næstkomandi.“

Nú þegar dregur að upphafi fimmta kjörtímabils míns á þingi, tel ég enn ástæðu til að halda þessu sama fram og leitast við að afla því sjónarmiði fylgis, að við Íslendingar látum að okkur kveða við gæslu eigin öryggis á öllum sviðum og séum að minnsta kosti ekki slíkar kvígur, að við þorum hvorki að ræða né horfast í augu við verkefni, sem við blasa, þótt þau séu ný á nálinni og framandi fyrir einhverja.