21.8.2006

Kveðjuræða Halldórs og utanríkis- og öryggismálin.

Sögulegu flokksþingi framsóknarmanna er lokið – sögulegu að því leyti, að í fyrsta sinn í  62 ár var kosið á milli manna í formannskjöri. Árið 1944 felldi Hermann Jónasson Jónas Jónsson frá Hriflu í formannsátökum. Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra, sem nú er 92ja ára og vel ern sat þingið 1944. Hann sagði frá því í sjónvarpsfréttum 20. ágúst á þann veg,  umræður hefðu verið byrjaðar, þegar hann hafi komið á þingið á Hótel Borg beint úr varðskipinu Ægi, sem flutti Austfirðinga á þingið. Jónas hefði talað frá hálf tíu og fram að hádegi, Hermann fram að kaffi, Eysteinn Jónsson fram að kvöldmat og Jónas daginn eftir fram að mat. Þá hefði fjórum ræðum þriggja manna verið lokið.

Framsóknarmenn hlustuðu ekki á eins langar ræður að þessu sinni en þing þeirra hófst síðdegis föstudaginn 18. ágúst með setningar- og kveðjuræðu Halldórs Ásgrímssonar, fráfarandi formanns. Halldór sagði meðal annars á einum stað:

 

„Eitt af því sem hefur verið að gerast og ég hef stórar áhyggjur af, er þróun hér á landi í þá átt að hér séu að skjóta rótum alþjóðleg samtök um skipulagða glæpastarfsemi. Við höfum því miður vísbendingar um að þeirra starfsemi sé að eflast hér á landi. Það eru mjög váleg tíðindi, enda er tilgangur slíkra samtaka vitaskuld sá að vega að æsku landsins og byrla henni eitur og græða á ógæfu annarra. Ég hlýt að viðurkenna að okkur sem förum með stjórn þessa lands hefur ekki tekist nægilega vel upp í þessari baráttu og við verðum að herða tökin með því að efla löggæsluna og gefa henni auknar heimildir í þeirri baráttu.“

 

Ég er sammála Halldóri um, að gera þurfi enn betur á þessu sviði og efla löggæslu. Ég hef lagt fram ýmsar tillögur í því efni og hafa margar þeirra þegar náð fram að ganga með góðum stuðningi Halldórs og félaga hans í Framsóknarflokknum. Stjórnarandstaðan hefur í sumum tilvikum talið okkur ganga of langt en hún hefur þó einnig breytt um afstöðu, þegar hún hefur fengið tækifæri til að kynna sér málin.

 

Í ályktun flokksþingsins er kafli um öryggis- og varnarmál, þar sem segir:

 

„Mikilvægt er að þrátt fyrir brotthvarf varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli verði varnir landsins trúverðugar og öryggi borgaranna tryggt, þannig að brugðist sé við ógnum með skjótum og skilvirkum hætti. Öryggis- og utanríkisstefna Íslands á áfram að byggja á þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalaginu og öðru samstarfi vestrænna þjóða, ekki síst áframhaldandi nánu samstarfi við önnur Norðurlönd.“

 

Halldór Ásgrímsson fjallaði einnig um þessi mál í ræðu sinni og sagði:

 

„Mikið starf er framundan í öryggis- og varnarmálum sem hafa verið farsæl fram til þessa.  Miklar og eðlilegar breytingar hafa orðið á varnarviðbúnaði á undanförnum árum og eðlilegt að þróa það áfram.

 

Við höfum verið að búa okkur undir frekari breytingar með aðild að Schengen samstarfinu og eflingu lögreglunnar í landinu. Hvort tveggja hefur verið umdeilt. Í stað þess að halda áfram viðræðum um framhald viðbúnaðar hér á landi hafa Bandaríkin ákveðið einhliða að fara með allt sitt lið og búnað.

 

Það er staðreynd sem við verðum að laga okkur að. Ég hafði alltaf reiknað með verulegum breytingum en ekki einhliða ákvörðunum sem skapaði trúnaðarbrest. Nú vitum við að ekki er hægt að treysta Bandaríkjunum í einu og öllu og oftrú á samstarf við þá voru mistök.

 

Nú verðum við að endurskipuleggja okkar varnarmál í samstarfi við Atlantshafsbandalagið og aðildarþjóðir þess. Í framtíðinni verða okkar öryggismál í meira mæli samtvinnuð Evrópu en Bandaríkjunum. Atlantshafstengslin eru að veikjast og NATO er að þróast í tvær stoðir Evrópu og Ameríku.

 

Við þær aðstæður verðum  við að styrkja böndin við vini okkar í Evrópu, einkum Norðurlöndin. Þannig verður fullveldi okkar best tryggt. Í þessu samhengi verður ekkert umflúið að ræða form slíks samstarfs. Er það best komið eins og það er, eða með aðild að Evrópusambandinu? Því er haldið fram að ég hafi farið offari í þeirri umræðu. Hún hafi ekki verið tímabær. En ég spyr, hvenær er tímabært að ræða framtíðina og hvenær er það ekki tímabært? Í mínum huga er ávallt tímabært að ræða framtíðina, hvort sem það er óþægilegt eða ekki. Stjórnmálaflokkur sem ekki getur það er harla lítils virði.

 

Fólk segir oft við mig að það vilji ekki útiloka aðild að Evrópusambandinu, en að það sé langt í það og megi bíða betri tíma að ræða það. Það er rétt að það liggur ekkert á og margt getur haft hér áhrif. Afstaða hinna EFTA-þjóðanna skiptir miklu, framtíð evrunnar og geta okkar til að viðhalda stöðugleika á grundvelli eigin gjaldmiðils. Ég vara samt við tómlæti og kæruleysi í þessu máli. Stórar ákvarðanir sem varða framtíð þjóðarinnar á að taka á eigin forsendum og á þeim tíma sem okkur hentar best en ekki þegar við getum ekkert annað.

 

Reynslan af varnarsamstarfinu við Bandaríkin ætti að vera okkur nægileg lexía í þeim efnum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið fremst þeirra sem hafa haft oftrú á samstarfinu við Bandaríkin og skynsamir menn á þeim bæ hljóta að sjá að nú þarf að skoða margt í nýju ljósi.“

 

Halldór nefnir orðið „oftrú“ tvisvar sinnum í þessum tilvitnuðu orðum. Hann segir í fyrra skiptið, að „oftrú“ á samstarf við Bandaríkin hafi verið „mistök“ og segir síðar Sjálfstæðisflokkinn hafa farið fremst þeirra, sem hafi haft „oftrú“ á samstarfinu við Bandaríkin og skynsamir menn á þeim bæ hljóti að sjá, að nú þurfi að skoða margt í nýju ljósi.

 

Ég hef ekki orðið var við neinn skoðanamun milli okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna um afstöðuna til varnarmála síðan 15. mars 2006, þegar Bandaríkjastjórn kynnti ákvörðun sína um brottkall varnarliðsins. Halldór sat þá sem forsætisráðherra og mælti með því, að rætt yrði við Bandaríkjastjórn á þeim grundvelli, að varnarsamningnum yrði ekki rift og féllust þingflokkar stjórnarinnar á það. Síðan hefur þeirri stefnu verið fylgt.

 

Þegar ég hreyfði því í september 1995, að við Íslendingar yrðum að búa okkur undir að axla meiri ábyrgð á eigin vörnum, enda myndu Bandaríkjamenn örugglega draga úr viðveru sinni á Keflavíkurflugvelli, var Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og lét sér fátt finnast um orð mín.

 

Hin síðari ár hefur samstarfið við Bandaríkjamenn tekið á sig nýja mynd – á sama tíma og fækkað hefur í varnarliðinu, hefur samvinna við Bandaríkjamenn eða fyrirtæki í eigu þeirra um álframleiðslu stóraukist eins og dæmin sýna í Reyðarfirði og Hvalfirði.

 

Morgunblaðið sagði í forystugrein laugardaginn 19. ágúst, þegar það kvaddi Halldór Ásgrímsson:

 

„Byggingu Kárahnjúkavirkjunar er að ljúka og bygging álvers á Reyðarfirði komin vel á veg. Öllum er ljóst að þessi mannvirki eru verk Halldórs Ásgrímssonar umfram aðra.

 

Þetta eru mjög umdeild verk en byggingu mannvirkjanna er að verða lokið. Hvað sem öðru líður fer ekki á milli mála að Kárahnjúkavirkjun og álverið hafa þegar breytt Austurlandi og lífi fólksins þar. Í ljósi þess að rætur Halldórs Ásgrímssonar liggja á Austurlandi hlýtur það að vera honum fagnaðarefni að skilja við sitt fólk þar með þeim hætti að framtíðin er bjartari en áður.“

 

Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa staðið saman að því með ákvörðunum sínum í ríkisstjórn og alþingi að ráðist var í Kárahnjúkavirkjun og samninga við bandaríska fyrirtækið Alcoa um smíði álvers. Varla telur Halldór þetta samstarf við Bandaríkjamenn byggjast á „oftrú“ sjálfstæðismanna?

 

Þegar rætt er um samstarf við Bandaríkjamenn er ekki réttmætt að einskorða umræðurnar við varnarmálin, staðreynd er, að fjárfestingar bandarískra fyrirtækja hér á landi hafa gjörbreytt samstarfi þjóðanna. Evrópuþjóðir hafa ekki sýnt neinn sambærilegan áhuga á fjárfestingu hér á landi.

 

Ég er sammála Halldóri Ásgrímssyni um mikilvægi Schengen-samstarfsins, þegar litið er til öryggismála, enda snýst það að verulegu leyti um lögreglusamstarf og gagnagrunna, sem nýtast til að meta áhættu og við leit að afbrotamönnum.  

 

Hinn 8. september mun Evrópunefnd efna til ráðstefnu í samvinnu við Viðskiptaháskólann á Bifröst um Schengen-samstarfið til að beina athygli að mikilvægi þess og þróun. Þá hef ég kynnt álit sérfræðinga Evrópusambandsins í hryðjuverkavörnum um nauðsynlegar aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að efla slíkar varnir hér á landi.

 

Á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum eigum við gott samstarf við Evrópuríki utan og innan Evrópusambandsins – samstarf, sem ástæða er til að rækta áfram. Innan ríkisstjórnar okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna hefur ekki verið neinn ágreiningur um það efni frekar en varnarsamstarfið við Bandaríkjamenn eða samstarfið við bandarísk fyrirtæki um fjárfestingu þeirra í álverum á Íslandi.

 

Á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina síðari, þegar Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók af skarið og hafnaði beiðni Bandaríkjastjórnar um þrjár herstöðvar á Íslandi til 99 ára, börðust framsóknarmennirnir Vilhjálmur Þór og Jónas Jónsson hart fyrir því, að farið yrði að óskum Bandaríkjamanna. Hafi einhvern tíma verið lýst oftrú á Bandaríkjamenn í samskiptum íslenskra stjórnmálamanna við þá frá lyktum síðari heimsstyrjaldarinnar má með sanni segja, að hún hafi birst í málflutningi þeirra Vilhjálms Þórs og Jónasar frá Hriflu.

 

Eins og ráða má af því, sem ég hef sagt hér, þótti mér ómaklegt af Halldóri að sneiða að okkur sjálfstæðismönnum á þann veg, sem hann gerði í kveðjuræðu sinni, þegar hann ræddi um samstarfið við Bandaríkjamenn. Í máli mínu um varnarsamstarf okkar og Bandaríkjamanna í áranna rás hef ég ávallt leitast við að færa efnisleg rök fyrir afstöðu minni og það tel ég, að gilt hafi um stefnu sjálfstæðismanna í varnarmálum í áranna rás.