6.8.2006

Fríblöð í Danmörku - enn um umræðuhefðina.

Fróðlegt er að fylgjast með umræðum í Danmörku í aðdraganda þess, að tvö ný fríblöð, annað í eigu 365 miðla – Dagsbrúnar - Baugs, eru að koma til sögunnar og verður þeim dreift heim til fólks.

Flemming Hansen, samgönguráðherra Dana, ritaði samgöngunefnd danska þingsins bréf hinn 22. júní sl. og sagði, að ekki væri lagaheimild fyrir, að fólk hafnaði, að fríblað yrði sett í póstkassa á heimili þess. Í danska þinginu er sagður meirihluti fyrir setningu laga, sem heimili fólki að hafna móttöku á fríblaði og er talið líklegt, að um það verði flutt frumvarp, eftir að þingið kemur saman í október.

 

Danska neytendaráðið (Forbrugerrådet) hefur nú hafið útgáfu á límmiðum til að setja á póstkassa, þar sem fríblöðum er hafnað. Á límmiðanum er þessi texti: „Ingen gratisaviser tak“ og er unnt að fá hann fyrir 10 kr. danskar af heimasíðu ráðsins.

 

David Trads, ritstjóri Nyhedsavisen, sem er kallað blað Íslendinganna í Danmörku, segir óvíst, að límmiðarnir verði virtir við dreifingu blaðsins. Þeir hafi auðvitað ekki áhuga á, að fólk sé neytt til að taka við blaði þeirra gegn vilja þess. Með þetta í huga séu þeir nú að búa til sitt eigið kerfi, sem geri fólki kleift að afþakka Nyhedsavisen, ef það vilji ekki blaðið.

 

Á netalfræðisíðunni Wikipedia segir meðal annars á dönsku um  viðbrögðin við Nyhedsavisen:

Der var ikke mange i den danske mediebranche der spåede den avis de store overlevelseschancer, men da de store dagblade i Danmark fornemmede at islændingene lagde alvor bag deres ord, blev der foranstaltede modtræk i den danske avisverden. JP/Politikens Hus der udgiver Ekstra Bladet, Politiken og Jyllands-Posten, fik hurtigt udviklet planer for deres eget modtræk der skulle vise sig at tage form i en anden gratis avis i de danske brevsprækker. Den fik navnet 24 timer og havde Poul Madsen, der kom fra Ekstra Bladet som chefredaktør.“

Í skrifum um Nyhedsavisen í Danmörku er þess gjarnan getið til skýringar á eigendum blaðsins, að þar sé Baugur þungamiðja. Danir ættu þó ekki annað eftir en að fara að tala um Baugsmiðla? Skyldu þeir átta sig á því, að sumir telja það jaðra við meiðyrði að nota orðið hér á landi?

Sagt er, að Nyhedsavisen komi út í fyrsta sinn mánudaginn 21. ágúst. Viku síðar eða mánudaginn 28. ágúst ætlar Berlingske Tidende að breyta um útlit og feta í fótspor þeirra breiðblaða, sem eru að taka upp sambærilegt brot og tíðkast hefur á íslenskum dagblöðum. Hið nýja brot og væntanleg samkeppni við fríblöðin eru rædd í Berlingske Tidende sunnudaginn 6. ágúst. Þar segir ritstjórnin meðal annars:

„Der er stor forskel på en avis som Berlingske Tidende og en gratisavis. En gratisavis rummer de hurtige nyheder. Det gør de godt. Gratisaviserne har været en succes, og de har udvidet markedet af avislæsere, så mange mennesker, især unge, er begyndt at læse avis...... Det er på vores journalistik, vi skal konkurrere med gratisaviserne. Det glæder vi os til. Konkurrence er sundt, den presser os til at blive bedre, og selv om vores nye format bliver det samme som gratisavisernes format, så tror vi, at læserne kan se, at indholdet er så meget bedre, at de vil betale for det. .... Forleden fik alle abonnenter muligheden for at forære avisen til venner, kolleger og familiemedlemmer gratis i 25 dage fra 28. august. To dage senere havde 6.400 læsere benyttet tilbuddet, de havde afgivet 13.000 bestillinger. Det er langt flere end forventet på blot to dage.“

Það verður spennandi að fylgjast með, hvernig þessi barátta verður háð á danska blaðamarkaðnum, þegar slagurinn hefst fyrir alvöru. Viðgangur fríblaðanna hér á landi hefur verið á þann veg hér, að nú er aðeins eitt áskriftar-dagblað í landinu Morgunblaðið. Blaðið hefur breyst í útliti, eftir að keppnin við fríblöðin hófst. Blaðamennskan hefur líka breyst – spurning er um markhópinn.

Hjá Berlingske Tidende er lögð áhersla á, að nálgast lesendur meira en áður og sagt, að það hafi verið gert á markvissan hátt árið 2003 með ritstjórnarstefnu, sem byggðist á grunnreglunni: 3 – 30 – 3. Sjá mætti efni blaðsins hratt á 3 mínútum, lesa það sér til gagns á 30 mínútum og síðan tæki 3 tíma að lesa það til hlítar. Skyldi svipaðri stefnu vera fylgt á einhverju íslensku dagblaði?

 

Enn um umræðuhefðina.

 

Í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 5. ágúst spyr Guðni Elísson, bókmenntafræðingur: „Er Björn Bjarnason hlutlaus umræðugreinandi?“ Tilefnið er síðasti pistill minn hér á síðunni, þar sem ég ræddi skrif Guðna í Lesbókina.  Svar mitt  til Guðna er þetta: Ég er ekki hlutlaus umræðugreinandi, en ég leitast við að hafa skýr rök fyrir ályktunum mínum. Ég kippi mér ekki upp við að vera kallaður hægrisinnaður eða að ég hafi tekið skýra afstöðu í kalda stríðinu og hika ekki við að ræða samtímaatburði frá mínum forsendum. Hvernig ætti ég að gera það öðru vísi?

 

Guðni vissi svarið við spurningu sinni, þegar hann setti hana í undirfyrirsögn greinar sinnar. Hann er líklega þeirrar skoðunar, að allir svari henni á sama veg og ég og þar með styrkist málstaður hans í þeim ágreiningi, sem hann kaus að stofna til við mig, vegna greinar, sem ég ritaði fyrir Lesbókina og birtist þar 22. júlí. Tilgangur skrifa hans er að öðrum þræði sá, að gjaldfella þá í opinberum umræðum, sem fara ekki í felur með stjórnmálaskoðanir sínar.

 

Þröstur Helgason, umsjónarmaður Lesbókar Morgunblaðsins, bað mig að rita grein í flokki um kalda stríðið. Ég tel víst, að hann hafi gert það til að fá viðhorf manns með mína skoðun á málinu. Hafi hann verið að leita að „hlutlausum umræðugreinanda“ hefði hann örugglega leitað á önnur mið. Raunar standa rök til að spyrja:  Hver og hvað er hlutlaus umræðugreinandi?

 

Viku eftir að grein mín birtist, eða 29. júlí, gagnrýndi Guðni Elísson, dálkahöfundur Lesbókarinnar, mig fyrir efnistök mín og svaraði ég þeirri gagnrýni samdægurs í pistli hér á síðunni. Jafnframt sendi ég Þresti Helgasyni pistilinn og mæltist til þess, að hann kæmi fyrir augu lesenda Lesbókarinnar.  Sama dag og pistillinn birtist, 5. ágúst, gefur Þröstur svo Guðna færi á að svara athugasemdum mínum. Þegar ég vann á Morgunblaðinu var það almenn vinnuregla, að svargreinar fengju að standa fyrir sínu og síðan birtust andmæli við þeim í næsta tölublaði, en þetta gildir ekki um Lesbókina, þegar Guðni Elísson á í hlut. –  Líklegt er, að netið og vefsíða mín valdi því, að stjórnendur Morgunblaðsins telji grein mína hafa birst, áður en hún kemur á síður blaðsins, sem segir nokkra sögu um breytingar í fjölmiðlun.

 

Guðni hefur grein sína með þessari setningu: „Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, er ekki ánægður með mig þessa dagana.“ Guðni getur alveg andað rólega. Ég óska aðeins eftir frelsi til að lýsa skoðun minni á mönnum og málefnum, án þess að snúið sé út úr orðum mínum og mér séu gerðar upp skoðanir. Þyki Guðna ég hengja „pólitíska merkimiða á allt og alla í samtímanum“ og eigi hann bágt með að sætta sig við málflutning minn, er auðveldara fyrir hann að líta fram hjá skrifum mínum en ætla að setja mér ritreglur.

 

Guðni segir: „ Einn punktur skilur í sundur setningarnar. Aðeins einn punktur skilur í sundur kalda stríðið og brotthvarf Björns frá pólitískri flokkunarfræði...... Yfirlýst sinnaskipti dóms- og kirkjumálaráðherra hverfast um einn punkt. Vinstra megin við punktinn er kalda stríðið í fullum gangi. Hægra megin við punktinn má finna ópólitíska umfjöllun um umræðuhefð samtímans. Ég verð að viðurkenna að ég sé varla punktinn.“ Hefði ég haft greinarskil í stað punkts í grein minni  um kalda stríðið, hefði hún ekki orðið tilefni umvandanna Guðna?

 

Guðna verður tíðrætt um, að ég kalli grein hans „málsvörn fyrir vinstrisinna“. Skýringin er augljós. Í greininni tekur Guðni upp hanskann fyrir menn, sem hann kallar vinstrisinnaða menntamenn, en ég hef ekki gert, þótt ég hafi sagt þá nálgast mál frá vinstrisinnuðum sjónarhóli og jafnvel af vinstrisinnaðri meinfýsi. Ætli Guðni hafi aldrei heyrt um hægrimann, sem talinn er nálgast eitthvert mál frá vinstrisinnuðu sjónarhorni? Guðni minnist á pennana á Vef-Þjóðviljanum í athugasemdum sínum og segir þá ganga hreint til verks. Þessir ágætu pennar telja mig, hægrimanninn, örugglega hafa vinstrisinnaða afstöðu til ýmissa menningarmála, vilja hlut ríkisins meiri þar en þeir.

 

Í athugasemdum sínum kýs Guðni að hafa að engu skýringar mínar um umræðuhefðina í grein minni um kalda stríðið.  Ég minni á harðar deilur á heimastjórnartímanum, í tíð Jónasar frá Hriflu og kalda stríðinu og kem síðan að samtímanum. Þá segi ég:

„Átakamálin eru vissulega önnur og sjálfstæði ríkja og frelsi þjóða ekki í húfi. Í stjórnmálum innanlands er ekki tekist á um, hvort frekar eigi að fylgja stefnu kapítalista eða kommúnista. Nú er deilt um mismunandi útfærslur á kapítalisma. Á hinn bóginn skiptast menn enn í fylkingar, hart er deilt og ekki alltaf vandað til vopnaburðar.“

Hér minnist ég hvergi á hægri eða vinstri heldur vísa almennt til þeirra mála, sem eru til umræðu á opinberum vettvangi og nefni síðan fimm tilvik máli mínu til stuðnings.

 Í athugasemdum sínum segir Guðni:

 

En af hverju eru þá dæmin sett fram í grein um kalda stríðið og í samhengi þess? Ef tilgangur Björns var sá sem hann segir, að ræða vankanta á íslenskri umræðuhefð samtímans óháð pólitískum flokkadráttum kalda stríðsins, er þessi framsetning klaufaleg af hans hálfu. Átökin í samfélagsumræðunni má líka rekja miklu lengra aftur en til kalda stríðsins. Á síðari hluta 19. aldar voru þau t.a.m. miklu harðari en þau eru nú.“

 

Ég spyr á móti: Hvers vegna má ekki hreyfa þessu sjónarmiði um umræðuhefðina í grein um kalda stríðið?  Greinin snerist um kalda stríðið að ósk umsjónarmanns Lesbókarinnar. Ég nefndi grein mína: Undan köldu stríði. Að öðrum þræði velti ég fyrir mér, hvernig stjórnmál, fjölmiðlar og umræðuaðferð hefðu komið undan kalda stríðinu, það er eftir að kalda stríðinu lauk. Hefði það ráðið úrslitum um athugasemdir Guðna, ef ég hefði nefnt deilur á 19. öld til sögunnar frekar en að halda mig við 20. öldina og nefna heimastjórnarárin fyrst í upptalningu minni? 

 

Guðni Elísson telur mig ekki getað ritað um ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Halldór Laxness, án þess að lesa 70 síðna grein prófessors Helgu Kress í tímaritinu Sögu frá 2004 og enn fremur 270 síðna skýrslu hennar. Ég er ekki sammála Guðna um þetta. Ég hef lesið bækur Hannesar Hólmsteins og meðal annars skrifað umsögn um þær í tímaritið Þjóðmál. Naut ég bókanna vel án leiðsagnar Helgu Kress og sé raunar ekki, þrátt fyrir umvöndun Guðna, að mér sé skylt að kynna mér sjónarmið hennar til að mynda mér skoðun á bókum Hannesar Hólmsteins. Í grein minni um kalda stríðið minntist ég ekki einu orði á Helgu Kress og skil ekki, hvers vegna Guðna er svo mikið í mun að nefna hana til sögunnar. Það á einfaldlega ekkert skylt við grein mína.

 

Athugasemdum sínum lýkur Guðni með þessum orðum:

 

„Tuttugasta febrúar síðast liðinn flutti Eiríkur Guðmundsson ágætan pistil í útvarpsþættinum Víðsjá þar sem hann kvartar yfir þeirri tilhneigingu dómsmálaráðherra og ýmissa meðreiðarsveina hans að hugsa allt út frá gamaldags kalda stríðs forsendum á tímum þegar slíkt eigi ekki lengur við. Eiríkur segir: „Sumir svokallaðir hægrimenn hafa ekki áttað sig á því að tímarnir líða. Í Reykjavík er t.d. komin fram á sjónarsviðið kynslóð rithöfunda og menntafólks sem gefur ekkert fyrir hinar grútfúlu víglínur kalda stríðsins og vita sem er að línan er ekki lengur ein heldur eru þær fjölmargar og skerast þvers og kruss. Víglínan liggur ekki lengur milli hægri og vinstri þegar kemur að umræðu um menningarástand, hún hlykkjast á milli hins háa og lága, þess gamla og nýja án þess að skera nokkurn hlut í tvennt. Hún tekur u-beygjur og snýst í hringi.“ Í kalda stríðinu voru merkimiðarnir eflaust skýrari en nú og þeir héldust betur á fólki. Hægri, vinstri, hægri, vinstri, hægri, vinstri. En kalda stríðinu er lokið. Má því ekki vera lokið? Hugsanlega flækir það aðeins þjóðmálaumræðuna að geta ekki lengur stutt sig við stríðið, en ég sé að minnsta kosti enga ástæðu til að standa kyrr á meðan merkimiðinn er nældur í barminn.“

 

Ég birti meginefni þessa pistils Eiríks Guðmundssonar hér á síðunni 25. mars 2006 en hann var fluttur í tilefni af því, að Jóhann Hjálmarsson skáld hafði skrifað lofsamlega um tímaritið Þjóðmál í Morgunblaðið og meðal annars sagt: „Tímarit frá hægri er gott mótvægi við hin fjölmörgu rit sem skrifuð eru af vinstrimönnum eða einhvers konar vinstrimönnum. Þjóðmál hefur þann kost að vera fjölbreytt.“

 

Eiríkur tók upp hanskann fyrir póst-módernismann og hikaði ekki við að nota merkimiðana, sem Guðni hræðist, þegar hann les texta eftir mig – skiptir hann um gleraugu, þegar hann rýnir í texta Eiríks? Eiríkur ræddi um pirring meðal þeirra, sem hann kallar litla klíku hægrimanna, og sagði:

 

„Í huga tiltekinna hægrimanna er víglínan algjörlega á hreinu, a.m.k. ef marka má skrif Jakobs F. Ásgeirssonar, Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra og fleiri. Vinstrimenn hafa í augum þessara manna breyst í póstmódernista, án þess að sú fullyrðing sé rædd frekar. Hugtakið póstmódernisma nota menn oftar en ekki af vanþekkingu. Það liggur enginn beinn vegur frá vinstrimennsku yfir í póstmódernisma eða póststrúktúralísk fræði en víglínan í huga fyrrnefndra manna er engu að síður algjörlega á hreinu og hún er ein og aðeins ein.“

Kalda stríðinu er lokið, það er hárrétt. Umræður halda þó áfram og ég hef þá rökstuddu skoðun, að umræðuhefðin hafi ekki breyst, þótt umræðuefnin séu önnur og þátttakendur aðrir en þá. Ég hef ekki fest neinn merkimiða á Guðna Elísson. Hver ætti miðinn að vera?  Póst-módernismans? Geta póst-módernistar ekki haft vinstrisinnuð viðhorf til einstakra mála? Eins og hægrimenn.

Í pistli mínum, þar sem ég birti ræðu Eiríks Guðmundssonar sagði:

„Ef sú litla klíka, sem Eiríki er svo tíðrætt um í þessari ræðu sinni, hefði aðgang að hljóðnema ríkisins til að flytja boðskap sinn eins oft og Eiríkur gerir, heyrðist áreiðanlega hljóð úr horni vinstrisinna, hvort sem þeir eru póstmódernistar eða ekki.  Spyrja má: Væri ekki í samræmi við reglur ríkismiðilsins um óhlutdrægni, að við, sem nefndir erum í ræðu Eiríks, fengjum tæpar sjö mínútur eins og hann til segja okkar hlið á málinu?“

Mér hefur ekki verið boðið að skýra sjónarmið mitt til þessara mála í Víðsjá. Ég veit ekki, hvort þeir birta þar pistla mína eða úr þeim til að svara samstundis eins og Guðni Elísson gerir í Lesbókinni.