24.7.2006

Stríð um Líbanon.

 

 

Í Politiken birtist stutt grein eftir ísraelska rithöfundinn Amos Oz undir fyrirsögninni: Friðarhreyfingin styður Ísraelsher. Þar segir frá því, að friðarhreyfingin í Ísrael hafi margoft á liðnum árum gagnrýnt hernaðaraðgerðir Ísraela. En svo sé ekki nú. Í þetta skipti snúist stríðið ekki um útþenslu Ísraels eða nýjar nýlendur. Ísraelar hafi ekki hernumið neitt land í Líbanon. Enginn stríðsaðlia hafi hreyft landakröfum.

 

Hiszbollah hafi af illum huga og að tilefnislausu ráðst á Ísrael. Þetta hafi raunar einnig verið árás á nýkjörna ríkisstjórn í Líbanon, þar sem Hizbollah hafi hrifsað af henni úrslitsvald í málefnum Líbanons og um stríð og frið með árás sinni.

 

Friðarhreyfingin í Ísrael sé andvíg hernámi Vesturbakkans og landnámi þar. Hún hafi snúist gegn innrás Ísraela í Líbanon árið 1982, af því að tilgangur innrásarinnar hafi verið að draga athygli heimsins frá vanda Palestínumanna. Nú sé ekki um innrás Ísraela í Líbanon að ræða heldur sjálfsvörn Ísraela gegn sprengjuárásum á friðsama borgara innan landamæra Ísraels. Friðarhreyfingin í Ísrael eigi að styðja varnarviðbrögð Ísraela ef þau beinist gegn Hizbollah og sneiði eins og frekast sé kostur hjá venjulegum borgurum, sem ekki sé alltaf auðvelt, þar sem sprengjukastarar Hizbollah noti oft almenna borgara sem skjöld.

 

Hizbollah fái sprengjur frá Írönum og Sýrlendingum en hvorugir vilji stuðla að friði í Mið-Austurlöndum. Fráleitt sé að leggja Ísrael og Hizbollah siðferðilega að jöfnu. Hizbollah leggi sig fram um að granda venjulegum ísraelskum borgurum, sama hvar þeir séu, en Ísraelar einbeiti sér að því að vinna á Hizbollah.

 

Íranir, Sýrlendingar og íslamisminn hangi eins og dimm ský yfir rjúkandi rústum í borgum beggja vegna landamæra Ísraels og Líbanons. Þessi ský þjaki einnig almennt líf í Líbanon, þar sem hetljuleg barátta almennings hafi nýlega hrundið langvinnum, sýrlenskum yfirráðum af þjóðinni.

 

Hin raunverulega barátta um þessar mundir sé ekki milli Beirut og Haifa heldur milli bandalags friðleitandi ríkja – Ísraels, Líbanons, Egyptalands, Jórdaníu og Sádí-Arabíu annars vegar og öfgafullra múslíma með fulltingi Írans og Sýrlands hins vegar. Komi fljótt til þess, að Hizbollah lúti í lægra haldi - eins og dúfur og haukar í Ísrael voni – sigri bæði Ísrael og Líbanon. Og síðast en ekki síst geti ósigur herskárra hryðjuverkasamtaka múslíma stóraukið líkur á friði í þessum heimshluta.

 

Grein hins þekkta rithöfundar, sem oft hefur verið ákaflega gagnrýnin á stefnu Ísraelsstjórnar, bregður dálítið öðru ljósi á stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs en almennt heyrist eða sést í íslenskum fjölmiðlum.

 

Raunar er það eitt forvitnilegt athugunarefni að velta fyrir sér, hvernig afstaðan til Írsaels hefur verið að þróast á undanförnum árum með stjórnvalda á Vesturlöndum. Í síðasta hefti Þjóðmála var fróðleg grein um þróunina hjá okkur Íslendingum í þessu efni eftir Gunnar Þór Bjarnason.

 

Fyrir um aldarfjórðungi fórum við Kjartan Gunnarsson á þessar slóðir í Suður-Líbanon og heimsóttum Arnór Sigurjónsson, sem nú fer með málefni friðargæslunnar í utanríkisráðuneytinu, en var þá liðsforingi í norska hernum og starfaði sem friðargæslumaður á landamærum Líbanons og Ísraels. Skrifaði ég nokkrar greinar um ferð okkar í Morgunblaðið og eru þær birtar í greinasafni mínu Í hita kalda stríðsins, sem meðal annars er unnt að nálgast í bóksölu Andríkis hér á netinu eins og Þjóðmál.

 

Ég ætla ekki að endurtaka þá ferðasögu hér en ég fyllist samúð með því fólki, sem býr á þessum slóðum í Suður-Líbanon og býr við öryggisleysið, sem í því felst að gera landsvæðið að einskonar skotpalli múslímskra öfgamanna gegn Ísrael.

 

Leiðarahöfundur The Economist veltir því fyrir sér, hvort viðbrögð Ehuds Olmerts, hins nýkjörna forsætisráðherra Ísraels, hafi verið of harkaleg gegn Hizbollah. Ehud Barak og Ariel Sharon hafi ekki brugðist eins hart við slíku áreiti í tíð sinni sem forsætisráðherrar – þeir hafi báðir verið harðir í horn að taka sem forsætisráðherrar og gamlar stríðshetjur. Blaðið veltir því fyrir sér, hvort sú staðreynd, að Olmert hafi ekki reynslu í hernum, valdi því, að hann bregðist við af of mikilli hörku gegn Hizbollah og á Gaza, þar sem Ísraelar hafa herjað, eftir að hermanni þeirra var rænt.

 

Leiða má líkur að því, að aðfarir öfgafullra múslíma á Gaza og í Suður-Líbanon gegn Ísraelum megi að einhverju leyti rekja til þess, að þeir, sem stríðsaðgerðunum stjórna hafi viljað láta reyna á staðfestu hinnar nýju ríkisstjórnar Olmerts. Hafi markmiðið verið að veikja hana heima fyrir virðist það hafa mistekist hrapallega ef marka má grein Oz. Ef ætlunin var að ögra henni í því skyni að láta á viðbrögðin reyna, hefur ekki staðið á þeim. Síðan er það spurningin, hvernig Ísraelar verða dæmdir af þeim þjóðum, sem ekki hafa neinna beinna hagsmuna að gæta – þótt enginn geti auðvitað setjið hjá, þegar átök verða í púðurtunninni fyrir botni Miðjarðarhafs. Enginn veit, hvenær hvellurinn verður stærri en nær til þess svæðis eins.

 

Staðan í Líbanon var rædd á fundi dóms- og innanríkisráðherra Schengen-ríkjanna í Brussel mánudaginn 24. júlí, ekki síst með vísan til þeirra, sem hafa flúið frá Líbanon til Kýpur, sem er innan Schengen. Þar munu vera um 50.000 manns frá svonefndum þriðju ríkjum, það er ríkjum utan Schengen. Á hinn bóginn er ekki litið þannig á, að um beint flóttamannavandamál sé að ræða vegna stríðsins í Líbanon – þar hafi um hálf milljón manna flust búferlum innan ríkisins en ekki flúið til annarra landa.