15.7.2006

Þingvallaganga – farsímakort – ákvörðun Guðna - stefnubreyting Samfylkingar.

Fimmtudaginn 13. júlí var ég leiðsögumaður í Þingvallagöngu og ræddi þar um störf og stefnu Þingvallanefndar. Vegna þessa tók ég saman nokkra punkta mér til minnis.

Vorið 2004 samþykkti alþingi ný lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum og í 1. grein laganna er honum lýst á þennan veg:

„Þingvellir við Öxará og grenndin þar skal vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga sem þjóðgarður undir vernd Alþingis.

Mörk þjóðgarðsins á Þingvöllum og hins friðhelga lands skulu vera: Að sunnan eru mörkin um línu sem dregin er úr landamerkjum jarðanna Arnarfells og Mjóaness á Langatanga, vestur yfir vatnið og í Grjótnes sem er á landamerkjum jarðanna Skálabrekku og Kárastaða. Þaðan ráða landamerki þeirra jarða að landamerkjum Selkots og síðan landamerki Selkots og Kárastaða að sýslumörkum Árnessýslu og Kjósarsýslu á Há-Kili. Þaðan ráða sýslumörk til norðausturs til upptaka Öxarár við Myrkavatn og í hátind Háusúlu og þaðan bein stefna til austurs í efsta tind Gatfells. Þaðan liggja mörkin til suðurs í Hrafnabjörg og með austur- og suðurmörkum jarðarinnar Gjábakka og með austurmörkum jarðarinnar Arnarfells í Langatanga.

Hið friðhelga land skal vera eign íslensku þjóðarinnar og er óheimilt að selja það eða veðsetja.“

Með lögunum var þjóðgarðurinn stækkaður úr 40 ferkílómetrum í 237. Við þá breytingu á mörkum hins friðhelga lands féll allt land jarðanna Kárastaða, Brúsastaða, Svartagils, Gjábakka og Arnarfells innan hins friðhelga lands.

 

Ég fæ stundum fyrirspurnir vegna Þingvallavatns, sem eru á þann veg, að fólk virðist telja Þingvallanefnd fara með stjórn á því. Þar er um misskilning að ræða, því að nefndin og starfsmenn hennar sýsla aðeins með þann hluta vatnsins, sem er innan þjóðgarðsmarkanna. Sérstök lög gilda um friðun vatnsins og vatnasviðsins og falla þau undir umhverfisráðherra.

 

Við erum þrír þingmenn sem sitjum í Þingvallanefnd Guðni Ágústsson og Össur Skarphéðinsson auk mín, en Sigurður K. Oddsson er þjóðgarðsvörður, Einar Á. E. Sæmundsen fræðslufulltrúi og Guðrún S. Kristinsdóttir yfirlandvörður. Yfir sumarmánuðina starfa auk þess 10 landverðir í þjóðgarðinum og sinna þar umfangsmiklu fræðslu- og gæslustarfi. Um 2000 skólabörn koma til dæmis í þjóðgarðinn á hverju ári. Þjóðgarðurinn fær um 75 m. kr. á fjárlögum. Hann heyrir stjórnsýslulega undir forsætisráðuneytið. Þegar ákvæði nýju laganna koma að fullu til framkvæmda eftir næstu alþingiskosningar verður fjölgað í Þingvallanefnd úr þremur í sjö.

 

Ég hef sagt frá því hér á síðunni, þegar ég tók þátt í fundum í borginni Sozhou í Kína í byrjun júlí 2004 og Þingvellir voru skráðir á heimsminjaskrá UNESCO. Skráningin byggðist á menningarsögulegu gildi Þingvalla. Síðan hafa vaknað hugmyndir um að skrá Þingvelli einnig vegna náttúrufræðilegs gildis staðarins auk þess sem áhugi er á því, að skrá Mið-Atlantshafshrygginn en hann er aðeins sýnilegur á Þingvöllum. Í þessu sambandi hefur meðal annars verið rætt um fjölþjóðlega umsókn með Portúgölum, Norðmönnum og Bretum. Enn má geta þess, að áhugi er á því að efla samstarf þeirra staða, þar sem menn hafa leifar um forna þingstaði frá víkingatímanum eins um Gulaþing í Noregi og á eyjunni Mön. Í því sambandi má einnig minnast Þinganess í Færeyjum. Umráðamenn Gulaþings hafa boðað til fundar um málið í næsta mánuði.

 

Hinn 26. júlí 2002 var fræðslumiðstöðin á Hakinu opnuð en 31 tók þátt í samkeppni arkitekta um húsið og bar Gláma/KÍM sigur úr býtum. Húsið er 220 fermetrar, 180 fm sýningarsalur, 40 fermetra snyrting og 60 fm undir þaki. Í húsinu er rafræn sýning um Þingvelli og Þingvallavatn á mörgum tungumálum en Árni Páll Jóhannsson hannaði hana. Salurinn er með veggi, sem minna á Almannagjá, þar sem er sagað grágrýti, og bilið milli veggjanna er hið sama og land hefur rekið hér síðustu 1000 ár. Kostnaður við mannvirkið og sýninguna var 73 m. kr.

 

Gestafjöldi er mikill á Þingvöllum og hinn 8. júlí síðastliðinn höfðu um 70 þúsund manns komið í fræðslumiðstöðina á þessu ári. Minnti sú tala mig á það, sem sagt var við okkur í hinu einstaka olíuminjasafni í Stavanger, þegar forstöðumaðurinn lýsti því fyrir okkur á dögunum og sagði árlegan fjölda gesta vera um 70 þúsund. Við teljum að milli 100 og 140 þúsund gestir komi árlega í fræðslumiðstöðina, en líklegt er, að 1 af hverjum 3 gestum, sem koma til Þingvalla, líti inn í miðstöðina. Er nauðsynlegt að stækka hana til að geta annað öllum þessum fjölda, sérstaklega er brýnt að fjölga salernum. Miðstöðin er opin allan ársins hring en aðeins um helgar yfir háveturinn.

 

Í göngunni 13. júlí voru afhjúpuð skilti til kynningar á Þingvöllum og einstökum stöðum þar, sem Gylfi heitinn Gíslason myndlistarmaður hafði nær að fullu lokið, áður en hann lést um aldur fram á liðnum vetri. Gylfi hefur lagt Þingvallanefnd og starfsmönnum hennar gott lið á undanförnum árum. Hann gerði til dæmis gott og vinsælt göngukort af þjóðgarðinum. Þá hefur hann gert refil um Þingvelli, sem vonandi verður til sýnis, áður en langt um líður.

 

Börn Gylfa og barnabarn tóku þátt í því með okkur að afhjúpa skilti á fimmtudagskvöldið. Þrjú skilti eru til dæmis við Lögberg, eitt vísar á Snorrabúð, annað er um Lögberg og hið þriðja er með myndum frá stórhátíðum á Þingvöllum og við gerð þess lagði Gunnar Geir Vigfússon, ljósmyndari, skiltagerðarmönnum lið, en Keops skiltagerð prentar og framleiðir plöturnar. Við Drekkingarhyl er stórt skilti, þar sem segir frá refsingum á Þingvöllum og birt eru nöfn 18 kvenna, sem þar var drekkt.

 

Fyrir nokkrum árum tókst samstarf milli Þingvallanefndar og Landsbanka Íslands um stuðning bankans við fræðslustarf og verkefni á því sviði innan þjóðgarðsins. Hefur bankinn meðal annars stutt merkingar á stígum, gerð korta og útgáfu bæklinga. Fjögurra ára samningur Þingvallanefndar og bankans rennur út um næstu áramót og hefur nefndin þegar leitað eftir frekara samstarfi við bankann og nefnt þar verkefni eins og þessi:

 

Stækkun fræðslumiðstöðvarinnar á Hakinu en inn í húsið koma árlega meira en 100.000 manns.

 

Bætt aðstaða fyrir hreyfihamlaða í þjóðgarðinum t.d  göngustígur fyrir þá  í  Skógarkot, bætt aðgengi að Lögbergi og öðrum kunnum sögustöðum.

 

Grisjun og uppbygging útivistarsvæðis í Hrafnagjárhallinum en þar voru gróðursett um 100.000 tré með stuðningi Landabanka Íslands upp úr miðri síðustu öld. Þarna er ný brýn þörf á víðtækri grisjun svo að hægt sé að komast um skóginn, einnig að planta lauftrjám inn í barrskóginn sem á að víkja í framtíðinni.

 

Ný brú yfir Öxará úr Almannagjá. Gamla steinbrúin er úr sér gengin og unnið hefur verið að gerð tillagna um nýja brú, sem félli vel að þessu viðkvæma umhverfi.

 

Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að því að bæta aðgengi hreyfihamlaðra að þjóðgarðinum og með í för á fimmtudaginn var fólk í hjólastólum. Hreyfihamlaðir komast nú á útsýnispall á Hakinu, nýr ofaníburður hefur verið settur í Almannagjá og í sumar var opnuð aðstaða við Vatnskot, sem gerir hreyfihömluðum meðal annars fært að stunda veiði í Þingvallavatni.

 

Göngunni 13. júlí lauk með því að Adolf Friðriksson, fornleifafræðingur og forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands, gerði grein fyrir fornleifarannsóknum í þjóðgarðinum undanfarin fimm ár.  Adolf skýrði frá ýmsu forvitnilegu, sem ég rek ekki hér, en ítarlega var sagt frá fornleifarannsóknunum á Þingvöllum í Morgunblaðinu 14. júlí.

 

Farsímakort.

 

Nýlega fékk ég tölvubréf, þar sem bréfritari sagði  óskemmtilegri reynslu af því að hringja í rangt símanúmer. Hann vildi kanna, hver væri skráður fyrir númerinu en tókst hvorki að finna það í símaskrá né með aðstoð sérfróðra manna. Var honum sagt, að þarna væri um óskráð númer að ræða, svo kallað frelsisnúmer, sem t.d. mætti kaupa á bensínstöð, án þess að krafa væri gerð um skráningu. Bréfinu til mín lýkur með þessum orðum:

 

„Og þá kem ég að kjarna málsins. Mér finnst skrýtið að í umferð séu símanúmer sem enginn, ekki einu sinni sjálfur seljandi eða þjónustuaðili númerins viti hver sé með. Að ógerningur sé að komast að því hver sé með þetta númer. Að maður geti farið út í búð, fengið sér símanúmer og síðan stundað morðhótanir, ef því er að skipta, án þess að nokkur viti hver sé með númerið.“

 

Í pistli, sem ég ritaði hér á síðuna 8. maí 2005 ræði ég meðal annars frumvarp til breytinga á fjarskiptalögum, sem samgönguráðherra flutti á þingi þá um veturinn og vakti nokkrar deilur, meðal annars vegna þess að þar var gert ráð fyrir skráningu á svonefndum frelsisnúmerum. Niðurstaða meirihlutans varð sú, að Póst- og fjarskiptastofnun fengi heimild til að setja reglur um skráningu notenda farsímakorta í samráði við Neyðarlínu, lögreglu og farsímafyrirtæki. Ég veit ekki, hvort slíkar reglur hafi verið settar.

 

Persónuvernd var meðal þeirra, sem mótmæltu skráningu frelsisnúmera, þar sem með henni yrði komið í veg fyrir síðustu möguleika almennings  til  því  að  geta  hringt  með  leynd,  þar  sem  aðgangur  að almenningssímum væri hverfandi  lítill  hér  á  landi.  Fæli  skráningin í sér veigamikla  breytingu.  Horfa  yrði til þess að nafnleynd við notkun síma gæti  í  mörgum tilvikum verið eðlileg, jafnvel nauðsynleg. Í hugum margra væri  t.d. nauðsynlegt að geta með leynd komið ábendingum á framfæri s.s. til fjölmiðla,  þingmanna, lögreglu eða barnaverndaryfirvalda og jafnvel við að leita  liðsinnis  s.s.  hjá  vinalínu Rauða krossins.

 

Ég taldi þessi rök gegn skráningunni harla léttvæg í pistli mínum 8. maí 2005 og er sama sinnis enn þann dag í dag.

 

 

Ákvörðun Guðna.

 

Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, kynnti þá ákvörðun sína fimmtudaginn 13. júlí, að hann ætlaði ekki að sækjast eftir formennsku í Framsóknarflokknum heldur óska eftir endurnýjuðu umboði til varaformennsku.

 

Ég átta mig ekki á því, hvernig unnt er að saka Guðna um einhvern gunguhátt vegna þessarar ákvörðunar. Rök hans eru skýr og skiljanleg: Hann vill stuðla að friði innan Framsóknarflokksins á þeim tímamótum, þegar Halldór Ásgrímsson ákveður að segja af sér formennsku. Þetta getur Guðni best gert með því að stuðla að sem víðtækastri sátt um eftirmann Halldórs. Guðni vill forðast stórátök um formannsembættið í því skyni að styrkja flokk sinn og efla.

 

Formannsskipti hafa orðið í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu síðustu misseri. Innan Sjálfstæðisflokksins myndaðist víðtæk samstaða um Geir H. Haarde sem eftirmann Davíð Oddssonar og hefur það orðið til að styrkja flokkinn eins og skoðanakannanir staðfesta. Hart var tekist á um formennsku í Samfylkingunni, þar sem þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson börðust vikum og mánuðum saman. Síðan hefur fylgi flokksins minnkað jafnt og þétt og innan hans taka átökin á sig ýmsar skrýtnar myndir, þótt leitast sé við að árétta samstöðu út á við.

 

Sé ákvörðun Guðna skoðuð með reynslu sjálfstæðismanna annars vegar og samfylkingarfólks hins vegar í huga, er augljóst, að hann velur hina skynsömu leið okkar sjálfstæðismanna að stuðla að friði og sátt í því skyni að efla og styrkja eigin flokk. Ég er þess fullviss, að þetta verður einnig til að styrkja stöðu Guðna innan Framsóknarflokksins.

 

Stefnubreyting Samfylkingar.

 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur fylgt þeirri stefnu, að allt sé betra en íhaldið og ekki beri að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Nú virðist sem hugmyndafræðingar hennar hafi komist að þeirri niðurstöðu, að þessi stefna formannsins sé lítt til vinsælda fallin. Má ráða það af miðopnugrein Margrétar S. Björnsdóttur, höfuðráðgjafa Ingibjargar Sólrúnar, í Morgunblaðinu 15. júlí 2006. Margrét telur, að þrátt fyrir allt sé Sjálfstæðisflokkurinn líklega besti samstarfskostur Samfylkingarinnar. Í greininni segir meðal annars:

 

„Samfylkingin hefur á að skipa hæfileikaríkum þingmönnum og öflugum formanni. Það er aðalsmerki góðra stjórnenda og forystumanna að velja sér til samstarfs sterka aðila, hafa styrk til að standast þeim snúning og laða fram það besta í fari þeirra. Neikvæð reynsla Alþýðuflokks og Framsóknarflokks af tveggja flokka samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, kann að vera til marks um innri veikleika þeirra sjálfra, sem Sjálfstæðisflokknum verður varla kennt um.....

 

Samfylkingin á að ganga óbundin til næstu kosninga. Niðurstöður kosninganna sjálfra, stefnumál og líkur á árangri, eiga að ráða vali Samfylkingarinnar. Þar á engum dyrum að loka fyrir fram. Sjálfstæðisflokkurinn, eins og aðrir flokkar, á að vera þar meðal annarra kosta.“

 

Það verður fróðlegt að fylgjast með því, hvort friður verður um þessi hugmyndafræðilegu sinnaskipti innan Samfylkingarinnar eða hvort hér sé aðeins um tilraun til að bæta hlut Ingibjargar Sólrúnar að ræða, án þess að hugur eða stuðningur þingmanna flokksins fylgi máli.

 

Ýmsar fullyrðingar Margrétar S. í greininni um verk okkar sjálfstæðismanna í ríkisstjórn standast ekki eins og til dæmis þessi: „Pólitísk sjónarmið við ráðningar æðstu manna í lögreglu, eftirlits- og dómskerfi, eins og hér tíðkast, verða að heyra sögunni til. Traust verður að ríkja á þessum lykilstofnunum.“ Hvað býr hér að baki? Traust almennings á lögreglu hefur aukist mikið undanfarin misseri samkvæmt könnunum. Við hvaða mannaráðningar hjá lögreglu og í eftirlits- og dómskerfi hafa pólitísk sjónarmið ráðið meiru en málefnaleg afstaða? Hefur það farið fram hjá Margréti, að umræður um skipan dómara í hæstarétt hafa þróast á þann veg, að með umsögnum sínum um einstaka umsækjendur í dómarastöður hafi hæstiréttur eða meirihluti hans gengið of langt á þeirri braut að reyna að binda hendur veitingarvaldshafans, ráðherrans?

 

Í nýjasta hefti Úlfljóts, tímarits laganema við Háskóla Íslands, 1. tbl. 59. árg. 2006 birtist efnismikið viðtal við Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómara. Hann er meðal annars spurður um skipan dómara í hæstarétt og telur, að hann mjög erfitt fyrir dómara við réttinn að þurfa að veita umsögn um dómaraefni, svo að ekki sé talað um, þegar rétturinn sé farinn að raða umsækjendum upp eins og dæmi séu um á síðari árum. Þá segir Jón Steinar:

 

„Ég tel samt þýðingarmikið að sá sem fer með skipunarvaldið fái einhvers konar álit um umsækjendur, sem reist er á fræðilegum grundvelli, en það er ekki æskilegt að Hæstiréttur láti það í té. Það er þekkt, þegar sitjandi dómarar í Hæstarétti sjá fram á að dómaraembætti muni losna, að þeir láti sig það varða hverjir sæki um. Það eru jafnvel dæmi um að menn hafi sagt frá því opinberlega að þeir hafi verið hvattir af sitjandi dómurum til þess að sækja um laust embætti. Meðal annars hef ég nokkrum sinnum fengið slíka hvatningu gegnum árin, þó að ég hafi ekki svarað henni þá. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við að dómendur vilji hvetja lögfræðinga, sem þeir telja vel hæfa, til að sækja um embætti. Það er hins vegar ótækt að sömu dómendur annist svo álitsgjöf um þá sem sækja um. Þá er eins víst að þeir telji sig skuldbundna þeim sem hvattir voru. Þetta er að mínum dómi stærsti ágallinn á núverandi reglum um skipan hæstaréttardómara. Menn ættu líka að hafa í huga að það hlýtur almennt að teljast óæskilegt að sitjandi dómendur ráði miklu um val nýrra manna inn í hópinn. Þetta á ekki að verða kunningjaklúbbur.

 

Að mínum dómi verður að leita annarra aðferða við að afla álita um hæfni umsækjenda, en að spyrja sitjandi Hæstarétt. Ákvörðunina um skipan dómara verður síðan dómsmálaráðherra að taka, hvernig sem þessum undirbúningi yrði háttað. Það er hann sem verður að bera hina pólitísku ábyrgð á ákvörðuninni.“

 

Hvaða skoðun ætli hugmyndafræðingur Ingibjargar Sólrúnar hafi á þessum sjónarmiðum Jóns Steinars? Ég hef haldið fast í það sjónarmið, að ráðherra verði að bera pólitíska ábyrgð á skipan dómara.

 

Athyglisvert er að lesa það, sem Margrét S. Björnsdóttir hefur að segja um utanríkismál í grein sinni. Þar stendur:

 

„Gagnrýnin skoðun á kostum ESB-aðildar umfram EES er hér brýnt verkefni. Ekki er nóg að skoða stöðu EES-samningsins eins og verið er að gera í nefnd forsætisráðherra. Það tengist einnig brottför varnarliðsins, sem mun gera Íslendingum kleift að reka sjálfstæða utanríkisstefnu eftir nær sextíu ára fylgispekt við Bandaríkin.

 

Eftir lítilsvirðandi framkomu Bandaríkjanna gagnvart íslenskum stjórnvöldum á liðnum misserum er líklegt að minni ágreiningur verði um utanríkismál en áður. Eftir stendur að Íslendingar verða að skilgreina sjálfir eigin varnarþörf eins og loksins virðist vera hafist handa um eftir útkomu skýrslu um nauðsyn þjóðaröryggisdeildar.“

 

Í Evrópunefnd forsætisráðherra sitja þau Össur Skarphéðinsson og Bryndís Hlöðversdóttir frá Samfylkingunni. Nú er mér ekki kunnugt hvaða upplýsingum þau hafa miðlað til Margrétar eða annarra í Samfylkingunni um störf nefndarinnar en þau hafa snúist um meira en það eitt að skoða stöðu EES-samningsins. Við höfum rætt um alla þætti samstarfs okkar við Evrópusambandið og meðal annars hitt Olli Rehn, sem fer með stækkun þess innan framkvæmdarstjórnar sambandsins. Ég tel, að Margrét hafi of þröngt sjónarhorn á störf nefndarinnar og umboð hennar samkvæmt erindisbréfi.

 

Íslendingar hafa að sjálfsögðu fylgt sjálfstæðri utanríkisstefnu undanfarin 60 ár hvað sem líður varnarsamstarfinu við Bandaríkin. Í krafti samstarfsins hafa þeir raunar náð meiru fram í utanríkismálum en ella hefði verið. Ég fagna því að sjálfsögðu, ef Samfylkingin er þeirrar skoðunar, að við Íslendingar þurfum sjálfir að huga meira að eigin öryggismálum en áður. Kveður í því efni við nýjan tón í þeim fáu orðum, sem Margrét S. Björnsdóttir lætur falla um þetta mikilvæga verkefni íslenska ríkisins og stjórnmálamanna.