Varnarviðræður, sagan og EES-samningurinn
Tilviljun réð því vafalaust, að enn einn viðræðufundur Bandaríkjamanna og Íslendinga um viðskilnað varnarliðsins og framtíðarsamstarf þjóðanna í varnarmálum skyldi haldinn 7. júlí 2006 nákvæmlega 65 árum eftir að fyrstu bandarísku hermennirnir stigu hér á landi, 7. júlí 1941, en þetta voru jafnframt fyrstu bandarísku hermennirnir, sem stigu á evrópskt land í síðari heimsstyrjöldinni – og það áður en Franklin Roosevelt Bandaríkjaforseti hafði fengið skýra og formlega heimild Bandaríkjaþings til þátttöku í stríðinu við nasista og orrustunni um Norður-Atlantshaf. Árásin á Pearl Harbor var gerð í desember 1941.
Winston Churchill var mikið kappsmál að fá Bandaríkjamenn til þátttöku í stríðinu og ákvörðun Roosevelts um að létta undir með breska hernámsliðinu á Íslandi skipti því miklu, þegar litið var á málið í stærra samhengi en varðaði Ísland sérstaklega. Bandaríkjamenn tóku með þessi skrefi afdráttarlausa afstöðu og hafa síðan verið þungmiðjan í vörnum Vesturlanda á N-Atlantshafi – en umsvif og spenna á tímum kalda stríðsins náði þar hámarki á árinu 1985.
George Bush, varaforseti Bandaríkjanna, kom hingað í heimsókn í byrjun júlí 1983 og ræddi þá meðal annars við Geir Hallgrímsson utanríkisráðherra um mikilvægi Keflavíkurstöðvarinnar og nauðsyn þess, að þar væri fyrir hendi hin besta aðstaða og tækjabúnaðar til að fylgjast með sókn Sovétmanna út á N-Atlantshaf í lofti og á legi.
Ólafur Ragnar Grímsson var ritstjóri Þjóðviljans og jafnframt formaður framkvæmdastjórnar Alþýðubandalagsins, sem var nýfarið úr ríkisstjórn, þegar George Bush kom hingað 1983. Ólafur Ragnar ritaði grein í blað sitt 7. júlí 1983 í tilefni af komu varaforsetans og viðræðum hans við Steingrím Hermannsson forsætisráðherra og Geir Hallgrímsson utanríkisráðherra. Alþýðubandalagsmenn hreyktu sér af því, að hafa beitt neitunarvaldi í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens 1980 til 1983 gegn nýrri flugstöð og auknum varnarviðbúnaði í Keflavíkurstöðinni. Í grein sinni vísaði Ólafur Ragnar til þess, að Geir Hallgrímsson hefði sagt þetta neitunarvald úr sögunni og síðan sagði ritstjóri Þjóðviljans:
„Þess vegna væri hægt að hefjast handa um framkvæmdir við flugstöð og byggja risavaxna eldsneytisbirgðastöð í Helguvík. Bandaríkjamönnum yrði heimilað að reisa þegar í stað öll þau sprengjuheldu flugskýli sem óskað hefði verið eftir. Öflugri sprengjuþotur kæmu til landsins á næstu misserum og nýjar herstöðvar búnar traustum njósnatækjum yrðu reistar fyrir norðan og vestan.
„Bandaríska herinn í sérhvern landshluta“ er greinilega kjörorð hinnar nýju byggðastefnu. Og formaður Framsóknarflokksins [Steingrímur Hermannsson] settist glaður að viðræðuborði um framkvæmd hennar. Enda hóf hnn nú feril sinn sem starfsmaður Íslenskra aðalverktaka, þótt flestir séu reyndar búnir að gleyma því. Reyndar gilti hið sama um Geir okkar Hallgrímsson.
Það sýnir því skemmtilega samhengið í spilverkinu að tveir fyrrverandi starfsmenn Íslenskra aðalverktaka skyldu setjast að samningaborðinu með Bush í Stjórnarráðinu í gær. Á fundinum þeim var rætt um stórfelldustu framkvæmdaumsvif Bandaríkjanna á Íslandi í 30 ár. Allir viðstaddir fögnuðu einlæglega að neitunarvald Alþýðubandalagsins væri ekki lengur hindrun við ríkisstjórnarborðið. Brosin voru breið.“
Tónninn í þessari grein ritstjóra Þjóðviljans ber keim af því, hvernig ritað var um varnarmálin á þessum kalda stríðs árum. Þegar ritstjórinn ræðir um bandaríska herinn í sérhvern landshluta, vísar hann líklega til ratsjárstöðvanna, sem síðar voru reistar við Bolungarvík og á Langanesi milli Þórshafnar og Bakkafjarðar.
Það kemur vafalaust mörgum spánkst fyrir sjónir, að ritstjórinn skuli fjargviðrast yfir nýrri flugstöð á Keflavíkurflugvelli, en hún var Ólafi Ragnari mikill þyrnir í augum og hann kallaði hana til dæmis „monthöll“ í blaðagrein og taldi hana alltof stóra, enda hefði farþegafjöldi Flugleiða dottið á fáeinum árum í tæp 300 þúsund og Atlantshafsflugið berðist í bökkum og þá þætti „ríkisstjórninni nauðsynlegt að reisa flugstöð, sem annað getur rúmlega einni milljón farþega á ári.“ „Græðgin í bandarískt fjármagn“ hefði verið alls ráðandi í umræðum um nýja Keflavíkurflugstöð.
Nú eru nokkur ár liðin frá því að flugstöðin hætti að anna umferðinni og var stækkuð og enn er unnið að stækkun hennar um þessar mundir.
Hitt er annað, sem ekki verður rakið hér, hvaða kveðju Þjóðviljaritstjórinn sendi George Bush og hvað hann sagði um störf varaforsetans og stjórnmálaþátttöku. Andinn var annar, þegar Ólafur Ragnar tók Bush fagnandi á Bessastöðum 4. júlí 2006 og bauð honum til kvöldverðar á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna og leysti hann út með gjöfum.
Árið 1983 voru aðeins sex ár, þar til Berlínarmúrinn hrundi og átta ár að hruni Sovétríkjanna. Staðfesta Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta við að efla hernaðarmátt Bandaríkjanna, meðal annars hér á N-Atlantshafi, réð úrslitum í kalda stríðinu, enda þótti vinum Sovétríkjanna nóg um framtakssemina. Hrun kommúnismans gjörbreytti stöðunni í öryggismálum á N-Atlantshafi og hinn 7. júlí 2006 var rætt um það í Þjóðmenningarhúsinu, hvernig haga ætti varnarsamstarfi Íslendinga og Bandaríkjamanna við þessar gjörbreyttu aðstæður.
Ég sé í Fréttablaðinu sunnudaginn 9. júlí vitnað í vefsíðu Össurar Skarphéðinssonar, þar sem Össur vitnar í grein mína í Þjóðmálum um varnar og öryggismálin. Bendi ég þeim, sem vilja kynna sér viðhorf mín að lesa Þjóðmál en ekki útleggingu Össurar. Það er ímyndun Össurar, að skoðanir mínar á gangi varnarviðræðnanna séu aðrar en felst eða hefur falist í stefnu ríkisstjórnarinnar.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson ritaði grein í Fréttablaðið föstudaginn 7. júli, þar sem hann ræddi erfiða stöðu Samfylkingarinnar og vanda hennar undir formennsku Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, en eins og ég rakti í síðasta pistli mínum mælist fylgi Samfylkingarinnar sífellt minna, eftir að Ingibjörg Sólrún settist í formannsstólinn.
Inga Sigrún Atladóttir guðfræðingur svarar Hannesi Hólmsteini í Fréttablaðinu 9. júlí. Hún segir meðal annars:
„Í grein sinni setur Hannes fram sagnfræðikenningar á skoðanakönnun sem gerð var fyrir nokkru og samkvæmt náttúrueðli Hannesar er honum Samfylkingin hugleiknust. Sagnfræði Hannesar er að sjálfsögðu rökstudd með mikilfengleika Sjálfstæðismanna því í greinum hans endurspeglar sá flokkur jafnan heimsmyndina. Í upphafi röksemdarfærslunnar birtist ein uppáhalds slitna tugga Hannesar um að vegna forystu Davíðs Oddssonar hafi þjóðinni vegnað vonum framar. Hannes veit ekki að uppgangur síðustu ára hefur fyrst og fremst verið vegna opnunar markaða í kjölfar EES-samnings Samfylkingarinnar enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn sýnt það á síðustu árum að hann kann lítið með hagstjórn að fara.“
Hér er einkennilega að orði komist um grein Hannesar Hólmstein um skoðanakannanir, sem sýna öflugt og traust fylgi Sjálfstæðisflokksins en dvínandi fylgi Samfylkingarinnar. Hvernig hefði Hannes Hólmsteinn getað skrifað grein um þetta mál, án þess að hlutur Sjálfstæðisflokksins væri betri en Samfylkingarinnar?
Hitt er síðan enn skrýtnara að tala um „EES-samning Samfylkingarinnar“. Samfylkingin var stofnuð í maí árið 2000 en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með þátttöku Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins gerði EES-samninginn sex til níu árum áður. Það er í besta falli misskilin stórmennska að kenna þennan samning við Samfylkinguna og þeim mun einkennilegra, þegar höfundur telur sig vera að stunda sagnfræðilegar leiðréttingar með grein sinni. Til að hafa það sem sannara reynist má einnig minna á, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sat hjá við afgreiðslu EES-samningsins á alþingi. Raunar er það argasta sögufölsun að láta eins og Sjálfstæðisflokkurinn eigi ekki hlut að EES-samningnum, hann hefði einfaldlega aldrei komist í höfn án stuðnings flokksins og forystu Davíðs Oddssonar.