1.7.2006

Vandasamar umræður – Samfylking í frjálsu falli.

Að stofna til umræðna um íslensk öryggismál, hvort sem um er að ræða hernaðarlegt öryggi eða lögreglumál, er ávallt vandasamt. Í raun má segja, að lítil hefð sé fyrir slíkum umræðum á faglegum grunni – ekki síst um hernaðarmál. Að þessu leyti má segja, að brautryðjendastarf hafi verið unnið á vettvangi öryggismálanefndar, sem starfaði á níunda áratugnum. Í nafni nefndarinnar voru gefin út rit um hernaðarlega þætti öryggismálanna og leitast við að líta á þá frá öðrum sjónarhóli en þeim, sem mótaðist af flokkspólitískum viðhorfum.

Ég beitti mér fyrir því í mars 2006, að hingað kæmu tveir sérfróðir menn frá ráðherraráði Evrópusambandsins (ESB) til að gera úttekt á stöðu íslenska stjórnkerfisins að því er varðar varnir gegn hryðjuverkum. Þeir dvöldust hér í nokkra daga og ræddu við stjórnmálamenn og embættismenn og skrifuðu síðan skýrslu um málið, sem ég kynnti ásamt öðrum höfunda hennar, dr. Niels Bracke, hollenskum lögfræðingi, fimmtudaginn 29. júní.

Í fréttatilkynningu um skýrsluna sagði í lokin: „Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur ákveðið að setja á laggirnar starfshóp til að vinna úr tillögum í matsskýrslunni og að þeim ákvæðum nýsettra laga um lögreglumál, sem fjalla um greiningu og áhættumat. Í hópnum sitja Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, formaður, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, sýslumaður á Ísafirði, Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, en Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, er ritari hópsins.“

 

Öllum, sem skýrsluna lesa, er ljóst, að meginhugmynd höfunda hennar um, að komið verði á fót nýrri deild, þjóðaröryggisdeild, hjá embætti ríkislögreglustjóra, verður ekki að veruleika án nýrrar löggjafar. Hópurinn, sem nefndur var í fréttatilkynningunni, á ekki að semja lagatexta heldur ber honum að líta til þeirra þátta í skýrslunni, sem verða að gagni við að framkvæma þann þátt nýsettra laga um lögreglumál, sem snertir greiningu og áhættumat, en við afgreiðslu þess frumvarps náðist meiri sátt um málið á þingi, en ætla hefði mátt eftir hinar stóryrtu yfirlýsingar, sem til dæmis Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, gaf, þegar ég kynnti frumvarpið á þingi. Einnig minnist ég ræðu Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, við fyrstu umræðu um málið á þingi hinn 14. febrúar 2006, þegar hann réðist að mér af mikilli heift.

 

Eftir að málið hafði fengið meðferð í allsherjarnefnd alþingis skilaði hún samhljóða áliti um frumvarpið, en einstakir nefndarmenn úr stjórnarandstöðunni lýstu fyrirvara eins og oft er gert. Í áliti nefndarinnar segir:

 

„Nokkur umræða fór fram um það hvort þörf væri á því að koma á lögbundnu eftirliti með rannsóknar- og greiningarstarfi lögreglunnar. Telur nefndin mikilvægt að umræða um frekari rannsóknarheimildir lögreglu fari ekki fram án þess að þörf fyrir slíkt eftirlit verði metin og tekið til skoðunar hvernig slíku eftirliti mætti koma við. Margar leiðir geta komið til greina í því sambandi, þeirra á meðal aðkoma sérstakrar þingnefndar.“

 

Allt annað var að heyra sjónarmið Björgvins G. Sigurðssonar í umræðum um málið á þingi 2. júní 2006, þegar hann sagði meðal annars um ofangreind orð í nefndarálitnu:

 

„Það er sá háttur sem oft er hafður á, að sérstök eiðbundin þingnefnd hafi það hlutverk að hafa eftirlit með starfsemi leyniþjónustu, öryggislögreglu og greiningardeilda og þeirri starfsemi sem þar er stunduð og kannski er það langfarsælasta leiðin, enda ekki einboðið hvernig slíku eftirliti skal háttað. Við sem undir þetta ritum af hálfu stjórnarandstöðunnar leggjum mikla áherslu á að það fari fram hið fyrsta og tillaga fylgi þá boðuðu frumvarpi um frekari heimildir til handa greiningardeildinni um lýðræðislegt eftirlit, að um leið og frekari rannsóknarheimildir til lögreglu er skoðuð og þörfin á henni metin sé það skoðað sérstaklega hvernig slíku lýðræðislegu, lögbundnu eftirliti með rannsóknar- og greiningarstarfinu sé best háttað. Umræðan um þetta er nokkuð uppi núna þessa dagana í samhengi og sambandi við uppljóstranir um hleranir stjórnvalda fyrr á tímum og starfsemi sem því tengist, símhlerunum á að því er virðist pólitískum andstæðingum, fjölmiðlum og verkalýðsleiðtogum þess tíma og varpar það ágætu ljósi á hvað það er mikilvægt að eftirliti með slíkri starfsemi sé vel og haganlega fyrir komið þannig að það blandist engum blandist hugur um að þar sé allt með felldu og það sé eðlilegt og sanngjarnt eftirlit með slíkri starfsemi.“

 

Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri/grænna sagði í þingumræðunum 2. júní 2006, þegar hann ræddi greiningardeildina:

 

„Sú grundvallarbreyting sem hér er gerð felst í raun ekki í lagalegum heimildum sem lögreglunni eru veittar heldur í breyttri hugsun og aðkomu. Í stað þess að leita uppi glæpamann eða meintan glæpamann, eftir að glæpurinn hefur verið framinn, er lögð meiri áhersla á fyrirbyggjandi starf, að grafast fyrir um hver sé líklegur til þess að fremja glæp, í þessu tilviki hryðjuverk. Þar erum við komin inn á svæði sem vandratað er um og ég legg áherslu á að eftir því sem við göngum lengra inn á þetta svæði förum við nær því að njósna um fólk, fylgjast með fólki. Þá er þörf á sterku lýðræðislegu aðhaldi.“

 

Ég hét þingheimi því í umræðum málið og hef ítrekað þá skoðun á öðrum vettvangi, að ekki verði gengið lengra í heimildum til lögreglu á þessu sviði nema með nýjum lögum og eftirliti af hálfu dómara og fulltrúa alþingis. Skýrsla sérfræðinga ESB hefur einmitt að geyma ábendingar af þessum toga og þar er að finna mjög gott yfirlit bæði yfir stöðu mála hér á landi og þær leiðir, sem önnur ríki hafa valið, en samkvæmt skýrslunni er Ísland eina ríkið, sem ekki rekur slíka öryggisdeild lögreglu.

 

Í ljósi þess, sem gerðist á þingi við afgreiðslu lögreglulaganna, vænti ég þess, að þingmenn hafi skilning á því, sem fram kemur í matsskýrslunni um hryðjuverkavarnir á Íslandi. Ögmundur Jónasson hefur ítrekað, að hann studdi lögreglulögin 2. júní sl. og áréttað sjónarmið sín um aðkomu alþingis, ef frekari skref verða stigin. Hið sama er að segja um Össur Skarphéðinsson, þingmann Samfylkingarinnar. Össur á hins vegar í erfiðleikum með að ræða málið vegna óvildar sinnar í garð ríkislögreglustjóra, sem villir honum sýn og er honum ekki til neins sóma. Á vefsíðu sinni segir Össur meðal annars:

 

„Þessvegna var illa af stað farið, þegar ríkisstjórnin setti á fót nefnd sérvalinna embættismanna til að ræða og útfæra hugmyndirnar. Það hefði verið ráðlegt af henni að fá fulltrúa stjórnmálamannanna, sem þurfa að ræða málið og afgreiða það á Alþingi, til að taka þátt í útfærslu þess - ef henni er í mun að skapa frið um málið. Hugsanlega hefði það komið í veg fyrir margskonar torfærur, sem ég spái að eigi eftir að verða á vegi málsins. Þarna var illa farið af stað með umdeilt og viðkvæmt mál.“

 

Ríkisstjórnin hefur ekki sett neina slíka nefnd á laggirnar. Embættismannanefndin, sem getið var í fréttatilkynningunni og ég vísaði til hér að ofan, hefur ekkert umboð til að semja lagafrumvarp, eins og lagt er til í skýrslunni. Ég hef fullan hug á að eiga sem best samband við þingmenn verði ráðist í að semja lög á grundvelli þessarar skýrslu, yrði slíkt samráð í samræmi við orð mín um þetta efni. Mér finnst líklegt, að ég leiði lagasmíðina sjálfur og fái fulltrúa þingflokka til samstarfs um verkið. Í netfærslu sinni er Össur einfaldlega kominn einum of langt á villubraut, sem hann hefur sjálfur lagt.

 

Í fréttum hljóðvarps ríkisins kl. 18.00 30. júní birtist þessi frétt:

 

„Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, segir að sér hugnist vel hugmynd um Þjóðaröryggisdeild undir embætti ríkislögreglustjóra. Dómsmálaráðherra kynnti í gær niðurstöðu skýrslu sérfræðinga Evrópusambandsins um öryggismál þar sem lagt er til að slík deild verði stofnuð.

Guðni segir að vegna brotthvarfs Bandaríkjahers af landinu hljóti íslensk stjórnvöld að verða að auka burði sína til að verja landið, enda aukist skyldur íslenskra stjórnvalda. Hann segir að helst stafi landinu ógn af skipulagðri glæpastarfssemi. Honum hugnast vel sú hugmynd að setja á stofn Þjóðaröryggisdeild en kallar hana upplýsingalögreglu.

Guðni Ágústsson. landbúnaðaráðherra: Ég er í engum vafa um það að núna þegar við tökum við þessu nánast, Íslendingar, þá þurfum við auðvitað að á því að halda að hafa upplýsingar lögreglu sem fylgist auðvitað með því sem er að gerast í heiminum og er í sambandi við alla öryggisaðila um víða veröld. Þannig að ég held að þessi hugmynd hans sé ágæt og þurfi að vinna úr henni.

Fréttastofa náði tali af Guðna þar sem hann var staddur á landsmóti hestamanna norður í Skagafirði. Hann sagði af því tilefni að kjörið væri að nýta hesta við löggæslu í Reykjavík.

Guðni Ágústsson: Mig dreymir alltaf um það, þegar maður kemur í stórborg sér maður lögreglumenn á hestum, þessu stóru klunnalegum. Það væri nú verðugt verkefni ef lögreglan í Reykjavík væri á glæstum gæðingum. Við eignuðumst okkar riddaralið. Það mundi setja svip á borgina og svip á, svip á lögregluna og kannski verða til þess að auðvelda henni starf og virðingu

 

Ég fagna þessum stuðning Guðna við málið og hugmynd hans um riddaralið lögreglunnar er allrar athygli verð. Raunar finnst mér Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, hafa brugðist einkennilegast við málinu af stjórnmálamönnum en hann sagði í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins 29. júní:

 

„Ja mér líst ekkert betur á þetta en fyrri hugmyndir Björns Bjarnasonar og ríkislögreglustjóra og þeirra sem hafa verið að brölta með þessar hugmyndir um her eða öryggislögreglu eða leynilögreglu. Þetta er svona eitthvert sérstakt áhugamál og liggur við að vera þráhyggja einstakra manna og á náttúrulega ekki að bera þannig að að svona hlutir ráðist af persónulegum áhuga einstaklinga.“

 

Mér finnst orðin sýna, að Steingrímur J. vissi ekkert um málið, þegar hann sagði þetta, því að það snýst um skýrslu tveggja sérfræðinga á vegum Evrópusambandsins en ekki neinar hugmyndir frá mér eða ríkislögreglustjóra.

 

Morgunblaðið og Blaðið fjalla um málið í forystugreinum sínum laugardaginn 1. júlí. Í Morgunblaðinu segir meðal annars:

 

„Það er auðvelt að tala um varnir Íslands í hálfkæringi, en hafa ber í huga að Ísland er hluti af umheiminum og stendur ekki utan hans. En um leið þarf að gæta þess að ekki verði gengið á réttindi einstaklingsins og taka fullt tillit til þeirra sjónarmiða, sem lúta að persónuvernd og friðhelgi einkalífsins. Baráttan gegn hryðjuverkum snýst vitaskuld um mannslíf, en hún lýtur einnig að átökum um grundvallaratriði og -gildi. Í þeirri baráttu má ekki leggja gildin, sem verið er að verja, fyrir róða.

Skýrsla sérfræðinga Evrópusambandsins er þarft innlegg í umræðuna um öryggismál Íslands og greinilegt að byggja má á henni. Eins og dómsmálaráðherra sagði er betra að koma í veg fyrir að eitthvað gerist en að bíða eftir því.“

Ásgeir Sverrisson, ritstjóri Blaðsins, segir meðal annars í forystugrein sinni: ....[F]ullkomið ábyrgðarleysi væri að huga ekki að innra öryggi á þeim hættutímum sem nú ríkja.

Mikilvægt er á hinn bóginn að öryggislögreglan hljóti aðhald og sæti viðvarandi og ströngu eftirliti. Vísast er við hæfi að þingheimi verði falið það t. a. m. með stofnun sérstakrar nefndar. Þessi stofnun mun óhjákvæmilega vekja tortryggni og grunsemdir og nauðsynlegt er að tilteknir fulltrúar fólksins hafi aðgang að upplýsingum og geti kallað ráðamenn hennar á sinn fund.

Stofnun íslenskrar öryggislögreglu telst seint gleðifrétt en er nauðsynleg ráðstöfun frammi fyrir breyttum heimi.“

Í Fréttablaðinu kveður við annan tón 1. júlí hjá föstum pennum blaðsins þeim Guðmundi Steingrímssyni og Þráni Bertelssyni.

Guðmundur segir meðal annars:

„Einu sinni vildi tiltekinn hægriöfgamaður í ráðherrastétt stofna hér her. Væntanlega hafa hetjudáðir Víkingasveitarinnar við að afvopna fulla karla með hárþurrkur sannfært hann um nauðsyn herliðs. Nú berast fregnir af því að þessi maður vilji stofna leyniþjónustu. Gott og vel, segi ég. Kannski þurfum við njósnara. Ég sé nefnilega hætturnar við lýðræði og þjóðaröryggi hvarvetna....

Ég held, að þjóðaröryggisdeildin muni ekki stuðla að öryggi þjóðarinnar heldur verður henni fyrst og fremst ætlað að stuðla að öryggi valdamanna frá þjóðinni.... Og það er sama hvað dómsmálaráðherrann segir um að nú eigi að vernda borgarana með njósnadeild og stuðla að öryggi. Eftir stendur að hann er enginn Súpermann og verður aldrei.“

Þráinn Bertelsson hugsar til Stasi í A-Þýskalandi, þegar hann ræðir matsskýrsluna um hryðjuverkavarnir og telur, að hann hafi ritað „forvirkar bókmenntir“ með bókinni Valkyrjur og segir: „Ég var svartsýnn og gekk út frá því að laumufasistum mundi takast að koma hér upp leyniþjónustu, símahlerunum og njósnum og kalla fíniríið „þjóðaröryggisdeild“ að hætti þeirra Stasi-manna. Nú er veruleikinn aftur farinn að elta skáldskapinn. Dómsmálaráðherrann segir að „erlendir sérfræðingar“ vilji að hann stofni leyniþjónustu sem heyri undir hið virta embætti Ríkislögreglustjóra. Og það er einmitt um afreksverk leynilegrar þjóðaröryggisdeildar sem bókin VALKYRJUR fjallar. Ég var að reyna að semja „forvirkar bókmenntir“.“

Ég hélt, að orð eins og „hægriöfgamaður“ eða „laumufasisti“ hefðu horfið úr íslenskum stjórnmálaumræðum með kalda stríðinu, en sé af skrifum þeirra Guðmundar og Þráins, að það er misskilningur. Hvað skyldu þeir kalla embættismenn Evrópusambandsins, sem sömdu matsskýrsluna?

Samfylking í frjálsu falli.

Í morgunfréttum hljóðvarps ríkisins 30. júní var þessi frétt sögð:

„Samfylkingin er með 24% fylgi samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og hefur það minnkað um 10% frá síðustu könnun fyrir fjórum mánuðum. Sjálfstæðisflokkurinn tapar lítillega en aðrir flokkar vinna á.

Í könnuninni var hringt í 800 kjósendur og var svarhlutfall 65%. Mestu fylgisbreytingarnar eru hjá Samfylkingunni. Í síðustu könnun blaðsins í febrúar var hún með 34,4% fylgi en er nú með 24,2%. Flokkurinn hefur því tapað 10% á þessum fjórum mánuðum og hefur fylgið ekki verið lægra á kjörtímabilinu. Sjálfstæðisflokkurinn er með 42,5% fylgi og tapar lítillega frá síðustu könnun. Framsóknarflokkurinn er með 10,6% og bætir við sig 4% sem og Vinstri-grænir sem mælast nú með 14,8%. Frjálslyndir eru með 6,2% fylgi en voru með 3,5% í síðustu könnun Fréttablaðsins. Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri, segir fylgistap Samfylkingarinnar í samræmi við þá þróun sem verið hafi.

Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri: Samfylkingin hefur ekkert verið að ná sér á strik eftir að Ingibjörg Sólrún tók við formennskunni og það hafa verið allskyns efasemdarraddir uppi um hversu heppilegt það hafi verið eða hversu vel heppnuð þessi forystuskipti voru og þær raddir hljóta að vaxa verulega núna og gætu hugsanlega hvað úr hverju farið að valda henni sjálfri vandræðum inni í flokknum.

Birgir segir það einnig vekja athygli að stjórnarflokkarnir komi vel úr könnuninni og telur það benda til ánægju með nýafstaðna endurskoðun kjarasamninga.“

Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins þennan sama dag, 30. júní, var þessi frétt:

„Umtalsverðar breytingar hafa orðið á fylgi stjórnmálaflokkanna samkvæmt nýrri könnun Gallup. Fylgi Samfylkingarinnar er nú 25% og hefur ekki mælst minna á árinu.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig frá síðustu könnun Gallup og mælist nú með 43% fylgi en fékk 34% í síðustu kosningum. Vinstri græn eru líka í sókn og eru með 19%, sem er liðlega tvöfalt fylgi flokksins í kosningunum 2003. Fylgi Framsóknarflokksins er 9%, svipað og í könnunum undanfarið en aðeins helmingur af kosningafylginu. Frjálslyndir eru með 4% en fengu 7% í síðustu kosningum. Samfylkingin er samkvæmt Gallup með 25% fylgi, sem er talsvert minna en í síðustu könnun og þriðjungi minna en í síðust kosningum. Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir flokksmenn auðvitað ekki sátta við þetta.

Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingar: Og mér finnst þetta vera nokkuð skýr skilaboð til okkar. Að við þurfum að skoða okkar málflutning vegna þess að ég tel að málefnastaða Samfylkingarinnar sé mjög góð.

Margrét segir að innan flokksins hafi verið unnið mikið málefnastarf undanfarið og það verði kynna svo eftir verði tekið. Fram kemur í könnun Gallup að fylgi ríkisstjórnarinnar hafi aukist úr tæpum 50% í 56%. Margrét furðar sig á því, enda hafi verið hart deilt á stjórnina meðal annars fyrir frammistöðu hennar í málefnum fatlaðra, aldraðra, í heilbrigðismálum og nú síðast fyrir að skera niður vegaframkvæmdir úti á landi. Staðan eigi eftir að breytast en sé auðvitað umhugsunarefni fyrir Samfylkinguna.

Fréttamaður: En er ekki alveg viðbúið, nú er kosningavetur framundan, ef að Samfylkingin réttir ekki úr kútnum, fljótlega. Að þá komi upp kröfur um að það verði gerður breytingar á forysturöddinni?

Margrét Frímannsdóttir: Ég á ekki vona á því vegna þess að það er mikil eining um forystusveit flokksins.

Í Morgunblaðinu 1. júlí er miðopnuviðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, um stjórnmálaviðhorfið. Hún segist vilja Ísland í Evrópusambandið en virðist hafa minni áhuga á að taka upp evruna en áður. Því miður er ekki spurt um afstöðu hennar til öryggis- og varnarmála. Vikið er að döpru fylgi Samfylkingarinnar samkvæmt skoðanakönnunum. Ingibjörg Sólrún segir:

„Það er hæpið að tala um þetta sem 10 prósentustiga fylgistap vegna þess að almennt höfum við verið að mælast með í kringum 30% fylgi í könnunum. Það er ef til vill ekki rétt að taka þær kannanir sem hæst fara og mæla allt tap út frá því.

En auðvitað er þetta ekki niðurstaða sem ég er sátt við. Ég hef ekki haft tök á því að velta því mikið fyrir mér hvað veldur, en þarna koma sjálfsagt að einhverju leyti inn sveitarstjórnarkosningarnar. Þarna endurspeglast vonbrigði flokksmanna með það hversu óvíða Samfylkingin er í meirihluta að þeim loknum, flokksmenn vilja að flokkurinn komist til áhrifa. Ég tel líka að ímynd flokksins sé ekki nægilega skýr í huga fólks, og það er þá bara okkar verkefni að skýra hana.

Ef flokkinum er að fatast flugið hlýt ég að eiga minn þátt í því. Ég get ekki horft fram hjá því. En það er auðvitað bara verkefni að vinna úr. Það er enginn vafi í mínum huga að Samfylkingin á meira inni hjá þjóðinni, ég hef það mjög sterkt á tilfinningunni að það sé dulin löngun hjá þjóðinni til að sjá annað stjórnarmynstur að loknum næstu kosningum. Ef það á að verða að veruleika verður Samfylkingin að gegna þar lykilhlutverki, og mun gera það.“

Eftir sveitarstjórnarkosningarnar talaði Ingibjörg Sólrún um flokk sinn sem 30% flokk. Ég var ekki sömu skoðunar og taldi, að fylgi flokksins væri um 25%. Þessar tvær kannanir, sem birtar voru 30. júní, staðfesta þá skoðun.