18.6.2006

Viðburðarík vika.

 

Síðasta vika var viðburðarík í stjórnmálunum. Tveir sögulegir atburðir gerðust, sem færðir verða á spjöld sögunnar. Vilhjálmur Þ  Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, varð hinn 13. júní borgarstjóri í meirihlutasamstarfi sjö sjálfstæðismanna og Björns Inga Hrafnssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, varð hinn 15. júní forsætisráðherra í ríkisstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna.

 

Ný borgarstjórn.

 

Um langan aldur var litið á það sem óskrifaða reglu, að í borgarstjórn Reykjavíkur myndu sjálfstæðismenn aldrei axla meirihlutaábyrgð nema þeir sætu einir í meirihlutanum – þeir myndu með öðrum orðum ekki setjast í stjórn með öðrum og mynda þannig meirihluta í borgarstjórn. Þessi ímyndaða regla kann að hafa auðveldað stofnun R-listans fyrir rúmum 12 árum – það lá í loftinu, að eina leið vinstrisinna til að komast í meirhluta í borgarstjórn væri að sameina krafta sína gegn sjálfstæðismönnum, þeir myndu hvort sem er aldrei mynda meirihluta með neinum í borgarstjórn.

 

Á liðnu kjörtímabili borgarstjórnar, þegar R-listinn tók að liðast í sundur, varð forystumönnum innan hans ljóst, að við sjálfstæðismennirnir í borgarstjórn útilokuðum alls ekki að ganga til meirihlutasamstarfs við einhvern flokkanna, sem mynduðu R-listann. Þegar á reyndi, vildi hins vegar enginn R-listaflokkanna verða fyrstur til að rjúfa samstarfið og mynda meirihluta með okkur. Þeir völdu að segja skilið við R-listann í aðdraganda kosninganna  og var það í sjálfu sér skondið, hvernig það gerðist – en innan R-listans virðist almennt talið, að kenna eigi vinstri/grænum um hvernig fór fyrir samstarfinu.

 

Áróður í þessa veru gegn vinstri/grænum finnst mér heldur innan tómur – við blasti í ársbyrjun 2003, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hraktist undan sjálfri sér úr stól borgarstjóra, að R-listinn hefði tekið sér varðstöðu um fortíðina, án þess að hann hefði nokkra stefnu til framtíðar. Það var helst Dagur B. Eggertsson, sem reyndi að berja í brestina með tali um framtíð Vatnsmýrarinnar og alþjóðlega hugmyndasamkeppni um hana – allt það brölt hefur nú verið úrskurðað ólöglegt af kærunefnd útboðsmála!

 

Skoðanakannanir í aðdraganda kosninganna gáfu til kynna allt fram undir hið síðasta, að sjálfstæðismenn kynnu að fá meirihluta í borgarstjórn. Þess vegna var ekki mikið rætt um það í kosningabaráttunni, hvort sjálfstæðismenn myndu fúsir að mynda meirihluta með öðrum og þá hverjum. Það lá hins vegar í loftinu, að sjálfstæðismenn útilokuðu ekki samstarf við neinn að kosningum loknum.

 

Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstri/grænna, sagði undir lok kosningabaráttunnar, að hún myndi láta málefni ráða, hvernig samstarfi yrði háttað í borgarstjórn. Þá fóru að koma boð frá forystu Samfylkingarinnar um, að flokkurinn myndi ekki starfa með sjálfstæðismönnum í borgarstjórn, hann væri þannig meiri andstæðingur sjálfstæðismanna en vinstri/græn. Hinn 22. maí 2006 ritaði Ingibjörg Sólrún grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni Dagur eða Vilhjálmur, og sagði þar m. a.:

 

„Athyglisvert er að oddvitar Framsóknarflokksins, Frjálslyndra og Vinstri grænna hafa allir haldið þeim möguleika opnum að mynda meirihluta með Sjálfstæðismönnum eftir kosningar [í borgarstjórn Reykjavíkur].  Þetta þýðir að eini öruggi kosturinn fyrir þá kjósendur sem ekki vilja afhenda Sjálfstæðisflokknum völdin í borginni er að kjósa Samfylkinguna á laugardaginn.  Kosningabaráttan í borginni hefur staðfest að það skiptir máli hverjir stjórna.  Valið er skýrt – sérgæska Sjálfstæðisflokksins, þar sem hver og einn verður að bjarga sér sjálfur eða sterkt borgarsamfélag Samfylkingarinnar þar sem allir eru með.“

 

Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri/grænna í Reykjavík, tók grein Ingibjargar Sólrúnar illa og sagði á vefsíðu sinni 23. maí: „[E]r dapurlegt að oddvitar Samfylkingarinnar skuli á síðustu metrum kosningabaráttunnar verja kröftum sínum í að níða skóinn niður af Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Það stendur jú til að við störfum saman að afloknum kosningum - eða er ekki svo? “

 

Í Morgunblaðinu 25. maí sagði Ögmundur:

Nokkuð erfitt er að átta sig á hvað vakir fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar í grein sem hún skrifar í Morgunblaðið á þriðjudag annað en að gera lítið úr hugsanlegum samherjum Samfylkingarinnar í félagshyggjumeirihluta í borginni. Hún fjallar þar um þá „mikilvægu yfirlýsingu fyrir borgarbúa“  frá Degi B. Eggertssyni, „borgarstjóraefni“ Samfylkingarinnar um að „það komi ekki til greina að gefa eftir borgarstjórasætið í samningum við framsóknarmenn, frjálslynda eða vinstri græna.“ Athygli vekur að hvergi eru útlokaðir slíkir samningar við Sjálfstæðisflokkinn, þann flokk sem Ingibjörg Sólrún telur koma til greina að Samfylkingin starfi með í Stjórnarráðinu að afloknum næstu þingkosningum.“

Þegar úrslit kosninganna lágu fyrir, tók Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, sér strax fyrir hendur að leita eftir samstarfi fjögurra flokka gegn sjálfstæðismönnum og efndi til fundar um málið með fulltrúum flokkanna að morgni sunnudagsins eftir kosningar, 28. maí, í bókasafni tilraunastöðvarinnar að Keldum. Það var af þeim fundi, sem Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi frjálslyndra, gekk til að fá sér hádegisverð og lét síðan ekki meira frá sér heyra á þeim vettvangi. Sjálfstæðismenn ræddu við Ólaf F. en það var borin von, að unnt yrði að semja við hann og var honum sagt frá því síðdegis mánudaginn 29. maí en þá voru línur að skýrast á þann veg, að Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi framsóknar, vildi starfa með sjálfstæðismönnum og hinn 30. maí var það samstarf kynnt opinberlega.

Vinstri/græn í Reykjavík urðu einhvern veginn að engu strax eftir kosningar og raunar eiga vinstri/græn undir eigin nafni aðeins fulltrúa í meirihluta í einni sveitarstjórn, það er í Mosfellsbæ með Sjálfstæðisflokknum. Fréttamaður hljóðvarps ríkisins spurði Steingrím J. Sigfússon, formann vinstri/grænna, í hádeginu hinn 10. júní, hvort flokkssystkini hans hefðu kannski ekki verið nægilega sveigjanleg. Steingrímur J. sagði meðal annars í svari sínu: „Vissulega var okkar fólk í langflestum tilvikum nýtt og var að stíga sín fyrstu skref. Það getur vel verið að í einhverjum tilvikum hafi það ekki kunnað alla klækina eða verið útlært í baktjaldamakkinu sem sumir aðrir eru sérfræðingar í en við ætlum okkur hvort sem er ekkert að vinna þannig og ætlum okkur ekki að ofurselja okkur valdastjórnmálunum. Við leggjum árherslu á málefnin við, við háðum okkar baráttu á grundvelli málefna og við náðum góðum árangri á grunvelli málefna og þannig viljum við vinna.“

Ég veit ekki, hvort flokksformaðurinn er hér að vísa til Svandísar í Reykjavík, en Árni Þór Sigurðsson, annar borgarfulltrúi vinstri/grænna, veit vel hvað klukkan slær í bakherbergjum borgarstjórnar.

Eftir að hafa setið í borgarstjórn í fjögur ár og fylgst með því, hve nokkur hópur embættismanna virtist samofinn R-listanum og hve ítökin í ráðhúsinu hafa verið flokkslega mikilvæg fyrir R-listaflokkana, er ég þeirrar skoðunar, að missir meirihlutans í Reykjavík sé flokkslega erfiður fyrir þá alla og þó sérstaklega Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu, enda tók hún strax að ræða um hina flokkslegu innviði, hverfafélög og annað slíkt, þegar hún sá, að ráðhúsítökin voru að hverfa – fundir undir merkjum borgarstjórnar og í nafni borgarstjóra hafa verið leið Samfylkingarinnar að borgarbúum – nú hefur þessari leið verið lokað.

Í aðdraganda þess að málefnasamningur og verkaskipti milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í borgarstjórn yrðu kynnt, var látið í veðri vaka af andstæðingum flokkanna, að sjö sjálfstæðismenn væru að gefa óeðlilega mikið eftir gagnvart einum framsóknarmanni. Þetta tal hefur fokið út í veður og vind, eftir að niðurstaða samninga flokkanna var birt. Þá var blásið til sóknar gegn þeim með vísan til þess, að hlutur kvenna væri ekki nægur. Þegar helstu stjórnir og ráð eru skoðuð, kemur í ljós, að þar situr 21 kona fyrir Sjálfstæðisflokkinn á móti 19 körlum.

Hvernig sem á málið er litið er ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hafi haldið vel á málum í borgarstjórn, þegar við blasti, að sjálfstæðismenn yrðu þar fjölmennastir og bæru þyngsta ábyrgð á að tryggja starfhæfan meirihluta innan borgarstjórnar. Vonandi sjást merki um breytt og betri tök á stjórn borgarinnar sem fyrst.

Af myndun meirihluta sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í borgarstjórn Reykjavíkur er síðan unnt að draga þann sögulega, pólitíska lærdóm, að vinstri flokkarnir þurfa ekki oftar að sameinast gegn sjálfstæðismönnum, til að einhver þeirra komist í meirihluta innan borgarstjórnar.

Ný ríkisstjórn.

Ég hef ekki tölu á því, hve oft hefur verið skipt um ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins síðan ég settist í hana við myndun hennar 23. apríl 1995. Raunar er unnt að sjá það með því að skoða síðuna mína, því að allan þann tíma, sem samstarf flokkanna hefur staðið, hef ég haldið úti síðunni og sagt frá því, þegar ráðherrar hafa horfið og nýir komið í þeirra stað – svo framarlega sem ég hef setið í stjórninni, því að frá 2. mars 2002 og til 23. maí 2003 var ég utan ríkisstjórnar, þegar ég lagðist í víking gegn R-listanum.

Breytingin, sem varð á ríkisstjórninni hinn 15. júní, er hin mesta á þessum rúmu 11 árum – þrír ráðherrar hurfu að vettvangi, þar á meðal forsætisráðherrann og þrír nýir komu í þeirra stað, þar af einn, sem ekki hefur verið kjörinn á alþingi, Jón Sigurðsson, seðlabankastjóri.

Það eitt, að Halldór Ásgrímsson hyrfi af vettvangi stjórnmálanna eftir 32 ára setu á alþingi og rúm 19 ár í ríkisstjórn, hefði markað söguleg tímamót en í raun virðast framsóknarmenn einnig að vera að búa sig undir forystuskipti í flokki sínum með því að kalla á Jón Sigurðsson til stjórnmálastarfa. Hann hefur áður lagt flokki sínum lið á margvíslegan hátt, til dæmis með því að leiða umræður framsóknarmanna um Evrópumál.

Ég ætla ekki að ræða innanflokksmál framsóknarmanna, enda byggist farsæld stjórnsamstarfs okkar sjálfstæðismanna við þá á því, að hvorugur flokkanna er að hlutast til um málefni hins á svipaðan hátt og greina má á milli vinstri/grænna og samfylkingarfólks, þar sem virðist einhver metingur um, hvor sé hollari pólitískum tískubylgjum.

Halldór Ásgrímsson hefur lagt mikið af mörkum til íslenskra stjórnmála undanfarna þrjá áratugi. Hann var varaformaður Framsóknarflokksins 1980 til 1994, þegar hann var kjörinn flokksformaður. Ég hef oft dáðst af hinum mikla dugnaði Halldórs og miklum ferðalögum hans innan lands og utan, ekki síst á meðan hann sinnti samtímis formennsku í flokki sínum og embætti utanríkisráðherra. Við töku ákvarðana við ríkisstjórnarborðið auðveldaði það oft að komast að niðurstöðu, hve víðtæka reynslu Halldór hafði af ráðherrastörfum og var vel heima á mörgum sviðum. Við brottför hans úr ríkisstjórninni þykir mér hann hafa fengið of kaldar kveðjur úr ólíkum áttum og óverðskuldaðar – ég er viss um, að dómur sögunnar um Halldór verði ekki eins ónotalegur og margt af því, sem sagt hefur verið. Á þessum áratug, sem við Halldór höfum setið saman í ríkisstjórn, hefur aldrei borið skugga á samstarf okkar, þótt við höfum ekki verið sammála um allt.

Eins og ég sagði í síðasta pistli kemur Geir H. Haarde sterkur frá því að mynda nýja ríkisstjórn – hann hefur einhuga þingflokk og miðstjórn sjálfstæðismanna að baki sér og í ræðu sinni á Austurvelli hinn 17. júní mæltist honum vel, þegar hann ávarpaði þjóðina í fyrsta sinn sem forsætisráðherra.

Þegar skipan nýrrar ríkisstjórnar komst á skrið um síðustu helgi, var eins og allur vindur hyrfi úr stjórnarandstöðunni. Hafi hún gert sér vonir um, að ná sér á strik vegna afsagnar Halldórs Ásgrímssonar, hafa þær runnið út í sandinn.

Ingibjörg Sólrún talar um „blágrænt hræðslubandalag“ sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Í sögubókum er orðið „hræðslubandalag“ notað um kosningasamtökin, sem Alþýðuflokkur, forveri Samfylkingarinnar, og Framsóknarflokkur gerðu með sér fyrir alþingiskosningarnar 24. júní 1956 með sameiginlegu framboði í öllum kjördæmum til þess að reyna að ná meirihluta á alþingi, sem tókst ekki. Andstæðingar flokkanna kenndu þessi kosningasamtök þeirra við hræðslubandalag en forsvarsmenn flokkanna tveggja nefndu samtök sín ýmist Bandalag umbótaflokkanna eða Umbótabandalagið – þau orð hafa gleymst.

Að Ingibjörg Sólrún, formaður Samfylkingarinnar, sem er einskonar kosningasamtök þriggja flokka, Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Kvennalista, til að ýta sjálfstæðismönnum endanlega til hliðar, eins og var markmið hræðslubandalagsins, skuli á 50 ára afmæli þeirrar tilraunar meta stöðu sína á þann veg, að hún standi frammi fyrir kosningasamtökum sjálfstæðismanna og framsóknarmanna vegna þingkosninganna vorið 2007 endurspeglar óvenjulega pólitíska svartsýni, ef ekki vonleysi og vanmátt.

Hinn 10. júní, þegar við blasti, að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn myndu starfa áfram í ríkisstjórn undir forsæti Geirs H. Haarde sagði Steingrímur J. Sigfússon: „Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé hér að taka mikla áhættu, með því að setja upp þetta hjúkrunarheimili fyrir Framsóknarflokkinn næstu mánuðina.“

Steingrímur J. hefur ekki talað á þennan veg, eftir að Geir H. Haarde myndaði ríkisstjórn sína. Framsóknarflokkurinn er greinilega einfær um að leysa eigin mál sín og samstarf sjálfstæðismanna og framsóknarmanna hefur styrkst og eflst síðustu daga og vikur.