10.6.2006

Eldskírn Geirs - innistæðulaus hneykslan.

 

 

 

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur látið þau orð falla í orrahríð síðustu daga, að hana sé ekki að rekja til sín; hann hafi hins vegar orðið að bregðast við óvenjulegri atburðarás.  Hér er vísað til þess, sem hefur verið að gerast innan Framsóknarflokksins en atburðir þar tóku nýja stefnu, frá því að ég lýsti þeim í síðasta pistli með vísan til Morgunblaðsins, sem vænti þess, að Finnur Ingólfsson yrði kallaður til ráðherra- og forystustarfa fyrir hönd framsóknarmanna. Ég hafði tæplega lokið við að setja þennan pistil inn á vefsíðu mína, þegar fréttir tóku að berast um, að ekki væri nein samstaða um Finn Ingólfsson innan Framsóknarflokksins.

 

Mánudaginn 5. júní, annan dag hvítasunnu, komu forystumenn Framsóknarflokksins saman í Þingvallabænum og eftir fundinn sagðist Halldór Ásgrímsson ætla að hætta sem forsætisráðherra og formaður flokksins. Samkvæmt samkomulagi við myndun ríkisstjórnarinnar milli Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar skyldi Halldór taka við embætti forsætisráðherra af Davíð 15. september 2004. Samkomulagið mátti rekja til þess, að samfylkingarmenn, sem höfðu gengið til kosninga með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem forsætisráðherraefni, höfðu strax og úrslit kosninganna lágu fyrir tekið til við að leggja snörur fyrir Halldór og ámálga stjórnarsamstarf og sögðust tilbúnir að tryggja honum forsætisráðherrastólinn. Þetta styrkti samningsstöðu Halldórs í viðræðunum við Davíð en ríkisstjórn var mynduð á grundvelli þessa samkomulags 23. maí 2003 og síðan varð Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra 15. september 2004 og þá varð einnig sú breyting, að Siv Friðleifsdóttir hætti sem umhverfisráðherra en ráðuneytið féll í hlut Sjálfstæðisflokksins og Sigríður Anna Þórðardóttir varð umhverfisráðherra.

 

Við afsögn Halldórs sem forsætisráðherra raknaði upp úr samkomulagi hans og Davíðs, seta framsóknarmanns í embætti forsætisráðherra var bundin við Halldór, sem sagði á Þingvöllum, að framsóknarmenn vildu starfa áfram í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum undir forsæti Geirs H. Haarde.  Þessi vilji framsóknarmanna var áréttaður á fundi ríkisstjórnarinnar að morgni þriðjudagsins 6. júní og þar staðfesti Geir H. Haarde fyrir hönd sjálfstæðismanna, að þeir myndu halda ríkisstjórnarsamstarfi áfram og hann taka að sér embætti forsætisráðherra.

 

Ríkisstjórninni var ljóst, að næstu daga yrði ekki gengið til breytinga á henni, þar sem efnt yrði til leiðtogafundar Eystrasaltsríkja í Reykjavík miðvikudag og fimmtudag auk þess sem Framsóknarflokkurinn mundi efna til miðstjórnarfundar föstudaginn 9. júní til að ráða ráðum um sín innri mál. Lá í loftinu, að laugardaginn 10. júní mætti vænta tíðinda.

 

Draga verður skil á milli þess, sem hefur verið að gerast í samstarfi sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í ríkisstjórn og atburðanna innan Framsóknarflokksins eftir Þingvallafundinn 5. júní. Hann leiddi til spennu, sem endurspeglaðist í deilum Halldórs Ásgrímssonar og Guðna Ágústssonar varaformanns. Í Morgunblaðinu föstudaginn 9. júní birtist svo forsíðumynd af þeim Halldóri og Guðna, þar sem þeir takast í hendur fyrir utan heimili Halldórs kvöldið áður og í fréttinni sagði:

 

„Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, og Guðni Ágústsson, varaformaður flokksins, hittust á fundi á heimili Halldórs undir kvöld í gær til þess að ræða málefni Framsóknarflokksins. Lauk þeim fundi með fullum sáttum þeirra í milli.

„Við Guðni Ágústsson höfum átt fundi bæði í gær og í dag og við erum hér saman á mínu heimili ásamt félögum okkar. Við höfum farið yfir okkar mál og erum sáttir,“ sagði Halldór í samtali við Morgunblaðið fyrir utan heimili sitt í gærkvöld. Þeir sögðust vera að undirbúa miðstjórnarfund Framsóknarflokksins, sem haldinn verður í dag, og ræða flokksþingið. „Við trúum á einingu og frið,“ sagði Guðni Ágústsson ennfremur í gær. “

Miðstjórn Framsóknarflokksins kom saman síðdegis föstudaginn 9. júní og á þeim fundi ríkti sátt og eindrægni, sem síðan var staðfest laugardaginn 10. júní, þegar þingflokkur framsóknarmanna kom saman og ákvað skipan manna í ríkisstjórn Geirs H. Haarde: Valgerður Sverrisdóttir yrði utanríkisráðherra, Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra og Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, í stað Jóns Kristjánssonar, sem sagðist hafa óskað eftir lausn, enda ætlaði hann ekki að gefa kost á sér í kosningum vorið 2007.

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 14.00 í Valhöll og þar gerði Geir H. Haarde grein fyrir gangi mála og lagði fram tillögu um, að skipan ráðherraembætta í ríkisstjórninni yrði hin sama og um var samið í maí 2003, það er klukkan yrði færð til baka aftur fyrir 15. september 2004 og umhverfisráðuneytið félli í hlut Framsóknarflokksins – Sigríður Anna Þórðardóttir hyrfi með öðrum orðum úr ríkisstjórn. Það sýnir drengskap og hollustu Sigríðar Önnu, að hún kvaddi sér fyrst hljóðs á fundinum eftir ræðu Geirs H. Haarde og lýsti stuðningi við tillögu hans, eins og fram kom í viðtali Arnbjargar Sveinsdóttur, þingflokksformanns í viðtali við NFS. Engum þingmanni sjálfstæðismanna er ljúft að sjá á eftir Sigríði Önnu úr ríkisstjórninni - hér ráða hin pólitísku lögmál og þingflokkurinn stóð einhuga að því að samþykkja tillögu flokksformannsins.

Í þeirri stöðu, sem óhjákvæmilega fylgdi sögulegri ákvörðun Halldórs Ásgrímssonar  um að hætta þátttöku í stjórnmálum, lá síður en svo í hlutarins eðli, að breytingar á ríkisstjórn yrðu snurðulausar og unnt yrði að hnýta alla enda á friðsaman hátt í samskiptum flokkanna eða að innan Sjálfstæðisflokksins ríkti einhugur og samstaða um þau skref, sem stigin yrðu. Hér var um eldskírn Geirs H. Haarde sem formanns Sjálfstæðisflokksins að ræða. Hann stóðst áraunina og kemur sterkur frá henni með einhuga flokk að baki sér.

Innistæðulaus hneykslan.

Hvort sem eitthvað er fylgst með NFS – fréttasjónvarpsstöðinni – eða ekki hefur hún haft þau áhrif, að RÚV stendur fréttavaktina betur en áður og rýfur meira að segja dagskrá sína í útvarpi og sjónvarpi til að flytja pólitískar fréttir – ekki aðeins af blaðamannafundum ráðherra eða flokksformanna heldur er einnig leitað skýringa á fréttum og leitast við að setja þær í stærra samhengi um leið og þær gerast.

Virðingarvert er, hve forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna eru fúsir til að koma fram sem einskonar viðbragðsaðilar eða fréttaskýrendur, þegar stjórnarflokkarnir eru að taka ákvarðanir sínar um menn og málefni. Viðbrögðin geta þó orðið leiðigjörn, þegar alltaf er brugðist við á neikvæðan hátt og leitast við að setja viðburði í sem neikvæðast ljós. Þeir, sem sitja eftir með sárt enni, eins og formenn eða aðrir talsmenn stjórnarandstöðunnar, eru ekki alltaf best til þess fallnir að setja mál í sanngjarnt ljós og elti fréttamenn spunaþráð þeirra geta þeir fljótt lent í ógöngum og orðið ótrúverðugir sjálfir.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, lét þau orð til dæmis falla á fundi flokks síns í dag, laugardaginn 10. júní, að „sex prósent maður“ framsóknar, eins og hún nefndi Björn Inga Hrafnsson, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, réði yfir 50% af stjórnkerfi Reykjavíkurborgar samkvæmt samningi Björns Inga við Sjálfstæðisflokkinn undir forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Nú hefur þessi samningur ekki verið birtur, en Ingibjörg Sólrún skákar einfaldlega í því skjóli, að hann sé eins og hún lýsir, til að spuni hennar verði að sannleika. Ég heyrði hins vegar, að Hallgrímur Thorsteinsson á NFS er tekinn að efast um réttmæti þessa spuna, því að hann sagði í dag, að betra væri að gæta sín á honum, sér þætti líklegra, að skiptin væru 30 á móti 70% Sjálfstæðisflokknum í vil.

 

Tökum annað hneykslunarefni Ingibjargar Sólrúnar, að hér hafi setið þrír forsætisráðherrar síðan 2003. Hún lætur þess ógetið, hvað valdi þessu – það er samningur milli flokka, sem vilja starfa saman og deila ekki um stefnu eða markmið stjórnarsamstarfsins.

Vorið 2002 bauð Ingibjörg Sólrún sig fram sem borgarstjóri og sagðist ætla að sitja í embættinu sem samnefnari R-listans í fjögur ár, það er til kosninga 27. maí 2006. Síðsumars 2002 urðu samherjar hennar í R-listanum varir við, að hún ætlaði að fara í þingframboð fyrir Samfylkinguna (hún sat sem óháður borgarstjóri!) og sögðu henni, að hún yrði að velja á milli þess að bjóða sig fram til þings og vera borgarstjóri. Hún hikaði en fór síðan aftur af stað undir árslok 2002 og hrökklaðist úr borgarstjórastólnum snemma árs 2003, rúin trausti (hún náði ekki kjöri á þing heldur kom þangað sem varaþingmaður, eftir að Bryndís Hlöðversdóttir sagði af sér þingmennsku). Þá kom Þórólfur Árnason til sögunnar sem borgarstjóri og sat hann fram í nóvember 2004, þegar hann varð einnig að hrökklast frá, af því að hann naut ekki lengur trausts R-listans. Þá tók Steinunn Valdís Óskarsdóttir við en hún hættir þriðjudaginn 13. júní nk. meðal annars vegna þess að hún náði ekki fyrsta sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar.

Hvað segir þessi borgarstjóra-harmsaga okkur? Jú, síðan sumarið 2002, þegar Ingibjörg Sólrún breytti R-listanum í innantómt og stefnulaust valdabandalag, hefur í raun rekið á reiðanum hjá Reykjavíkurborg og hver höndin verið upp á móti annarri innan R-listans, en samt lét hann ekki af völdum og gerir ekki fyrr en þriðjudaginn 13. júní 2006, þegar meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna tekur við undir forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra. Spyrja má: Hvernig vogar Ingibjörg Sólrún sér að setja upp hneykslunarsvipinn og láta eins og allt stefni í póltískt óefni, þegar Geir H. Haarde verður forsætisráðherra við þær aðstæður, sem að ofan er lýst? Hafi einhver stjórnmálamaður ekki efni á því að hneykslast af þessu tilefni, er það Ingibjörg Sólrún Gísladóttir – en hún gerir það í von um, að spuninn komist gagnrýnislaust í fjölmiðlana.