5.6.2006

Alþingi slitið - forystumál Framsóknarflokksins - Samfylkingin.

 

Alþingi kom saman þriðjudaginn 30. maí og bjuggust þingmenn eins við því að sitja við störf í þingsalnum fram eftir sumri – mörg mál biðu afgreiðslu auk þess sem þingnefndir höfðu ekki lokið störfum. Fyrsta þingdaginn fór stjórnarandstaðan mikinn, þar sem meiri hluti iðnaðarnefndar hafði daginn áður afgreitt frumvarp viðskipta- og iðnaðarráðherra um nýsköpunarmál með samkomulagi stjórnarliða um breytingar á því. Þennan dag flutti stjórnarandstaðan einnig langar ræður við þriðju umræðu um frumvarp til laga um að breyta ríkisútvarpinu í hlutafélag í eigu ríkisins.

 

Miðvikudaginn 31. maí svöruðu ráðherrar fyrirspurnum þingmanna og þá var kynnt, að fimmtudaginn yrðu umræður um þau mál, sem biðu 2. umræðu og voru um 50 mál sett á dagskrá þess fundar og voru þau útrædd. Þann dag náðist samkomulag um, að frumvörpin um nýsköpunarmál og ríkisútvarpið yrðu dregin til baka og urðu því umræður um málin 50 stuttar og voru greidd atkvæði um þau að morgni föstudags og héldu umræður síðan áfram um óafgreidd mál fram eftir kvöldi.

 

Laugardaginn 3. júní kom þing saman klukkan 09.00 og kl. 09.20 var gengið til atkvæðagreiðslu um málin, sem biðu frá föstudeginum og stóð hún fram að hádegi en kl. 13. 30 voru eldhúsdagsumræður, sem efna ber til samkvæmt þingsköpum, og klukkan 15.00 hófst lokaáfangi þingstarfa og lauk honum um 16.30 með þingslitum.

 

Af þessari atburðarás má draga þá ályktun, að bæði stjórn og stjórnarandstöðu hafi verið ljúft að hafa sumarþingið stutt en árangursríkt, því að hvað sem líður frumvörpunum tveimur, sem frestað var, er ekki unnt að komast að annarrri niðurstöðu en þeirri, að ríkisstjórnin geti skilið sátt við afgreiðlsu þingsins á frumvörpum hennar.

 

Öll mál, sem ég vildi, að næðu fram að ganga, urðu að lögum. Enn á ný tókst Bjarna Benediktssyni, formanni allsherjarnefndar, að halda þannig á málum, að samstaða náðist innan nefndarinnar um meginþorra frumvarpanna. Í því sambandi nefni ég sérstaklega frumvarpið um nýskipan lögreglumála, en við framlagningu þess höfðu stjórnarandstöðuþingmenn og þá helst Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar í suðurkjördæmi, uppi stór orð um efni frumvarpsins og var ekki unnt að álykta á annan veg en þann, að hann og fleiri vildu bregða fæti fyrir að minnsta kosti einstakar greinar frumvarpsins. Öll slík andstaða við málið gufaði upp í meðförum þingsins.

Forystumál Framsóknarflokksins.

 

Í sama mund og afgreiðsla þingmála komst á beinu brautina fóru að berast fréttir um fyrirhugaðar breytingar á forystu Framsóknarflokksins. Í því skyni að geyma hér á síðunni megindrætti þess, sem þar er á döfinni, kýs ég að nota Morgunblaðið sem heimild, án þess að leggja sjálfur út af því, sem þar hefur verið sagt um málið.  Laugardaginn 3. júní birti Morgunblaðiði forsíðufrétt þar sem sagði:

 

„Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur rætt þann möguleika við nána samstarfsmenn sína að láta af ráðherraembætti og formennsku í Framsóknarflokknum á næstunni. Gert er ráð fyrir að ákvörðun Halldórs Ásgrímssonar um þetta liggi fyrir næstu daga. Einnig hefur komið til umræðu að Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, láti af því embætti en haldi áfram starfi sínu sem landbúnaðarráðherra.

Innan Framsóknarflokksins eru hugmyndir um að kalla Finn Ingólfsson, fyrrum þingmann og ráðherra, til starfa á ný og að tillaga verði gerð á miðstjórnarfundi framsóknarmanna á föstudag eftir viku um að Finnur verði kjörinn formaður Framsóknarflokksins fram að næsta flokksþingi, sem sennilega verður haldið seint á þessu ári. Verði af þessu mun Finnur væntanlega taka sæti í ríkisstjórn og þá hugsanlega sem fjármálaráðherra. Jafnframt eru uppi hugmyndir um að Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra verði næsti varaformaður Framsóknarflokksins.“

Í Staksteinum Morgunblaðsins laugardaginn 3. júní sagði:

„Framsóknarmenn eru sannkallaðir senuþjófar um þessar mundir. Þeir stálu senunni frá litlu flokkunum í borgarstjórn með því að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum, sem allir hinir flokkarnir vildu gera, jafnvel líka Samfylkingin.

Og nú eru þeir að stela senunni frá öðrum stjórnmálaflokkum með því að efna til miðstjórnarfundar, þar sem margt getur gerzt miðað við forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag.

Framsóknarmenn hafa brugðizt við af meiri hraða en aðrir flokkar, sem eiga um sárt að binda eftir kosningaúrslitin.

 

Í samanburði við Framsóknarflokkinn er Samfylkingin ótrúlega hægfara og hugmyndasnauð. Þar er ekki verið að efna til fundar helztu trúnaðarmanna flokksins. Þar er ekki verið að efna til mannabreytinga í lykilstöðum. Það er ekkert að gerast.

 

Gangi þær breytingar eftir, sem nú er rætt um innan Framsóknarflokksins, er ljóst, að flokkurinn gengur margefldur til leiks í landsmálapólitíkinni í haust og næsta vetur og til þingkosninga næsta vor.

 

Það er augljóslega of snemmt að tilkynna um andlát Framsóknarflokksins.

 

Raunar verður fróðlegt að fylgjast með því hvaða áhrif umbrotin í Framsóknarflokknum koma til með að hafa á aðra flokka. Ekki er ólíklegt að einhverjir þeirra muni komast að þeirri niðurstöðu að þeir eigi ekki annarra kosta völ en fylgja fordæmi framsóknarmanna.

 

Framsóknarflokkurinn er hinn svarti senuþjófur íslenzkra stjórnmála um þessar mundir.“

 

Þegar betur er að gáð er ljóst, að þessi atburðarás,  kemur Staksteinahöfundinum ekki á óvart, því að hinn 7. mars 2006 hafði hann þessa fyrirsögn á dálki sínum: Kemur Finnur til baka? og birti mynd af Finni Ingólfssyni með texta þar, sem fjallað var um brottför Árna Magnússonar úr stjórnmálunum og rætt um arftaka Halldórs Ásgrímssonar. Guðni Ágústsson, varaformaður flokksins, komi til greina, hann sé sannur talsmaður landbúnaðar og dreifbýlis, en þessi styrkleiki sé orðinn að veikleika fyrir Guðna, þegar komið sé á flokksþing framsóknarmanna, þar sem meirihluti fulltrúa sé kjörinn í þéttbýli. Síðan segir orðrétt í Staksteinum 7. mars 2006:

 

„Stóra spurningin er sú, hvort Finnur Ingólfsson snýr aftur til starfa á vettvangi stjórnmálanna.

 

Finnur yfirgaf stjórnmálin óvænt þegar hann fór úr ríkisstjórn til þess að verða seðlabankastjóri og yfirgaf Seðlabankann til þess að verða umsvifamikill í viðskiptalífinu, sem forstjóri Vátryggingafélags Íslands.

 

Hvaða rök mæla með því, að Finnur Ingólfsson taki að sér forystu Framsóknarflokksins í framtíðinni?

 

Hann býr yfir mikilli reynslu í stjórnmálum og hefur breikkað þá reynslu með störfum í Seðlabanka og viðskiptalífi.

 

Hann hefur praktíska afstöðu til mála, sem kalla á úrlausn. Það má orða á annan veg og segja að heilbrigð skynsemi ráði oftar afstöðu hans til mála en flokksleg sjónarmið Framsóknarflokksins.

 

Hann er á góðum aldri og hefur losnað við þá pólitísku bagga, sem gerðu honum erfitt fyrir í ráðherrastól.

 

Það yrði áreiðanlega ekki auðsótt mál að fá Finn Ingólfsson aftur inn á vettvang stjórnmálanna.

 

En framsóknarmenn standa frammi fyrir alvarlegri forystukreppu.

 

Þeir ættu að íhuga vandlega, hvort Finnur Ingólfsson er ekki maðurinn til að leysa þann vanda.“

 

Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins 4. júní er sama sinnis og Staksteinahöfundurinn þar segir um þessi innri málefni Framsóknarflokksins:

 

„Rökin fyrir því að Finnur Ingólfsson yrði kallaður aftur til starfa fyrir Framsóknarflokkinn hafa alltaf verið sterk. Hann hefur öðlast mikla reynslu af stjórnmálastarfi og hefur í starfi sínu utan stjórnmálanna alltaf haldið þeim tengslum sem hann hafði innan Framsóknarflokksins. Reynsla skiptir gríðarlegu máli í stjórnmálabaráttunni, ekki sízt nú á dögum. Sennilega er Finnur ekki að sækjast eftir því að taka að sér forystu Framsóknarflokksins. Líklegra er að eftir því sé leitað og hann tilbúinn til að verða við þeim óskum ef svo ber undir. Það má því gera ráð fyrir að Finnur Ingólfsson sé frjáls af sjálfum sér í þessu máli og í því er mikið frelsi fólgið fyrir mann, sem hugsanlega verður orðinn formaður Framsóknarflokksins innan skamms.

 

Á stjórnmálaferli sínum gekk Finnur í gegnum marga elda sem hafa augljóslega hert hann. Það er ekki heiglum hent að vera í forystu fyrir stjórnmálaflokki á Íslandi í dag. Finnur bjó við margvíslegt mótlæti í stjórnmálabaráttunni á sínum tíma, m.a. af hálfu Morgunblaðsins, sem hann taldi sýna sér litla sanngirni.

 

Innan Framsóknarflokksins og í þingflokki hans er ekki auðvelt að finna formannsefni eftir brottför Árna Magnússonar. Þess vegna eru þau öfl í Framsóknarflokknum, sem nú vilja kalla Finn Ingólfsson aftur til starfa fyrir flokkinn - og í þeim hópi hlýtur Halldór Ásgrímsson að vera - örugglega að velja bezta kostinn.

 

Hugmyndir um að fá Siv Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra til starfa sem varaformann Framsóknarflokksins eru til marks um að flokkurinn vilji sýna alveg nýtt andlit. Siv er ung kona sem hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni í stjórnmálabaráttunni, alveg sérstaklega þegar á móti hefur blásið. Það er ekki auðvelt fyrir þingmann, sem kominn er í ríkisstjórn, að fara út úr ríkisstjórn. Það gerði Siv hins vegar með þeim hætti að eftir var tekið og uppskar eins og til var sáð, þegar hún var kölluð til ráðherrastarfa á ný við brottför Árna Magnússonar.

 

 

Sameiginlega höfða þau Finnur og Siv áreiðanlega betur til kjósenda á höfuðborgarsvæðinu en núverandi forysta Framsóknarflokksins gerir. Og gætu þess vegna myndað sterka forystu. Því má þó ekki gleyma að þau hafa áður eldað grátt silfur og þess vegna ekki ljóst hvort og hvernig þau myndu ná saman í nýjum forystuhlutverkum. Hins vegar eru þau bæði praktískir stjórnmálamenn og þess vegna meiri líkur en minni á því að þau mundu einsetja sér að starfa vel saman.“

 


Samfylkingin.

 

Líklegt er, að forystumönnum Samfylkingarinnar hafi þótt ágætt, að fundir alþingis drægjust ekki fram eftir sumri, því að innan þingflokks hennar eiga ýmsir um sárt að binda eftir sveitarstjórnarkosningarnar. Má þar  til dæmis nefnda suðurkjördæmið – frá Vogum til Hafnar í Hornafirði.

 

Jón Gunnarsson, alþingismaður Samfylkingarinnar, sem var í forystu í Vogunum fram að kosningum náði ekki kjöri í sveitarstjórn þar og nú fara sjálfstæðismenn með stjórn Voga. Samfylking og framsókn fengu lélega kosningu á sameiginlegum lista í Reykjanesbæ. Sjálfstæðismenn náðu meirihluta í Ölfusi og Hveragerði og hafa myndað meirihluta í Árborg með framsóknarmönnum en bæði í Hveragerði og Árborg missti Samfylkingin ítök sín í bæjarstjórnum – var þó sjálfur Björgvin G. Sigurðsson, alþingismaður Samfylkingarinnar, í fylkingarbrjósti í baráttunni í Árborg en þar hefur Margrét Frímannsdóttir, þingflokkformaður Samfylkingarinnar, einnig átt sitt öflugasta pólitíska bakland. Þá eru það Vestmannaeyjar, þar sem Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur glutrað niður fylgi hennar og Sjálfstæðisflokkurinn hlaut nú hreinan meirihluta. Raunar eru sjálfstæðismenn með hreinan meirihluta í Rangárþingi ytra, hafa myndað meirihluta með K-lista í Rangárþingi eystra, eru í meirihluta í Mýrdalnum og einnig í sveitarstjórninni á Kirkjubæjarklaustri.

 

“VIÐ ætlum okkur að virkja betur flokksmenn og ná betur utan um hið almenna flokksstarf,“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu sunnudaginn 4. júní. Innan flokksins hefði verið unnið „að því að skýra betur línur varðandi flokkinn og hins vegar að byggja upp innviðina.“ Það væri „mikilvægt fyrir flokka að vera ekki bara með góða frambjóðendur og stefnu heldur að innviðirnir séu sterkir“ og það hefði Samfylkinguna vantað. Í Reykjavík þyrfti að byggja upp hverfafélög og efla tengslanet og halda betur utan um sjálfboðaliða og koma Samfylkingunni upp „öflugri maskínu“ til að vinna þá miklu vinnu sem fylgir kosningum. Þetta hefði verið vandamál Samfylkingarinna bæði í þessum kosningum og síðustu þingkosningum. Það væri villandi að bera saman úrslit þingkosninga 2003 og sveitarstjórnarkosningar í borginni, Sjálfstæðisflokkur hefði ætíð verið sterkari í borgarstjórnarkosningum og því minna til skiptanna fyrir aðra. Ef horft væri á úrslit Samfylkingarinnar í sögulegu ljósi hefði aðeins tvisvar áður eftir stríð nokkur flokkur á vinstri kanti stjórnmálanna fengið jafnmikið fylgi.

 

Þetta er skrýtin rulla hjá formanni Samfylkingarinnar, að það sé skortur á tæknimönnum í kosningastarfinu, sem valdi lélegri niðurstöðu flokksins. Hvers á Skúli Helgason, sem ráðinn var framkvæmdastjóri flokksins  5. desember 2005 að gjalda? Hitt er einnig skrýtið að bera saman fylgi Samfylkingarinnar og einhvers eins vinstri flokks, þegar því hefur jafnan verið hampað Samfylkingin sé samnefnari þriggja flokka: Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Kvennalista. Tilgangur hinnar nýju fylkingar var að skapa sameiginlegt mótvægi vinstrisinna gegn Sjálfstæðisflokknum, flokk, sem átti að standa honum jafnfætis en er nú um 25% flokkur eins og Framsóknarflokkurinn, áður en tók að fjara undan honum á áttunda áratugnum.

 

Ástæðan fyrir því, að Ingibjörg Sólrún vill ræða tæknileg úrlausnarefni eftir kosningar, er augljós, hún vill forðast umræður um afleiðingar formannsskiptanna og þá staðreynd, að fylgi flokksins hefur minnkað sífellt síðan hún tók við af Össuri Skarphéðinssyni. Er Ingibjörg Sólrún þeirrar skoðunar, að Össur hafi ráðið yfir svona miklu betri tæknimönnum í kosningabaráttunni en hún? Nú er það sem sé ekki lengur konan í brúnni, sem á að ráða hjá Samfylkingunni, heldur öflugri maskínumeistari.