28.5.2006

Úrslit sveitarstjórnarkosninganna.

Á vefsíðu Sjálfstæðisflokksins www.xd.is segir í dag, sunnudag 28. maí, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi komið vel út úr sveitarstjórnarkosningunum í gær víðast hvar á landinu. Hreinn meirihluti  hafi náðst í 13 sveitarfélögum og meðalfylgi flokksins aukist á landsvísu frá síðustu sveitarstjórnarkosningum. Þá var það 40,58% en er nú 41, 60%. Einnig segir á þessari síðu:

 

„Sjálfstæðismenn hlutu sérlega glæsilega kosningu á Seltjarnarnesi (67,2%), í Reykjanesbæ (57,9%), Garðabæ (62,4%), Vestmannaeyjum (56,4%), Stykkishólmi (52,9%), Tálknafirði (62,13%), Seyðisfirði (52,3%), Grundarfirði (50,3%), Snæfellsbæ (58%), Hveragerði (49,6%), Ölfusi (49,2%), Mýrdalshreppi (55,4%) og Rangárþingi ytra (50,3%). Í öllum þessum sveitarfélögum fékk flokkurinn hreinan meirihluta og sums staðar styrkti hann stöðu sína frá síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Flokkurinn styrkti einnig stöðu sína í Reykjavík, fær þar 7 borgarfulltrúa og 42,9% fylgi og er langstærsti flokkurinn, í Kópavogi (44,27% úr 37,69%) þar sem meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna hélt velli, Sandgerði þar sem hann tvöfaldaði fylgi sitt (28,81% úr 14,29%), Akranesi (38% úr 35%), Ísafjarðarbæ (43,3% úr 35,3%) þar sem meirihlutinn hélt velli, í Húnaþingi vestra (28,7% úr 21%), í Fjarðabyggð (32,65% úr 23,2%), í Árborg (40,1% úr 25,1%) og Rangárþingi eystra (35,9% úr 31,2%)

Flokkurinn hélt sínum hlut í Borgarbyggð (37,82%) en missti meirihluta í Mosfellsbæ (47,47%), Álftanesi (49,87%), Bolungarvík (38%) og í Vesturbyggð (42,2%).

Flokkurinn tapaði fylgi á nokkrum stöðum, þ.á m. í Hafnarfirði (27,26% úr 40,6%), Grindavík (25,39% úr 33,15%), Blönduósi (25,6% úr 33,3%), Skagafirði (29,8% úr 35,2%), Dalvíkurbyggð (16,4% úr 36,9%), Akureyri (31% úr 35,6%), Fljótsdalshéraði (27,9% úr 29,5%), Hornafirði (36% úr 38,2%),

Boðið var fram í nafni Sjálfstæðisflokksins í 37 sveitarfélögum í þessum kosningum, þ.á m. nokkrum nýjum sveitarfélögum. Í nýju sameinuðu sveitarfélag í Þingeyjarsýslum fékk framboð sjálfstæðismanna og óháðra rúmlega 33% fylgi og er stærst þeirra framboða sem þar komu fram. Í nýju sveitarfélagi á Siglufirði og Ólafsfirði, Fjallabyggð, hlaut flokkurinn 41,6% fylgi og er stærstur framboða þar. “

Ég birti þetta hér vegna þess að þarna koma fram upplýsingar, sem ekki var skýrt frá á kosninganóttina, að minnsta kosti heyrði ég til dæmis aldrei frá því sagt, vinstrisinnar hefðu misst meiri hluta sinn á Seyðisfirði í hendur sjálfstæðismönnum. Ég man ekki betur en kosninganóttina 2002 hafi spekingar í ljósvakamiðlum talið það nokkrum tíðindum sæta, að vinstrisinnar náðu meirihluta á Seyðisfirði og var samfylkingarmaðurinn Tryggvi Harðarson síðan ráðinn úr Hafnarfirði til að vera bæjarstjóri.

Sigmundur Ernir talaði þannig kosninganóttina, að ókunnugur hefði mátt ætla, að á Álftanesi væru mest spennandi átök í kosningunum, þegar mjótt varð á munum milli sjálfstæðismanna og vinstrisinna – en rimmunni lauk með 596 atkvæðum vinstrisinna 50,13% og 593 atkvæðum sjálfstæðismanna 49,87%.

Þegar litið er á úrslitin í heild, er ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en Sjálfstæðisflokkurinn sé sigurvegari kosninganna, þótt hann hafi ekki fengið það djásn í sigurkórónu sína, sem meirihluti í Reykjavík hefði orðið. Flokkurinn hefur verið forystuflokkur í ríkisstjórn síðan 1991 og eykur fylgi sitt upp í 41,60% að meðaltali á landsvísu frá sveitarstjórnarkosningunum 2002. Í þingkosningunum í maí 2003 voru úrslit á landsvísu þau, að Sjálfstæðisflokkur fékk 33.68%  en hafði 40.74% í þingkosningunum 1999.

Allar þessar tölur sýna, að sjálfstæðismenn geta litið stoltir til úrslitanna. Hvarvetna eru flokkar með 40% fylgi og þar yfir taldir í sérflokki, hvað sem öðru líður.

Samfylkingin hefur lagt áherslu á að stilla sér jafnfætis andspænis Sjálfstæðisflokknum. Forystumenn hennar minna stundum á leiðtoga Sovétríkjanna sálugu, þegar þeim var mest í mun að vera á sama stigi og Bandaríkjamenn á kvarða alþjóðastjórnmála, þótt öllum væri ljóst, að himinn og haf skyldi á milli ríkjanna að öllum burðum og efnahag.

Hafi samfylkingarfólk undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur ætlað að festa sig í sessi andspænis sjálfstæðismönnum í þessum kosningum hefur það markmið ekki nást. – Einhvers staðar sá ég eða heyrði, að Samfylkingin hefði tapað 2% á landsvísu í þessum kosningum. Þessi mæling er örugglega erfið vegna þess að Samfylkingin hefur ekki burði til að bjóða sjálfstætt fram í öllum stærri eða minni bæjum.

Í sögulegu ljósi er unnt að lýsa Samfylkingunni á þann veg, að hún hafi verið á svipuðu róli og Framsóknarflokkurinn, þar til fór að fjara undan honum, en þá þótti gott hjá honum að sveiflast á milli 25 og 30%. Eftir að fór að fjara undan Framsóknarflokknum hefur sífellt reynst erfiðara að ýta honum á skrið og svipuð þyngsli sýnast þjaka Samfylkinguna, eftir að Ingibjörg Sólrún tók við formennsku hennar. 27.35% fylgi Samfylkingarinnar í Reykjavík og fjórir borgarfulltrúar er langt frá þeim væntingum, sem flokkurinn kynnti í aðdraganda kosninganna.

Ég minntist í upphafi á umskiptin á Seyðisfirði, þar sem sjálfstæðismenn unnu hreinan meiri hluta, án þess að það væri sérstaklega vakin á því athygli, á meðan ég hlustaði á kosningaúrslitin í ljósvakamiðlunum. Ég rakst fyrst á það við lestur randar neðst á sjónvarpsskjánum, að sjálfstæðismenn hefðu endurheimt hreinan meirihluta í Vestmannaeyjum. Þar hlutu sjálfstæðismenn 56, 40% og juku fylgi sitt um 10% frá því árið 2002. Vestmannaeyjalistinn undir forystu Lúðvíks Bergvinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar og varaformannsframbjóðanda flokksins, dalaði um rúmt 1% og hlaut 36,10%.

Hér verða úrslit í einstökum sveitarfélögum ekki nánar rakin heldur minnst á þessi tvö vegna þess, hve mér þótti miklu minna gert úr meirihlutaskiptum þar núna en þegar þau féllu í hendur vinstrisinna – raunar dettur mér líka Hveragerði í hug, þegar ég festi þessi orð á skjáinn. Eitt sinn var rætt um sigur vinstrisinna í Hveragerði sem tákn um, að þeir væru að ná undirtökum í íslensku stjórnmálalífi. Nú er það helst talið Samfylkingunni til framdráttar, að í könnunum mælist hún með mest fylgi jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum, sem segir aðeins þá sögu, hve illa árar fyrir jafnarmannaflokkana almennt í þessum löndum.

Á vefsíðunni www.mbl.is birtist í nótt frásögn af ummælum Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra í sjónvarpsumræðum formanna stjórnmálaflokkanna, þegar meginstraumar kosningaúrslitanna höfðu verið kynnt. Fréttin er á þennan veg:

„Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði í viðræðum flokksforingjanna í Sjónvarpinu nú eftir miðnættið, að fylgistap Framsóknarflokksins víða um land í kosningunum í dag væri vissulega vonbrigði og hann sagðist taka á sig vissa ábyrgð í því sambandi.

Þegar hann var spurður hvaða skýringu hann hefði á þessu fylgistapi sagði hann að engin einhlt skýring væri til. „Það liggur fyrir að Framsóknarflokkurinn hefur verið í forustu fyrir þessari ríkisstjórn, sem nú situr. Það hefur verið hart að okkur sótt og við gagnrýndir fyrir mjög margt. Það er nú hinsvegar þannig, að við búum nú sennilega við eitt besta efnahagsástand, sem þessi þjóð hefur áður upplifað og meiri velmegun en nokkru sinni fyrr... En það er nú stundum þannig í stjórnmálum að þetta fer með þessum hætti, en ég tek á mig vissa ábyrgð í þessu sambandi. Ég get ekki beint því á félaga mína út um allt land; ég tel að þeir hafi verið að vinna gífurlega vel... Til dæmis í Reykjavík hafa Björn Ingi og hans fólk verið að vinna mjög gott starf," sagði Halldór.

Hann vildi ekki ræða nánar hvað hann ætti við þegar hann sagðist axla sína ábyrgð en lagði áherslu á að Framsóknarflokkurinn myndi halda áfram ríkisstjórnarsamstarfinu.

„Það hafa verið mörg mál uppi í þessari kosningabaráttu, eins og málefni aldraðra, sem við höfum verið að vinna mikið verk í. Það hefur einnig verið talað um uppbyggingu stóriðju og vinstri/grænir fá ágæta útkomu og þeir hafa talað mikið um umhverfismál og við höfum verið ákveðnir andstæðingar. Auðvitað þurfum við að fara yfir þetta allt saman," sagði Halldór.“

Af ummælum formanns Framsóknarflokksins og forsætisráðherra má draga þá ályktun, að hann muni beita sér fyrir því, að innan flokks hans verði rætt um úrslit kosninganna af þunga og alvöru.