22.5.2006

Olli Rehn – Björn Ingi – Dagur.

Í Staksteinum Morgunblaðsins segir í dag 22. maí:

„Í forystugrein Morgunblaðsins í gær sagði m.a.:

 

 „Það er mikilvægt að sendimenn Íslands í Brüssel, hverju nafni sem nefnast, leggi áherzlu á að kynna fyrir embættismönnum ESB hina raunverulegu stöðu í þessum umræðum hér en láti ekki hugsanlega eigin óskhyggju ráða ferðinni.“

 

Þetta sagði í leiðara í tilefni af orðum Olli Rehn, Finna, sem fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, þess efnis að Ísland gæti orðið næsta ríki á eftir Rúmeníu og Búlgaríu til að ganga í ESB.

 

Til þess að forðast allan misskilning skal tekið fram, að þessum orðum var ekki beint að sendiherra Íslands hjá Evrópusambandinu enda ekkert tilefni til þess.“

 

Nú veit ég ekki við hvaða Íslendinga Olli Rehn talar en hitt er víst að 31. maí 2005 hittum við nefndarmenn í Evrópunefnd hann á fundi í skrifstofu hans í Brussel. Sama dag flutti ég ræðu í Brussel og sagði þá meðal annars:

 

„This morning we had the pleasure of meeting with EU enlargement Commissioner Mr. Olli Rehn. His task is, as all of you know, to negotiate with those who want to become members of the Union.

 

„Last April, when opinion polls indicated  clear French rejection of the EU Constitution The Financial Times speculated that Reykjavik might provide the European Union with its much wanted Plan B, as Eurocrats were desperate for a strategy should France reject the constitution. The FT's idea was that we would present this plan to Mr. Rhen.

 

As we all know the French did reject the Constitution, so if we were here on a rescue mission, we should have brought a plan B to Mr. Rehn this morning. But as we are only on a fact finding tour and not seeking membership of the Union we are not going to interfere in its internal matters.

 

Iceland is one of the few European countries where there has never been a referendum on any European issue and when invited to address you here today, ladies and gentlemen, I considered it might be of value to you if I tried to answer two questions often put to us Icelanders here in Brussels: “Why is Iceland not a member of the European Union?” and “What prevents Iceland from applying for membership in the European Union?”

 

When The Financial Times speculated about our meeting with the Commissioner for enlargement it kindly said: "The affluent island wouldn't be a problem for the EU to absorb, particularly when compared with aspirants such as Albania and Bosnia. But would Reykjavik be ready to take the plunge? Maybe, if the island spells the end to the EU's constitutional headache, Brussels would make it an offer it couldn't refuse. Those Icelandic fish could be safe for a while yet."

 

Yes, it is of course about fish - but there is more to it as I intend to spell out – and trust me, we did not get any offer from Brussels this morning.“

 

Erindi okkar nefndarmanna til Brussel var einmitt að kynna okkur viðhorf forráðamanna Evrópusambandsins (ESB) og annarra. Við gengum af fundi okkar með Olli Rehn fullvissir um, að það tæki í sjálfu sér ekki langan tíma fyrir Íslendinga að „semja“ um aðild að ESB – ég set orðið semja innan sviga, því að í raun yrði aldrei um neina samninga að ræða – Íslendingar yrðu eins og aðrar þjóðir að taka á sig allar samþykktir og sáttmála ESB en viðræður snerust um, hvað við fengjum langan aðlögunartíma að öllu ESB regluverkinu.

 

Olli Rehn taldi, að það tæki hvorki langan tíma né þyrfti marga menn til að komast að niðurstöðu og síðan værum við að beinu aðildarbrautinni. Allt, sem nú þykir fréttnæmt hafði komið fram á einn eða annan veg áður og því ekkert nýtt, að Olli Rehn telji ekki mikið mál að taka á móti Íslandi í ESB. Frakkar þyrftu að vísu að efna til þjóðaratkvæðagreiðsluna um aðildina, og hér á Íslandi þyrfti að vera pólitískur vilji til hennar og nauðsynlegt yrði að breyta stjórnarskránni. Allt tal um, að við þurfum að láta á það reyna í viðræðum við ESB, hvort semjist um aðild, er rakalaust – málið snýst um, að við gerum upp við okkur, hvort við viljum halda núverandi sjálfstæði eða breyta stjórnarskrá okkar til að geta orðið hluti af yfirþjóðlegu ríkjasambandi.

 

Vegna orða í Staksteinum í dag vil ég taka fram, að Evrópunefndin skildi ekki þannig við Olli Rehn fyrir ári, að hann teldi aðild Íslands að ESB á næsta leiti. Raunar held ég, að hann þurfi ekki neitt að heyra í Íslendingum til að halda því fram, að það tæki ekki langan tíma fyrir ESB að taka á móti þeim, ef þeir vildu koma í Brussel-faðminn.

 

Björn Ingi

Björn Ingi Hrafnsson á vefsíðu sinni 22. maí:

 

„Ég hef heyrt því fleygt að Vinstri grænir horfi nú mjög til íhaldsins um myndun nýs meirihluta. Nú síðast hélt Egill Helgason þessu fram í Silfri Egils í gær. Það vakti athygli mína að oddviti VG neitaði þessu ekki, en allir muna hvernig Vinstri grænir beittu sér fyrir því að R-listinn liði undir lok sl. vetur. Össur Skarphéðinsson fjallar um þetta í skarpri grein í Mogganum í dag og kveður þar við gamalkunnan tón. Fyrir síðustu þingkosningar tókust VG og Samfylking hart á um vinstra fylgið á lokaspretti kosningabaráttunnar og notaði Samfylkingin þá m.a. flokksskrá VG til að senda út ákall um stuðning við Ingibjörgu Sólrúnu. Þessu hafa Vinstri grænir enn ekki gleymt.“

 

Hvað er unnt að lesa út úr þessari klausu? Að Björn Ingi sé sár yfir því, nái hann inn í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir hönd Framsóknarflokksins, að ekki verði mynduð þriggja flokka samfylkingarmeirihluti – nái sjálfstæðismenn ekki meirihluta. Hann óttist að vinstri/grænir fari frekar í samstarf með sjálfstæðismönnum en að mynda nýjan og enn sundurlyndari R-lista.

 

Ráðist afstaða vinstri/grænna til samstarfs innan borgarstjórnar á hinni gömlu misnotkun á flokksskrá þeirra til að kalla fram stuðning við Ingibjörgu Sólrúnu, má segja að lengi lifi í gömlum glæðum. Miklu nærtækari skýring á því, að menn ræða þann kost að v/g og sjálfstæðismenn starfi saman í borgarstjórn, er sú ákvörðun Bjarkar Vilhelmsdóttur að segja skilið við v/g. Björk hefur hvað eftir annað lýst yfir því, að aldrei muni hún eiga neitt samstarf við sjálfstæðismenn. Þetta skyldi þó ekki hafa ráðið einhverju um inngöngu hennar í Samfylkinguna?

 

Hvað skyldi segja í grein Össurar, sem gleður Björn Inga? Jú, Össur skrifar grein sína í gær, þegar Gallup sýndi Sjálfstæðisflokkinn með 7 borgarfulltrúa og Samfylkinguna með 6 en v/g 1 – Össur hefði ekki getað skrifað greinina í dag, þegar Gallup sýnir Sjálfstæðisflokk með 8, Samfylkingu 4 og v/g 2. Spyrja má: Óx fylgið við v/g svona mikið eftir Silfur Egils í gær?  Össurar í Morgunblaðinu, sem gladdi Björn Inga í morgun, hófst á þessum orðum:

 

„Í gær sýndi Gallup-könnun fyrir RÚV að það er loks tekið að fjara undan Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Við þessar aðstæður er það bylmingshögg í bringspalir sannra vinstrimanna að heyra það opinberlega frá forystumönnum Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs að þeir geti hugsað sér að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn.

 

Í Silfri Egils á sunnudag spurði Egill Helgason Svandísi Svavarsdóttur, efsta mann á lista VG í Reykjavík, í þaula hvort meirihluti VG með Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn væri möguleiki. Hún sagði hreint út að VG útilokaði ekki samstarf við neinn flokk. Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að VG gæti hugsað sér að leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda í borginni. “

Við blasir í upphafi lokaviku kosningabaráttunnar, að Samfylkingin undir forystu Dags B. Eggertssonar er að einangrast í hópi framboðanna í Reykjavík, Dagur laðar greinilega engan til samstarfs, hvorki innan eigin raða eða meðal annarra flokka. Forystusveit Samfylkingarinnar í Reykjavík er klofinn ofan í kjöl. Hinn eini meðal forystumanna annarra flokka, sem friðmælist við Samfylkinguna, er Björn Ingi Hrafnsson en eins og annað, sem hann hefur tekið sér fyrir hendur í kosningabaráttunni til þessa, virðist það ekki til vinsælda fallið meðal kjósenda.

Dagur.

Lesa má á mbl.is í kvöld, 22. maí:

„Stöðva á útboð um skipulag Vatnsmýrarinnar samkvæmt bráðabirgðaúrskurði kærunefndar útboðsmála en hún telur fyrirkomulag þess lögbrot. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri segir að farið verði yfir athugasemdir nefndarinnar og það lagað sem laga þurfi. Hún eigi ekki von á að úrskurðurinn tefji útboðið mikið.

Reykjavíkurborg hyggst krefjast þess af áfrýjunarnefnd útboðsmála að bráðabirgðaúrskurður kærunefndarinnar verði felldur úr gildi. Sjónvarpið sagði frá þessu í kvöldfréttum.“

Hinn 5. maí 2005 birti Morgunblaðið frétt, sem hófst á þessum orðum:

„Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsnefndar Reykjavíkurborgar, sagði á borgarstjórnarfundi í gær að efnt yrði til opinnar alþjóðlegrar hugmyndasamkeppni um heildarskipulag Vatnsmýrarinnar í haust. Þannig gætu íbúar Reykjavíkur haft áhrif á mótun borgarinnar með því að skila inn sínum hugmyndum. Keppnin byggðist á forsendum úr viðamiklu greiningar- og samráðsferli, rannsóknum og úttektum.“

Þetta er einmitt útboðið, sem nú hefur verið stöðvað, þar sem fyrirkomulag þess er talið lögbrot. Við, sem hlustuðum á Dag útlista kosti þessa úboðs í borgarstjórn, töldum víst, að hann hagaði tímasetningum þannig, að hann gæti baðað sig í glæstum alþjóðlegum hugmyndum um Vatnsmýrina einmitt vikur og mánuði fyrir kosningarnar á laugardag. Í kosningavikunni sjálfri er hins vegar úrskurðað, að Dagur gat ekki stýrt þessu verki betur en svo, að útboðinu er lýst sem lögbroti.

Hinn 13. september 2005 birtist frétt í Morgunblaðinu um Vatnsmýrina með mynd af Degi og þar má lesa þessa klausu:

„Spurður hvers vegna áhersla sé lögð á að fá tillögur í hugmyndasamkeppninni fram fyrir kosningar segir Dagur ljóst að Vatnsmýrarmálið verði kosningamál hvort sem hugmyndirnar komi fyrir vor eða ekki. Því sé gott að fá hugmyndinar fyrir kosningar til þess að umræðan snúist um málefni en ekki innihaldslitlar deilur um smáatriði.“

Það birtast engar tillögur fyrir kosningar heldur úrskurður um, að Dagur hafi staðið þannig að þessu máli, að um lögbrot sé að ræða. Skyldi það verða að kosningamáli? Auðvitað á þessi dapurlega framganga að verða að kosningamáli, því að hún sýnir í hnotskurn, hve illa staðið er að ákvörðunum um skipulagsmál í borginni og hvernig allt getur auðveldlega farið í handaskolum og það eru ekki nema 100 milljónir króna, sem að verja til útboðsins – hvað ætli það hafi kostað til þessa?