14.5.2006

Staksteinar – borgarstjórn – frásögn og traust.

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag, sunnudaginn 14. maí, segir:

„Hvar eru frambjóðendur til borgarstjórnar Reykjavíkur? Eru þeir lagðir á flótta? Hvar eru baráttumál þeirra? Hafa þeir ekki fyrir neinu að berjast?

Það er ósköp eðlilegt að fólk velti þessu fyrir sér, vegna þess, að borgarstjórnarkosningar hafa aldrei áður farið fram í því andrúmslofti, sem nú ríkir.

Kosningar eru varla til umræðu.

Björn Ingi er hættur að tala um flugvöll á Lönguskerjum.

Framsóknarmenn eru hættir að vera hreyknir af Hummernum og kalla hann nú „Bummerinn“.

Vilhjálmur Þ. lætur ekki sjá sig.

Dagur B. Eggertsson lætur lítið fara fyrir sér.

Stjarna kosningabaráttunnar, Svandís Svavarsdóttir, virðist hafa dregið sig í hlé.

Það verður að vísu ekki sagt um Ólaf F. Magnússon, sem sýnir sama áhuga og áður fyrir kosningunum.

Og fréttir berast af því, að eldri borgarar hrífist af Guðrúnu Ásmundsdóttur, sem kemur engum á óvart.

En getur verið að þessar borgarstjórnarkosningar muni, þegar upp verður staðið, ekki snúast um neitt annað en Löngusker og „Hummerinn-Bummerinn“?

Frambjóðendur allra flokka hafa tvær vikur til að sýna fram á annað.“

Ég varð hugsi, þegar ég las þetta. Hvers vegna? Jú, vegna þess að frambjóðendur komast að sjálfu sér lítið lengra í umræðum á opinberum vettvangi en fjölmiðlar ákveða. Hafa ekki allir flokkar, sem bjóða fram í Reykjavík lagt fram stefnuskrá sína? Stefnumálin í þessum skrám vekja að sjálfsögðu mismikinn áhuga en þau verða í raun ekki að opinberu umræðuefni, fyrr en þau er brotin til mergjar af öðrum en höfundum þeirra og leitast er við að skýra þau út fyrir kjósendum – þar skipta fjölmiðlar og efnistök þeirra jafnvel meira máli en framtak frambjóðendanna sjálfra. Frásögn (narrative) af mönnum og málefnum skilur að lokum milli feigs og ófeigs í stjórnmálum.

Af eigin reynslu veit ég, að einmitt síðustu daga fyrir kosningar eru frambjóðendur á fleygiferð af einum fundi á annan eða af einu mannamóti á annað og leitast við að gefa sem flestum tækifæri til að hitta sig. Stjórnmálafundir eins og efnt var til fyrr á árum víkja fyrir annars konar tengslum við kjósendur og ég er sannfærður um, að í huga frambjóðenda almennt snúast kosningarnar um annað en Löngusker og „Hummerinn-Bummerinn“, en með hinu síðara mun vísað til myndar, sem farið hefur eins og logi um akur í netheimum, en hún sýnir Hummer-kosningabíl framsóknarmanna í Reykjavík, þar sem honum er lagt í stæði fatlaðra við Rimaskóla - í þeirri rangstöðu felst bummerinn.

Segir það ekki meira um aðra en frambjóðendur almennt og framtak þeirra, að Hummerinn verði svona mikið umræðuefni í kosgningabaráttunni? Er ekki áhuginn á Hummernum einmitt dæmi um, að í fjölmiðlum kjósa menn frekar að ræða það, sem er auðskilið, lítið og einfalt en hitt, sem er flókið og erfitt til úrlausnar fyrir kjósendur og frambjóðendur. Sannar þetta ekki enn, að litlu málin vekja frekar athygli en hin stóru?

Hummerinn er skemmtilegt umræðuefni og hann má meira að segja setja í stórpólitískt samhengi. Guðmundur Steingrímsson, bakþankahöfundur Fréttablaðsins, ræðir um Hummerinn í dálki sínum laugardaginn 13. maí og segir:

„Í bíómyndum er Hummer bíll glæpona. Hummer er líka stríðstól. Þess vegna er það líka skrítið að sjá Framsóknarflokkinn keyra um á einum slíkum í Reykjavík. Umhverfismál og stríðsrekstur í Írak eru þau mál sem óbreyttir fylgismenn flokksins hafa haft hvað mestar áhyggjur af. Varla er hægt að ímynda sér blautari tusku í andlitið á þeim en að frambjóðendur keyri um á Hummer. Kannski heldur flokkurinn að það sé allt í lagi að vera á villigötum, bara ef maður er á stríðsjeppa.“

Ég er viss um, að allir frambjóðendur eru hissa á spurningunum í upphafi Staksteina, hvar þeir séu og hvort þeir hafi enga stefnu. Þeir telja sig vera eins sýnilega og frekast er kostur innan þeirra marka, sem fjárhagsáætlanir kosningabaráttu þeirra leyfa, því að sýnileikinn birtist helst í keyptu rými í fjölmiðlum. Þeir eru einnig örugglega allir með stefnu flokka sinna á hreinu og þau atriði, sem þeir telja mikilvægust í þessari stefnu. Frambjóðendurnir ráða því hins vegar ekki, hvort áhugi á málum þeirra kviknar hjá fjölmiðlum.

Fjölmiðlar nálgast kosningar nú orðið almennt á nokkuð kerfisbundinn hátt – mínútur eru taldar í ljósvakamiðlum í því skyni að flokkum sé ekki mismunað og Morgunblaðið hefur sett reglur um lengd og birtingarform aðsendra framboðsgreina. Sjaldgæft er að fjölmiðlar geri stefnumál flokka að sérstöku fréttaefni að eigin frumkvæði – fréttirnar byggjast á blaðamannafundum eða fréttatilkynningu að frumkvæði frambjóðenda.

Flokkar halda úti misjafnlega öflugum vefsíðum. Ég fylgist helst með síðu sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur betriborg.is og er ánægjuleg að sjá, hve hún þróast á líflegan hátt og hve miklar upplýsingar er þar að finna.

Vandinn við kosningabaráttuna í Reykjavík er sá, að þar er ekki lengur neinn málsvari fyrir R-listann, því að flokkarnir þrír, sem að honum stóðu, bera nú hver um sig fram undir eigin nafni og láta eins þeir hafi verið fæddir í gær og beri þess vegna ekki ábyrgð á neinu, sem miður hefur farið undanfarin fjögur ár og snúast í raun stundum gegn þeirri stefnu, sem þeir mótuðu þá og börðust fyrir af hörku.

Ég spyr: Hefur einhver fjölmiðill tekið saman umræður um Sundabraut í borgarstjórn Reykjavíkur á því kjörtímabili, sem er að líða? Hvers vegna er ekki vakin athygli á þátttaskilunum, sem urðu í þeim umræðum 6. september 2005, eftir að ríkisstjórnin hafði ákveðið að verja 8 milljörðum króna af símafé til að leggja Sundabraut? Þá var bókað að tillögu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra:

„Borgarstjórn Reykjavíkur fagnar þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja áherslu á samgöngubætur í höfuðborginni við ráðstöfun söluandvirðis Landsíma Íslands. Sérstaklega er því fagnað að átta milljarðar króna skulu lagðir til fyrsta áfanga Sundabrautar á árunum 2007-2010 og að ekki séu uppi áform um gjaldtöku af umferð um mannvirkið. Að því gefnu að umhverfisráðherra telji báðar leiðir yfir Kleppsvík færar og viðunandi lausn fáist á tengingu Sundabrautar við Sæbraut m.t.t. hagsmuna miðborgarinnar og nærlægrar byggðar, mun verða ráðist í breytingu á gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur með það fyrir augum að fara s.k. innri leið. Borgarstjórn fagnar einnig sérstakri áherslu á eflingu heilbrigðisþjónustu, vísinda og tækni með byggingu hátæknisjúkrahúss, sem stuðlað getur að því að framtíðarsýn um öflugt þekkingarþorp á háskólasvæðinu í Vatnsmýrinni verði að veruleika fyrr en ella.“

Feitletrun í bókuninni er mín en af textanum má ráða, að vilji borgarstjóra og annarra í borgarstjórn - ekki var gerð nein athugasemd við bókunina - standi til þess að fara svonefnda innri leið yfir Kleppsvík, það er á uppfyllingu og brúm milli eyja, enda finnist viðunandi lausn fyrir tengingu við Sæbraut. Þessi leið, sem þarna er nefnd er hagkvæm og örugg, hún gerir til dæmis bæði hjólreiðamönnum og gangandi kleift að fara yfir Kleppsvíkina. Í umræðum í borgarstjórn á kjörtímabilinu hef ég verið málsvari þessarar leiðar með öðrum sjálfstæðismönnum en R-listafólkið talaði fyrir hábrú fram að 6. september 2005, þegar borgarstjóri lagði fram þessa bókun og kom okkur sjálfstæðismönnum þægilega á óvart með henni.

 

Í aðdraganda kosninganna nokkrum mánuðum eftir bókunina 6. september tala R-lista flokkarnir út og suður um Sundabrautina og nú virðist annað hvort markmiðið að gera jarðgöng, sem teygi sig langt inn á land beggja vegna Kleppsvíkur, eða að velja dýrasta kostinn, það er botngöng, en hann hefur verið minnst kannaður til þessa, þar sem augljóst var, að hann yrði dýrastur. Öllu er þessu slegið fram í upphrópunarstíl en minna talað um hitt, að lögum samkvæmt er ákvörðun um legu Sundabrautar í samráðsferli undir forsjá umhverfisráðherra og lýkur þessu ferli ekki fyrr en eftir kosningar.

 

Í mínum huga eru umræðurnar um Sundabraut nú því miður í álíka lausu lofti á vegum stjórnenda Reykjavíkurborgar og þær voru við upphaf kjörtímabilsins, því að undir forystu R-listans hafa menn ekki sett neinn fastan punkt í umræðurnar heldur sveiflast frá loforðaflaumi um hábrú yfir til bókunar um innri leið og  leita sér loks skjóls neðanjarðar eða neðansjávar, án þess að lausnin hafi verið hugsuð til enda frekar en annað. Stundum virðist mér eins og fjölmiðlar sveiflist bara með í þessu tali öllu saman í stað þess að segja: Hingað og ekki lengra, og skoða síðan málið ofan í kjölinn.

Umræður um framtíð Vatnsmýrarinnar eru sama marki brenndar. Fyrir síðustu kosningar börðu framsóknarmenn í borgarstjórn sér á brjóst og sögðust standa vörð um austur-vestur braut Reykjavíkurflugvallar – völlurinn yrði sko áfram í borginni með einni braut, framsóknarmenn myndu sjá um það innan R-listans og gera þetta að úrslitaatriði. Þegar sagt var, að þessi lausn gengi ekki með vísan til flugöryggis – völlurinn yrði svo oft ónothæfur vegna veðurs,  var blásið á það, sem hverja aðra vitleysu. Nú segja framsóknarmenn: Við boðum þjóðarsátt um flugvöllinn – ekki í Vatnsmýrinni heldur á Lönguskerjum!

Þegar við sjálfstæðismenn sögðum fyrir síðustu kosningar, að allt tal um skjótan flutning flugvallarins væri í raun blekkingarhjal, því að málið yrði ekki leyst nema sest yrði niður til viðræðna við ríkisvaldið, fylltist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverand borgarstjóri, hneykslan – lausn sjálfstæðismanna er að „setjast niður“ sagði hún með þóttafullu flissi – flugvöllinn ætti að flytja til Keflavíkur og það yrði unnið að því undir sinni stjórn á næsta kjörtímabili, ríkinu kæmi þetta ekkert við, það þyrfti ekki að setjast niður með fulltrúum þess.

Í Fréttablaðinu í dag, sunnudag 14. maí, svarar Samfylkingin spurningu um hvar hún vilji innanlandsflugvöll í framtíðinni á þennan veg:

„Helst innan borgarmarka ef það reynist hentugt og hagkvæmt [Stefán Jón segir að vísu, að flugvöllurinn eigi að fara til Keflavíkur]. Sameiginleg nefnd borgarstjóra og samgönguráðherra er einmitt að fara yfir þrjá kosti utan Vatnsmýrarinnar; Hólmsheiði, Löngusker og Keflavík. Mismunandi útfærslur í Vatnsmýrinni verða líka skoðaðar og ákvarðanir verða teknar þegar nefndin skilar af sér í sumar eða haust.“

Hér lýsir Samfylkingin því, að það eitt hafi einmitt gerst á þessu kjörtímabili í flugvallarmálinu, sem við sjálfstæðismenn sögðum fyrir síðustu kosningar, það er að sest yrði niður með fulltrúum ríkisins og farið yfir málið. Á kjörtímabilinu hefur R-listinn hins vegar staðið fyrir því, að ný austur/vestur braut, Hringbrautin, er kominn til sögunnar norðan við flugvöllinn og sker Vatnsmýrina frá miðborginni.

Hitt er ekki síður merkilegt að lesa, hvað Samfylkingin segir, þegar hún er spurð af lesanda Fréttablaðsins með vísan til fuglavarps í Vatnsmýrinni: Af hverju þarf Reykjavíkurflugvöllur að fara, má hann ekki vera áfram þar sem hann er? Og svar Samflykingarinnar er: „Vatnsmýrin er jafn helgur staður vegna fuglavarps og áður hvort sem flugvöllurinn er eða fer, en ástæðan fyrir flutningi vallarins er að meirihluti Reykvíkinga ákvað það með lýðræðislegum hætti.“

Hér er farið frjálslega með sannleikann, svo að ekki sé meira sagt: Hvenær ákvað meirihluti Reykvíkinga þetta? Hvernig væri að Samfylkingin yrði látin upplýsa kjósendur í Reykjavík um það? Ætlar Samfylkingin svo að standa við fullyrðingu sína um helgi fuglavarpsins, eftir að ruðst hefur verið með 2000 bíla stæði inn á svæðið milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar - eitt helsta varpland mófugla í Vatnsmýrinni.

Hvers vegna er ekki farið yfir þessa sögu alla? Eins og áður sagði er samdóma álit allra, sem fjalla um traust til flokka og stjórnmálaforingja, að þar skipti frásögnin (narrative) mestu, það er sagan að baki einstaklingnum sem þátttakanda í opinberu starfi, afskipti hans af úrlausn mála eða stefnumál hans og framkvæmd þeirra. Hér á landi er ekki hefð fyrir því við greiningu á stjórnmálaþróun að leggja áherslu á þennan þátt – skoðanakannanir eða Hummer-atvik ráða umræðunum frekar en frásögnin – lýsing á því, hvernig orð hafa breyst í athafnir – hávaðinn skiptir meira máli en það, sem sagt er.

Hvers vegna rifjar enginn fjölmiðll upp óðagotið sumarið 2002, nokkrum vikum eftir kosningar, sem snerist um, að gera bílastæði undir Tjörninni? Það gafst tæplega tóm til að ræða málið í borgarráði, svo mikið lá Ingibjörgu Sólrúnu á að kynna áformin á blaðamannafundi. Hvar eru efndir þess, sem sagt var á þeim fundi? Af hverju kannar enginn fjölmiðill örlög málsins? Jú, af því að þeir starfa ekki á þann hátt, að frásögnin, ferillinn, orðin og efndirnar skipti máli við mat á stjórnmálamönnum - þá skal dæma eftir hávaðanum og Hummernum-Bummernum.

Eða óðagotið við að kaupa Stjörnubíósreitinn af Jóni Ólafssyni í Skífunni á yfirverði strax að loknum brogarstjórnarkosningunum – hvers vegna skoðar enginn fjölmiðill umræður um það mál á kjörtímabilinu?

Ólafur F. Magnússon vill flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni en hann vill einnig Háskólann í Reykjavík (HR)  í Vatnsmýrina – lóðin þrengir að athafnasvæði flugdeildar Landhelgisgæslu Íslands og flæmir hana í raun á brott frá flugvellinum og markmiðið með HR í Vatnsmýrinni er öðrum þræði að flæma flugvöllinn þaðan – Ólafur F. er þó hlynntur HR í Vatnsmýrinni. Hvers vegna er ekki litið til þessarar frásagnar? Ólafur F. segist sérstakur áhugamaður um umhverfismál – en þegar flutt er í borgarstjórn tillaga um umhverfismat á svæðinu milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar vill hann ekki samþykkja hana. Af hverju er þetta ekki sett í neitt samhengi? Morgunblaðið segir Ólaf F. sérstakan málsvara trillukarla og vörubíkstjóra - hvar og hvenær hefur málsvörn hans fyrir þessa hópa birst í borgarstjórn?

Ef fjölmiðlar nálgast stjórnmál og kosningabaráttu án frásagnar – án þess að lýsa því fyrir hvað einstaka stjórnmálamenn standa eða flokkar þeirra, er rætt um stjórnmál á þann veg, sem gert er í Staksteinum og vísað er til hér að ofan. Hvaða rök eru fyrir því, að Vilhjálmur Þ. láti ekki sjá sig? Eða að Svandís Svavarsdóttir sé „stjarna kosningabaráttunar“ og að hún hafi dregið sig í hlé? Hefur lesendum Morgunblaðsins verið sýnt fram á það með sannfærandi frásögn að hrifning höfundar Staksteina af Ólafi F. og Guðrúnu Ásmundsdóttur sé verðskulduð?