1.5.2006

Spenna í frönskum stjórnmálum.

 

 

Áhugamenn um frönsk stjórnmál vita, að um það bil ári fyrir forsetakosningar eru þar spennandi tímar. Þá eru flokkarnir að velja sér frambjóðendur. Eftir um það bil ár lýkur öðru kjörtímabili Jacques Chiracs forseta og vangaveltur um eftirmann hans ber hátt í öllum fjölmiðlum.

 

Jacques Chirac hefur vorið 2007 setið í tólf ár sem forseti (fyrra kjörtímabilið var sjö ár 1995-2002). Hann hefur hins vegar verið virkur þátttakandi í frönskum stjórnmálum síðan árið 1962. Hann hóf pólitísk afskipti í flokki Charles de Gaulles sem náinn samstarfsmaður Georges Pompidous forsætisráðherra og arftaka de Gaulles á forsetastóli. Hann hefur tvisvar gegnt embætti forsætisráðherra, tvö ár í senn, en var um langt árabil borgarstjóri í París.

 

Hinn langi stjórnmálaferill Chiracs einkennist af sigrum og niðurlægingu. Hann þykir einstakur baráttumaður í kosningum og hrífur þá fólk með sér en honum gengur ekki eins vel að vinna úr sigrum sínum. Söluhæst bóka í Frakklandi um þessar mundir af þeim, sem snúast um annað er skáldskap, heitir: La Tragedie du President og snýst um erfiðleikana, sem nú steðja enn og aftur að forsetanum og nánustu samstarfsmönnum hans. Af nógu virðist að taka í bókinni og það áður en helsti skjólstæðingur hans og hægri hönd Dominique de Villepin forsætisráðherra varð, eftir að meira en milljón manns mótmæltu á götum Parísar, að afturkalla lög, sem áttu að auka sveigjanleika á vinnumarkaði með því að auðvelda uppsagnir á ungu fólki á hinum almenna vinnumarkaði.

 

Síðasta stóráfallið fyrir Chirac fyrir átökin við námsmenn var fyrir tæpu ári, þegar Frakkar höfnuðu stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins (ESB) í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá var haft að orði, að atkvæðagreiðslan snerist að öðrum þræði um að veita Chirac ráðningu – eftir 40 ár væri tími annarra fyrir löngu kominn.

 

Hinn 27. apríl birti hið hægri sinnaða vikurit L’Express úttekt á því, sem það kallar síðustu leyndarmál Chirac-ættarveldisins, þar sem segir, að Bernadette forsetafrú vilji, að maður sinn bjóði sig fram að nýju á næsta ári. Forsetinn hefur sagt, að hann muni skýra frá því í upphafi næsta árs, hvort hann verði í framboði. Claude forsetadóttir, nánasti ráðgjafi föður síns, áformar að setjast að í Bandaríkjunum.

 

Blaðamenn L’Express eru þeirrar skoðunar, að Chirac bjóði sig ekki fram að nýju, hann hafi einfaldlega ekki til þess stuðning. Hann verði því fyrsti forseti fimmta lýðveldisins, sem verði að láta af störfum, þótt forsætisráðherra sé honum hliðhollur. De Gaulle sagði af sér eftir stúdentaóeirðirnar 1968, Pompidou lést í embætti, Valery Giscard d’Estaing tapaði kosningu fyrir François Mitterrand, sem var farinn að heilsu og sat með forsætisráðherra og ríkisstjórn úr öðrum flokki en sínum, þegar öðru kjörtímabili hans lauk.

 

De Villepin hóf 25. apríl sókn í því skyni að styrkja stöðu sína að nýju en hann féll fljótt í skuggann, þegar Nicolas Sarkozy innanríkisráðherra kvaddi sér hljóð um innflytjendamál og komst þannig að orði í sjónvarpsviðtali 27. apríl, að þeir útlendingar ættu ekki heima í Frakklandi, sem ekki þætti gott að vera þar og Frakkar ættu að taka upp innflytjendastefnu, sem miðaði að því að velja þá, sem gætu lagt eitthvað af mörkum til að styrkja innviði samfélagsins – immigration choisie. Þetta væri gert í öðrum ríkjum og með slíkri stefnu væri unnið gegn rasisma og hægri öfgastefnu. „Þetta snýst ekki um að velja aðeins Nóbelsverðlaunahafa. Við viljum, að til Frakklands komi þeir, sem við getum boðið vinnu og húsnæði.“

 

Að kvöldi fimmtudags 27. apríl voru fyrstu sjónvarpsumræður, sem tengjast frönsku forsetakosningunum að ári, og innflytjendamálin settu sterkan svip á þær. Í þeim efnum eru skilin skýr á milli hægri og vinstri. Af orðum vinstrisinna má ráða, að þeir vilji leggja sem minnstar hindranir í garð innflytjenda og eftir því sem haldið er lengra til hægri verður nálaraugað þrengra og yst til hægri vilja menn enga innflytjendur.

 

Þegar de Villepin var skipaður forsætisráðherra eftir nei-sigurinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir tæpu ári, var almennt talið, að í því embætti myndi hann styrkja sig svo, að hann yrði örugglega frambjóðandi til forseta á eftir Chirac. Litið var á valið á de Villepin sem ögrun Chiracs við Nicolas Sarkozy en Chirac hefur aldrei fyrirgefið honum, að hann studdi Edouard Balladur í forsetakosningunum 1995. Sarkozy hefur staðið af sér alla erfiðleika í ríkisstjórninni með de Villepin og er nú ókrýndur forsetaframbjóðandi flokkanna, sem mynda meirihluta á þingi og standa að baki Chiracs, eins langt og sá stuðningur nær.

 

Innflytjendamálin voru ekki lengi meginefni stjórnmálaumræðnanna. Undir lok vikunnar snerist allt um svonefnt Clearstream-mál. Erfitt er að lýsa því í fáum orðum en höfuðdrættirnir eru þessir:

 

Í Clearstream-málinu er verið að kanna sannleiksgildi þess, hvort við sölu á sex frönskum herskipum til Tævan árið 1991 hafi ólögmætar greiðslur runnið inn á leynireikninga fyrir milligöngu alþjóðlega uppgjörsfyrirtækisins Clearstream í Lúxemborg. Sögusagnir hafa verið um, að þekktir franskir stjórnmálamenn, þar á meðal Sarkozy sé einn af leynireikningshöfunum. Sarkozy vill ekki una þessum áburði, sem hann segir ósannan og dregur í raun enginn réttmæti orða hans í efa. Rannsóknin snýst því einnig um, hver hafi komið þessum ósanna áburði á framfæri.

 

Hinn 28. mars sl.  yfirheyrðu tveir rannsóknardómarar, Philippe Rondot, sem var háttsettur leyniþjónustumaður og starfaði fyrir franska varnarmálaráðuneytið þar til í upphafi þessa árs, þegar hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Í Le Monde dags. 29. apríl,  sem kom út síðdegis 28. apríl, eru birtir kaflar úr yfirheyrsluskýrslu dómaranna. Þar segir frá því, að 15. nóvember 2003 hafi pólitískur ráðgjafi Michèle Alliot-Marie varnarmálaráðherra falið Rondot að rannsaka þetta mál en þá hafi legið fyrir nafnalisti með dulnefnum og bankanúmerum, dagsetningum og fjárfærslum frá Jean-Louis Gregorin, sem stjórnaði greingarskrifstofu franska utanríkisráðuneytisins á árunun 1973 til 1984, og kynntist þá bæði Rondot og de Villepin, sem þá var starfsamaður í utanríkisráðuneytinu.  Gregorin var árið 2003 orðinn háttsettur innan risafyrirtækisins EADS en hafði lengi átt í harðri samkeppni við Thomson-CSF (nú Thales), sem seldi herskipin til Tævans. 

 

Rondot segist hafa orðið undrandi að sjá nöfn stjórnmálamanna á listanum frá Gregorin, bæði vinstri og hægri menn. Varnarmálaráðherrann fól Rondot að kanna, hvað stæði á bak við ásakanir um leynigreiðslur til háttsettra embættismanna og viðskiptajöfra samkvæmt listanum en láta hjá líða að rannsaka ásakanir á hendur stjórnmálamanna. Rondot segist síðan hafa verið kallaður á fund hjá de Villepin, þáverandi utanríkisráðherra, 9. janúar 2004. Þar hafi Gregorin einnig verið, en de Villepin hafi þekkt hann lengi, þar sem hann hafi á sínum tíma starfað í utanríkisráðuneytinu undir stjórn Gregorins.

 

Gregorin hafi tekið nafnalista úr brjóstvasa sínum, hinn sama og Rondot hafi fengið í nóvember og segir Rondot, að de Villepin hafi kynnt sér fyrirmæli, sem hann hafi fengið frá Jacques Chirac vegna þessa Clearstream-lista. Rondot ætti að víkka rannsókn sína og láta hana einnig ná til stjórnmálamanna á listanum og ganga úr skugga um, hvort þeir ættu reikninga hjá Clearstream. Þennan dag  9. janúar 2004 hafi nafn Sarkozys verið nefnt í tengslum við málið og í gögnum, sem fundust við húsleit heima hjá Rondot hafi fundist skjal, þar sem Rondot hafi skrifað hjá sér í tengslum við þennan fund: Enjeu politique: N. Sarkozky. Fixation sur N. Sarkozy (ref. conflit J. Chirac/N. Sarkozy).

 

Því er haldið fram, að þessi nafnalisti sé falsaður. Sarkozy hefur sagt það eitt, að hann hefði kosið að vera upplýstur um, að menn hefðu vitað, að engar grunsemdir væru um sig. Fyrir de Villepin er frásögn Le Monde alvarleg, því að hann sagði við Le Figaro sama dag og Le Monde birti frásögnina af yfirheyrslunum yfir Rondot, að hann hefði aldrei nefnt Sarkozy í tengslum við rannsókn á Clearstream-málinu.

 

Í Le Figaro 29. apríl segja málsvarar Rondots, að hann sé hneykslaður á því, hvernig Le Monde hafi sagt frá málinu, því að de Villepin hafi aldrei beðið Rondot að rannsaka Sarkozy, jafnvel þótt nöfn stjórnmálamanna hafi borið á góma í máli annarra manna en utanríkisráðherrans á fundi þeirra 9. janúar 2004. Talsmaður Chiracs sagði í tilefni af frásögninni í Le Monde, að Chirac hefði frá upphafi forsetaferils síns hvatt til þess almennum orðum, að spornað yrði við spillingu í alþjóðaviðskiptum og hvers kyns mafíustarfsemi. Hann hefði aldrei beint máli sínu gegn nafngreindum einstaklingum.

 

Hér hefur verið stiklað á stóru í þessu Clearstream-málinu. Það er enn óupplýst og réttarkerfið hefur ekki sagt sitt síðasta orð en sá hluti málsins, sem snýr að samskiptum ráðherra í ríkisstjórn Frakklands, varpar ljósi á andrúmsloftið. Um helgina segir Le Monde í aðalfyrirsögn, að varpað hafi verið fram spurningu um það, hvort forsætisráðherrann ætti að segja af sér. Blaðið telur, að annað hvort verði forsætisráðherrann að óska eftir því við rannsóknardómarana að fá að svara spurningum þeirra eða dómararnir að kalla ráðherrann til yfirheyrslu til að fá vitneskju um hlut hans í þessu máli.

 

Nicolas Sarkozy hefur kosið að segja sem minnst um þetta mál en ekki er talið, að honum sé endilega að skapi, að de Villepin hætti sem forsætisráðherra núna.

 

Hið sama á við um vinstrisinna og hægrimenn í Frakklandi, að innan raða þeirra er tekist á um forsetaframbjóðandann, þótt eitt nafn beri hæst, það er Ségolène Royal, fjögurra barna móður og sambýliskonu François Hollande, formanns sósíalistaflokksins. Hollande hefur nú falið nafna sínum og nánum samstarfsmanni Rebsamen, borgarstjóra í Dijon, að leggja til við flokksstjórnina, hvernig staðið skuli að vali á forsetabjóðanda flokksins.

 

Spenna vex milli stuðningsmanna Royal og annarra, sem hafa lýst áhuga á framboði en þar er fremstur Lionel Jospin, fyrrverandi forsætisráðherra og forsetaframbjóðandi, auk þeirra Jack Lang, fyrrverandi menningarmálaráðherra, Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi fjármálaráðherra og Laurent Fabius, fyrrverandi forsætisráðherra.

 

Líklegt er, að framboðsfrestur í prófkjöri meðal flokksmanna renni út í byrjun október og síðan verði kosið milli frambjóðenda í lok nóvember. Lang, Strauss-Kahn og Fabius hafa óskað eftir sjónvarpsviðræðum við Royal til að ræða um stefnumál og hugsjónir. Rebsamen hafnar öllum slíkum tillögum, sem verði aðeins til að ýta undir klofning innan flokksins. Hann leggur til, að frambjóðendur kynni stefnu sína á netinu undir stjórn blaðamanns.

 

Skoðanakannanir undanfarna mánuði hafa sýnt Royal njóta meira fylgis en Sarkozy í seinni umferð forsetakosninga. Hins vegar brá svo við, að í Paris Match dags. 27. apríl 2006 birtist könnun, sem sýnir Sarkozy með 51% fylgi en Royal 49% ; Sarkozy 56% en Lang 44%; Sarkozy 56% en Jospin 44%; Sarkozy 58% en Hollande 42%; Sarkozy 59% en Strauss-Kahn 41%; Sarkozy 61% en Fabius 39%. - - Royal 63% en de Villepin 37%.

 

Þegar spurt er um traust og trúverðugleika fær Sarkozy 36%, Royal 24% og Jospin 7%.