9.4.2006

Tilvist Samfylkingar og öryggismál.

 

Vafalaust hafa fleiri orðið undrandi en ég við að lesa þessa fyrirsögn á bls. 2 í Fréttablaðinu í dag, sunnudaginn 9. apríl: Íslenskt efnahagslíf að fara til fjandans. Mér þótti líklegt, að þarna væri verið að vitna í enn eina dönsku hrakspána en sá síðan mynd af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, í ræðustól á flokkstjórnarfundi og skildi fyrirsögnina á þann veg, að verið væri að vitna í hana.

 

Þegar ég bar mig eftir að lesa ræðuna á vefsíðu Samfylkingarinnar blasti við mér yfirlýsing frá Ingibjörgu Sólrúnu um „óskiljanleg mistök“ af hálfu Fréttablaðsins, en blaðamaður þess snúi orðum hennar á haus, hún „héldi ekki að íslenskt efnahagslíf væri að fara fjandans til.“ Ingibjörg Sólrún segir:  „Ég lýsi furðu á þessum vinnubrögðum og er ábyrgðin algerlega Fréttablaðsins.“ Ástæðulaust sé að vera með „ótímabærar hrakspár“ á meðan aðrir aðilar en ríkisstjórnin axli ábyrgð sína, en hún sé með lausatök á ríkisfjármálum.

 

Mér varð rórra við að lesa þessa leiðréttingu Ingibjargar Sólrúnar, því að með frétt Fréttablaðsins var hún í raun gerð alveg marklaus í umræðum um íslensk efnahagsmál. Hún virðist þó ekki átta sig nógu vel á þeim, þegar hún telur vandann nú eiga rætur að rekja til lausataka ríkisstjórnarinnar á ríkisfjármálum. Hvaða hagspekingar veita henni þau ráð? Ekki þeir, sem starfa hjá hinum erlendu matsfyrirtækjum og síðast hafa talað. Þeir fara lofsamlegum orðum um stjórn ríkisfjármála en beina gagnrýni að bönkum og stefnu þeirra.

 

Á síðasta landsfundi sínum skilaði Samfylkingin auðu í öryggis- og varnarmálum vegna innri ágreinings og á flokkstjórnarfundinum 8. apríl var ekkert ályktað um þennan mikilvæga málaflokk, en á dögunum var málið sett í enn nýja nefnd á vegum flokksins, að þessu sinni undir formennsku Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem segir rangt hjá Geir H. Haarde utanríkisráðherra, að samstarf við Bandaríkin í varnarmálum sé eini raunverulegi kostur Íslendinga.

 

Ingibjörg Sólrún er alls ekki ósammál Geir H. Haarde um réttmæti þess að ræða framhald varnarsamstarfs við Bandaríkjamenn. Hún sagði á flokksstjórnarfundinum: „Ég hef sagt að engin ástæða sé til að rjúka upp til handa og fóta og segja nú upp varnarsamningi sem á sér hálfrar aldar sögu. Við eigum að ræða þá stöðu sem nú er uppi í varnarmálum Íslands og Norður-Atlantshafsins við nágrannaþjóðir okkar í Nató og velta fyrir okkur þeim kostum sem eru í stöðunni. Liður í því er að skoða gildi varnarsamningsins fyrir Íslendinga í ljósi þess að samningurinn er nú einhliða túlkaður og framkvæmdur af bandarískum stjórnvöldum. “

 

Flokksráðsfundur sjálfstæðismanna var haldinn á Akureyri 7. og 8. apríl en í ályktun hans er að finna kafla um nauðsyn landvarna hér eins og í öðrum löndum og síðan segir:

 

„Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin frá árinu 1951 hafa verið hornsteinar íslenskrar öryggisstefnu síðustu áratugi. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á áframhaldandi samstarf við Bandaríkin á sviði öryggis- og varnarmála í góðri samvinnu við önnur ríki Atlantshafsbandalagsins. Slíkt samstarf, sem byggist á raunhæfri og trúverðugri skuldbindingu af hálfu Bandaríkjamanna um að tryggja öryggi landsins, er og verður um fyrirsjáanlega framtíð besta leiðin til að varðveita öryggi Íslands.  Sjálfstæðisflokkurinn stendur því einhuga að baki þeirri stefnu að tryggja varnir landsins með samstarfi við Bandaríkin og leggur áherslu á að í yfirstandandi viðræðum þjóðanna náist sem fyrst niðurstaða sem þjóni hagsmunum Íslands.“

 

Spyrja má: Hver er í raun efnislegur munur á þessari ályktun sjálfstæðismanna og hinum tilvitnuðu orðum úr ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur?

 

Af ályktun flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar má ráða, að þar á bæ vilji menn færa löggæslu frá ríkisvaldinu til sveitarfélaganna. Ég sé ekki, hvernig það samrýmist  þeirri stefnu, sem Ingibjörg Sólrún lýsir á þann veg í ræðu sinni, að Samfylkingin hafi „lagt áherslu á að borgaralegar varnir landsins verði styrktar með sérstöku tilliti til hryðjuverka, alþjóðlegrar glæpastarfsemi, farsótta, náttúruhamfara eða annarra ógna.“ Fráleitt er, að þetta verði best gert með því að splundra lögreglunni með því að færa forræði hennar til einstakra sveitarfélaga.

 

Ingibjörg Sólrún hefur áhyggjur af stöðu eigin flokks eins og sjá má af þessum orðum hennar:

 

„Í þessu ljósi [samstarfs innan ríkisstjórnarinnar] er athyglisvert að rýna í ræður Sjálfstæðismanna sem og ritstjórnarskrif Morgunblaðsins. Í öðru orðinu mæra þeir mjög Vinstri-græna, hvort sem er á þingi eða í borgarstjórn, klappa þeim á kollinn og hrósa þeim óspart fyrir að hafa skýra og afdráttarlausa stefnu. Í hinu orðinu hallmæla þeir Samfylkingunni fyrir stefnuleysi og eggja okkur jafnvel lögeggjan að taka gamaldags vinstri pólitík upp á okkar arma.

 

Þetta er mjög skiljanlegt. Það sem fyrir þeim vakir er að Samfylkingin færi sig meira út á jaðar stjórnmálanna til að skapa meira rými fyrir ríkisstjórnarflokkana í meginstraumnum – hinni s.k. miðju. Það gæti jafnvel orðið bjargræði ríkisstjórnarinnar og framlengt líf hennar.

 

En Samfylkingin er ekki jaðarflokkur. Hún er stór flokkur sem flytur meginstrauma í stjórnmálum eins og jafnaðarmannaflokkar í Evrópu hafa löngum gert.“

 

Ef Samfylkingin ætlar að taka mið af stefnu jafnaðarmannaflokka í Evrópu í varnar- og öryggismálum, tekur hún ekki undir sjónarmið þeirra, sem telja engar ráðstafanir þurfa að gera til að tryggja landvarnir Íslands. Ég veit ekki um neinn jafnaðarmannaflokk í Evrópu, sem hefur varnarleysi eigin lands á stefnuskrá sinni, enda ættu þessir flokkar ekki marga daga eftir, ef þeir gengju fram af slíku ábyrgðarleysi. Flokkarnir fara hins vegar mismunandi vel út úr umræðum um öryggismál þjóðar sinnar. Þannig hafa danskir jafnaðarmenn ekki mælst jafnilla í könnunum og um þessar mundir og eru að einangrast vegna fylgis- og dáðleysis, sem er að verulegu leyti rakið til þess, hvernig mál hafa þróast í dönskum stjórnmálum, eftir að skopteikningarnar birtust í Jyllands-Posten og þyngra varð undir fæti í samskiptum Dana og múslíma.

 

Þriðjudaginn 4. apríl, afmælisdag NATO, sem var stofnað þennan með þátttöku Íslendinga árið 1949, birtist grein í Morgunblaðinu eftir þau Steingrím J. Sigfússon formann og Katrínu Jakobsdóttur varaformann vinstri/grænna undir fyrirsögninni: Tímamót í friðar- og utanríkismálum. Þau minnast að vísu ekki á NATO og segja, að ræða eigi við Bandaríkjamenn um brottför þeirra og setja kíkinn einfaldlega fyrir blinda augað, þegar minnst er á landvarnir. Ég staldraði einkum við þennan kafla í grein þeirra:

 

„Það mun verða Íslendingum til góðs, styrkja innviði samfélagsins og bæta sjálfsmynd okkar, að við gerum hlutina sjálf, á okkar forsendum og með okkar hagsmuni eina að leiðarljósi. Meginverkefnin eru yfirtaka og rekstur Keflavíkurflugvallar, sem með stóraukinni borgaralegri flugumferð og auknum tekjum er eðlilegur og sjálfsagður hlutur og vel viðráðanlegur. Sama gildir að sjálfsögðu um eflda landhelgisgæslu, sem hvort eð er þurfti að ráðast í, aukið landamæraeftirlit og löggæslu. Þá þarf að stórefla tækjakost og mannafla til björgunarstarfa, sem einnig var löngu tímabært. Lágmark eru þrjár öflugar og vel búnar björgunarþyrlur að minnsta kosti af svipaðri stærð og TF Líf og þar af ein staðsett norðan hálendisins. Einnig er full þörf á að styrkja almannavarnaviðbúnað og bæta starfsaðstæður björgunarsveita. Ýmsar fleiri ráðstafanir væri æskilegt að gera sem ásamt ofangreindu munu auka öryggi þjóðarinnar gagnvart raunverulegum hættum sem umhverfi okkar og náttúrulegar aðstæður skapa.“

 

Ég sé ekki betur af þessum orðum en forystumenn vinstri/grænna séu í stórum dráttum sammála þeirri stefnu, sem ég hef haft að leiðarljósi undanfarin ár og nú er unnið að með því að efla löggæslu, landhelgisgæslu, landamæraeftirlit og skapa þessum opinberu aðilum og björgunarsveitum á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar nýtt starfsumhverfi með nýrri löggjöf um almannavarnir. Vinstri/grænir gera ekki ráð fyrir því eins og Samfylkingin, að löggæsla sé flutt frá ríki til sveitarfélaga. Að þessu leyti að minnsta kosti eru þeir skynsamlegri kostur til samstarfs en Samfylkingin.