2.4.2006

Hernaðaráætlanir og íslensk stjórnvöld.

Í kvöldfréttatíma NFS laugardaginn 1. apríl 2006 flutti Kristinn Hrafnsson fréttamaður þennan boðskap:

„Fræðimenn jafnt sem stjórnarandstöðuleiðtogar gagnrýna harðlega að engin þekking sé til í landinu á öryggis- og varnarmálum. Því þurfi sjálfstæða ríkið Ísland að láta allt frumkvæði í landvarnarmálum þjóðarinnar í hendur erlendra aðila.“

 

Fréttamaðurinn vitnaði til Geirs H. Haarde utanríkisráðherra, sem sagði íslenska stjórnkerfið ekki búa yfir sérþekkingu til að semja varnaráætlanir og sagði síðan:

„Í dag hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar, bæði Ingibjörg Sólrún, Samfylkingu. og Steingrímur Sigfússon, Vinstri-grænum, gagnrýnt í fjölmiðlum þann hátt Íslendinga að sitja óvirkir og bíða eftir frumkvæði viðsemjenda. Í Fréttaviku Þorfinns Ómarssonar á NFS í morgun létu tveir stjórnmálafræðingar í alþjóðastjórnmálum þung orð falla um átakanlegan skort á þekkingu innanlands á varnarmálum.

Jón Ormur Halldórsson, dósent í Háskólanum í Reykjavík: En það sem er dapurlegast við þetta allt saman er það að það er búið að rífast um varnarmál á Íslandi í 60 ár og niðurstaðan af þessu 60 ára rifrildi er að við höfum enga þekkingu á málinu. Hugsið ykkur niðurstöðuna. Hugsið ykkur allt púðrið sem er búið að eyða í að rífast um málið og menn hafa verið fastir í sínum eigin litla heimi í þessum málum, hvað menn hafa keyrt á einhverju hugmyndafræði frekar en þekkingu, að þegar skyndilega er, það kemur ekki skyndilega, menn eru búnir að vita í fimmtán ár að það er allt búið að breytast í kringum okkur. Það er ekkert af þessu var fyrir fimmtán árum. Og nota ekki þann tíma til að byggja upp þekkingu og það sé til sjálfstætt ríki í Evrópu þar sem er ekki til einn einasti sérfræðingur í hernaðarmálum og ég verð að segja að horfa upp á það, að eftir þessa áratugarifrildi, að sjá síðan að við getum ekki annað sagt eiginlega heldur en boltinn sé sífellt hjá Bandaríkjamönnum sem eru búnir að segja okkur með einum eða öðrum hætti kurteislega og með beinum hætti í tíu ár að þeir vilji fara héðan, að viðbrögðin séu alltaf þau: nei, við viljum hafa ykkur. Boltinn er hjá ykkur, hvað viljið þið gera næst? Þetta er eiginlega alveg ótrúlegt.

Baldur Þórhallsson, dósent í stjórnmálafræði við HÍ: Ég sá á einhverjum einum stað orðið [?] sem Jón Ormur er að segja og við hjá alþjóðamálastofnun við Háskóla Íslands erum búin að vera að reyna að leita til stjórnvalda. Við eigum að byggja upp þekkingu í öryggis- og varnarmálum og við tölum vægast sagt fyrir daufum eyrum.

Síðast fyrir mánuði ítrekaði Geir Haarde, utanríkisráðherra þá lágmarkskröfu Íslendinga að hér yrðu herþotur staðsettar, hinar sýnilegu loftvarnir. Sagðist hann ekki vilja vera sá ráðamaður sem tæki ábyrgð á þeirri tilraun að hafa landið án loftvarna. Ekki er annað vitað en þetta sé enn hin opinbera stefna. Vandséð er á hvaða faggrunni þetta loftvarnarmat byggist eða hvað myndi gera sama gagn og sætasta stelpan á ballinu sem ekki virðist beint ætla að dansa í ból íslenskra ráðamanna.“

 

Ég hef áður gert að umtalsefni, hve undarlegt er, að nú skuli menn lýsa undrun sinni yfir því, að innan íslenska stjórnkerfisins sitji ekki menn og geri áætlanir um, hvernig verja eigi land og þjóð með Bandaríkjaher eða íslenskum her.

 

Einkennilegt er lesa þau orð Baldurs Þórhallssonar, að hjá alþjóðamálastofnun HÍ hafi menn reynt að leita til stjórnvalda til að byggja upp þekkingu í öryggis- og varnarmálum, en þar sem þau hafi ekki tekið undir óskir HÍ, má skilja orð Baldurs á þann veg, að þar með hafi menn innan Háskóla Íslands ákveðið að leiða málið hjá sér.

 

Valur Ingimundarson, dósent í sagnfræði við HÍ, hefur lagt sig fram um að fylgjast með framvindu mála í viðræðum Bandaríkjamanna og Íslendinga um varnarmál og draga ályktanir af henni um, hvert stefndi í viðræðunum.

 

Stjórnmálafræðingar og sagnfræðingar eru vel hæfir til þess að leggja mat á þróun mála út frá sérsviði sínu og setja atvik og atburði í rökrétt samhengi. Þeir nálgast viðfangsefni sitt hins vegar ekki frá sama sjónarhóli og þeir, sem hlotið hafa herfræðilega menntun eða þjálfun og falið er að semja álitsgerðir á þeim grundvelli. Gerð varnaráætlana og aðferðir til að framkvæma þær er álíka langt frá stjórnmálafræði og sagnfræði og verkfræðilegar úrlausnir við mannvirkjagerð eða úrlausn tæknilegra viðfangsefna. Þótt sagnfræðingur hafi yfirburðaþekkingu á byggingasögu landsins er ekki þar með sagt, að hann geti sagt fyrir um, hvernig staðið skuli að því að byggja hús.

 

Íslensk stjórnvöld hafa sent frá sér skýrslur með mati á þróun öryggis- og varnarmála og hafa á sínum snærum sérfróða menn á því sviði – en þau ráða ekki yfir mannafla til að semja varnaráætlanir og ákveða framkvæmd þeirra með herafla. Þarf þetta að koma á óvart eftir 60 ára deilur um íslensk utanríkis- og öryggismál?

 

Í bók sinni Uppgjör við umheiminn  segir Valur Ingimundarson frá skýrslu, sem James Penfield, sendiherra Bandaríkjanna, ritaði fyrir tæpum 40 árum, eða í marsmánuði 1967, og segir meðal annars: „Eins og forverum hans þótti Penfield bagalegt að Íslendingar hefðu yfir engum hernaðarsérfræðingum að ráða. Það mundi styrkja stöðu Bandaríkjamanna á Íslandi og bæta andrúmsloft í samskiptunum, ef þeir gætu rætt við Íslendinga um hermál.  Íslendingar brygðust við þessum vanda með tvennum hætti: Annars vegar væru þeir sem töluðu í jákvæðum en einstrengingslegum tón um varnarsamstarfið án þess að hafa hundsvit á því. Hins vegar væru þeir sem hörmuðu fáfræði Íslendinga um hermál. Þeir legðu til til að leitað yrði úrbóta svo framarlega sem þeir þyrftu ekki að hafa fyrir því sjálfir.“

 

Í Sögu stjórnarráðsins skrifar Ólafur Rastrick um Viðreisnarárin. Hann dregur þar saman úr bók Vals Ingimundarsonar, segir frá því, að ungir sjálfstæðismenn hafi árið 1967 ályktað á þann veg, „Íslendingar tækju með einhverjum hætti virkari þátt í vörnum landsins“ og segir síðan: „Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, hafði sömuleiðis hug á því að Íslendingar yrðu beinir þátttakendur á þessu sviði. Sumarið 1967 viðraði hann við ráðamenn Atlantshafsbandalagsins hugmyndir um þjálfun íslensks varnarliðs til þess að taka að einhverju leyti við rekstri varnarstöðva hér á landi. Vísaði ráðherrann til þess að hann hefði orðið var „við þá skoðun sumra, að dvöl erlends varnarliðs til langframa væri að nokkru leyti niðurlægjandi (humiliting) fyrir íslenzku þjóðina“. Þessum hugmyndum var fálega tekið af Atlantshafsbandalaginu. Tjáði yfirmaður herafla þess í Evrópu íslensku ríkisstjórninni að það þjónaði litlum tilgangi að stofna til íslensks varnarliðs og að slíkt hefði ekkert hernaðarlegt gildi. Eftir sem áður hafði forsætisráðherra hug á að Íslendingar mörkuðu sér sess sem fullgildur aðili að varnarkerfi vestrænna ríkja. Á næstu misserum ítrekaði hann þá skoðun sína að það væri ekki sjálfgefið að Bandaríkjaher myndi dvelja hér til langframa, þótt hann viðurkenndi að Íslendinga skorti enn nokkra burði til að taka við vörnum landsins.“

 

Valur Ingimundarson segir:

 

„Bjarni Benediktsson hafði hvatt til þess að málið [þörfin fyrir varnarliðið] yrði rannsakað, m. a. með því að fá erlenda hernaðarsérfræðinga óháða Bandaríkjastjórn til að leggja mat á hernaðarmikilvægi Íslands. Herfræðistofnunin International Institute for Strategic Studies í London sá sér ekki fært af ókunnum ástæðum að taka verkið að sér. Eftir það var leitað til kanadísks hernaðarsérfræðings. Í skýrslu hans, sem lögð var fram í apríl 1970, var ekki mælt með því að hróflað yrði við hernum. Vegna vaxandi útþenslu sovéska flotans væri ný ógn komin til sögunnar: hugsanlegt stríð milli Varsjárbandalagsins og NATO og höfunum kringum Ísland. Af þessum ástæðum hefði hernaðarmikilvægi Íslands aukist. Betri kostur væri fyrir Íslendinga að hafa hér hervarnir fremur en veikja NATO.“

 

Spennan á höfunum umhverfis Ísland jókst jafnt og þétt til ársins 1985, þegar Sovétmenn tóku að draga úr hernaðarlegum umsvifum sínum. Í tíð Geirs Hallgrímssonar sem utanríkisráðherra eða árið 1984 hófu Íslendingar loks þátttöku í störfum hermálanefndar NATO. Í skýrslu Geirs Hallgrímssonar, utanríkisráðherra, sem lögð var fram á alþingi 1984-1985 segir hann frá því að verið sé að breyta varnarmáladeild í varnarmálaskrifstofu í utanríkisráðuneytinu með það að markmiði að í ráðuneytinu verði „ávallt til staðar fullnægjandi þekking á varnar- og öryggismálum“, eins og sagt er frá í þeim hluta Sögu stjórnarráðsins, sem Sigríður Þorgrímsdóttir skrifar. Þar segir einnig: „Á vegum [utanríkis]ráðuneytisins starfaði varnarmálafulltrúi sem fór til Brűssel árið 1986 til þriggja ára dvalar við störf á hermálaskrifstofu NATO. Var annar ráðinn til starfa heima fyrir í hans stað, en starfssvið hans var fyrst og fremst að fylgjast með starfsemi varnarliðsins. Þá var einnig ráðinn á vegum ráðuneytisins starfsmaður „með þekkingu og reynslu á sviði alþjóðastjórnmála og herfræði“ árið 1986.“

 

Í frásögninni af því, sem gerðist í utanríkisráðuneytinu fyrir 20 árum, er ekki minnst á, að ráðuneytið hafi ætlað að taka sér fyrir hendur að gera varnaráætlanir, þótt búið hafi verið þannig um hnúta, að Íslendingar gætu fylgst meira og betur með því, sem gerðist í hernaðarlegu samstarfi NATO-ríkjanna. 

 

Um miðjan níunda áratuginn var hernaðarlega spennan mest í kringum Ísland en eftir hrun Sovétríkjanna snarbreyttist staðan og síðan hafa íslensk stjórnvöld látið vinna tvær skýrslur um öryggis- og varnarmál, 1993 og 1999, en ábendingar í þeim um meginstefnu eru enn í fullu gildi, auk þess flytur utanríkisráðherra árlega alþingi skýrslu um utanríkismál, þar sem varnarmál eru jafnframt rædd. Allt hefur þetta byggst þetta á því, að Íslendingar ráði hvorki yfir eigin her né vinni stjórnvöld að gerð hernaðarlegra áætlana – þangað til núna að stjórnarandstaðan og viðmælendur fjölmiðla úr hópi háskólamanna lýsa undrun sinni yfir því, að störf stjórnarráðsins hafi ekki snúist um gerð hernaðarlegra varnaráætlana!

 

Niðurstaða fundar viðræðunefnda Íslendinga og Bandaríkjamanna föstudaginn 31. mars var á þann veg, að innan nokkurra vikna mundu Bandaríkjamenn kynna Íslendingum varnaráætlanir fyrir landið, sem taka mið af nýrri hernaðarlegri tækni og framkvæmd varna í ljósi hennar.

 

Þegar ég reifaði þau sjónarmið árið 1995, að Íslendingar hefðu burði til þátttöku í eigin vörnum og rökstuddi þá skoðun voru viðbrögðin svipuð og Penfield lýsti fyrir tæpum 40 árum: „Annars vegar væru þeir sem töluðu í jákvæðum en einstrengingslegum tón um varnarsamstarfið án þess að hafa hundsvit á því. Hins vegar væru þeir sem hörmuðu fáfræði Íslendinga um hermál. Þeir legðu til að leitað yrði úrbóta svo framarlega sem þeir þyrftu ekki að hafa fyrir því sjálfir.“

 

Ég hóf þennan pistil með því að vísa til fréttar hjá NFS, þar sem sagði: „Fræðimenn jafnt sem stjórnarandstöðuleiðtogar gagnrýna harðlega að engin þekking sé til í landinu á öryggis- og varnarmálum. Því þurfi sjálfstæða ríkið Ísland að láta allt frumkvæði í landvarnarmálum þjóðarinnar í hendur erlendra aðila.“

 

Fullyrðingin í inngangi fréttarinnar um að engin þekking sé til í landinu á öryggis- og varnarmálum á ekki við rök að styðjast – hins vegar getur íslenska stjórnkerfið ekki samið varnaráætlanir, sem byggjast á herstyrk Bandaríkjamanna. Íslenska stjórnkerfið getur ekki gert varnaráætlanir, sem byggjast á íslenskum herafla, af því að hann er einfaldlega ekki fyrir hendi.