26.2.2006

Rem Koolhaas og skipulagsleysi í Vatnsmýrinni.

Í pistli hér á síðunni hinn 5. febrúar sl. velti ég fyrir mér, hvað fælist í ummælum Dags B. Eggertssonar, formanns skipulagsráðs Reykjavíkur, um væntanlega heimsókn Rems Koolhaas arkitekts, sem Morgunblaðið fjallaði einnig um í Reykjavíkurbréfi. Ég taldi bæði blaðið og Dag tala alltof óljósum orðum um skipulagsmál Vatnsmýrarinnar og hlut arkitektsins.

Í öðru orðinu er látið eins og unnt sé að ganga að hreinu borði við skipulag á Vatnsmýrinni og í hinu er verið að úthluta hinum og þessum lóðum í Vatnsmýrinni, án þess að gengið sé til þess að skipuleggja þessar lóðir lögum samkvæmt. Háskólanum í Reykjavík hefur verið ætluð lóð í Vatnsmýrinni og hann hefur efnt til samkeppni um 32 þúsund fermetra byggingu á 20 hekturum, sem ekki hafa verið skipulagðir.

Hinn 15. september 2005 sagði Dagur B. Eggertsson í Morgunblaðinu, að fyrirtækið Invent farma myndi fá lóð undir rannsóknar- og þróunardeild í Vatnsmýrinni í tengslum við fyrirhugað svæði Háskólans í Reykjavík. Í frétt blaðsins er haft eftir Degi, „að svæðið verði deiliskipulagt með fyrirhuguðu svæði Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni, og sé vilyrðið veitt með sömu formerkjum og vilyrði HR. Ef allt gangi að óskum geti fyrirtækið hafið byggingu snemma næsta haust [þ. e. haustið 2006] og hafið starfsemi ári síðar, eða haustið 2007.“

Hvar er þessi lóð fyrir Invent farma? Hver hefur skipulagt hana? Hvar er deiluskipulagið um þetta svæði? Það er skrýtið, að Morgunblaðið, sem hefur sýnt Vatnsmýrarsvæðinu sérstakan skipulagsáhuga skuli ekki hafa upplýst lesendur sína um það, hvaða lausnir eru fyrir þessi fyrirtæki á svæðinu. Blaðið lætur sér nægja að fjalla um þessi mál með svo almennum orðum, að stundum er ógjörningur að átta sig á því, hvert sé viðhorf þess. Það birtir fréttir af töku skipulagsákvaðana um svæðið heldur aðeins um yfirlýsingar Dags B. Eggertssonar á þann veg, að ætla mætti, að orð hans jafngiltu samþykktu skipulagi. Málum er einfaldlega ekki þannig háttað auk þess sem komið hefur í ljós síðustu daga, að Dagur verður orðlaus, þegar um raunveruleg og brýn úrlausnarefni er að ræða, eins og vegna útboðsklúðursins við Úlfarsfell.

Fyrir réttri viku, sunnudaginn 19. febrúar, birtist frétt í Morgunblaðinu um að Rem Koolhaas hefði verið hér á landinu og átt fundi með fulltrúum úr borgar- og skipulagsráði. Í fréttinni var sagt frá því, að Koolhaas hefði verið mjög áhugasamur um skipulag í Vatnsmýrinni og hann „vildi vera borgaryfirvöldum innan handar við heildarskipulag Reykjavíkur og skoðun og rýni á ýmsum lykilreitum í borginni, svo sem lóð Landspítalans og svæði Háskólans í Reykjavík í Nauthólsvík.“ Honum hefði þótt sérstakleg áhugavert, hve stór hluti Íslendinga búi á höfuðborgarsvæðinu. Salvör Jónsdóttir, sviðsstjóri skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur, varðist allra frétta um skoðanir Koolhaas en þó hefði hann lagt „á það áherslu að skipulag svæða eins og Vatnsmýrarinnar verði ekki leyst með einföldum hætti og það sé langt í frá á færi eins manns að gera.“

Dagur B. sagði Morgunblaðinu, að Koolhaas mundi skila borgaryfirvöldum minnisblaði 2. mars, það er nk. fimmtudag og yrði það innlegg í hugmyndasamkeppni um Vatnsmýrina.

Hinn 13. febrúar 2006 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Bjarka G. Halldórsson, sem er á 4. ári í arkitektanámi í Árósum. Bjarki ræðir um væntanlega heimsókn Koolhaas og segir hann nota markaðsöflin sem viðmið í stað þess að vinna gegn þeim við borgarskipulag – hnattvæðingin sé það, sem koma skuli. Arkitektinn eigi að vinna með markaðsöflunum en ekki breyta heiminum. Þá segir Bjarki:

„Flugvellir spila stórt hlutverk í hugmyndafræði Koolhaas. Í heimi þar sem allt gengur út á viðskiptaferðalög mun fólk eyða gríðarmiklum tíma á flugvöllum. Samkvæmt því á flugvöllurinn að vera nk. miðpunktur hverrar borgar. Fólk sem lifir og hrærist í hnattvæðingunni þarf ekki á heimili að halda, frekar bækistöð nálægt flugvelli. Fólk sem vill koma sér upp heimili getur svo búið í úthverfum, í nægilegri fjarlægð, þar sem það getur grillað lambalærið sitt í friði.

Samkvæmt þessum fræðum er alveg eins líklegt að Koolhaas muni leggja til að flugvöllurinn verði áfram á sínum stað. Ef hann kemur með þá hugmynd verður spennandi að sjá hvernig hann hugsar landið allt og tengsl þess við Reykjavík. Ef hann hins vegar kaupir hugmyndir borgaryfirvalda um að láta völlinn fara er alveg eins líklegt að Vatnsmýrin verði að einni stórri viðskiptamiðstöð með himinháum blokkum og með nóg af verslunarmiðstöðvum. Reykjavík mun eiga sitt „Wall Street“. Annar miðbær, eins og við þekkjum hann í dag, mun ekki verða að veruleika. “

Í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 25. febrúar birtist grein eftir Guju Dögg Hauksdóttur arkitekt um komu Koolhaas til landsins og þar segir meðal annars:

„Meðan á dvöl hans í síðustu viku stóð hélt Koolhaas opinn fyrirlestur í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur fyrir þéttfullum sal áhugasamra borgara, og svaraði þar aðspurður að sér fyndist það vera helsti vandi Vatnsmýrarinnar hversu miklar og margar skoðanir allir virtust hafa á svæðinu! Frá hans bæjardyrum séð væri engan veginn hægt að taka ákvarðanir nema í ljósi umtalsverðrar þekkingar á því sem fyrir höndum lægi. Persónulegar skoðanir einar og sér tryggðu ekki gæði ákvarðana sem teknar væru - til langs tíma og um mikil fjárútlát, og hér væri nokkurt verk óunnið að kanna og greina þær mörgu hliðar sem á Vatnsmýrinni væru, s.s. staðhætti, landslag, annmarka og möguleika, í stærra samhengi og frá öllum hliðum.

Hans eigin vinnuaðferð einkennist einmitt af mjög ítarlegum rannsóknum, sem mynda grunninn að greiningu þar sem honum er lagið að setja upp flóknustu upplýsingar, ytri skilyrði og væntingar á afar skýran og sjónrænan hátt í grafísk líkön. Áhersla hans er án undantekninga á mikilvægi góðrar grunnvinnu til góðra verka (sem er ágætis ábending í þjóðfélagi eins og okkar, sem metur framkvæmd oft að meiru en undirbúning og umhugsun) og honum verður tíðrætt um breytt hlutverk arkitekta í heiminum í dag frá því sem var þegar stórar byggingarframkvæmdir voru nær eingöngu á vegum hins opinbera, sem tryggði þá ákveðin gæði og viðmið, en á þessi árin undir högg að sækja vegna aðkomu stórra óopinberra byggingaraðila, og sem stjórnast þá frekar af öðrum hagsmunum en almannaheill eða heildarmynd borgarinnar.“

Þegar ég las þessar frásagnir arkitekta af viðhorfi Koolhaas, sá ég, að þau ganga þvert á vinnubrögð R-listans í málefnum Vatnsmýrarinnar. Þar hefur því jafnan verið hafnað að vanda beri allan undirbúning undir ákvarðanir. Þess í stað nægi að verja stórfé í tilgangslausa atkvæðagreiðslu um framtíð flugvallar í Vatnsmýrinni. Unnið skuli að skipulagsmálum á þessum stað með bægslagangi og auglýsingamennsku eins og endurspeglast skýrast í því, hvernig staðið hefur verið að úthlutun lóða til Háskólans í Reykjavík og Invent farma, án þess að nokkrar skipulagsákvarðanir hafi í raun verið teknar og án þess að einu sinni hafi verið farið í umhverfismat á þessum viðkvæma reit. Hvar er grunnvinna vegna þessara ákvarðana?

Fyrir tæpu ári eða 15. mars 2005 flutti ég ræðu um skipulagsmál í Vatnsmýrinni og sagði meðal annars í tilefni af því, að Háskólanum í Reykjavík hafði verið ætluð lóð þar milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar:

„Engin formleg skipulagsvinna hefur verið hafin á þessu svæði og veruleg hætta er á töfum á framkvæmdum vegna óvissu um skipulagið. Ekki er ólíklegt, að margir mótmæli því að leggja Nauthólsvíkursvæðið undir byggð. Við þekkjum það, að skipulagsvinna í Reykjavík er almennt mjög sein og tímafrek. Mál eru lengi í óvissu.

Þegar þetta svæði er kynnt Háskólanum í Reykjavík hljóta borgaryfirvöld að hafa marga fyrirvara, til dæmis að ekki er hægt að hanna hús fyrr en deiliskipulag hefur verið samþykkt; ekki er hægt að hefja deiliskipulagsvinnu fyrr en aðalskipulag er til; ekki er hægt að breyta aðalskipulagi fyrr en svæðisskipulagi hefur verið breytt. Þetta verk er allt óunnið á þessum viðkvæma stað í Vatnsmýrinni.

Í Fréttablaðinu í gær viðurkennir Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs, að skipulag svæðisins í Vatnsmýrinni, sem boðið er Háskólanum í Reykjavík, sé ekki eins langt komið og skipulag Garðbæinga fyrir skólann. Formaður skipulagsráðs telur það þó ekki koma að sök, þar sem enn eigi eftir að hanna húsnæðið og ætti það að haldast í hendur við skipulagsferlið.

Ég hef aldrei heyrt áður um það rætt af forystumanni í skipulagsmálum, að skynsamlegt sé að standa að málum á þennan veg, að menn eigi bara að hanna og teikna hús í samræmi við skipulagsferlið. Mér er spurn: Er ekki nauðsynlegt fyrir Háskólann í Reykjavík og aðra, að ákvörðun um deiliskipulag á þessum viðkvæma stað liggi samþykkt fyrir í samræmi við skipulagslög, áður en skólinn hefst handa við hanna og teikna mannvirki sín?“

Tæpt ár er liðið síðan þessi orð voru flutt, heimavinnu borgaryfirvalda er þó enn ólokið – ekkert skipulag liggur fyrir í þágu Háskólans í Reykjavík. Hið eina, sem hefur gerst er, að nýju fyrirtæki Invent farma hefur verið lofað lóð og því sagt, að það geti hafið framkvæmdir nú í haust. Hvað skyldi Koolhaas hafa verið sagt mikið um þessi áform?  Að í raun hefðu verið teknar ákvarðanir um að skera á milli Vatnsmýrarinnar og Öskjuhlíðar eins og skorið hefur verið á milli hennar og miðborgarinnar með lagningu Hringbrautar?

 Innan borgarstjórnar hafa sjálfstæðismenn lýst efasemdum um, að tínabært sé að efna til alþjóðlegrar hugmyndasamkeppni um Vatnsmýrina eins og fram kom í bókun Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarfulltrúa í stýrihópi um skipulag í Vatnsmýrinni og í borgarráði 8. september 2005, en þar segir:

„Alþjóðleg hugmyndasamkeppni um Vatnsmýrarsvæðið, sem talið er að kosti allt að 100 milljónir króna, er ótímabær fyrr en lokið er viðræðum fulltrúa Reykjavíkurborgar og samgönguráðuneytis á grundvelli samkomulags borgarstjóra og samgönguráðherra.  Að efna til hugmyndasamkeppni um skipulag svæðisins núna brýtur einnig í bága við ráðleggingar frá ráðgjafafyrirtækinu Alta, eins og sjá má í álitsgerð þess, auk þess sem þessi tímasetning mun ekki nýtast verkefninu sem skyldi og þannig minnka líkurnar á farsælli niðurstöðu í þessu mikilvæga máli.

Þau áform meirihlutans í Reykjavík að halda fast við þessa tímasetningu, án þess að fullnægjandi forsendur séu til staðar, geta þannig því miður ýtt undir frekari deilur vegna Vatnsmýrarsvæðisins, þegar samstaða hefur tekist um það meginmarkmið í borgarstjórn, að huga að skynsamlegustu leiðunum að því markmiði, að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni.

Það eru ekki góð vinnubrögð að sóa skattfé Reykvíkinga á þennan veg, að því er virðist til þess eins að skapa ágreining í borgarstjórn, á sama tíma og ekki er t.d. unnt að standa sómasamlega að þjónustu við börnin í borginni vegna fjárskorts, sem endurspeglast ekki síst í stöðunni í leikskólum, tómstundaheimilum og gæsluvöllum borgarinnar. “

Hinn 3. maí 2005 bókuðum við sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur:

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka þá skoðun sína að nauðsynlegt sé að heildstæð skipulagsvinna eigi sér stað fyrir Vatnsmýrina.  Sú stefnumótun á að fara fram um leið og fyrir liggur niðurstaða þeirra viðræðna sem nú eru í gangi milli borgaryfirvalda og samgönguyfirvalda, sem efnt var til í framhaldi af samkomulagi borgarstjóra og samgönguráðherra.  Heildstæð skipulagsvinna getur hins vegar illa farið fram fyrr, enda óljóst á þessu stigi hvort eða með hvaða hætti flugstarfsemi verður á svæðinu eftir árið 2024.

Um leið og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka þá skoðun sína að það sé fagnaðarefni að Háskólinn í Reykjavík skyldi velja sér framtíðarsvæði í höfuðborginni, átelja þeir harðlega vinnubrögð meirihlutans í Reykjavík vegna málsins.  Enn liggur ekkert fyrir um skipulag svæðisins eða hvað borgin nákvæmlega hyggst bjóða skólanum.  Þrátt fyrir óskir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndum og ráðum borgarinnar, hefur enn ekki farið fram nein heildstæð kynning á því með hvaða hætti á að vinna þetta stóra mál.  Tillaga að breytingu á svæðisskipulagi, aðalskipulagi eða deiliskipulagi liggur ekki fyrir og enn hafa íbúar Reykjavíkur ekki með nokkrum hætti fengið að tjá sig um þetta stóra mál.  Á meðan svo er, hlýtur málið að vera á algjörum byrjunarreit.

Á síðasta fundi borgarstjórnar bókuðu fulltrúar Frjálslyndra og Sjálfstæðisflokks um mikilvægi þess að hugað yrði að sérstöðu svæðisins og náttúru þess.  Í framhaldi af því gera borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins það að tillögu að fyrirhuguð uppbygging á þessu svæði verði sent í umhverfismat.“

Ef marka má frásögn Guju Daggar Hauksdóttur af fyrirlestri Rems Koolhaas er hann sammála okkur sjálfstæðismönnum í borgarstjórn Reykjavíkur, að enn sé svo mikil grunnvinna óunnin vegna Vatnsmýrarinnar að óðagotið og auglýsingamennskan undir forystu Dags B. Eggertssonar eigi ekki við neitt að styðjast.