18.2.2006

bjorn.is 11 ára.

Hinn 19.febrúar 2006 eru 11 ár liðin frá fyrstu færslu minni á vefsíðuna en sögu hennar rakti ég á 10 ára afmælinu fyrir ári. Ég ætla ekki að bæta neinu við hana að þessu sinni – öðru en því að póstlistinn hefur haldið áfram að vaxa á árinu auk þess sem heimsóknir á síðuna stórjukust eftir að ég fór að færa meira efni inn í dagbókina og breytti útliti síðunnar 25. ágúst 2005 – það er fór að láta dagbókarfærslur birtast á forsíðu hennar.

 

Miklu meira efni hefur birst á síðunni frá þeim tíma og útlitsbreytingin leiðir til þess, að hún er meira lifandi en áður – þótt ég hafi haldið dagbók á síðunni í 11 ár og skýrt frá því, sem ég hef talið eiga þar heima hverju sinni. Hvað sem öðru líður er þetta góð heimild fyrir sjálfan mig um það, sem á daga mína hefur drifið, en þar að auki vona ég, að síðan endurspegli flest meginátakaefni íslenskra stjórnmála síðustu 11 ár – séð frá mínu sjónarhorni – auk þess sem ég hef drepið á margt, sem hefur verið að gerast á alþjóðavettvangi.

 

Í seinni tíð hefur aukist að fjölmiðlar umgangist efnu á síðunni á þann veg, að þeim sé frjálst að endurbirta það, enda er heimildar getið. DV tekur heilu dagbókarfærslurnar og birtir þær myndskreyttar og líklega telja einhverjir lesenda, að þetta hljóti að vera gert með leyfi höfundar. Hjá mér hefur aldrei verið sótt um leyfi. Ég hef hins vegar ekki bannað DV birtingu, en verð auðvitað hugsi, þegar þungur hugur almennings til DV er kynntur.

 

Annars vegar líta menn efni nafngreindra höfunda á netinu þeim augum, að þeir telja sér heimilt að taka það og birta annars staðar, jafnvel án leyfis höfundar, hins vegar eru þeir  of margir á netinu, sem þora ekki að kannast við eigin skoðanir með nafni sínu – kjósa þess vegna að ráðast á nafngreinda einstaklinga úr launsátri í skjóli dulnefnis. Ég hef mikla skömm á þessum nafnlausu hugleysingjum og undrast, að enginn skuli hafa látið reyna á ábyrgð þeirra eða ritstjóra óhróðurs af þessu tagi.

 

Í vikunni spurði Sandra Franks, varaþingmaður Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi, stjórnmálafræðingur og laganemi í HR, mig um netsíur gegn barnaklámi. Ég sagði, að lögreglan vildi eiga samvinnu við netfyrirtæki um slíkar síur. Hitt væri þó enn betra, að net-þjónustufyrirtækin sjálf tækju upp slíkar síur, það myndi aðeins auka veg þeirra. Þeir hafa síðan látið frá sér heyra, sem telja allar slíkar síur gagnslausar, því að auðvelt sé að komast í kringum þær. Það kann vissulega að vera auðvelt fyrir kunnáttumenn en fyrir allan almenning held ég, að viðvaranir af þessu tagi hafi gildi, auki öryggi og þar með ánægju af notkun netsins.

 

Í tilefni af þessum umræðum sagði Sandra Franks á vefsíðu Samfylkingarinnar:

 

„Það gladdi mig, að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra tók algerlega undir sjónarmið mín í þessu máli. Hann sagðist í svari til mín að hann myndi beita sér fyrir því að lögreglan tæki upp samstarf við netþjónustur um þetta. Björn kom með athyglisverða nálgun að því leyti að hann kvaðst heldur vilja að netþjónusturnar tækju þetta upp af fúsum og frjálsum vilja í samstarfi við lögregluna fremur en að þær yrðu skyldaðar til þess með lagaboði. Ég er sammála honum um að það væri æskilegast.

 

Ég fékk mjög jákvæð viðbrögð við áherslu mína á netsíur til að sporna gegn barnaklámi. Þó fékk ég líka eitt tölvubréf, heldur ókurteist, frá Netverja sem taldi að ég væri að stuðla að því að innleiða allsherjarritskoðun á Netið.“

 

Frjálsræði ber að virða á netinu og við, sem setjum hér inn efni eigum að hafa frelsi til þess að segja hug okkar – en að sjálfsögðu verðum við hér eins og annars staðar í samfélagi manna að virða lög og siðareglur – barnaníðingar og barnaklám eiga ekki að vera í neinu skjóli í nafni þess frelsis.

 

Miklar umræður eru nú um þá ákvörðun Google að setja síur á leitarkerfi sitt til að þóknast kínverskum yfirvöldum – að leggja þá hindrun á frjálsum umræðum í sömu skúffu og baráttu gegn barnaklámi og útbreiðslu þess á netinu, er í einu orði sagt fráleitt.

 

Sumarið 2004 var ég í Kína og eins og sjá má á færslum mínum þaðan á síðuna mína var engin hindrun á því, að ég gæti sett það efni inn á síðuna, sem ég kaus, og það sannaðist einnig á sérkennilegum tölvusamskiptum mínum við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, blaðamann á Fréttablaðinu, sem þá var að eltast við mig vegna fjölmiðlafrumvarpsins í þágu eigenda Baugsmiðlanna, að á svipstundu gat ég breytt efni á síðunni minni, svo að hafi hún verið undir annarri smásjá en Sigríðar Daggar voru þeir eftirlitsmenn ekki að tefja sendingar frá mér til að skoða efni þeirra.

 

Á mbl.is les ég um verðlaun Blaðamannafélags Íslands:

 

„Þá fékk Sigríður Dögg Auðunsdóttir, Fréttablaðinu, verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku fyrir úttekt á einkavæðingu ríkisbankanna og fréttaskrif um aðkomu áhrifamanna í aðdraganda málaferla gegn forsvarsmönnum Baugs.“

 

Mér er ekki minnisstætt, hvað Sigríður Dögg ritaði um bankamálin og var nýtt umfram það, sem áður hafði komið fram, t.d. í skýrslu ríkisendurskoðunar um einkavæðingu bankanna. Hitt er hulin ráðgáta, hvað hún gat sagt um aðkomu áhrifamanna í aðdraganda málaferla gegn forsvarsmönnum Baugs – ef þau skrif eru í sama dúr og sú afstaða Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, að ég hafi verið vanhæfur til að setja nýjan ríkissaksóknara í Baugsmálinu, þrátt fyrir að hæstiréttur hafi komist að niðurstöðu um annað, eru þau ekki mikils virði, þótt Blaðamannafélag Íslands sjái ástæðu til að verðlauna þau.