11.2.2006

Hættumat – alhæfingar.

Yfirlit

Í dagbók mína 30. október síðastliðinn skrifaði ég: „Danski dómsmálaráðherrann og lögreglan hefur í nógu að snúast þessa dagana, þegar upp hefur komist um hryðjuverkatilburði í tengslum við Danmörku. Enn einu sinni virðist um það að ræða, að þræðirnir teygi sig víða um lönd. Þetta gerist á sama tíma og sendiherrar nokkurra islamskra ríkja í Kaupmannahöfn hafa stofnað til deilna við Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra vegna skopmyndar í dagblaðinu Jyllandsposten, sem sendiherrarnir telja móðgandi fyrir Múhameð spámann.

Að skopmynd verði tilefni milliríkjadeilu er nokkurt nýmæli, en fráleitt er að ætla, að hún geti orðið kveikja að því, að hafist sé handa við undirbúning hryðjuverks.“

Fyrir þremur mánuðum sá ég ekki fyrir, að þróun danska skopmyndamálsins yrði á þann veg, sem síðar hefur orðið. Þegar ráðist var inn í Afgangistan haustið 2001 og síðan inn í Írak á árinu 2003, var því spáð, að milljarður múslíma í öllum múslímalöndum mundi rísa gegn vestrænu fólki og fyrirtækjum. Það væri aðeins til þess að kalla yfir Vesturlandamenn ógnvænlegt hatur alls þessa fólks að ráðast inn í  þessi ríki múslíma. Þessi mótmælaalda varð mun minni en þá var spáð og nú rís hún hærra vegna 12 skopmynda af Múhameð.

 

Þegar rætt er um nauðsyn þess, að ríki leggi hættumat til grundvallar við ákvarðanir sínar í öryggismálum, má af skopmyndamálinu ráða, hve slíkt mat er vandasamt. Á það að verða liður í viðbrögðum eftir reynslu Dana, að banna birtingu á skopmyndum af Múhameð spámanni? Á að hækka viðbragðsstig innan einstakra ríkja, eftir að slíkar myndir eru birtar?

 

Hugtakið „hættumat“ fékk nýtt inntak eftir árásina á turnana tvo í New York 11. september 2001. Enn breyttist það eftir árásina í Madrid 11. mars 2004 og árásirnar í London 7. og 21. júlí 2005 – eða morðið á Theo van Gogh í Amsterdam 2. nóvember 2004. Skopmyndamálið mun nú einnig móta inntak hugtaksins.

 

Ég fjallaði um þessi breyttu viðhorf í ræðu í Rótarý-klúbbi Reykjavíkur í ágúst 2005 og vildi með því leggja mitt lóð á vogarskálina til að beina umræðum um öryggismál inn á nýjar brautir. Þar tók ég einnig upp hanskann fyrir lögregluna vegna gagnrýni á viðbrögð hennar við mótmælum í þágu umhverfisverndar við Kárahnjúka.

 

Fumvarp um breytingar lögreglulögum verður til umræðu á alþingi í næstu viku en áður en frumvarpið var lagt fram, höfðu ýmsir álitsgjafar og þingmenn myndað sér skoðun á því og talið nauðsynlegt að ræða málið á þeim grunni, þar væri í fyrsta sinn gert ráð fyrir, að lögregla ætti að rannsaka brot gegn öryggi ríkisins eða gegn landstjórninni. Ákvæði um þetta efni hafa verið í lögum en nú er verið að gera lögin skýrari að þessu leyti með því að rannsóknardeild, sem starfar lögum samkvæmt hjá ríkislögreglustjóra og skal rannsaka brot á borð við landráð og brot gegn stjórnskipun ríkisins, skuli jafnframt vera greiningardeild, sem leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Þarna er sem sagt tekið af skarið um það, hver ber ábyrgð á mati á þessari hættu. Hún verður ekki metin í eitt skipti fyrir öllu, heldur verður matið stöðugt viðfangsefni þessarar deildar.

 

Að baki ákvörðun um að efla sérsveit lögreglunnar bjó  mat á aukinni hörku í glæpastarfsemi hér auk þess sem nauðsynlegt væri, að öflug lögreglusveit yrði jafnan til taks í því skyni að bregðast við margvíslegum viðfangsefnum. Að baki ákvörðun um að leggja til að stofnuð verði greiningardeild býr einnig mat á nauðsyn þess að efla lögregluna til að greina hættu í því skyni að koma í veg fyrir hana.

 

Engin stjórnvöld geta lagt mat á hættu, án þess að hafa tæki til að greina hana. Með greiningardeild lögreglunnar er verið að árétta nauðsyn slíks tækis til að unnt sé að gæta öryggis borgaranna sem best við núverandi aðstæður.

 

Alhæfingar.

 

Nokkrar umræður hafa verið í Lesbók Morgunblaðsins um stöðu fræðibóka og fræðirithöfunda, sem finnst mörgum, að þeir beri skarðan hlut frá borði og njóti ekki viðurkenningar sem skyldi við úthlutun á opinberu fé.

 

Í Lesbókina í dag ritar Sigurður Gylfi Magnússon, doktor í sagnfræði og fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni, enn um þetta efni og víkur meðal annars að undirbúningi undir hátíðarhöld vegna ársins 2000 í Bandaríkjunum. Hann segir: „...og ljóst er, að fræðaheimurinn var að mestu sniðgenginn í öllum undirbúningi að hátíðarhöldunum.“ Ég hef ekki lesið bók Sigurðar Gylfa um þetta mál eða á hvaða þætti hann leggur þar áherslu, en af mér sem menntamálaráðherra í aðdraganda þessara hátíðarhalda, var leitast við að virkja fræðimenn til þeirra verka, sem tengdust margvíslegri kynningu á fornri og nýrri menningu okkar Íslendinga.

 

Frá þeim atburðum, sem snertu starf mitt, er sagt hér á síðunni, en ég veit ekki hvort Sigurður Gylfi hefur leitað heimilda þar. Ég minnist til dæmis Sagnaþings í Washington með þátttöku íslenskra fræðimanna á vegum Library of Congress og Cornell háskólabókasafnins 24. maí 2000 og bókasýningar í Library of Congress, sem opnuð var í tengslum við sagnaþingið.

 

Hin mikla víkingasýning Smithsoninan-stofnunarinnar eða safnsins, sem fór um alla Norður-Ameríku, byggðist á miklum rannsóknum í samvinnu við íslenska vísindamenn. Samhliða því sem sýningin var opnuð í apríl 2000 kom út 424 blaðsíðna litprentuð og ríkulega myndskreytt sýningarskrá, sem hefur að geyma ómetanlegar heimildir og er líklega eitt merkasta framlag síðari tíma til að kynna þann þátt sögu víkinganna, sem sýningin spannar. Sérstaka athygli vakti, hve Íslendingasögurnar skipuðu veglegan sess á sýningunni og í sýningarskránni, í raun voru þær lagðar til grundvallar og síðan leitast við að staðfesta lýsingar þeirra með því að vísa til fornleifarannsókna.

 

Í grein sinni kvartar Sigurður Gylfi undan því, að „íslenskir ráðamenn og hagsmunaaðilar í atvinnulífinu“ hafi „komist upp með að fjalla um íslenska menningu, sögu og vísindi án þess að leggja sig eftir bestu hugsanlegu rannsóknum um efnið.“ Sigurður telur þetta stafa „af ókunnugleika á því starfi sem unnið er í landinu af fræða- og vísindafólki.“ Og enn segir Sigurður „Fólk hlýtur að spyrja sig hvaða aðgang ráðamenn hafi að nýjustu upplýsingum og hvers konar ráðgjöf þeir eru að fá við úrvinnslu verkefna sem þeim er ætla að hafa skoðun á. Spyr sá sem ekki veit.“

 

Alhæfingarnar í þessum tilvitnuðu orðum, án þess að haft sé fyrir að kynna sér málið til hlítar, vekja sérstaka athygli, þar sem Sigurður Gylfi er að skamma aðra fyrir að tala án þess að vita. Spyrja má: Hvað á Sigurður Gylfi við, þegar hann talar um „bestu hugsanlegu rannsóknir“? Hver getur í raun skorið úr um slíkt, þegar rætt er um málefni, þar sem skoðanir eru skiptar meðal fræðimanna. Þeir eru sem betur fer ekki allir á einu máli. Ég vitnaði til dæmis oft í Helga Guðmundsson prófessor og bók hans Um haf innan, þegar ég fjallaði um víkingana og Ísland árið 2000. Eru aðrir fræðimenn sammála Helga? Ég rannsakaði það ekki, þótt ég vitnaði í hann.

 

Ég efast satt að segja um, að fólk sé almennt mikið að spyrja sig um aðgang ráðamanna að vísindamönnum – hins vegar kunna einstaka vísindamenn að velta þessu fyrir sér. Eitt er að gagnrýna svokallaða ráðamenn fyrir ræður þeirra, annað að huga að úrlausn þeirra á einstökum verkefnum. Reynslan segir mér, að mikils virði sé að geta stuðst við niðurstöður rannsókna innlendra eða erlendra vísindamanna við gerð lagafrumvarpa eða annarra stefnumótandi skjala. Einnig skiptir miklu, ef unnt er að efna til óhlutdrægrar opinberrar umræðu um slíka texta í því skyni að leiða mál til lykta á farsælan hátt.

 

Oftar en einu sinni hef ég vikið að því hér á þessum síðum, hve undarlega fljótt fræðimenn geta gefið skýringar á flóknum viðfangsefnum, þegar fjölmiðlar leita til þeirra. Til fræðititilsins er vitnað til að gefa orðum þeirra aukin þunga, þótt í raun virðist ályktanir byggðar á tilfinningu líðandi stundar – á þetta ekki síst við, þegar rætt er um stjórnmálastrauma eða störf stjórnmálamanna.

Af grein Sigurðar Gylfa ræð ég, að hann falli fljótt í þá gryfju, að kasta fram fullyrðingum án þess að traust rök séu að baki þeim. Hann nefnir til dæmis til sögunnar „tilraunir fulltrúa almannavaldsins til að sniðganga mikilvægar rannsóknir í tengslum við virkjanir á hálendinu“ án þess að skýra nánar, hvaða tilraunir þetta séu. Snýst málið ekki um, að vísindamenn eru ekki allir á einu máli? Við þær aðstæður verða menn að velja og hafna við töku ákvarðana.