5.2.2006

Öskjuhlíðin – bútasaumur – vinstri/grænir.

Þeir hringdu í mig félagarnir, Kristófer og Þorgeir, á síðdegisútvarpi Bylgjunnar (það er meira hlustað á þá en rás 2) föstudaginn 3. febrúar og ræddu við mig um Öskjuhlíðina, en Kristófer er uppalinn í Hlíðunum, og ber sterkar taugar til Öskjuhlíðarinnar. Mér var ljúft að ræða um Öskjuhlíðina, því að frá barnsaldri hefur hún staðið mér nærri í orðsins fyllstu merkingu fyrir utan að vera leikvöllur minn og síðan göngusvæði í marga áratugi.

Ég man eftir því þegar fyrstu trén voru gróðursett þar í kringum 1950 og hve stoltir þeir voru, sem unnu hjá flugmálastjórn í bröggum frá stríðsárunum við rætur hlíðarinnar (skammt fyrir norðan veitingastaðinn Nauthól), yfir því að taka þátt í gróðursetningunni, en hitaveita Reykjavíkur stóð straum af kostnaði við skógræktina í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur. Hitaveitan hefur verið einskonar verndari Öskjuhlíðar síðan hitaveitutankarnir voru reistir þar árið 1940 en þeir gengu 50 árum síðar í endurnýjun lífdaga með Perlunni.

Í tilefni af viðtalinu sló ég inn leitarorðið Öskjuhlíð í gagnagrunn Morgunblaðsins og fékk mun fleiri greinar og fréttir en ég hafði tök á að lesa. Fjöldinn minnti mig hins vegar rækilega á, hve mikið er um að vera í Öskjuhlíðinni og hver margir njóta hennar til líkamsræktar og yndisauka almennt.

Í grein Guðmundar Guðjónssonar blaðamanns um Öskjuhlíðina frá 1997 sagði, að árið 1993 hefðu fundist þar 135 tegundir háplantna, það er um þriðjungur íslensku flórunnar. Hátt í 100 tegundir fugla hafa sést í Öskjuhlíðinni og um tugur þeirra verpir þar. Í hópi varpfugla eru þrestir og auðnutittlingar flestir. Þá segir Guðmundur frá því, að allt að 34 branduglur veiði á vetrum mýs í skóginum í vesturhlíðinni. Ég hef aldrei séð uglu þarna en hins vegar skjótast kanínur yfir skógarstígana allan ársins hring. Þær eru skrýtin aðskotadýr í hlíðinni, en oft má sjá börn á ferð í leit að þeim.

Hinn 20. mars 2004 birti Morgunblaðið, bréf Arnars Guðlaugssonar, þar sem hann lýsir vonbrigðum sínum yfir því, hve illa er hugsað um stríðsminjar í Öskjuhlíð. Hann segist hafa séð 2 vélbyssuhreiður og byrgi fyrir ofan keiluhöllina og síðan: „Ég bjóst nú ekki við miklu en þegar að kom varð ég fyrir sjokki. Vébyssuhreiðrin full af grjóti og fúlu regnvatni, hurðir löngu ryðgaðar af hjörum byrgisins og það einnig fullt af grjóti.“

Arnar hvatti til þess, að hugað yrði að þessum sögulegu minjum. Ég veit ekki, hvort það hefur verið gert en tek undir með Arnari: Það má ekki láta þessar sögulegu minjar hverfa með öllu.

Þegar ég lék mér fyrst í Öskjuhlíðinni var enginn gróður þar en hins vegar mikið af upprúlluðum gaddavír eins og notaður var á stríðsárunum til að verja athafnasvæði setuliðsins fyrir ágangi almennings. Einnig voru þar miklir olíutankar auk vélbyssuhreiðra og hvers konar byrgja. Skógur umlykur nú margt af því, sem eftir stendur, en þessar meira en 60 ára minjar mega ekki hverfa fyrir fullt og allt og auðvitað á að hlú að þeim. Við fórum þarna um strákar úr Hlíðunum og söfnuðu brúsum og öðru dóti, sem við seldum í brotajárn.

 

Fyrir nokkru ræddi ég hér enn á ný um áformin um að Háskólinn í Reykjavík rísi á milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar og nefndi þau til marks um tvískinnung vinstri/grænna í umhverfismálum fyrir utan sýndarmennsku samfylkingarfólks í skipulagsmálum, þar sem Dagur B. Eggertsson keppist við að slá ryki í augu fólks með uppákomum og nú nöfnum frægra arkitekta.

 

Í pistli mínum gagnrýndi ég Morgunblaðið og taldi það fylgjandi því, að Háskólinn í Reykjavík yrði á þessum stað. Síðar kom fram í Staksteinum blaðsins, að þetta er misskilningur hjá mér. Morgunblaðið vill ekki, að Háskólinn í Reykjavík rísi þarna eins og ég skýrði frá í dagbók minni 23. janúar 2006. (Ég bendi þeim, sem fá pistilinn sendan á póstlista mínum, að ég hef um nokkurt skeið skrifað um málefni líðandi stundar í dagbók mína án þess að senda á póstlistann – vil ég ekki íþyngja þeim, sem þar hafa skráð sig. Er áhugi á að fá dagbókarfærslur sendar? )

 

Í Morgunblaðinu 5. apríl 2005 birtist frétt undir fyrirsögninni: Rúm 70% Reykvíkinga vilja ekki HR [Háskólann í Reykjavík] í Öskjuhlíð. Þar er sagt frá niðurstöðum Gallup-könnunar í mars 2005, þar sem spurt var: „Reykjavíkurborg hefur boðið Háskólanum í Reykjavík framtíðaraðsetur á svæðinu milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar. Hvort vildu að skólinn fái að byggja á þessu landsvæði eða að svæðið verði þróað áfram sem útivistar- og afþreyingarsvæði fyrir borgarbúa?“ Tæp 30% vildu sjá HR á þessum stað en rúm 70% vildu frekar hafa útvistar- og afþreyingarsvæði á svæðinu – fleiri karlar vildu skólann þarna en konur.

 

Bútasaumur.

 

R-listinn hefur með öllu hunsað þennan eindregna vilja borgarbúa og haldið hefur verið áfram að búa í haginn fyrir Háskólann í Reykjavík á þessum bletti við Öskjuhlíðina, sem enn veitir henni andrými gagnvart Vatnsmýrinni. Á sama tíma og þrengt er að Öskjuhlíðinni á þennan veg talar Dagur B. Eggertsson fjálglega um heildarskipulag á Vatnsmýrinni. Er furðulegt, hve langt hann kemst í þeim blekkingarleik og nú með því að hampa nafni heimsfrægs og merks arkitekts, Rems Koolhaas.

 

Að Rem Koolhaas skuli nefndur til sögunnar vegna skipulags Vatnsmýrarinnar birtist í frétt Morgunblaðsins miðvikudaginn 1. febrúar og er hún höfð Degi B. Eggertssyni, formanni skipulagsráðs. Margt er enn á huldu eftir lestur þeirrar fréttar og spurning, hvort hún var mest hugsuð sem innlegg í prófkjörsbaráttu Samfylkingarinnar og til að komast inn í Morgunblaðið, en Dagur hefur verið iðinn við það undanfarið og bara tekist bærilega.

 

Dagur segir Koolhaas muni dveljast hér í tvo daga um miðjan febrúar og stýra „vinnustofu um framtíðarsýn í aðdraganda alþjóðlegrar hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar sem hefst í byrjun mars.“ Segir Dagur þetta endapunkt „í undirbúningsferlinu vegna gerðar keppnislýsingar fyrir hugmyndasamkeppnina.“

 

Þá segir í véfrétt Morgunblaðsins:

 

„Dagur segir að mikilvægt sé að fá mann með auga gestsins hingað á þeim mikilvægu tímamótum sem nú séu að verða í skipulagsmálum Vatnsmýrarinnar. „Það getur fært okkur vissu um það að við séum að nýta öll þau tækifæri sem liggja í þessu svæði og ná fram því besta frá keppendum í hugmyndasamkeppninni. Það er auðvitað markmiðið að keppnislýsingin verði af okkar hálfu eins vönduð og skýr og kostur er og taki á öllum lykilspurningunum,“ segir Dagur.

 

Koolhaas mun verða borgaryfirvöldum innan handar í kjölfar hugmyndasamkeppninnar að sögn Dags. Hann segir ekki búið að útfæra nákvæmlega hvernig þessum málum verði háttað, en ljóst sé að Koolhaas muni ekki taka sæti í sjálfri dómnefndinni. Kostnaður við að fá Koolhaas til rágjafar verður „innan kostnaðaráætlunar samkeppninnar“, segir Dagur B. Eggertsson.“

 

Morgunblaðið lýsir í Reykjavíkurbréfi sínu í dag, 5. febrúar, hve merkur maður Rem Koolhaas er og fagnar að sjálfsögðu, að hann sé til þess búinn að leggja mönnum lið við frágang mála í Vatnsmýrinni – en hvaða Vatnsmýri? Í Reykjavíkurbréfinu segir: „Það þarf ekki að ítreka nauðsyn þess að skipuleggja Vatnsmýrina í heild og forðast bútasaum. Í þeim efnum hefur lítið upp á sig að deila um það hvort menn hafi samþykkt eitt einu sinni og segi annað nú. Hér er um grundvallaratriði að ræða. Ef byrjað verður að ráðstafa skikum í Vatnsmýrinni áður en heildarmyndin hefur verið ákveðin er það ávísun á mistök.“

 

Þegar ég ræddi við Morgunblaðið um afstöðu þess til Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni, fór ég villur vega, af því að blaðið talaði ekki nógu skýrt. Textinn hér að ofan úr Reykjavíkurbréfinu er ekki skýr og ótvíræður. Hvað er blaðið í raun að segja? Bútasaumurinn hefur þegar hafist í Vatnsmýrinni. Þar hefur verið úthlutað skikum, meðal annars þeim seinasta, sem veitti andrými gagnvart Öskjuhlíðinni og tengingu við hana. Telur blaðið, að þessari lóð hafi ekki verið úthlutað? Eða lóð undir bensínstöð, þar sem eru krossgötur milli háskóla, sjúkrahúss og miðborgar?

 

Rem Koolhaas tekur ekki ákvarðanir um bútasaum eða ekki bútasaum, þær hafa þegar verið teknar af R-listanum undir forystu Dags B. Eggertssonar, hvort sem það hefur farið fram hjá Morgunblaðinu eða ekki. Vill blaðið að þessar ákvarðanir verði afturkallaðar vegna komu hins heimsfræga arkitekts? Ef svo er hvers vegna segir blaðið það ekki á máli, sem skilst? Dulmál um skipulags- eða umhverfismál skilar engu og er til þess eins fallið að rugla fólk í ríminu. Reykvíkingar hafa fengið sig fullsadda af slíku tali Dags B. Eggertssonar og annars R-listafólks og ástæðulaust fyrir Morgunblaðið að arka einnig þann veg.

 

Vinstri/grænir.

 

Morgunblaðið birti laugardaginn 4. febrúar niðurstöður skoðanakönnunar félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um fylgi flokka í Reykjavík vegna borgarstjórnakosninga. Sjálfstæðisflokkur mældist með 48,8% fylgi (8 fltr.), Samfylking 33% fylgi (6) vinstri/grænir 10,5% (1), framsókn 5,3% (0), og frjálslyndir 2,2% (0).

 

Í leiðara sunnudaginn 5. febrúar segir blaðið réttilega, að sjálfstæðismenn megi ekki verða of sigurvissir, þrátt fyrir stöðuga velgengni í könnunum. Staða Samfylkingarinnar sé „býsna sterk“ í Reykjavík, þótt annað eigi við um landið allt. Sjálfstæðismenn megi ekki „sofna á verðinum.“

 

Morgunblaðið bendir réttilega á, að Frjálslyndi flokkurinn sé hættulegri Sjálfstæðisflokknum en margir sjálfstæðismenn vilja vera láta. Í kosningabaráttunni 2002 létum við sjálfstæðismenn frjálslynda að mestu sigla sinn sjó og beindum ekki spjótum að þeim en flokkurinn sótti á okkar mið við öflun atkvæða eða eins og Morgunblaðið segir: „Sá flokkur [frjálslyndir] nær til ákveðinna kjósendahópa Sjálfstæðisflokksins og þá fyrst og fremst einyrkja í atvinnurekstri. Frjálslyndi flokkurinn hefur náð til litla einkaframtaksmannsins, hvort sem hann er trillukarl eða vörubílstjóri.“

 

Eftir að hafa setið með Ólafi F. Magnússyni í borgarstjórn í tæp fjögur ár og hlustað á málflutning hans, er mér að vísu óskiljanlegt, hvernig Morgunblaðið kemst að þeirri niðurstöðu, að hann höfði til trillukarla og vörubílstjóra. Ræður Ólafs F. snúast að mestu um hann sjálfan og afreksverk hans en þau lúta einkum að því að standa í vegi fyrir virkjun fallvatna – er það „litla einkaframtaksmanninum“ til hagsbóta?

 

Kannski á Ólafur F. eftir að rétta úr kútnum og ná oddaaðstöðu í næstu borgarstjórn eins og Morgunblaðið gerir skóna – ég vona, að svo verði ekki, því að hag Reykjavíkur yrði ekki betur borgið með því.

 

Mér finnst merkilegast við þessa könnun, hve vinstri/grænir sýnast standa höllum fæti meðal Reykvíkinga, þegar þeir mælast ekki með nema 10,5% atkvæða. Þeim hefur algjörlega mistekist að skapa sér jákvæða sérstöðu í borgarmálum undir forystu Árna Þórs Sigurðssonar, formanns umhverfismálaráðs.

 

Vinstri/grænir hafa leikið tveimur skjöldum í umhverfismálum, heimtað bann við framkvæmdum í mörg hundruð kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni en látið næsta umhverfi borgarbúa danka, gleymt fuglunum við Tjörnina og ekki hugað að friðlandi í Vatnsmýrinni, hvorki við Hringbraut né rætur Öskjuhlíðar. Þeir hrópa á móti álverum í stjórn Landsvirkjunar og á alþingi en samþykkja virkjanir í þágu álvera í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og á vettvangi borgarstjórnar. Þeim hefur farið illa úr hendi að ákvarða framboðslista sinn og alls ekki náð sér á strik – þeir voru sviplausir innan R-listans og eru nú eins og varadekk Samfylkingarinnar.