31.12.2005

Við áramót.

1. Stjórnmál.

Straumhvörf urðu í íslenskum stjórnmálum með brotthvarfi Davíðs Oddssonar úr formennsku Sjálfstæðisflokksins. Vonir andstæðinga flokksins stóðu til þess, að við það myndu verða átök og upplausn innan flokksins. Þær vonir rættust ekki og flokkurinn kom sterkur og samhentur frá landsfundi sínum. Sjálfstæðismönnum í Reykjavík tókst á farsælan hátt að velja sér góðan og samhentan framboðslista fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 42% fylgi í árslok en með 34,6% á sama tíma fyrir ári.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kjörin formaður Samfylkingarinnar í maí 2005 og strengdi þess þá heit eins og jafnan fyrr og síðar, að nú skyldi Sjálfstæðisflokknum komið frá völdum. Undir lok ársins er hún enn með það á vörunum, að stjórnmálastraumar séu sér og jafnaðarmennskunni í vil, þótt fylgi Samfylkingarinnar hafi minnkað síðan hún varð formaður. Samfylkingin mælist með 27% fylgi í árslok var með 30,6% á sama tíma fyrir ári.

Vinstri/grænir hafa haldið sér við sama heygarðshornið á árinu og talað gegn einkavæðingu og fyrir auknum ríkisafskiptum, gegn stóratvinnustefnu og öflugum fyrirtækjarekstri en láta samt eins og þeim sé einum annt um kjör launþega. Þeir segjast vera sérstakir talsmenn umhverfisverndar og hafa farið með forystu í þeim málaflokki í borgarstjórn Reykjavíkur, án þess að sporna gegn eyðingu fuglalífs í Vatnsmýrinni með færslu og stækkun Hringbrautar og án þess að vilja umhverfismat vegna enn frekari náttúruspjalla í Vatnsmýrinni milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar, þar sem mófuglar eiga heimkynni sín. Vinstri/grænir mælast með 18% fylgi í árslok en 19,2% á sama tíma fyrir ári.

Framsóknarflokkurinn kemur verstur undan andvana R-lista með fylgi á milli 2-4% í Reykjavík. Togstreita er innan flokksins, sem endurspeglast nú í prófkjöri hans vegna borgarstjórnarlistans í Reykjavík. Þeir, sem hafa verið málsvarar R-listans innan flokksins, segja ríkisstjórnarsamstarfið draga úr vinsældum flokksins. Þær eru þó hvergi minni en í Reykjavík og R-listaflokkarnir eru allir að tapa fylgi á sama tíma og fylgi ríkisstjórnarinnar eykst, var 46,7% í árslok 2004 en er nú 53%. Framsóknarflokkurinn mældist með 11% fylgi nú í árslok en 12,1% fyrir réttu ári.

Frjálslyndi flokkurinn missti eina málið sitt, þegar sátt náðist á þingi um kvótakerfið auk þess sem Gunnar Örn Örlygsson þingmaður ákvað að yfirgefa flokkinn og ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Bæði í borgarstjórn Reykjavíkur og á alþingi ber flokkurinn öll merki deyjandi flokksbrots. Frjálslyndir mældust með 2% fylgi nú í árslok en 3,6% um síðustu áramót.

 

Niðurstaða: Á tíunda samstarfsári ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur fylgi ríkisstjórnarinnar aukist. Vinstrasamstarfið undir merkjum R-listans rann út í sandinn og fylgi stjórnaraandstöðuflokkanna þriggja hefur minnkað á árinu.

 

2. Alþjóðastjórnmál.

 

Lýðræði hefur náð á skjóta rótum í stríðshrjáðu Írak og stjórnmálaþróunin þar hefur haft áhrif á stjórnarhætti múslímskra nágrannaríkja.

 

Efnahagsstyrkur markaðskraftanna í Kína eru jafnvel meiri en við var búist og vaxandi líkur eru á því, að Indverjar opni hagkerfi sitt og virki alþjóðlegt fjármagn og einkaframtak meira en áður. Hvorki Kínverjar né Indverjar eru undir þaki Kyoto-samkomulagsins. Aukin einkaneysla og hagvöxtur þessara fjölmennustu þjóða heims setur æ meiri svip á orkuverð og olíumarkaði.

 

Bandaríkjastjórn beinir athygli sinni og kröftum frá Evrópu og Atlantshafssvæðinu að Mið-Austurlöndum og Asíu.  Hún hagar samvinnu sinni við aðrar þjóðir í samræmi við hagsmuni sína hverju sinni.

 

Evrópusambandið er í tilvistarkreppu, eftir að stjórnarskrá þess var hafnað. „Gömlu“ evrópsku meginlandsþjóðirnar með Frakka og Þjóðverja í fararbroddi glíma við innflytjendavanda og staðnað hag- og atvinnukerfi. Nýfrjálsu Mið-Evrópuþjóðirnar og Eystrasaltsríkin sækja hins vegar fram í krafti hagvaxtar og frjálshyggju.

 

Á Norðurlöndum eru einhverjir forystumenn jafnaðarmanna og hugmyndasmiðir á þeirra vegum enn þeirrar skoðunar, að heimasmíðað þjóðfélagslíkan þeirra sé enn fyrirmynd annarra eða samkeppnishæft á heimsvísu. Líkanið er þó aðeins minnisvarði um liðna tíð í hagsögunni.

 

3. Viðskiptalífið.

 

Öflugt markaðshagkerfi og viðleitni ríkja til að skapa fyrirtækjum sem hagkvæmast, lögbundið starfsumhverfi ræður mestu um velgengni þjóðfélaga á tímum hnattvæðingar. Lækkun skatta leiðir til hærri skatttekna vegna þess að kakan, sem er til skiptanna stækkar með auknu frjálsræði.

 

Hvarvetna þar sem viðskiptajöfrar sæta afskiptum varða laganna reyna þeir í lengstu lög, að koma í veg fyrir, að fjallað sé efnislega um mál þeirra fyrir opnum tjöldum. Réttarfarsúrræðum og því, sem virðast lagaklækir í augum almennings, er beitt til að tefja fyrir að dómstólar fjalli efnislega um mál eða útiloka, að það verði nokkru sinni gert.

 

Samkeppnishæfni ríkja ræðst af því, hvernig þau búa að fyrirtækjum, og að þessu leyti hefur vegur Íslands vaxið jafnt og þétt. Í IMD World Competitiveness Yearbook 2005 er Ísland í fjórða sæti, þegar samkeppnishæfni er mæld, Ísland var í fimmta sæti 2004. Bandaríkin eru í efsta sæti, Hong Kong í öðru, Singapore í þriðja og Ísland í fjórða, næst á undan Kanada, sem var í þriðja sæti 2004.

 

Vísindi, tækni, frumkvöðlastarf, fjármál, starfsumhverfi og menntun er það, sem skiptir mestu þegar litið er til samkeppnishæfni. Þessir þættir ráða allir miklu við hina háu einkunn Íslands en einnig sveigjanleiki, aðlögunarhæfni og virk stjórnsýsla.

 

Í öllum ríkjum, sem njóta álits vegna góðrar samkeppnisstöðu, er lögð rík áhersla á lögmæti, gegnsæi og virkt eftirlit á viðskiptasviðinu. Þessir stjórnsýsluþættir stuðla að samkeppni og draga úr hættu á fákeppni, án þeirra geta skapast óskýr skil milli þess, sem telst löglegt og ólöglegt.

 

4. Öryggismál.

 

Hvarvetna takast ríkisstjórnir á við gæslu öryggis borgaranna með öðrum úrræðum en beitt var fyrir fáeinum árum. Þar skiptir miklu hættan af alþjóðlegri glæpastarfsemi og alþjóðlegum hryðjuverkum.

 

Í réttarfarslöggjöf ríkja hafa verið sett ný ákvæði um greiningarhlutverk lögreglu, sem byggist á því, að aflað sé gagna í því skyni að koma í veg fyrir afbrot í stað þess að rannsaka afbrot, sem hafa verið framin. Greiningardeildir lögreglu vaxa jafnvel hraðar en rannsóknardeildir í mörgum löndum.

 

Alþjóðleg lögreglusamvinna vex jafnt og þétt og setur hún æ meiri svip á Schengen-samstarfið, þar sem við Íslendingar erum þátttakendur. Í þessum þætti í samstarfi Evrópuríkja utan og innan Evrópusambandsins hefur verið hvað mest gerjun undanfarin ár, auk þess sem Evrópusambandið lætur æ meira að sér kveða við borgaralega friðargæslu, en henni er nú haldið úti á að minnsta kosti tíu stöðum utan Evrópu.

 

Alþjóðavæðing öryggismálanna stendur nær borgurum núna en á tímum kalda stríðsins, því að hún snýst ekki herafla heldur almenna löggæslu í baráttu við illvirkja, sem beina hiklaust spjótum sínum að almennum borgurum, ef þeir telja það þjóna markmiðum sínum.

 

5. Fjölmiðlar.

 

Í upphafi sagði, að straumhvörf hefðu orðið í íslenskum stjórnmálum á árinu. Þau hafa ekki orðið minni í fjölmiðlum.

 

Morgunblaðið hefur í um hálfa öld lotið eignarhaldi samhents hóps manna, sem tók að sér á sínum tíma að treysta fjárhagsgrundvöll þess í anda Valtýs Stefánssonar ritstjóra, sem einnig átti ráðandi hlut í Árvakri hf., eiganda blaðsins. Þetta breyttist á árinu.

 

Skömmu eftir að nýir eigendur komu að Morgunblaðinu og nýtt jafnvægi hafði skapast í eigendahópnum keypti það um helmingshlut í Blaðinu, en Sigurður G, Guðjónsson og Karl Garðarsson, sem báðir fóru frá Baugsmiðlunum (B-miðlunum), stofnuðu blaðið til höfuðs hinu fríblaðinu Fréttablaðinu, sem er hluti B-miðlanna.

 

Undir lok ársins lét Gunnar Smári Egilsson af daglegri yfirstjórn B-miðlanna, eftir að hafa sett af stað fréttasjónvarpsstöðina NFS, sem virkar á þá, sem ekki geta horft á hana eins og myndskreytt Talstöð. Í stað Gunnars Smára réðst Ari Edwald sem yfirstjórnandi B-miðlanna. Undir stjórn Gunnars Smára tók B-fjölmiðlaveldið sér dagskrárvald gegn Sjálfstæðisflokknum eins og Páll Vilhjálmsson lýsir vel í 2. hefti Þjóðmála árið 2005. Siglir Ari í kjölfar Gunnars Smára? Reynslan ein leiðir það í ljós.

 

Páll Magnússon var ráðinn útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, eftir að hann hafði fallið í ónáð innan B-fjölmiðlaveldisins, sem náði hins vegar til sín Kára Jónassyni, fréttastjóra hljóðvarps ríkisins, og gerði að ritstjóra Fréttablaðsins. Hefur B-fjölmiðlaveldið og RÚV tekist á um sjónvarps- og hljóðvarpsfólk. Sigríður Árnadóttir var látin hætta sem fréttastjóri Stöðvar 2  eftir að Hallgrímur Helgason rithöfundur og dálkahöfundur DV, sem er hluti B-miðlanna, hafði gefið henni reisupassann í áramótahugleiðingu í Fréttablaðinu 31. desember 2004.

 

Síminn var einkavæddur með miklum glæsibrag á árinu en hann er virkur þátttakandi á fjölmiðlamarkaðinum sem seljandi áskriftar að Breiðbandinu og með ADSL-væðingu stafræns sjónvarps auk þess, sem hann rekur Skjáeinn. Verði sama þróun hér á landi og annars staðar í háhraðatengdum þjóðfélögum koma þjónustufyrirtæki á borð við Símann æ meira að fjölmiðlun.

 

Eignarhald og tækni, leiðir til dreifingar og aðferðir við markaðssetningu skipta miklu í fjölmiðlun en að lokum er það spurningin um það, hvort varan höfðar til þess, sem ætlunin er að þjóna. Í fríblöðum er verið að búa til efni um auglýsingar – efninu er ætlað að höfða frekar til auglýsenda en þeirra, sem fá blaðið ókeypis, hvort sem þeir vilja það eða ekki.

 

Þjóðmál er til marks um fjölmiðil, sem verður til í tómarúmi, sem hefur myndast vegna fríblaðamennskunnar og eftir að hún varð drifkraftur fjölmiðlunar í landinu.

 

Loks má ekki gleyma öllum vefsíðunum og miklum lestri þeirra. Ég vil í lok þessa pistils þakka öllum, sem hafa sýnt síðu minni hollustu á árinu 2005.