24.12.2005

Jólasveinafræði.

 

Fréttir herma, að fylgismenn Frjálslynda flokksins hafi ekki mælst, þegar Gallup spurði um afstöðu landsmanna til jólasveinanna. Hvort þetta bendir til þess, að frjálslyndir séu almennt hættir að mælast eða þeir hafi einfaldlega ekki viljað gefa upp afstöðu sína til þessa mikilvæga máls, veit ég ekki, en þegar ég hugsa til jólasveinanna og fulltrúa frjálslyndra á alþingi, dettur mér í hug svarið, sem séra Flóki Kristinsson á Hvanneyri gaf í útvarpsviðtali, þegar hann sat undir harðri gagnrýni fyrir að segja börnum í Borgarfirði, að jólasveinninn væri ekki til. Séra Flóki sagðist mundu láta þessa gagnrýni sér að kenningu verða, hann gæti að minnsta kosti sagt börnunum, að hvað sem liði jólasveininum vissi hann að minnsta kosti um ýmsa jólasveina. Ég veit ekki, hvort forseti alþingis mundi slá í bjölluna, ef þingmaður ávarpaði annan á þennan veg úr ræðustól alþingis: Um háttvirtan þingmann vil ég segja, hann er nú meiri jólasveinninn!

 

Gallup kynnti sér afstöðu Íslendinga til jólasveinsins á aðventunni og varð niðurstaðan, að Stúfur og Kertasníkir væru vinsælastir íslensku jólasveinanna. Á vefsíðunni www.gallup.is má lesa þetta:

 

„Alls svöruðu 578 manns könnuninni. Af þeim tóku 442 afstöðu og skiptust svörin þannig: Stúfur 30,1% (vikmörk 4,3), Kertasníkir 28,1% (vikmörk 4,2), Hurðaskellir 11,1%, Stekkjastaur 8,6%, Skyrgámur 5,9%, Giljagaur 3,8%, Ketkrókur 3,4%, Gluggagægir 2,9%, Gáttaþefur 2,3%, Bjúgnakrækir 1,6%, Pottaskefill / Pottasleikir 1,6%, Þvörusleikir 0,5%, Askasleikir 0,2%.“

 

Á mbl.is segir um þessa könnun:

 

„Í könnun Gallup kemur fram að menntun fólks skiptir litlu máli þegar kemur að vali á jólasveinum. 33,7% fólks með grunnskólapróf sögðu Stúf í uppáhaldi en og 33,0 með háskólapróf svöruðu í sömu mynt.

 

Þá er vart teljandi munur á því hvort fólk styðji ríkisstjórnina eður ei en 31,4% aðspurða sem styðja ríkisstjórnina sögðu Stúf í uppáhaldi. 28,5% þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina sögðu Stúf líka í uppáhaldi.

 

Hvað fylgi við einstaka stjórnmálaflokka varðar eykst bilið á milli jólasveina hins vegar nokkuð. Stúfur naut nokkuð almenns fylgis stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar en lítils stuðnings Vinstri-grænna. Þegar spurt var hvaða flokk yrði kosið ef gengið yrði til kosninga nú sögðu 35,5% kjósenda Framsóknarflokksins að Stúfur væri í uppáhaldi, 29,7% kjósenda Sjálfstæðisflokksins og 32,3% kjósenda Samfylkingarinnar. Einungis 17,8% þeirra sem myndu kjósa Vinstri-græna ef gengið yrði til kosninga nú sögðu Stúf í uppáhaldi. Líkaði þeim mun betur við Kertasníki en kjósendum annarra flokka.“

 

Hefði ég verið spurður í þessari könnun, væri svar mitt: Kertasníkir – þótt ekki sé ég vinstri/grænn.

 

Jólasveinafræði taka á sig ýmsar myndir, því að í jólahefti Vísbendingar – vikurits un viðskipti og efnahagsmál ritar útgefandinn, Benedikt Jóhannesson, grein undir fyrirsögninni: Hvað ef jólasveinarnir væru ráðherrar? Hann hann svarar og telur, að forsætisráðherra væri Stekkjastaur, utanríkisráðherra Gáttaþefur, samgönguráðherra Giljagaur, umhverfisráðherra Stúfur, sjávarútvegsráðherra Þvörusleikir, landbúnaðarráðherra Bjúgnakrækir, viðskiptaráðherra Pottasleikir, iðnaðarráðherra Kertasníkir, fjármálaráðherra Kjötkrókur, hagstofuráðherra Gluggagægir, félagsmálaráðherra Faldafeykir, dómsmálaráðherra Hurðaskellir, heilbrigðisráðherra Skyrgámur, menntamálaráðherra Askasleikir.

 

Hér verða ekki reifuð rök Benedikts fyrir þessari niðurstöðu en þau er að finna í grein hans í Vísbendingu.

 

Nokkur keppni er meðal þjóða á norðurhveli jarðar um að teljast aðsetur jólasveinsins. Finnar hafa haldið best fram hlut sínum, ef litið er til ferðamanna, sem leggja leið sína til heimkynna jólasveinsins. Við vitum, að í huga fólks tengjast þau snjó, hreindýrum og sleðaferðum, en þetta getum við Íslendingar ekki boðið af nægu öryggi, þótt unnið sé að útrás á þessu sviði eins og öðrum og þar með markaðssetningu íslensku jólasveinanna, sem hvorki tengjast sleða né hreindýrum.

 

Hljóðvarp ríkisins sagði í fréttum á Þorláksmessu, að alþjóðlega fréttaþjónustan Reuters teldi, miðað við skjót svör við fyrirspurn Reuters til jólasveinsins, að hann ætti heima á Íslandi. Í fréttinni sagði:

 

„Reuters segir greið svör um heimkynni hans kunna að hjálpa Íslandi að vinna hug og hjörtu barna og ferðamanna og skjóta öðrum löndum á norðurhjaranum sem halda því fram að jólasveinninn og hreindýrahjörð hans búi í þeirra landi, ref fyrir rass.

Reuters sendi spurninguna til 8 landa: Rússlands, Bandaríkjanna, Svíþjóðar, Danmerkur, Kanada, Finnlands, Noregs og Íslands. Fulltrúar íslensku jólasveinanna voru fyrstir til svars. Verum öll góð og innileg hvert við annað svaraði fulltrúi íslensku jólasveinanna á íslensku og vísaði á vefslóðina www.santaworld.is . Þar má sjá að jólasveinninn hefur búið í Dimmuborgum við Mývatn frá ómunatíð.“

 

Á forsíðu vefsíðunnar segir:

 

„Í Dimmuborgum í Mývatnssveit hefur jólasveinninn búið frá örófi aldar og sinnt störfum sínum við að gleðja ung hjörtu á öllum aldri yfir jólamánuðinn.  Jólasveinninn hefur um langa tíð svarað bréfum frá börnum, sett í skóinn og fært fólki gjafir á jólum.  Þetta hefur hann allt gert út frá Dimmuborgum. Núna hefur jólasveinninn fært sér tæknina í nyt og opnað þessa heimasíðu sem mun auðvelda börnum og fullorðnum að vera í sambandi við jólasveininn.“

 

Á síðunni er unnt að biðja jólasveininn að senda fyrir 15 evrur bréf til þess, sem maður nefnir við hann.

 

Velvakandi Morgunblaðsins segir frá því í dag, aðfangadag, þegar Francis Pharcellus Church, leiðarahöfundur blaðsins The New York Sun svaraði hinn 21. september 1897, lesendabréfi frá Virginiu O’Hanlon 8 ára, sem spurði: Er jólasveinninn til? Og hún sagðist spyrja, vegna þess að pabbi sinn segði henni, að því mætti treysta, sem birtist í The Sun. Velvakandi segir svarið sígilt í sögu bandarískrar blaðamennsku en það var birt undir fyrirsögninni: Já, Virginia, jólasveinninn er til. Þar segir meðal annars í þýðingu Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur blaðamanns á Morgunblaðinu:

 

„Já, Virginia, jólasveinninn er til. Hann er jafnvissulega til og kærleikur og göfuglyndi og trúfesta, og þú veist að af slíku fyrirfinnst sú ofgnótt er gæðir líf þitt æðstu fegurð og gleði. Sem sagt! Hversu drungalegur væri ekki heimurinn ef jólasveinninn væri ekki til? Hann væri álíka drungalegur og ef það væru engar Virginiur til. Þá fyrirfyndist hvorki barnsleg tryggð, skáldskapur né ævintýri til að gera þessa tilveru þolanlega. Við færum á mis við alla ánægju, ef frá er talin sú er tengist skilningarvitum og sjón. Hið ytra ljós bernskunnar sem lýsir upp gjörvallan heiminn yrði slökkt.

 

Trúa ekki á jólasveininn! Maður gæti allt eins hætt að trúa á álfa...Í heiminum er það raunverulegast sem hvorki börn né menn fá séð. Sástu nokkurn tíma álfa dansa í garðinum? Vitaskuld ekki, en það er ekki sönnun þess að þeir séu þar ekki. Enginn býr yfir því hugarflugi að hann geti ímyndað sér öll þau undur heimsins sem eru hulin og ósýnileg.“

 

Þetta hugarflug úr hinu klassíska svari leiðarahöfundar The Sun einkenndi ekki leiðara Jónasar Kristjánssonar, ritstjóra DV, 20. desember, eftir að blaðið hafði birt það í flennifyrirsögn á forsíðu, að séra Flóki, segði jólasveininn ekki til. Jónas sagði séra Flóka eiga heiður skilið fyrir framtakið og rökstuddi það meðal annars á þennan veg:

 

„Jólasveinninn í eintölu í rauðum búningi er blaðurfulltrúi, ættaður frá Kóka kóla, upprunninn frá heilögum Nikulási, sem er sagður hafa verið góður við börn.“ Og Jónas kennir „leikskólum um þá vitleysu“ að jólasveinninn gefi börnum dót í skóinn. Jólasveinninn sé ekki til í kristinni trú og þá segir Jónas: „Raunar má segja, að jólin sjálf séu tæplega kristin, því að þau eru hundheiðin hátíð hækkandi sólar, sem kristnin tók yfir til að afla sér vinsælda.“ Leiðara Jónasar lauk á þessum orðum: „Hvort sem íslenzku jólasveinarnir eru til eða ekki, þá er öruggt, að rauðklæddi jólasveinninn er alveg laus við að vera til. Og börnin eiga heimtingu á að fá að vita það.“

 

Komist Jónas Kristjánsson í jólaskap, var hann það ekki, þegar hann skrifaði jólasveinaleiðarann, sem verður líklega ekki klassískur, enda ekki til þess fallin að gleðja lítil spyrjandi börn. Þótt Kóka kóla hafi verið stofnað 1886, 11 árum, fyrir bréfaskiptin í The Sun, er óþarfi að reiðast jólasveininum fyrir það og láta hann gjalda þess, að þetta fyrirtæki auk allra annarra hvar sem er í veröldinni, hvort heldur meðal kristinna manna eða annarra, færi sér gleði og gjafir, sem jólasveininum fylgja, í nyt.

 

Hefð okkar Íslendinga er að viðurkenna tilvist álfa og jólasveina en kunna að varast töfra þeirra eða óknytti, eins og við getum lesið í óteljandi þjóðsögum eða eins og segir í sögunni Krossgötur:

 

„En svari maður eða þiggi boð álfa, þá er maður heillaður eða vitstola og aldrei síðan mönnum sinnandi. Því varð manni, sem Fúsi hét og sat úti jólanótt og stóðst lengi, þangað til ein álfkona kom með stóra flotskildi og bauð honum að bíta í. Þá leit Fúsi við og sagði það, sem síðan er að orðtaki haft: „Sjaldan hef ég flotinu neitað.“ Beit hann þá bita sinn úr flotskildinum og trylltist og varð vitlaus.“

 

Íslensku jólasveinunum er þannig lýst í þjóðsögunni: Sagan af Steini Þrúðuvanga: „Ganga þeir um byggðina um jól öll og eru þá illir viðfangs, ránsamir og hrekkjóttir, einkum við börn. Eru þeir því oft hafðir til að hræða börn með eins og Grýla... Enda birtast þeir sjaldan nema óguðlegum mönnum, og illt er að komast í kistu jólasveina.“

 

Jólasveinar nútímans gleðja með gjöfum sínum en trylla ekki.

 

Ég óska lesendum gleðilegra jóla!