13.12.2005

Jónarnir, Dagur og Samfylkingin - Richard Pipes.

Yfirlit

 

 

Umræður um Samfylkinguna, formann hennar og framtíð eru jafnskrýtnar, þegar rætt er um hlut Jóns Baldvins Hannibalssonar eða Jóns Sigurðssonar og endranær. Ég sá ekki Jón Baldvin í Silfri Egils sl. sunnudag en hef lesið, að þar hafi hann sagt, að hann ætlaði ekki aftur í framboð til þings, eftir að hann er kominn til baka eftir árin sín sem sendiherra í Washington og Helsinki.

 

Vangaveltur um endurkomu Jóns Baldvins í pólitíkina eiga rætur hjá krötum, sem eru óánægðir með Samfylkingarforystuna og harma, að þar skuli einkum gamlir alþýðubandalagsmenn eða kvennalistakonur vera í forystu. Virðist sú kenning hafa skotið rótum meðal þessa fólks, að þá fyrst fari Samfylkingin að blómstra, ef Jón Baldvin komist þar til áhrifa og Jón Sigurðsson, sem hefur einnig snúið til landsins eftir nokkurra ára fjarveru sem bankastjóri Norræna fjárfestingabankans, NIB.

 

Fyrir þá, sem utan standa, er þetta greinilegt merki um, að þeir, sem hvetja til endurkomu þessara manna, telji mikið tómarúm í forystu Samfylkingarinnar og þar með í brúnni hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem hætt sé að fiska, þótt hún haldi áfram að róa.

 

Í Blaðinu í dag, þriðjudaginn 13. desember, er sagt frá því, að á sjónvarpsstöðinni NFS í gær, hafi Ingibjörg Sólrún sagt, að Jónarnir tveir kæmu „sterklega til álita sem ráðherraefni Samfylkingarinnar“, en þá er hún væntanlega að vísa til þess, sem kynni að gerast eftir þingkosningar vorið 2007. Segir frá því í Blaðinu að þingflokkur Samfylkingarinnar ásamt framkvæmdastjórn og framtíðarhópi flokksins sitji nú tveggja daga vinnufund í Borgarfirði og þar hafi þessi mál verið rædd.

 

Blaðið snýr sér síðan til Margrétar Frímannsdóttur, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, en þingflokkar velja ráðherra flokka og votta þeim traust. Hún segir, að innan þingflokksins hafi menn ekkert rætt hugsanlega ráðherraskipan flokksins, öflugir menn eins og Jónarnir „gætu auðvitað komið til greina eins og aðrir“ við val á ráðherrum. Þá segir í Blaðinu:

 

„Hvað þá Jón Baldvin og Jón Sigurðsson varðar kvaðst hún [Margrét] ekki hafa tekið þá sérstaklega til kostanna. „Ég hef ekki einu sinni velt því fyrir mér. Þessir menn hafa verið uppteknir í sínum embættum erlendis og Samfylkingin er mjög vel mönnuð. En við hlökkum til að vinna með þeim þegar þeir koma.“

 

Blaðið greinir einnig frá því, að viðmælendur þess meðal þingmanna Samfylkingarinnar hafi tekið þeim Jónum mismunandi – Jón Baldvin hafi átt hljómgrunn, ef leita þyrfti út fyrir þingflokkinn. Þá segir: „Á hinn bóginn supu menn hveljur þegar minnst var á Jón Sigurðsson og töldu hann varla eiga afturkvæmt á svið stjórnmálanna undir nokkrum kringumstæðum.“

 

Í Blaðinu er minnt á sögusagnir um misklíð milli Ingibjargar Sólrúnar og Margrétar Frímannsdóttur og gefið til kynna, að með því að tala svona um Jónana, hafi Ingibjörg Sólrún verið að minna þingflokksformanninn á, að enginn þingmanna gæti gengið að ráðherrastól vísum.

 

Rökin fyrir að draga þá nafna, nýkomna frá útlöndum, inn í þetta valdatómarúm Samfylkingarinnar, eru þau, að Egill Helgason spurði Jón Baldvin, hvort hann hefði áhuga á að verða ráðherra, og Jón Sigurðsson ritaði greinar í Morgunblaðið, sem sýndu, að hann hefði enn pólitískan áhuga!

 

Hér skal ekki dregið í efa, að þetta tal allt gleðji Jónana við heimkomu þeirra og það ylji þeim um hjartarætur að sjá, að þeir séu þó ekki týndir og tröllum gefnir. Skal ekki gert lítið úr gildi vinarbragðs af þessu tagi í garð gamalla samherja. Hitt er annað mál, hvort nokkrum sé virðing sýnd eða greiði gerður með því að vera gerður að leiksoppi í valdabaráttu turnanna tveggja innan Samfylkingarinnar, framkvæmdastjórarinnar og þingflokksins.

 

Raunar hefði mátt ætla, að Samfylkingarforystan teldi sig ekki þurfa að leita halds og trausts hjá eftirlaunamönnum í sama mund og sjálfur Dagur B. Eggertsson ákveður að ganga til liðs við Samfylkinguna.

 

Richard Pipes.

 

Á tímum kalda stríðsins sat Richard Pipes, prófessor við Harvardháskóla, undir þungum árásum fyrir of hörkulega afstöðu gagnvart Sovétríkjunum. Pipes var meðal ráðgjafa Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta um svipað leyti og forsetinn gekk fram af mörgum vinstrisinnum með því að kalla Sovétríkin heimsveldi hins illa. Við hrun Sovétríkjanna og hins illa heimsveldis kommúnismans gat Pipes fagnað sigri skoðana sinna um að sovéska stjórnkerfið væri ekki lífvænlegt.

 

Bókafélagið Ugla sendi nýlega frá sér litla bók, Kommúnisminn eftir Pipes og á kápu hennar er haft eftir Paul Johnson: „Ég vildi óska að allir háskólanemar....læsu þessa óhugnanlegu bók.“

 

Jón Ólafsson, sem ritar um bókina í Morgunblaðið í dag, 13. desember, er ekki sammála Johnson, honum finnst bókin til dæmis of stuttaraleg og „lítið annað en ósannfærandi klisjur“ einskonar „klippiverk fyrirsagna“, „næstum eins og minnisvarði um orðræðu kaldastríðsins og and-kommúnismans í gegnum tíðina.“

 

Jón vill greinilega, að Richard Pipes hefði skrifað aðra bók en þessa! Jón segir í lok umsagnar sinnar: „Margir bandarískir sagnfræðingar eru nú að skrifa stórmerkilega hluti um sögu Sovétríkjanna, en Pipes er ekki einn af þeim, hann tilheyrir liðnum tíma.“

 

Richard Pipes mátti sitja undir því, eins og áður sagði, þegar hann lýsti hinu rétta eðli Sovétríkjanna á meðan þau voru og hétu, að hann væri tímaskekkja, víst myndu Sovétríkin ná sér á strik sögðu gagnrýnendur hans, kommúnisminn væri ekki vonlaus og illur í eðli sínu – nú þegar Pipes lítur til baka og lýsir því, hvernig kommúnisminn var og lék þá, sem hann máttu þola, er hann enn tímaskekkja.

 

Pipes hefur ritað ævisögu sína, heitir hún Vixi-  Memoirs of a Non-Belonger og er frá árinu 2003. Af formála hennar má ráða, að Pipes mundi ekki kippa sér upp við þá afstöðu, sem kemur fram í umsögn Jóns Ólafssonar, hún staðfesti aðeins fyrri reynslu hans. Pipes segir:

 

„My views on the history of Russia estranged me from much of the profession, while my opinions of U.S.-Soviet relations alienated me from the Sovietological community. The subtitle of my memoirs is meant to emphasize this aspect of my personality and the life’s experiences resulting from it.“

 

Ég er ósammála mati Jóns Ólafssonar á bókinni Kommúnisminn eftir Richard Pipes og tel, að hún eigi fullt erindi til samtímans í þeim skýra og knappa stíl, sem hún er skrifuð. Þar segir meðal annars:

 

„Það er útbreiddur misskilningur að sósíalismi og kommúnismi séu einfaldlega nútímaleg, veraldleg útgáfa á kristinni trú. Eins og 19. aldar rússneski heimspekingurinn Vladímír Soloviev benti á liggur munurinn í því að Jesús hvatti fylgjendur sína til að snúa baki við eigum sínum og gefa þær en sósíalistar og kommúnistar vilja hins vegar gefa eigur annarra. Ennfremur leit Jesús aldrei svo á að fátækt væri eftirsóknarverð í sjálfu sér; hann mælti einungis með henni til að auðvelda leiðina til sáluhjálpar. Þá er iðulega farið rangt með fræg ummæli Páls postula um peninga. Páll sagði ekki að peningar væru „upphaf alls ills“ heldur að „ást á peningum“ væri það – með öðrum orðum, græðgin. Heilagur Ágústínus spurði sjálfan sig: „Er gull ekki gott?“ Og hann svaraði: „Jú, það er gott. En hinir illu nota gott gull til ills, og hinir góðu nota gott gull til góðs.““