4.12.2005

Múslímaumræður í Danmörku - Staksteinaótti.

Umræður í Danmörku um samskipti fólks af ólíku þjóðerni taka á sig ýmsar myndir og margt veldur þar deilum, sem kemur öðrum spánskt fyrir sjónir. Sendiherrar múslímskra ríkja sendu Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra bréf á dögunum og mótmæltu skopmynd af Múhameð spámanni í Jyllands-Posten og nú berast þær fréttir, að þeir, sem stóðu að birtingu myndarinnar hafi verið lýstir réttdræpir af málsvörum Múhameðs í Pakistan og sendiherra Dana þar hafi sagt, að taka ætti þessa yfirlýsingu af mikilli alvöru. Hótanirnar minna á þær, sem dundu á rithöfundinum Salman Rushdie, eftir að hann hafði farið óvirðulegum orðum um spámannin. Rushdie lifði í mörg ár í felum og fór hvergi án lífvarða og mikilla öryggisráðstafana.

Fyrir skömmu voru þeir saman á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn forsætisráðherrar Danmerkur og Tyrklands, þegar hinn síðarnefndi gekk fyrirvaralaust snúðugur af fundinum, vegna þess að á meðal fréttamanna var fulltrúi kúrdískrar sjónvarpsstöðvar í Danmörku. Taldi tyrkneski ráðherrann, að þar væri á ferðinni hryðjuverkamaður úr PKK-samtökunum, sjálfstæðishreyfingu Kúrda, og krafðist þess, að Danir lokuðu þessari sjónvarpsstöð þeirra.

Í báðum þessum tilvikum hefur Anders Fogh Rasmussen vísað til þess, að í Danmörku sé skoðanafrelsi og frelsi til fjölmiðlunar og neitað að verða við kröfum um fordæmingu eða lokun.

 

Í Berlingske Tidende birtist miðvikudaginn 30. nóvember leiðari um vakningu meðal múslíma og segir þar, að meðal ungra múslíma í Danmörku séu vaxandi kröfur um að tekið sé ríkt tillit til trúar þeirra og óska þeir meðal annars eftir því að geta farið með föstudagsbænir í menntaskólum. Þá verði þess einnig vart, að meðal ungmenna af dönskum uppruna fjölgi þeim, sem vilji snúast til íslam.

 

Í forystugrein blaðsins segir:

 

„Í almennum umræðum sjást stundum merki um, að líta beri á unga múslíma sem óvini samfélagsins, eins konar fimmtuherdeild,  sem ætli að kollvarpa lýðræðiskerfi okkar og innleiða kalífaveldi. Að vísu er rétt, að meðal hinna ungu trúmanna má finna íslamista, en ekki ber að líta á þá sem neina alvarlega ógn við samfélag okkar og lýðræði.

 

Minnumst þess sem gerðist fyrir tiltölulega skömmum tíma, þegar sjá mátti ungt fólk með annars konar handklæði. Það gerðist einnig þá, að saklausir, almennir borgarar voru sprengdir í loft upp í þágu æðri málstaðar, og jafnframt teygði ofbeldisfull, alheims hugmyndafræði anga sína inn í menningarlífið, menntakerfið, friðarhreyfinguna, andstöðuhreyfinguna gegn ESB og stéttarfélögin.

 

Á þeim tíma byggðist þetta þar að auki á öruggum grunni hinnar miklu sovésku ættjarðar, sem einnig bjó sig undir að ráðast á okkur með herafli.

 

Nú á tímum eiga íslamistar ekki neitt kalífaveldi, ekkert sameiginlegt föðurland, enga alheims hreyfingu og enga sameiginlega yfirstjórn. Og þeir hafa ekki eignast neinar valdastofnanir í menningarmálum eða stjórnmálum, sem jafnast á við aðstöðu vinstriöfgamanna á sínum tíma. Í samanburði við öfgafulla vinstrimenn á áttunda og níunda áratugnum má segja, að engin hætta stafi af íslamistum. Og það er alls engin ástæða til að nota þá sem afsökun fyrir áhyggjur af ungu fólki, sem hrífst af múslímskri vakningu, hvort sem það er til marks um einlægan trúaráhuga eða aðeins tískufyrirbrigði.“

 

Staksteinaótti.

 

Þegar menn ná ekki því takmarki, sem þeir setja sér, er þeim gjarnt að finna afsökun með því að benda á aðra frekar en að líta í eigin barm og skoða, hvort þeir geta ekki sjálfir gert betur.

 

Engum dylst að Samfylkingin á undir högg að sækja um þessar mundir og nær ekki þeim árangri í skoðanakönnunum, sem að hefur verið stefnt. Þegar leitað er skýringa, er meðal annars nefnt, að flokkurinn logi í innbyrðis deilum og ágreiningi, þannig sé þingflokkurinn til dæmis þríklofinn og þær tali lítið sem ekkert saman Margrét Frímannsdóttir þingflokksformaður og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flokksformaður.

 

Nú hafa forystumenn Samfylkingarinnar komist að þeirri niðurstöðu, að upphaf alls vanda flokks þeirra og flokksformanns sé að finna í Staksteinum Morgunblaðsins. Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkinguna, tók upp hanskann fyrir Ingibjörgu Sólrúnu í Blaðinu 1. desember og réðist þar harkalega á Staksteina, en þeir svöruðu fyrir sig 2. desember á þennan veg:

 

„Svanfríður kemst að þeirri niðurstöðu, að Staksteinar, séu „froðufellandi“, markist af „pólitískri heift“, einkennist af „kjaftasögustíl“ og hafi gert Morgunblaðið að „flokksblaði eins og þau gerðust svæsnust“.

Og hver eru rök Svanfríðar? M.a. þessi: „Og í gær var raðað inn á þrjár síður í röð fréttum af menntamálaráðherra, sem vill svo til að er varaformaður í Sjálfstæðisflokknum til að bera af henni blak.“

Morgunblaðið hefur verið fullt af fréttum, sem hafa verið menntamálaráðherra andsnúnar vegna Listdansskólans, styttingar framhaldsskóla og samræmds stúdentsprófs. Ráðherrann hefur ekki kvartað.

Morgunblaðið hefur reynt að halda uppi samræðum við Ingibjörgu Sólrúnu um áhrif stórra viðskiptasamsteypna á íslenzkt þjóðlíf. (Í samræmi við óskir hennar um samræðustjórnmál). Það þýðir ekki neitt. Viðbrögðin eru ekki samræður heldur svívirðingar.

Morgunblaðið hefur reynt að halda uppi samræðum við Ingibjörgu Sólrúnu um sögu verkalýðshreyfingarinnar og jafnaðarstefnunnar á Íslandi á 20. öldinni. Það þýðir heldur ekki neitt. Hana skortir þekkingu.

Og þar að auki ætlast hún til að njóta sérstöðu. Það sem snýr að öðrum á ekki að snúa að henni.

Það eru ekki Staksteinar, sem minnka fylgi Samfylkingarinnar í öllum skoðanakönnunum.

Það er fólkið í landinu sem talar.“

Til að útmála Staksteina enn frekar sem óalandi og óferjandi greip Kristján L Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, til þess ráðs að andmæla því, sem skrifað hafði verið í dálkinn um Monakó-ferð forsetahjónanna. Þingmaðurinn sagði Staksteina hafia ráðist á forseta Íslands á „ruddalegan“ hátt og þau skrif hafi verið hin „subbulegustu“.

Í mörg ár kom það í minn hlut að skrifa Staksteina og ég fagna því, að dálkurinn skuli á ný vera orðinn vettvangur, þar sem tekið er á málefnum líðandi stundar frá sjónarhóli höfundar, en ekki látið nægja að endurbirta þar tilvitnanir. Staksteinar hafa gengið í endurnýjun lífdaga á þann veg, að eftir er tekið og þeir veita Morgunblaðinu hressilegan blæ. Blaðið breytist að sjálfsögðu ekki í flokksblað, þótt það segi skoðun sína á mönnum og málefnum á afgerandi hátt.

Ég er viss um, að ekki séu allir sjálfstæðismenn alltaf ánægðir með það, sem í Staksteinum stendur, eins og til dæmis þegar (28. nóvember) ýtt er undir framboð Dags B. Eggertssonar, óháðs borgarfulltrúa, í prófkjöri Samfylkingarinnar og látið með hann eins og þar sé að finna hinn frelsandi engil flokksins, sem geti bæði skákað Stefáni Jóni Hafstein og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur auk þess að verða Sjálfstæðisflokknum hættulegri en þau.