28.11.2005

Málstofa um ungmenni – stjórnmálafræði og alþingi –Sundabraut.

Á dögunum eða hinn 16. nóvember flutti ég stuttan fyrirlestur og svaraði síðan fyrirspurnum í 50 mínútna málstofu í stofu 201 í Odda. Það var Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, sem bauð mér til málstofunnar, en í vetur er efnt til nokkurra slíkra hádegisfunda og gestir utan háskólans fengnir til að ræða um málefni tengd uppeldisfræðum. Þannig átti ég að svara spurningu um það, hvaða málefni tengt ungmennum væri að mínu mati brýnast á vettvangi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um þessar mundir.

Í máli mínu fór ég yfir nokkur mál, sem eru efst á baugi í ráðuneytinu og snerta ungmenni. Fyrst nefndi ég til sögunnar frv. til breytinga á sifjalögum, þar sem mælt er fyrir um, að sameiginleg forsjá barns sér meginregla að íslenskum rétti við skilnað. Þar er einnig að finna ákvæði, sem á að auðvelda að fylgja fram úrskurði sýslumanns í umgengnismálum með því að breyta þeirri reglu, að með kæru til æðra stjórnvalds eða dómstóls sé unnt að fresta réttaráhrifum úrskurðarins. Ég tel, að með þessu tvennu sé verið að bæta réttarstöðu barna.

Sömu sögu er að segja um markmið þeirrar endurskoðunar, sem nú stendur yfir og lýtur að ákvæðum almennra hegningarlaga um kynbundið ofbeldi. Þar er meðal annars litið til ákvæða, sem snerta réttarstöðu barna í því skyni að bæta hana.

Þá hef ég lagt fram frumvarp á alþingi, sem refsiréttarnefnd samdi að minni ósk og snýst um hert ákvæði almennra hegningarlaga til að stemma stigu við heimilisofbeldi með skýrari heimildum til refsiþyngingar. Þessu frumvarpi fylgja nýjar verklagsreglur í heimildisofbeldismálum, sem ríkislögreglustjóri hefur samið að minni ósk.

Ég tel þetta allt til hagsbóta fyrir ungmenni, því að upphaf vanda þeirra er oft að leita í erfiðum heimilisaðstæðum eða sundurlyndi innan fjölskyldna. Ef löggjafinn getur með skynsamlegum ákvörðunum sínum stuðlað að því, að dragi úr þessum vanda, er betra af stað farið en heima setið. Verður spennandi að fylgjast með úrvinnslu allsherjarnefndar alþingis á þessum frumvörpum, því að það kemur í hennar hlut að leita umsagna um þau og leggja mat á þau sjónarmið, sem þar koma fram.

 

Brýnasta verkefnið, sem við refsivörslukerfinu blasir í málefnum ungmenna, er að finna leiðir til að beina þeim til betri vegar, sem hafa leiðst inn á braut afbrota og stöðva sem fyrst ferð þeirra á þeirri braut. Það er ekki fjölmennur hópur pilta á höfuðborgarsvæðinu, sem veldur þar lögreglu og meðferðarheimilum mestum vanda. Spurningin er eftir hvaða leiðum best sé að reyna að sigrast á honum.

 

Eitt úrræði, sem reynst hefur vel víða, en ekki  hefur verið nýtt á nægilega skipulegan hátt hjá okkur, hefur á íslensku verið kallað sáttaumleitanir og byggist á hugmyndafræði, sem kennd er við restorative justice eða uppbyggilega réttvísi. Ég hef tekið eftir því á fundum, sem ég hef setið víða um lönd í hópi dómsmálaráðherra, að aðrar þjóðir eru lengra komnar við að nýta sér þetta úrræði en við, en skipulega hefur það verið notað í Grafarvoginum í Reykjavík undir heitinu Hringurinn og lét ég gera úttekt á því starfi, sem þar hefur verið unnið með góðum árangri og má finna skýrslu um hana á vefsíðu dóms-og kirkjumálaráðuneytisins.

 

Sáttaumleitun byggist á því að leiða saman þolanda og geranda í því skyni, að þeir geri sameiginlega upp það, sem valdið hefur vandræðum í samskiptum þeirra. Það eru ekki lögfróðir menn, lögregla, saksóknarar og dómarar, sem gera út um málið, heldur aðilar þess sjálfir með hjálp almennra borgara og þeirra, sem starfa að úrlausn mála á félagsfræðilegum grunni. Nú hefur félagsfræðingur, Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson, með sáttaumleitanir sem sérmenntun frá Bandaríkjunum, verið ráðinn tímabundið til starfa hjá lögreglunni í Reykjavík til að stuðla að því, að sáttaumleitanir hefjist.

 

Þótti mér gagnlegt að skýra þennan þátt í starfi dómsmálaráðuneytisins á þessu fjölmenna málþingi í félagsvísindadeildinni og fá tækifæri til að svara um það spurningum. Ég taldi það geta orðið þróun hugmynda á sviði refsiréttar hér á landi til framdráttar, að nánara samstarf yrði milli fræðimanna á sviði lögfræði og félags- eða uppeldisfræði. Mig hefði undrað, að ekki væru meiri fræðilegar umræður um nýja strauma á sviði refsiréttar meðal lögfræðinga miðað við þá gerjun, sem endurspeglaðist í umræðum um þessi mál á alþjóðlegum vettvangi.

 

Þá lýsti ég þeirri skoðun, að ekki hefði verið unnið nægilega vel að undirbúningi þess að hækka sjálfræðisaldur úr 16 í 18 ár, refsivarslan væri meðal annars að súpa seyðið af því í úrræðaleysi sínu gagnvart fámennum hópi pilta á aldrinum 15 til 18 ára. Ég sagðist raunar hafa verið á móti þessari hækkun og að mínu mati ætti íhuga vel, áður en stigin væru skref til að rjúfa sérstöðu íslenska þjóðfélagsins í slíkum efnum – það væri ekki endilega okkur fyrir bestu að taka slíkar ákvarðanir til þess eins að hafa reglur svipaðar hér og annars staðar. Íslensk þjóðfélagsgerð ætti að fá að halda sérstöðu sinni, hvað sem liði þjóðfélagsgerð annarra landa.

 

Stjórnmálafræði og alþingi.

 

Á málþinginu meðal félagsfræðinganna var skýrt frá því, að samstarf væri að fara af stað á milli félagsfræðinga og lögfræðinga í lagadeild Háskóla Íslands um úrlausn verkefna á sviði refsiréttar og er ástæða til að fagna því. Hins nýja námslína, sem byggist á þessu samstarfi, nefnist: Réttarfélagsráðgjöf.

 

Í nýjasta hefti Tímarits lögfræðinga (2. hefti 55. árgangs, október 2005) er að finna tvær greinar eftir félagsfræðinga. Í fyrsta lagi eftir þær Sigrúnu Júlíusdóttur, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands með hjóna- og fjölskyldusamskipti sem sérgrein, og Nönni K. Sigurðardóttur, félagsráðgjafa á Krabbameinsmiðstöð Landspítala-háskólasjúkrahúss, og er hún um rétt barna og velferð við skilnað foreldra. Í öðru lagi grein eftir Þorstein Magnússon: Alþingi í ljósi samþættingar löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Þorsteinn er doktor í stjórnmálafræði en hefur verið starfsmaður skrifstofu alþingis frá 1988 og er nú forstöðumaður hinnar almennu skrifstofu þess.

 

Kveikjuna að grein Þorsteins má rekja til ritstjórnargreinar eftir Friðgeir Björnsson, héraðsdómara og fráfarandi ritstjóra Tímarits lögfræðinga, þar sem hann velti því fyrir sér, hvort þrískipting ríkisvaldsins væri ekki hálfgerð blekking vegna yfirþyrmandi áhrifa framkvæmdavaldsins á löggjafarvaldið. Þorsteinn færir fyrir því rök í grein sinni, að það sé skökk mynd af stöðu alþingis, að það gegni mjög veigalitlu hlutverki í stjórnskipuninni.

 

Í grein Þorsteins Magnússonar er að finna fróðlega og tímabæra lýsingu á starfsháttum og hlutverki alþingis nú á tímum. Ætti greinin að vera skyldulesning fyrir alla, sem taka sér fyrir hendur að lýsa störfum alþingis í fjölmiðlum, en lýsingin í fjölmiðlum er oft og tíðum ákaflega yfirborðskennd og kannski gefur hún frekar en nokkuð annað þá mynd, að í þingstörfum skipti mestu, hvort þessi eða hinn ráðherrann sé í salnum, þegar hinn eða þessi þingmaðurinn flytur ræðu sína, eða þegar fundur hefst.

 

Ég er viss um, að þingmaður, sem sat á þingi fyrir 20 árum, mundi halda sig kominn á allt annan vinnustað, ef hann settist aftur á þing núna.  Þorsteinn rekur breytingar síðustu tveggja áratuga og skýrir, hvernig alþingi rækir hlutverk sitt við setningu löggjafar og framkvæmdavaldinu til aðhalds.

 

Hér að framan lét ég þess getið, að fróðlegt yrði að sjá, hvernig allsherjarnefnd alþingis tæki á þeim málum, sem ég tíundaði þar, en ég treysti jafnan verulega á störf þingnefnda við lokagerð þeirra frumvarpa, sem ég legg fyrir þingið. Þorsteinn Magnússon lýsir umsagnarferlinu hjá þingnefndum og hve víða þær leita fanga í athugunum sínum á einstökum frunvörpum. Hann bendir réttilega á, að þetta umsagnarkerfi þingnefnda sé sérstakt fyrir Ísland, þegar litið sé til þinga á Norðurlöndum, en þar fari þessi vinna fremur fram á undirbúningsstigi, þegar unnið er að gerð stjórnarfrumvarpa í ráðuneytum.

 

Af grein Þorsteins má ráða, að stjórnmálafræðingur lítur starf alþingis öðrum augum á grunni fræðigreinar sinnar en lögfræðingur, sem er bundnari af forminu en efninu og hinum pólitísku þáttum, sem ráða mestu um hina sýnilegu starfshætti á alþingi.

 

Raunar eru það ekki aðeins þeir, sem líta á alþingi utan frá, sem hefðu gagn af því að lesa þessa fróðlegu lýsingu Þorsteins Magnússonar á þróun alþingis. Hún á ekki síður fullt erindi til þeirra, sem á alþingi sitja, en ég vék að því í dagbókarfærslu fyrir fáeinum dögum, að það væri ekki síst framganga stjórnarandstöðuþingmanna, sem brygði þeim svip á störf þingsins, að það snerist fyrst og síðast um ráðherrana og framgöngu þeirra – fyrirspurnir til þeirra hafa margfaldast, umræður utan dagskrát til að ræða störf ráðherra hafa orðið að föstum dagskrárlið og keppast stjórnandstöðuþingmenn um að ná því að verða fyrstir til að eigna sér umræður um dægurmál með því að óska eftir umræðu um þau utan dagskrár auk þess gerðist það í tíð Halldórs Blöndals sem þingforseta 1999 til 2005, að sú venja skapaðist, að í upphafi þingfundar geta þingmenn efnt til umræðna um mál líðandi stundar í 20 mínútur og beina þá gjarnan spjótum sínum að einhverjum ráðherranna, en þeir vita sjaldnast af því fyrirfram, að ætlunin sé að beina að þeim spurningum eða athugasemdum. „Þessar umræður eru í reynd að festast í sessi sem eitt af aðhalds- og eftirlitstækjum þingmanna,“ segir Þorsteinn Magnússon.

 

Sundabrautin.

 

Umræður um lagningu Sundabrautar tóku að sjálfsögðu nýja stefnu í byrjun september, þegar ríkisstjórnin tilkynnti, að varið skyldi 8 milljörðum króna af söluandvirði Símans til að leggja fyrsta áfanga hennar yfir Elliðaárvoginn. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar byggðist á því, að valinn yrði hagkvæmasti kosturinn, en það er hinn svonefnda innri leið, sem hvorki krefst hábrúar né jarðganga. Hinn 6. september lagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri fram tillögu að bókun á fundi borgarstjórnar, þar ákvörðun ríkisstjórnarinnar var fagnað og fallist á innri leiðina með eðlilegum fyrirvörum um úrvinnslu hugmynda um hana.

 

Bókunin var samþykkt af öllum borgarfulltrúum og þar með lauk áralöngum deilum í borgarstjórn um legu Sundabrautar yfir Elliðaárvoginn – eða að minnsta kosti mátti ætla það miðað við eindrægnina í borgarstjórn.

 

Að liðnum nokkrum vikum frá þessari sögulegu bókun fór þess að gæta, að gæta að íbúar sitt hvoru megin við Elliðaárvoginn tóku því illa, að þessi mikla umferðaræð ætti að vera í nágrenni þeirra. Að ósk þeirra, sem eru vestan megin við voginn, hitti ég talsmenn þeirra og hlýddi á sjónarmið um, að íbúar hefðu ekki verið með í ráðum auk þess sem hafa ætti fleiri kosti undir en þennan eina.

 

Síðan hefur verið haldinn fjölmennur borgarafundur um málið og andmæli íbúa bæði austan og vestan við voginn hafa birst. Þá gerist það, að Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir, að ekkert sé fast í hendi varðandi legu Sundabrautar, þar komi fleiri kostir en einn til greina og best sé bara að borgabúar skeri úr um legu hennar með atkvæðagreiðslu. Morgunblaðið telur sig hafa himin höndum tekið, þegar það heyrir áhuga Dags á almennri atkvæðagreiðslu um málið, það sé til þess fallið að ýta undir framkvæmd á þeirri stefnu blaðsins, að almenningur komi beint að fleiri ákvörðunum en áður. Blaðið finnur af með þunga, þegar vegamálastjóri segir stofnun sína halda fast við tillöguna um innri leið, allar aðrar leiðir séu dýrari, og lætur blaðið að því liggja, að með þessum orðum hafi embættismaður reynt að beita áhrifavaldi sínu á rangan hátt.

 

Dagur B. Eggertsson má þakka Morgunblaðinu fyrir að taka þennan pól í hæðina, því að afstaða blaðsins dregur athygli frá vingulshættinum, sem einkennir framgöngu hans í þessu máli eins og fleiri skipulagsmálum, sem sæta gagnrýni. Miðað við reynsluna af framgöngu R-listans í skipulagsmálum, þar sem seglum er hagað eftir vindi, ekki aðeins áður en ráðist er í skipulagsbundin verkefni heldur einnig eftir að þeim er lokið, eins og lagningu Hringbrautar.

 

Nú virðist það aðeins vera Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem þorir að kannast við skipulagið á Hringbrautinni og lýsir því sem ágætu – bæði Dagur og Árni Þór Sigurðsson, fullrtúi v/g eru á harðahlaupum frá eigin ákvörðunum vegna Hringbrautarinnar. Ég endurtek lýsingu mína á þessari braut: Hún er eins og ný austur/vestur flugbraut við norðurjaðar Vatnsmýrarinnar og sker hana frá miðborginni.

 

Vegna þessa vingulsháttar hef ég til dæmis varað stjórnendur Háskólans í Reykjavík við að treysta á fyrirheit R-listans um lóð í Vatnsmýrinni – fyrir utan að andmæla þeirri ráðstöfun vegna þess, hve vegið er að umhverfinu.

 

Að sjálfsögðu ber að vinna að því að finna þá lausn við lagningu Sundabrautar, sem er hagkvæmust og fellur best að hagsmunum og sjónarmiðum borgarbúa, bæði þeirra, sem búa nærri og fjarri brautinni. Ef á að kjósa um þessar lausnir, þurfa kostir þeirra og gallar að liggja ljósir fyrir og þá þarf að vinna og kynna á mun nákvæmari og skýrari hátt fyrir öllum almenningi en gert hefur verið til þessa. Um þessa kosti verða sérfróðir menn að sjálfsögðu að hafa leyfi til að ræða á opinberum vettvangi og lýsa því, hvaða lausnir þeir telja skynsamlegastar.

 

Umferðarmannvirki rísa ekki frekar en önnur mannvirki, nema einhver taki um þau ákvörðun og fylgi henni síðan eftir af þeim þunga, sem til þarf í hverju tilviki. Sundabraut yfir Elliðaárvog vekur deilur, hvaða leið, sem valin verður. Sé enginn reiðubúinn til að taka á sig nein óþægindi vegna þessarar miklu framkvæmdar, verður aldrei neitt af henni.