19.11.2005

Framsókn í Reykjavík – seinheppinn jafnaðarmaður.

Allt stefnir í hörð átök innan Framsóknarflokksins í Reykjavík, eftir að Alfreð Þorsteinsson ákvað að gefa ekki kost á sér í næstu borgarstjórnarkosningum. Við brottför Alfreðs skapast tómarúm í forystusveit Framsóknarflokksins í borginni, en hann hefur haft þar tögl og hagldir um langt skeið og margir andstæðinga hans innan flokksins hafa talið sig rangindum beitta og horfið á braut kalnir á hjarta.

Þau Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi og Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, hafa boðið sig fram í fyrsta sætið hjá Framsóknarflokknum, en eins og mál standa núna samkvæmt skoðanakönnunum, er ólíklegt að sá, sem situr í því sæti, nái kjöri í borgarstjórn. Framsóknarmenn þreytast þó seint á því að segja okkur, að skoðanakannanir séu ekki kosningaúrslit og sagan sýni, að þeir nái jafnan betri árangri í kosningum en kannanir gefi til kynna.

 

Í sjónvarpsstöðinni NFS – arftaka Stöðvar 2 – var sagt frá því laugardaginn 19. nóvember, um leið og Björn Ingi sagði frá framboði sínu, að framsóknarmenn kynnu að ná einum manni í borgarstjórn, lenda í oddaaðstöðu og fá borgarstjóra! Af þessu má ráða, að NFS telji framsóknarmenn ætli að verðleggja sig hátt í borgarstjórn að kosningum loknum, nái þeir á annað borð inn í hana. Alfreð Þorsteinsson hefur einnig krafist mikils af samstarfsmönnum sínum innan R-listans síðan 1994 og sjá má það hér á síðunni í áranna rás, að ég hef undrast, hve hann hefur komist langt með kröfugerð sinni, ekki síst gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þegar hún var borgarstjóri.

 

Hvað sem öðru líður er óhætt að segja, að framsóknarmenn ríði ekki feitu hrossi frá R-listasamstarfinu með fylgi um eða innan við 3% samkvæmt skoðnakönnunum og keppi um minnsta fylgið í borginni við frjálslynda flokkinn undir forystu Ólafs F. Magnússonar, sem einnig lifir í þeirri von, að geta verðlagt sig hátt í oddaaðstöðu að loknum kosningunum í vor.

 

Reynslan sýnir, að Alfreð Þorsteinsson var einstaklega laginn við að ná góðum árangri fyrir sjálfan sig í þröngri stöðu – hér skal engu spáð um hæfileika væntanlegs arftaka hans í þessu efni. Ólafur F. Magnússon kaus hins vegar að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum vegna ágreinings við félaga sína í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna á sínum tíma og eftir að hafa orðið undir á landsfundi Sjálfstæðisflokksins – það sýnir ekki mikinn samstarfsþroska.

 

Seinheppinn jafnaðarmaður.

 

Eins og að framan er lýst telja smáflokkar í oddaaðstöðu sig oft geta gert miklar kröfur til stærri samstarfsflokka. Sagan geymir vissulega dæmi um slíkt. Hitt er einnig algengt, að talsmenn smáflokka vilji gera hlut þeirra sem mestan og bestan, þegar að því kemur að lýsa áhrifum þeirra í samstarfi við stærri flokka. Dæmi um slíkt mátti lesa í Morgunblaðinu laugardaginn 19. nóvember eins og hér verður lýst með því að ræða um lesendabréf eftir Jón Otta Jónsson prentara, sem birtist undir fyrirsögninni: Bullið frá Frjálshyggjufélaginu.

 

Tilefni bréfsins er svar Frjálshyggjufélagsins við ræðu, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, flutti á flokksstjórnarfundi 12. nóvember sl., þar sem hún tók sér meðal annars fyrir hendur að hæla stjórnarháttum á Norðurlöndunum á kostnað Bandaríkjanna. Ingibjörg Sólrún sagði meðal annars: „Óstjórn og vanmáttur stjórnvalda í Bandaríkjunum andspænis öllu því sem ógnar samfélaginu er órækur vitnisburður um fjörbrot þess hugmyndakerfis sem frjálshyggjufólkið í Sjálfstæðisflokknum setti allt sitt traust á.“

 

Frjálshyggjufélagið andmælti fullyrðingum flokksformannsins og tekur Jón Otti upp þykkjuna fyrir Ingibjörgu Sólrúnu í grein sinni, en honum ferst það frekar illa úr hendi, eins og hér skal rakið:

 

1, Jón Otti segir, að Alþýðuflokkurinn hafi staðið með öðrum lýðræðisflokkum hér á landi að stofnun NATO. Það er rétt, en hann hefði mátt halda því til haga, að jafnaðarmenn voru alls ekki á einu máli um þetta og jafnaðarmennirnir Gylfi Þ. Gíslason og Hannibal Valdimarsson studdu til dæmis ekki aðild Íslands að NATO.

 

2. Jón Otti slær því föstu, að Gylfi Þ. Gíslason hafi  beitt sér „mest og best...fyrir útrýmingu hafta og öðru óláni í ríkiskerfinu og koma efnahagsmálum okkar í nútímalegt horf eins og hægt var á árunum uppúr.“ Hér er alltof fast að orði kveðið um hlut Gylfa og annarra krata í þessu efni. Breytingarnar 1960 voru rökrétt framhald af stefnu, sem sjálfstæðismenn höfðu kynnt um 10 árum fyrr við mikla andstöðu Gylfa og annarra vinstri krata á þeim tíma, en þeir vildu þá halla sér að Framsóknarflokknum og tóku síðan upp samstarf við hann undir forsæti Hermanns Jónassonar 1956 til 1959 og lærðu af þeirri reynslu, að ekki næðist neinn árangur af slíkri vinstrimennsku og þess vegna væri skynsamlegast að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn á frjálsræðis-forsendum hans. Frelsisvilji kratanna í viðreisnarstjórninni dugði því miður ekki til að afnema verðlagshöft, því að á þinginu 1969 til 1970 snerist Eggert G. Þorsteinsson, jafnaðarmaður og ráðherra í viðreisnarstjórninni, gegn stjórnarfrumvarpi um afnám þessara hafta.

 

3. Jón Otti mærir hlut Jóns Baldvins Hannibalssonar, formanns Alþýðuflokksins, vegna aðildar Íslands að evrópska efnahagssvæðinu (EES) á árunum 1991 til 1994, hann hafi beitt sér öflugast fyrir henni, og Jón Otti segir síðan af augljósu lítillæti þess, sem hefur undirtökin: „Það má Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkurinn eiga að þeir sáu hið jákvæða við þessa gerð [EES-aðildina].“ Ég var formaður utanríkismálanefndar alþingis á þessum árum og virkur þátttakandi í hinum miklu umræðum um EES-samninginn á þeim vettvangi og er enn jafnsannfræður og ég var þá, að tekist hafi að fá samninginn samþykktan á þingi, þrátt fyrir framgöngu Jóns Baldvins gagnvart þingmönnum. Auðvitað hefði EES-samningurinn aldrei hlotið samþykki á alþingi nema vegna eindregins stuðnings og málafylgju okkar sjálfstæðismanna.

 

4. Þá segir Jón Otti: „Þess skal líka getið að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem þá sat á Alþingi fyrir Kvennalistann, var einn af fáum stjórnarandstöðuþingmönnum, sem sýndu þá framsýni að samþykkja þetta framfaraskref.“ Þetta er ekki rétt, því að Ingibjörg Sólrún sat hjá við afgreiðslu EES-samningsins en studdi hann ekki. Jón Otti hefur það sér til nokkurra málsbóta í þessu efni, að Ingibjörg Sólrún stóð sjálf í þeirri trú fyrir nokkrum árum, að hún hefði stutt EES-samninginn!

 

5. Jón Otti gefur félagsmönnum í Frjálshyggjufélaginu þetta ráð undir lok bréfs síns: „Ég tel að það væri þeim fyrir bestu að setjast á skólabekk og læra sögu og kynna sér staðreyndir, ef þeir ætla að láta taka mark á sér.“

 

Hvaða lærdóm geta frjálshyggjumenn dregið af ráðum Jóns Otta? Jú, ætli þeir að læra staðreyndir, eiga þeir ekki að óska eftir honum sem kennara, þótt Jón Otti vilji vafalaust láta taka mikið mark á sér.