12.11.2005

Í Cambridge – Blair tapar – sendiherrabók.

Það hefur verið forvitnilegt að vera hér í Englandi undanfarna daga. Ég átti þess í fyrsta sinn kost að heimsæka háskólabæinn Cambridge, þar sem ég flutti erindi á tveimur fundum með prófessorum og nemendum, annars vegar um lífkenni og gildi þeirra fyrir löggæslu og landamæravörslu og hins vegar um utanríkis- og öryggismál Íslands. Ég segi dálítið frá því, sem fyrir augu bar í Cambridge í dagbókinni minni, og ræðu mína um lífkennin er unnt að finna hér á síðunni. Ég talaði blaðalaust um utanríkis- og öryggismálin, svo að ég get ekki vísað á neinn texta um þau.

Ég hef átt þess kost oftar en einu sinni að heimsækja Oxford og raunar dveljast þar lengur en í Cambridge og þar með kynnast bænum betur. Andrúmsloftið í þessum háskólabæjum er einstakt og eins og Rasmus Gjedssö Bertelsen, doktorsnemi í alþjóðastjórnmálum og ritstjóri Cambridge Review of International Affairs, sagði, er einstaklega vel að námsmönnum búið á þessum stöðum og andrúmsloftið hvetjandi til náms og vísindaiðkana.

Um það er rætt, hvort Oxford og Cambridge standist alþjóðlega samkeppni, hvort hefðir og forn frægð standi því kannski fyrir þrifum, að lögð sé nægileg rækt við að laga námið að nútímalegum kröfum. Ég veit ekki, hvaða mælistiku á að nota í þessu tilliti – sett hefur verið þak á fjölda erlendra nemenda við þessa skóla, auðugir menn víða um heim keppast við að veita þeim fjárhagslegan stuðning og kröfur til nemenda eru miklar. Samkeppni á þessu sviði er vissulega mikil og hörð.

 

Rasmus Gjedssö Bertelsen er Dani, sem var ungur að árum með móður sinni á Íslandi og gekk þá í Austurbæjarskólann, hann hefur síðan haldið tryggð við land og þjóð, stundað nám við Háskóla Íslands og unnið hjá hagsýslu ríkisins, talar lýtalausa íslensku, og leggur sig nú fram um að kynna norræn sjónarmið í Cambridge og stóð í þeim tilgangi fyrir því að bjóða mér til að flytja þessa fyrirlestra þar.

 

Blair tapar.

     

Fyrir áhugamann um stjórnmál bar tvo atburði hátt þessa daga, sem ég var í Englandi. Í fyrsta lagi tapaði Tony Blair fyrstu atkvæðagreiðslu í breska þinginu frá því að hann varð forsætisráðherra árið 1997. Í öðru lagi kom út endurminningabók eftir Sir Christopher Meyer, fyrrverandi sendiherra Breta í Washington, þar sem hann segir kost og löst á ráðherrum í ríkisstjórn Blairs  og lýsir náið samskiptum sínum við John Major, forsætisráðherra Breta, þegar hann var talsmaður hans.

 

Öllu var til tjaldað í því skyni að Blair næði sínu fram í atkvæðagreiðslunni miðvikudaginn 9. nóvember, sem snerist um nýtt lagafrumvarp flutt af Charles Clarke innaríkisráðherra, til að fá nýjar lögheimildir í baráttunni við hryðjuverkamenn. Tekist var ákvæði um að halda grunuðum hryðjuverkamönnum í gæsluvarðhaldi í ákveðinn dagafjölda, áður en þeim er birt ákæra.

 

Í aðdraganda atkvæðagreiðlsunnar var Clarke orðið ljóst, að flokksbræður hans mundu ekki samþykkja tillöguna um að lengja þennan gæsluvarðhaldstíma úr 14 dögum í 90 daga og lagði hann til við Blair, að tíminn yrði styttur en forsætisráðherrann neitaði og hélt fast við 90 daga regluna. Formanni þingflokksins var skipað að kalla alla þingmenn til atkvæðagreiðslunnar, Jack Straw utanríkisráðherra, var kallaður heim frá Rússlandi, og Gordon Brown fjármálaráðherra batt enda á heimsókn til Ísraels og sneri heim. Þótt ríkisstjórnin væri öll í þingsalnum, dugði það ekki,  90 daga reglan var felld en í stað hennar samþykkt að lengja tímann úr 14 dögum í 28. 49 þingmenn Verkamannaflokksins snerust gegn ríkisstjórninni, sem hefur 66 atkvæða meirihluta í neðri deildinni.

 

Hvað sem líður afstöðu þingmanna til þessa einstaka máls, er ljóst, að bresku blöðin og stjórnmálaskýrendur telja, að atkvæðagreiðslan um þetta mál sé í raun upphaf að endinum fyrir Tony Blair. Úr því að þingmenn hafi ákveðið að snúast gegn honum í þessu máli, muni þeir einnig gera það í öðrum málum og eru tillögur um breytingar á skólakerfinu og heilbrigðiskerfinu nefndar til sögunnar, en þær muni koma til atkvæða síðar í vetur.

 

The Times segir í forystugrein laugardaginn 12. nóvember, að meðal þingmanna Verkamannaflokksins séu um 20 svo harðsvíraðir í andstöðu sinni við stjórnina á þingi, að væru þeir almennir borgarar með slíkan mótþróa mætti kalla þá góðkunningja réttvísinnar. Nokkrir þeirra líti á sig sem sanna sósíalista og talsmenn góðs málstaðar, þótt sagan geymi alvarleg og sorgleg dæmi um hörmulegar afleiðingar þeirrar stefnu. (Dálítið annar og trúverðugri tónn en í flokksstjórnarræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem virðist telja sósíalisma lifa góðu lífi og frjálshuga menn á undanhaldi!)

 

 The Times líkir Tony Blair við Karl konung fyrsta með höfuðið á höggstokknum eftir fyrstu uppreisnina gegn honum. Blaðið segir, að framganga uppreisnarmannanna skapi einnig vandræði fyrir Gordon Brown, sem er hinn augljósi arftaki Blairs innan flokksins. Brown hafi engan áhuga á því að erfa klofinn flokk og líklegt sé, að þrýst verði mjög á hann að knýja þá uppreisnarseggjanna, sem á annað borð séu til viðtals, til undirgefni. Hann hefði gjarnan viljað vera í Ísrael við hina sögulegu atkvæðagreiðslu en ekki komist upp með það, og hann komist ekki heldur upp með annað en leggja Blair lið, þar til yfir lýkur, nema hann stuðli að hreinum klofningi innan Verkamannaflokksins.

 

Sendiherrabók.

 

Ég hef ekki enn lesið bókina DC Confidential eftir Sir Christopher Meyer en hins vegar kafla úr henni í The Daily Mail og ég get tekið undir með þeim, sem lýsa undrun sinni yfir efnistökum sendiherrans fyrrverandi á samskiptum hans við ráðherra eða aðra, sem urðu á vegi hans við hin opinberu störf. Sumt af áhyggjuefnum hans virðist einnig fáfengilegt eins og hann fái ekki boð í hádegisverði í Hvíta húsið eða konu hans sé ekki boðið á Texasbýli forsetahjónanna.

 

Enginn fyrrverandi breskur ríkisstarfsmaður gefur út bók sem þessa, án þess að hafa borið texta hennar undir sérstaka opinbera nefnd, en hún getur gert athugasemdir við efni og efnistök og lagt stein í götu útgáfu, ef ekki er farið að óskum hennar.

 

Einhvern veginn er það í andstöðu við þá hugmynd, sem ég hef um breska diplómata, að einn úr fremstu röð þeirra skuli ganga fram með þessum hætti og meðal annars lýsa breskum ráðherrum í heimsókn í Washington og kalla þá pygmies eða smámenni andspænis bandarískum ráðherrum og embættismönnum. Sérkennilegt er að lesa um, að Tony Blair hafi ekki áttað sig á því um hvað vandræði Bill Clintons vegna Monicu Lewinsky snerust.

 

Sir Christopher áréttar, hve Blair hafi haft mikil áhrif á George W. Bush Bandaríkjaforseta vegna Íraksmálsins í aðdraganda innrásarinnar og gefur til kynna, að Blair hafi að minnsta kosti getað látið meira á Íraksmálið reyna á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og þá kannski afstýrt stríðinu. Kenningar af þessu tagi eru ekki mikils virði – ég man vel eftir því að hafa fylgst með hinni einörðu ræðu, sem Blair flutti í breska þinginu veturinn 2003, þegar hann sagði, að til einskis væri að reka Íraksmálið frekar á vettvangi öryggisráðsins, því að Jacques Chirac Frakklandsforseti segðist ætla að beita neitunarvaldi gagnvart öllum tillögum um að sækja fastar að Saddam Hussein.

 

Eins og áður sagði hef ég ekki enn lesið bók Sir Christophers og aðeins séð útdrætti úr henni. Þeir hníga að nokkru til sömu áttar og afstaða þeirra þingmanna, sem kusu gegn Tony Blair til að ná sér niðri á honum vegna stuðnings hans við stríðið í Írak. Tónninn er sá, að kæruleysi eða vísvitandi  blekkingar hafi ráðið ferðinni og það séu aðeins makleg málagjöld að nota hvert tækifæri sem gefst til að ná sér niðri á þeim, sem að ákvörðuninni um innrásina stóðu.

 

Þessi afstaða stangast á við afstöðu kjósenda í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástralíu, Danmörku og Póllandi, þar sem kjósendur hafa alls staðar veitt þeim endurnýjað umboð, sem stóðu að ákvörðun um innrásina. Andstaðan við þá Bush og Blair er hins vegar síður en svo úr sögunni á hinum pólitíska heimavelli og báðir glíma þeir við alvarlega andstöðu um þessar mundir.