Staða dómara – lokavika prófkjörs – um Þjóðmál.
Föstudaginn 28. otkóber flutti ég ræðu á aðalfundi Dómarafélags Íslands og sagði þar meðal annars:
„Atburðir liðinna vikna hafa gefið mér tilefni til að velta því fyrir mér, hvort nefnd um dómarastörf hafi tekið upp strangari kröfur en áður, þegar kemur að aukastörfum dómara. Nefndin telur sig hafa um það að segja, hvað dómari, sem fær formlegt leyfi frá störfum, gerir meðan á því stendur, og nefndin telur, að ekki komi til greina að fela dómara tímabundið störf saksóknara eða lögreglustjóra. Virðist eðlilegt að spurt sé, hvort seta dómara í ýmsum sjálfstæðum úrskurðarnefndum eða stefnumótandi nefndum um löggjafarmálefni falli að störfum þeirra. Niðurstöður sjálfstæðra úrskurðarnefnda eru oft bornar undir dómstóla og spurningar kunna að vakna um hæfi dómara til að túlka lög, sem þeir hafa sjálfir samið, en náðu til dæmis ekki fram nákvæmlega í sama búningi og höfundur vildi.“
Morgunblaðið greip þennan bolta og í leiðara blaðsins sunnudaginn 30. október má sjá þetta þrumuskot:
„Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra kom fram með mikilvægar ábendingar og athugasemdir í ræðu á aðalfundi Dómarafélagsins í fyrradag. Ráðherrann sagði að spurningar kynnu að vakna um hæfi dómara til þess að túlka lög, sem þeir hefðu sjálfir samið en hefðu ekki náð fram í nákvæmlega sama búningi og höfundur vildi.
Það er kurteislega gert af dómsmálaráðherra að setja þessa ábendingu fram sem spurningu. Auðvitað er alveg ljóst að þetta er fáránlegt kerfi. Hvernig má það vera, að dæmi geti verið um að dómari semji lög og sitji svo sjálfur sem dómari við að túlka lögin? Að ekki sé talað um ef dómarinn sveigir túlkun sína í þá átt, sem hann sjálfur vildi að lögin yrðu en löggjafarvaldið sjálft komst að annarri niðurstöðu.
Getur verið að dæmi sé um slíkt? Það hlýtur að vera úr því að dómsmálaráðherrann gerir þetta að umtalsefni. Varla geta þau dæmi náð til Hæstaréttar? Í ljósi þess hve stífar kröfur rétturinn gerir til vinnubragða annarra getur það varla verið. En það er nauðsynlegt að það verði upplýst um hvað er að ræða.
Samkvæmt stjórnarskrá Íslands er löggjafarvaldið í höndum Alþingis. Eru einhverjir dómarar að reyna að ná því í sínar hendur? Þá er þjóðfélagið á hættulegri braut.
Dómsmálaráðherra vék líka að aukastörfum dómara og sagði að nefnd um þau teldi ekki koma til greina að dómarar tækju tímabundið að sér störf saksóknara eða lögreglustjóra. Í framhaldi af því varpaði dómsmálaráðherra fram þeirri spurningu, hvort seta dómara í ýmsum sjálfstæðum úrskurðarnefndum eða stefnumarkandi nefndum um löggjafarmálefni félli að störfum þeirra, þar sem niðurstöður sjálfstæðra úrskurðaraðila væru oft bornar undir dómstóla.
Um þetta á við hið sama og í fyrra tilvikinu að auðvitað geta störf dómara í slíkum tilvikum ekki gengið upp vegna starfa þeirra sem dómara. Getur verið að dæmi um þetta séu til? Það hlýtur að vera úr því ráðherrann nefnir þetta í ræðu á aðalfundi Dómarafélagsins. Það er nauðsynlegt að Björn Bjarnason upplýsi almenning um það um hvaða tilvik er að ræða í þessu sambandi.
Hér er augljóslega um að ræða leifar frá löngu liðnum tíma og mikilvægt að dómsmálaráðherra geri þegar í stað ráðstafanir til þess að breyting verði á. Morgunblaðið hefur tekið undir þau sjónarmið að dómarar hljóti að gera hinar ýtrustu kröfur til þeirra, sem leggja mál sín fyrir dómstólana og það á m.a. við um ákæruvaldið. En hið sama hlýtur að eiga við um dómarana sjálfa og merkilegt að þeir skuli ekki fyrir löngu hafa sagt sig frá slíkum störfum að eigin frumkvæði. En úr því að þeir hafa ekki gert það hlýtur dómsmálaráðherra að beita sér fyrir því, að svo verði.
Staða dómara verður að vera hafin yfir allan efa. Það á ekki sízt við um dómara við Hæstarétt Íslands. Ef þessi dæmi eru til, sem hlýtur að vera miðað við ræðu ráðherrans, ætti að vera ljóst, að afsagnir dómara úr umræddum störfum ættu að liggja á borði ráðherrans þegar á mánudagsmorgni. Við annað verður ekki unað eins og allir hljóta að sjá.
Eru einhver fleiri mál af þessu tagi á ferðinni í réttarkerfinu?“
Hin einarða afstaða í þessum leiðara Morgunblaðsins kom mér á óvart. Miðað við það, hve lengi hefur tíðkast hér á landi, að hæstaréttardómarar komi að því að semja lagafrumvörp, átti ég ekki von á því, að þessar vangaveltur mínar á aðalfundi Dómarafélags Íslands myndu almennt vekja athygli utan raða dómara, en það er að lokum undir þeim komið, hvort þeir telja sig hæfa til að taka sæti í nefndum af þessu tagi, ef eftir því er gengið, því að sá einstaklingur, sem á hlut að máli hverju sinni, tekur ákvörðun um hæfi sitt til að sinna viðkomandi verkefni. Dómarar eru auk þess undir það settir, að lögum samkvæmt starfar sérstök nefnd um dómarastörf og til afstöðu hennar um aukastörf dómara vitnaði ég einmitt í ræðu minni. Gunnlaugur Claessen hæstaréttardómari er formaður nefndarinnar, en Sigurður Líndal, prófessor emeritus, og Friðgeir Björnsson, héraðsdómari, sitja í nefndinni.
Morgunblaðið spyr, hvort dæmi séu um, að dómari hafi sveigt niðurstöðu að einkaskoðun sinni á lögum, sem hann samdi og blaðið dregur þá ályktun af mínum orðum, að svo hljóti að vera. Ég hef ekki nein sérstök dæmi í huga, þegar ég flyt þessi varnaðarorð, enda eru þau almenns eðlis og ég hef ekki haft nein tök á að skoða einstaka dóma með þetta sjónarmið að leiðarljósi.
Morgunblaðið gerir meira sunnudaginn 30. október en að skrifa leiðara í tilefni af ræðu minni og snýr sér til Markúsar Sigurbjörnssonar, forseta hæstaréttar, sem segir réttilega, að hann sé formaður réttarfarsnefndar og jafnframt skýrir hann frá því að Gunnlaugur Claessen, starfsbróðir sinn í hæstarétti, sitji einnig í nefndinni. Réttarfarsnefnd er skipuð af dóms- og kirkjumálaráðherra og er honum og ráðuneyti hans til ráðgjafar, þar er til dæmis núna unnið að því að semja nýtt frumvarp að lögum um meðferð opinberra mála, eins og ég sagði í ræðu minni hjá dómarafélaginu.
Forseti hæstaréttar segist ekki vita nákvæmlega hvað ég eigi við með orðum mínum. Ég lái honum það ekki, því að orð mín voru almenns eðlis og byggðust á vangaveltum um afstöðu nefndar um dómarastörf. Ég tel réttmætt, að þetta sé rætt og íhugað, eins og svo margt annað sem réttarkerfið varðar. Viðbrögðin létu ekki heldur á sér standa og skoðun Morgunblaðsins er skýr og ótvíræð: „Hér er augljóslega um að ræða leifar frá löngu liðnum tíma og mikilvægt að dómsmálaráðherra geri þegar í stað ráðstafanir til þess að breyting verði á.“
Lokavika prófkjörs.
Lokavika prófkjörs okkar sjálfstæðismanna vegna borgarstjórnarkosninganna næsta vor er að hefjast. Baráttan hefur verið óvenju löng og það er augljóst, að prófkjörs-umstangið hefur færst á nýtt og kostnaðarasamara stig. Ég hef oftar en einu sinni tekið þátt í prófkosningum vegna framboðs til þingkosninga. Umstangið hefur aukist milli kosninga og er full ástæða til að velta því fyrir sér, hvort þröskuldurinn, sem menn þurfa stíga yfir, til að komast í eitthvert efstu sætanna á framboðslistunum er orðinn of hár.
Í prófkjöri sjálfstæðismanna er í senn verið að höfða til um 17.000 flokksmanna í Reykjavík samhliða því sem unnið er að því að fá fleiri til liðs flokkinn sem fylgismenn einstakra frambjóðenda. Mér virðist tölvupóstur og nettækni vera notuð meira en áður. Það var skynsamleg ákvörðun hjá Morgunblaðinu að hætta að birta stuðningsgreinar við einstaka frambjóðendur – en frambjóðendur sjálfir skrifa greinar í blaðið, eins og við sjáum á því. Greinaskrifin voru orðin meiri en góðu hófi gegndi en í stað þeirra sjást nú auglýsingar með stuðningsmannanöfnum eða góðum orðum um einstaka frambjóðendur.
Ég hlustaði á þá félaga mína Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Gísla Martein Baldursson ræða saman í Silfri Egils núna rétt í þessu sunnudaginn 30. október.
Þetta er í fyrsta sinn sem Gísli Marteinn tekur þátt í prófkjöri. Mér þótti mikill fengur að fá hann í sjöunda sætið á framboðslista okkar fyrir borgarstjórnarkosningarnar síðast. Eins og hann sagði í Silfrinu var hann einn kosningastjóra minna fyrir þingkosningarnar 1995, þegar hart var tekist á um 3. sætið á listanum. Ég kynntist því þá, að með honum stendur góður og áhugasamur hópur ungs fólks, sem vill láta gott af sér leiða á vettvangi stjórnmálanna. Fyrir hvern frambjóðanda og flokk er ómetanlegt að eiga slíkt bakland, en félagar Gísla Marteins hafa allir mikla trú á forystuhæfileikum hans.
Gísli Marteinn hefur tekið þátt í störfum borgarstjórnarflokksins af vaxandi krafti á kjörtímabilinu og lagt gott til mála í þeim samhenta hópi, sem flokkinn myndar. Finnst mér til eftirbreytni, hve vel hann kynnir sér þau mál, sem hann sinnir, og hann á auðvelt með að setja fram og skýra álitaefni.
Við Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson höfum verið samherjar í Sjálfstæðisflokknum til margra ára og reynsla hans og þekking var mér ómetanleg, þegar afráðið var með litlum fyrirvara, að ég tæki að mér að leiða flokkinn í síðustu borgarstjórnarkosningum. Um það var góð samstaða innan borgarstjórnarflokksins, að Vilhjálmur Þ. tæki við oddvita-hlutverkinu af mér, þegar ég varð dóms- og kirkjumálaráðherra í maí 2003. Hefur hann sinnt því hlutverki af áhuga og dugnaði. Prófkjörsbarátta hans hefur einkennst af miklum sóknarhug.
Vandi okkar sjálfstæðismanna í prófkjörinu eftir viku er sá, þegar við veljum mann í fyrsta sæti listans, að valið stendur milli tveggja einstaklinga, sem báðir eru vel til þess fallnir að vera í fararbroddi í komandi kosningum. Í sjálfu sér er þetta auðvitað ekki vandi, heldur er þess einfaldlega krafist af okkur að gera upp á milli tveggja góðra frambjóðenda.
Sé það eitt haft á móti Gísla Marteini, að hann sé ungur að árum, finnst mér þau rök ekki duga. Sjálfstæðismenn hafa einmitt oftast og með góðum árangri falið ungum mönnum forystu í borgarstjórn Reykjavíkur. Ef ég man rétt, höfðu ýmsir það á móti mér árið 2002, að ég væri orðinn of gamall til framboðs í borgarstjórn. Teldi Sjálfstæðisflokkurinn, að menn hefðu átt að ná einhverjum ákveðnum aldri, vildu þeir sækjast eftir efsta sæti á þessum lista, hefði átt að setja um það reglur.
Þegar ég lít á prófkjörið í heild, vona ég, að öllum félögum mínum í borgarstjórnarflokknum vegni sem best og þeir fái sem öflugastan stuðning. Í því fælist í senn góð viðurkenning á vel unnu starfi á kjörtímabilinu og ómetanlegt veganesti í baráttunni á næstu mánuðum. Að lokum vil ég mæla með því við kjósendur, að þeir ljái þeim konum, sem bjóða sig fram, brautargengi!
Um Þjóðmál.
Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir um það frá lesendum síðu minnar, hvernig unnt sé að gerast áskrifandi að tímaritinu Þjóðmálum undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar rithöfundar. Ég bendi á, að auðvelt er að gera það á vefsíðunni www.andriki.is auk þess sem senda má tölvupóst á netfangið nb@simnet.is