16.10.2005

Glæsilegur landsfundur - fylgið í Reykjavík.

 

36. landsfundi okkar sjálfstæðismanna er farsællega lokið með glæsilegri kosningu nýs formanns, Geirs H. Haarde, með 94,3% stuðningi og einnig nýs varaformanns, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, með rúmlega 62% stuðningi í kosningu hennar og Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra á Akureyri. Ég óska hinu nýja forystufólki okkar innilega til hamingju, farsæld þeirra í starfi er samofin farsæld flokksins og þar með þjóðarinnar.

 

Ég tek undir með Geir, þegar hann sagði eftir kjör sitt: „Við erum ósigrandi þegar við stöndum saman." Við sjálfstæðismenn gengum til landsfundarins með þetta að leiðarljósi, eftir að ljóst varð, að Davíð Oddsson tók ákvörðun um að hætta stjórnmálaafskiptum. Davíð Oddssyni tókst á ótrúlega skömmum tíma að sameina flokkinn að baki sér eftir snarpa formannskosningu vorið 1991. Hann skilar vel sameinuðum flokki eins og sannast í því mikla og eindregna fylgi, sem Geir hlaut í formannskjörinu.

 

Það er einnig rétt hjá Geir, að á tímum mannaskipta í forystu flokksins er almennt ekki við því að búast, að hart sé tekist á um einstök málefni. Það var ekki gert á þessum fundi. Ágreiningur um sjávarútvegsmál er til dæmis úr sögunni en harðar deilur um þau hafa sett svip sinn á landsfundi undanfarinna ára og jafnvel áratuga síðan kvótakerfið kom til sögunnar árið 1983.

 

Að sjálfsögðu voru menn ekki sammála um allt og atkvæðagreiðslur fóru fram um svo að segja alla milli himins og jarðar, þegar litið er til þeirra mála, sem hæst ber í stjórnmálaumræðunum. Á síðasta sprettinum voru til dæmis lagðar fram fjölmargar tillögur til breytinga á ályktun um fjölskyldumálefni og var eftirtektarvert, hve margar ungar konur létu að sér kveða í þeim umræðum.

 

Hlutur kvenna var síður en svo fyrir borð borinn á landsfundinum. Í fyrsta sinn í 76 ára sögu sinni kusu sjálfstæðismenn konu sem varaformann í flokknum. Af 11 miðstjórnarmönnum, sem kjörnir voru á fundinum, eru níu konur og fækkaði körlum þar með um tvo, þegar tekið er mið af þeim, sem landsfundur kýs, en fleiri stofnanir flokksins kjósa menn í miðstjórn.

 

Hér verður efni einstakra ályktana ekki rakið. Ég vil þó vekja athygli á því, að sérstaklega voru greidd um það, hvort breyta ætti stjórnarskránni á þann veg, að 26. grein hennar yrði felld úr gildi og þar með synjunarvald forseta Íslands við lögum frá alþingi. Var samþykkt með þorra þeirra, sem voru á fundinum, þegar tillagan var til afgreiðslu, að 26. gr. skyldi úr stjórnarskránni, enda yrði jafnframt hugað að almennri heimild í stjórnarskrá til þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál.

 

Í ályktun um menningarmál segir, að koma þurfi í veg fyrir einokun á fjölmiðlamarkaði svo stórir aðilar á markaði fái ekki neytt aflsmunar til þess að hafa áhrif á fréttaflutning og skoðanamyndun í landinu. Skorður á eignarhaldi fjölmiðla kunni að vera nauðsynlegar til að ná þeim markmiðum að tryggja heilbrigða samkeppni og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Það sé kjarni sjálfstæðisstefnunnar að vinna gegn einokun og hringamyndun. Landsfundurinn skoraði á alþingi að setja lög, sem tryggðu sjálfstæði íslenskra fjölmiðla með hagsmuni samfélagsins af heiðarlegri og vandaðri fjölmiðlun að leiðarljósi.

 

Hér hafa þingmenn flokksins og ráðherrar gott veganesti frá landsfundinum í málum, sem ber hátt í umræðunum og verða til meðferðar á komandi vikum og mánuðum.

 

Fylgið í Reykjavík.

 

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands birti 15. október niðurstöðu skoðanakönnunar, sem hún gerði dagana 6. til 10. október á fylgi flokkanna við borgarstjórnarkosningar.

 

Í könnuninni lýstu 45,9% yfir stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn, 30,8% við Samfylkinguna, 14,8% við vinstri/græna, 3,2% við frjálslynda og 2,9% við Framsóknarflokkinn.

 

Ljóst er af þessari könnun, að helsta sóknarfæri okkar sjálfstæðismanna er eins og áður að auka fylgi okkar meðal kvenna en 39,9% kvenna lýsa stuðningi við okkur (35,1% Samfylkinguna) en 52% karla. Fylgi okkar meðal karla er nú hið sama og það var í sambærilegri könnun í ágúst en meðal kvenna hefur það minnkað úr 44,1% í 39,9%.

 

Ættum við að hafa þetta í huga við val okkar í prófkjörinu, en baráttan í því þyngist næstu vikur, nú eftir að landsfundi er lokið og nær dregur kjördegi, fyrstu helgina í nóvember.  

 

Fleygt var um árið, þegar Albert Guðmundsson, þáverandi forystumaður Borgaraflokksins, svaraði fyrirspurn um lítið fylgi flokks síns í skoðanakönnunum, að það sýndi, að flokksmenn sætu ekki við símann til að svara slíkum spurningum, þeir hefðu einfaldlega öðru að sinna. Alfreð Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, vissi í raun ekki, hverju hann átti að svara fréttamanni sjónvarps, sem spurði hann, hverju það sætti, að flokkur hans ætti alls engan stuðningsmann í hópnum 18 til 24 ára og fengi minnst fylgi allra. Alfreð sagði sem svo, að oft mældist flokkur sinn illa á milli kosninga en næði sér á strik í kosningabaráttunni.

 

Félagsvísindastofnun er núna að spyrja í annað sinn síðan R-listinn varð að engu hinn 15. ágúst síðastliðinn, en stofnunin kannaði fylgið einnig dagana 25. til 29. ágúst og þá fékk Framsóknarflokkurinn 4,9% en nú aðeins 2,9%. Erfitt er að skilja þá, sem halda því fram, að lítið fylgi framsóknarmanna í þessum könnunum eigi rætur að rekja til samstarfs þeirra við okkur sjálfstæðismenn í ríkisstjórn. Hér beinlínis verið að kanna stöðu flokksins eftir samstarf hans við vinstri flokkana í R-listanum og þá er niðurstaðan þessi.