8.10.2005

Skattar og Samfylking - ESB á dagskrá?

Andríki birtir hinn 3. október á Vef-Þjóðviljanum stutta skýrslu með upplýsingum um mikla og vaxandi skattheimtu sveitarfélaga af launþegum. Er á það bent, að ekki sé víst að allir átti sig á því hve sveitarfélögin eru frek á launatekjur manna. Útsvar sveitarfélaga hafi hækkað um 8,5% að meðaltali frá árinu 2000 eða úr 11,96% í 12,98%. Á sama tíma hafi ríkið lækkað sitt skatthlutfall um 6,3% eða úr 26,41% í 24,75%. Í skýrslunni segir einnig, að sveitarfélögin hafi nú nokkru meira en ríkið upp úr krafsinu í launaumslögum landsmanna. Á síðasta ári fékk ríkið 67,1 milljarð króna í staðgreiðslu tekjuskatts af einstaklingum en útsvarið skilaði sveitarfélögum 69,0 milljörðum króna. Nú greiða 67% framteljenda skatt til ríkisins af launatekjum sínum en 97% framteljenda greiða útsvar til sveitarfélaga af sömu tekjum.

 

 

Í upphafi ársins vöktu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins  athygli á skattahækkunum og sviknum loforðum R-listans með auglýsingu í Morgunblaðinu sem bar fyrirsögnina „Jólagjöfin sem þú getur ekki skilað.“

 

Auglýsingin var birt vegna þess að eitt síðasta verk R-listans á árinu 2004 var að hækka verulega skatta og gjöld á Reykvíkinga í fjárhagsáætlun fyrir árið 2005 þvert á þau loforð, sem gefin voru fyrir kosningar 2002.  Útsvarið var hækkað í hámark og var það í fyrsta sinn, sem borgarstjórn greip til þess úrræðis.

 

Í auglýsingu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins voru tekin þrjú dæmi vegna hækkunar útsvars, fasteignaskatta, sorphirðugjalds og leikskólagjalds þar sem annað foreldri er í námi:

 

• Hjón með 6 m.kr. í árstekjur, sem búa í íbúð þar sem fasteignamat er 15 m.kr. greiða 25.772 kr. meira árið 2005 en þau gerðu árið 2004.


• Hjón með 3 m.kr. í árstekjur, sem búa í íbúð þar sem fasteignamat er 15 m.kr. og með barn á leikskóla, þar sem annað foreldri er í námi greiða 68.652 kr. meira árið 2005 en þau gerðu árið 2004.


• Hjón með 3 m.kr. í árstekjur, sem búa í íbúð þar sem fasteignamat er 15 m.kr. og með 2 börn á leikskóla, þar sem annað foreldri er í námi greiða 109.065 kr. meira árið 2005 en þau gerðu árið 2004.

 

Í auglýsingunni var einnig vakin athygli á hækkun þjónustugjalda. Þeir sem þurfa á heimaþjónustu að halda verða að borga 500 krónur fyrir hverja vinnustund í stað 350 krónur áður, hækkun um 43%. Stakt gjald í sundlaugar hækkaði um 10% fyrir börn og tæp 9% fyrir fullorðna.

 

Það er ekki nóg með að R-listinn auki skattbyrði á Reykvíkinga, skuldabyrðin þyngist einnig ár frá ári. Frá því R-listinn tók við völdum í Reykjavík á árinu 1994 hafa skuldir vaxið að raungildi um rúmlega 13 milljónir króna hvern einasta dag. Hin stöðuga skuldasöfnun heldur áfram, þrátt fyrir að Reykjavíkurborg  nýti sér hámarksútsvar, innheimti verulega hærri fasteignagjöld en nokkru sinni áður og hagnist um mörg hundruð milljónir króna á lóðasölu. Skuldir borgarinnar hækka með hærri sköttum á sama tíma og skuldir ríkisins lækka með lægri sköttum.

 

Hreinar skuldir borgarinnar hafa 14 faldast að raungildi á þeim 11 árum, sem R-listinn hefur stjórnað fjármálum borgarinnar eða úr 4 milljörðum króna í árslok 1993 í 56 milljarða króna í árslok 2004. Hreinar skuldir á íbúa voru 495 þús. krónur í árslok 2004 en gert er ráð fyrir að þær verði komnar í um 650 þús. krónur á hvern íbúa í árslok 2008.

 

Lágir skattar voru einkenni Reykjavíkurborgar. Árið 1997 voru skatttekjur á hvern íbúa 173 þús., árið 2002 voru þær 238 þús., árið 2003 um 250 þús. og í lok ársins 2004 voru þær um 271 þús.

 

Mér kom þessi lýsing á fjármálastjórn R-listans til hugar, þegar ég hlustaði á kvöldfréttir laugardaginn 8. október og sagt var frá fámennum fundi, sem Samfylkingin boðaði fyrr um daginn til að gefa formanni sínum, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, tækifæri til að kynna stefnu sína í ríkisfjármálum.

 

Ingibjörg Sólrún vill hækka fjármagnstekjuskatt, sem leggst á alla eins og útsvarið, hún vill hætta við að lækka tekjuskattinn, sem 67% greiða. Hún vill lækka matarskatt og hækka persónuafslátt.  Sveitarfélögin veita engan persónuafslátt, þau leggja hins vegar á 12,98% útsvar. Ríkið leggur á 24,75% tekjuskatt í staðgreiðslu og veitir persónuafslátt, sem nemur 28. 321 kr. á mánuði.

 

Andríki upplýsir í skýrslu sinni, að þeir sem hafa undir 250 þúsund krónum í mánaðarlaun greiða meira útsvar til sveitarfélags en tekjuskatt til ríkisins í staðgreiðslu skatta á útborgunardegi. Maður með 250 þúsund í mánaðarlaun greiðir 58.458 krónur í staðgreiðslu tekjuskatts. Þar af fara 28.604 krónur til ríkisins en 29.854 krónur til sveitarfélagsins. Maður með 124 þúsund krónur í tekjur á mánuði greiðir engan tekjuskatt til ríkisins en fullt útsvar til sveitarfélags.

 

Þegar ég átti orðastað við Ingibjörgu Sólrúnu í borgarstjórn Reykjavíkur um skattamál og lagði meðal annars til, að fasteignaskattar yrðu lækkaðir á 67 ára og eldri, stóð hún upp sem borgarstjóri og krafðist með Helga Hjörvar og öðru Samfylkingarfólki, að ég upplýsti, hvernig ég ætlaði að brúa bilið, sem myndaðist vegna skattalækkunarinnar. Vinstri menn skilja það seint eða aldrei, að tekjur hækka gjarnan með lægri sköttum, því að svigrúm einstaklinga og fyrirtækja þeirra til að afla tekna eykst og þar með fjárhagsleg umsvif.

 

Við sjálfstæðismenn stefnum að því að lækka matarskattinn í næsta áfanga í stað þess að hækka aðra skatta eins og Samfylkingin boðar. Ætli Ingibjörg Sólrún með skattalögum að ná til annarra en þeirra 67%, sem nú greiða tekjuskatt, verður hún að huga að öðru en persónuafslættinum. Hafi sveitarfélögin svipaðar tekjur af 12,98% álagningu og ríkið af 24,75% tekjuskatti í staðgreiðslu er þessi spurning nærtæk: Hvers vegna er ekki í alvöru hugað að flötum skatti til ríkisins, sem lýtur sömu lögmálum og útsvarið?

 

ESB á dagskrá?

 

Svar Ingibjargar Sólrúnar við styrk íslensku krónunnar er að leggja hana niður samhliða því, sem Ísland gangi í Evrópusambandið. Í stað þess, að ráðgast sé um krónuna í bankaráði seðlabanka Íslands, þar sem Ingibjörg Sólrún situr, vill hún, að ákvarðanir um gjaldmiðil okkar séu teknar í bankaráði seðlabanka Evrópu í Frankfurt.

 

Í stefnuræðuumræðunum á alþingi sl. þriðjudag 4. október lauk Ingibjörg Sólrún ræðu sinni á þessum orðum: „Ríkisstjórnin á næsta leik.“ Hún vildi sem sagt ekki axla ábyrgð sjálf – en miðað við ræðu hennar í dag, hefði væri nær, að hún segði: „Evrópusambandið á næsta leik.“

 

Þess er að vænta eftir helgi, að Samfylkingin leggi fram tillögu til þingsályktunar, sem miðar að því að krónan víki fyrir evrunni. Hvaða skoðun, sem menn hafa á evrunni, verður að hafa í huga í umræðum um hana, að krónan víkur ekki fyrir henni nema Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Að taka upp evruna er óskynsamleg leið fyrir okkur nú eins og áður en að gera það án þess að ganga í Evrópusambandið er bæði óskynsamlegt og hreint glapræði.

 

Að flytja tillögu um evruna núna eins og Samfylkingin gerir virkar eins og tilraun til að fara tala um allt annað en máli skiptir – dreifa athyglinni frá einhverju, sem er óþægilegt. Og hvað skyldi það vera? Dvínandi fylgi Samfylkingarinnar síðan Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður hennar og skugginn, sem hvílir yfir flokknum vegna afstöðu formannsins til viðskiptahringa og einstakra kaupsýslumanna. Nú á að reyna að skjóta sér undan þessum óþægindum með því að fara að tala um evruna og aðild að Evrópusambandinu.