2.10.2005

Þing kemur saman - mikil fylgisaukning - deilt um Tyrki.

Alþingi var sett laugardaginn 1. október og Sólveig Pétursdóttir kjörin nýr forseti í stað Halldórs Blöndals. Mikil reynsla Halldórs af þingstörfum reyndist honum heilladrjúg í forsetastörfum og hann tók hiklaust af skarið, þegar hiti færðist í þingstörfin og fylgdi ákvörðunum sínum fram af festu. Sólveigu fylgja góðar óskir, þegar hún tekur við þessu virðulega og ábyrgðarmikla starfi. Eftir kjör sitt flutti hún ræðu, sem bendir til þess, að hún ætli að beita sér fyrir breytingum á starfsháttum þingsins.

Stjórnarandstaðan spáir hörku í umræðum eins og jafnan, þegar gengið er til þings. Efnislegar umræður hefjast með stefnuræðu forsætisráðherra þriðjudagskvöldið 4. október en á morgun, mánudag, leggur nýr fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, fram frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2006.

Þegar ég lít til þeirra mála í mínum verkahring ber þetta hæst:

Hér landi eins og annars staðar er óhjákvæmilegt að huga að lögheimildum og aðgerðum til að auka öryggi borgaranna á tímum, þegar hryðjuverk og annars konar ofbeldisverk færast í vöxt. Síðastliðið vor ritaði utanríkisráðherra undir nýjan sáttmála Evrópuráðsins um baráttuna gegn hryðjuverkum og er nauðsynlegt að endurskoða ýmis ákvæði íslenskra laga til að samræmi sé milli þeirra og sáttmálans og annarra skuldbindinga, sem lúta að hryðjuverkum eða alþjóðlegri glæpastarfsemi og hef ég falið refsiréttarnefnd að vinna að því verki. Þá hef ég einnig beitt mér fyrir átaki í því skyni að endurskoða og endurnýja refsiákvæði, sem varða kynbundið ofbeldi og er þess að vænta, að tillögur um lagabreytingar vegna þess verði lagðar fram á þessu þingi. Refsiréttarnefnd er að vinna að tillögum, sem miða að því að auðvelda viðbrögð við heimilisofbeldi. Margra ára endurskoðunarvinna við lögin um meðferð opinberra mála er nú á lokastigi hjá réttarfarsnefnd og hyggst ég við svo búið leggja frumvarp til nýrra laga um þennan mikilvæga málaflokk fyrir þingið. Ég hef til athugunar, hvort ekki sé tilefni til þess að hafa sérstakan lagabálk um ákæruvaldið og haga löggjöf um meðferð opinberra mála í samræmi við það. Þá er nauðsynlegt að tryggja að löggjöf um útlendingamálefni sé í samræmi við öra þróun alþjóðaréttar á því sviði og sérstakar aðstæður hér á landi.

 

Alþingi samþykkti síðastliðið vor ný lög um fullnustu refsinga og á grundvelli þeirra hefur verið unnið að breytingum á ýmsum atriðum á því sviði. Stærsta verkefni á sviði fangelsismála er endurnýjun í húsnæðismálum og bygging nýs fangelsis á Hólmsheiði. Í samvinnu við fjármálaráðuneytið hefur verið gerð áætlun um þessar framkvæmdir og verður fyrst ráðist í þær á Kvíabryggju og Akureyri, það er á næsta ári, síðan að Litla Hrauni og loks við hið nýja fangelsi.

 

Ný lög um Landhelgisgæslu Íslands eru í smíðum í dómsmálaráðuneytinu en með þeim verður starfsrammi gæslunnar lagaður að nýjum kröfum samhliða því, sem markvisst verður unnið að hinu mikla verkefni að endurnýja skipa- og flugvélakost gæslunnar. Urðu þáttaskil í því starfi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um ráðstöfun á söluandvirði Símans. Starfsemi yfirstjórnar gæslunnar flyst í nýtt húsnæði við Skógarhlíð innan nokkurra vikna.

 

Unnið hefur verið að eflingu sérsveitar lögreglunnar í samræmi við það, sem ákveðið var í ársbyrjun 2004. Einnig er unnið að gerð tillagna um stærri lögregluumdæmi, án þess að hróflað sé við einstökum sýslumannsembættum, en æskilegt er, að fleiri verkefni framkvæmdavaldsins verði færð til embættanna.

 

Þá eru í smíðum ný lög um almannavarnir, sem taka mið af breytingum á því sviði með vísan til samhæfðrar björgunarmiðstöðvar í Skógarhlíð og því, að almannavarnir hafa verið fluttar undir ríkislögreglustjóra.

 

 

Mikil fylgisaukning.

 

Fyrir nokkrum vikum sagði Jóhannes Jónsson í Bónus, að 98% þjóðarinnar stæði með sér og Bónus. Þetta var, þegar hvað mest áhersla var lögð á það af Baugsmönnum og málsvörum þeirra, að þeir sætu undir pólitískum árásum af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Einfalt var að draga þá ályktun af þessu, að Sjálfstæðisflokkurinn væri að tapa miklu fylgi.

 

Í sjónvarpinu 1. október var birt frétt um niðurstöðu í könnun Gallups fyrir september og þá kemur í ljós, að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur ekki verið meira á kjörtímabilinu, eða 44%, sem jafngildir 8% fylgisaukningu síðan í ágúst. Könnunin sýnir, að vinstri/grænir hafa fallið mikið eða um 5% og mælast nú með 14%, Framsóknarflokkurinn er með 9%, tapar 1%, Samfylkingin er með aðeins 29%, sem jafngildir 5% fylgistapi síðan Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kjörin formaður, en frjálslyndir tapa 0,5% og eru með 3,5%.

 

Ef ætlunin var að nota Baugsmálið til að draga úr fylgi Sjálfstæðisflokksins eða trausti á flokknum, sýna þessar tölur svart á hvítu, að aðförin að hefur runnið út í sandinn.

 

Ekkert eitt mál hefur sett jafnmikinn svip á umræður undanfarna daga og vikur en einmitt Baugsmálið. Málsvarar Baugsmanna eins og þau Hallgrímur Helgason og Arnþrúður Karlsdóttir hafa í fjölmiðlum hamast á Sjálfstæðisflokknum auk Morgunblaðsins í því skyni að gera hlut skjólstæðinga sinna sem bestan.

 

Taka má einfalt dæmi: Sunnudaginn 25. september gaf Hallgrímur Helgason út þá línu í samtalsþætti við Hallgrím Thorsteinsson á Baugs-Talstöðinni, að eina ráðið til að halda sönsum og stöðva Sjálfstæðisflokkinn og Styrmi Gunnarsson ritstjóra væri að segja upp Morgunblaðinu og mánudaginn 26. september segir Arnþrúður Karlsdóttir  í morgunþætti sínum á Útvarpi Sögu: „Já, við hérna höfum nú ekki fengið Morgunblaðið í morgun því að við einfaldlega sögðum því upp í gær. Eiginlega það bara gekk svo fram af okkur hér eiginlega þegar við sáum Fréttablaðið og þessa tölvupósta...“ Spyrja má: Hvernig er unnt að halda úti umræðuþáttum á heilli útvarpsstöð og lesa ekki Morgunblaðið? Ofstækið, sem þetta mál kveikir, er ótrúlegt.

 

Rósa Ingólfsdóttir, sem jafnan ræðir um annað en stjórnmál á Útvarpi Sögu upptendraðist svo við reiðilestur Arnþrúðar í garð Morgunblaðsins  og Sjálfstæðisflokksins, að hún sagði: „Sko, ég sé nefnilega hættu þarna fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Þetta er rothögg, þetta er alla vega slæmt svöðusár í síðu þeirra sko.“ Hallgrímur Helgason heggur í sama knérunn og samverkakona hans Arnþrúður og segir í Íslandi í bítið á Stöð 2 mánudaginn 26. september um þá sjálfstæðismenn, sem hann telur andstæðinga Baugsmanna: „Við þurfum bara einhverja hundahreinsun á þessu landi. Losna við þessa valdastétt í eitt skipti fyrir öll. Losna við þessar lýs sem hafa legið á okkur hérna síðast liðin 15 ár.“

 

Orðbragðið hæfir kannski vel málstaðnum en hvað sem því líður lýsir það vel hugarástandinu, sem ríkti meðal talsmanna Baugs dagana sem tölvubréfin voru að birtast. Undir lok vikunnar runnu hins vegar tvær grímur á Hallgrím Helgason um áhrifamátt uppljóstrananna miklu, því að hann sagði í pistli í DV laugardaginn 1. október:  „Eftir helgi langþráðra uppljóstrana kom dapurleg vika. Morgunblaðið opinberaði sig endanlega sem andlegt kjúklingabú. („Fundinum lauk með lófataki.“) [Fundi Styrmis Gunnarssonar ritstjóra með starfsmönnum Morgunblaðsins.] Virtur stjórnmálaskríbent [Egill Helgason] líkti pólitískum stórskandal við „lélega sápu“ Og í símatímum útvarps ákvað þjóðin að þyrma Styrmi en skammast út í þá sem birtu pósta hans. Sendiboðinn skotinn enn á ný.“

 

44% fylgi Sjálfstæðisflokksins og vaxandi, þótt Baugsmiðlarnir hafi látið til skarar skríða með uppljóstrunum sínum er ekki til marks um, að þjóðin vilji „losna við þessar lýs sem hafa legið á okkur hérna síðast liðin 15 ár.“ 8% fylgisaukning milli kannanna á sama tíma og Samfylkingin minnkar enn.

 

Páll Vilhjálmsson, forystumaður Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi, sagði í Morgunblaðinu 26. september:

 

„En vegna þess að Baugur getur að vild stjórnað umræðunni á Íslandi fær þvættingurinn það virðulega heiti "fréttir". Til að ljá málflutningnum lögmæti reyna Baugsmiðlar iðulega að fá stjórnmálamenn til að gefa hliðhollt álit. Kátbroslegt var að hlusta á fréttaþul Stöðvar 2 segja mæðulega í laugardagsfréttum [24. september] að tölvupóstsmálið hefði verið borið undir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, en hún vildi ekkert segja - í bili.“

 

Góður lesandi síðu minnar sendi mér línu og spurði, hvaða skýringu ég hefði á þessari miklu fylgisaukningu Sjálfstæðisflokksins. Að nokkru hef ég svarað spurningunni hér að ofan. Á tímum nornaveiða, eins og við höfum kynnst undanfarið, setja menn traust á þá, sem standa fastir fyrir og halda sig við það, sem máli skiptir, treysta á getu stofnana þjóðfélagsins og réttarkerfið til að leysa úr málum á þann veg, að hið sanna komi fram og ráði ferð. Það hefur nefnilega enginn sannleikur gjörbreyst, eins og Jóhannes í Bónus hélt.

 

Við þá ákvörðun Davíðs að hverfa frá stjórnmálaþátttöku höfum við, sem eftir sitjum í forystusveit Sjálfstæðisflokksins, tekið höndum saman um að gæta fjöreggs flokksins, samstöðunnar. Ég hef að minnsta kosti ekki hikað við að axla minn hluta ábyrgðarinnar í því efni. Þetta hefur aukið traust á flokknum.

 

Undir forystu Davíðs hefur Sjálfstæðisflokkurinn áunnið sér virðingu fyrir að ganga hreint til verks við úrlausn mála, eftir að leiðin hefur verið mörkuð. Þetta greinir flokkinn frá Samfylkingunni, þar sem í stað ákvarðana er lögð áhersla á umræður. Samræðu-stjórnmálamaðurinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur ekki styrkt Samfylkinguna með forystu sinni.

 

Deilt um Tyrki.

 

Utanríkisráðherrar ríkja Evrópusambandsins (ESB) koma saman til aukafundar í Lúxemborg í kvöld, 2. október, í því skyni að leysa ágreining innan ESB um umboð til samningamanna ESB í viðræðum um aðild Tyrklands að ESB, sem hefjast eiga á morgun, 3. október.

 

Síðastliðinn fimmtudag olli ríkisstjórn Austurríkis uppnámi innan ESB með kröfu um, að viðræðurnar við Tyrki ættu ekki að snúast um aðild Tyrkja að ESB heldur annars konar tengsl Tyrklands við ESB. Ríkisstjórn Tyrklands tók þessu illa og sagði, að Tyrkir myndu ekki sætta sig við að verða annars flokks þjóð, þeir vildu ekkert annað en aðild.

 

Nýleg skoðanakönnun í Austurríki sýnir, að 90% þjóðarinnar eru andvíg aðild Tyrklands að ESB. Sveitarstjórnakosningar eru í Austurríki 23. október og slagorð vegna þeirra eru meðal annars á þennan veg: Gerum Vín ekki að annarri Istanbúl og Segjum nei við Tyrklandi. Í sögu Austurríkismanna hvílir vitneskjan um ásókn Tyrkja gegn austurríska-ungverska keisaradæminu á sínum tíma og nú óttast þeir óheftan straum farandverkamanna frá Tyrklandi.

 

Þá er austurríska ríkisstjórnin óánægð með að teknar séu upp aðildarviðræður við Tyrki (spáð er að þær taki að minnsta kosti 10 ár), án þess að þráðurinn sé að nýju tekinn upp í aðildarviðræðunum við Króata, sem frestað var síðastliðið vor vegna þess að stjórnvöld í Króatíu ynnu ekki með alþjóða stríðsglæpadómstólnum í Haag. Carla del Ponte saksóknari fyrir dómstólnum segir Króatíustjórn ekki vilja aðstoða við leit og framsal á Ante Gotovina hershöfðingja, sem stefnt hefur verið fyrir dómstólinn.

 

Hér skal engu spáð um niðurstöðu þessarar þrætu innan ESB, en henni er hér haldið til haga vegna þess að Tyrkir og Austurríkismenn keppa við okkur um sæti í öryggisráðinu, en ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum föstudaginn 30. september að taka stefnuna inn í öryggisráðið fyrir minna fé en áður var ætlað. Könnunin, sem sýndi hina miklu aukningu á fylgi Sjálfstæðisflokksins, sýndi jafnframt, að aðeins 28% aðspurðra var hlynntur framboðinu til öryggisráðsins en 53% reyndust á móti því.