10.9.2005

Í þágu góðra hugsjóna.

 

 

 

Í enska tímaritinu The Spectator 3. september er grein eftir Paul Johnson, sem heitir: An old German philosopher and the impotence of Europe.

Paul Johnson segir frá því, að hann hafi gert sér ferð til að hlusta á fyrirlestur hjá Jürgen Habermas, sem hann kallar áhrifamesta hugsuð á meginlandi Evrópu. Hann sé sagður uppáhalds gúru bæði hjá Jacques Chirac og Gerhard Schröder. Stuðningur hans við stjórnarskrá Evrópu og furðulegar aðferðir hans við að fylgja málum fram skýri kannski vandræðaganginn í kringum stjórnarskrána. Habermas hafi skrifað margar bækur en Johnson segist aldrei hafa komist í gegnum neina þeirra og þess vegna hafi hann ákveðið að fara til að hlusta á hann flytja erindi í London University. Johnson segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum, því að Habermas hafi verið svo illa máli farinn og óskýr í hugsun, að hann hafi ekki skilið neitt af því, sem hann var að segja.

 

Johnson lýsir skoðun Habermas þannig, að hann telji kapitalíska kerfið þrúgandi og nota verði stjórnmál til að létta þessa kúgun og knýja alla til „siðlegrar umræðu“, sem leiði til farsælla pólitískra lausna á vanda kapítalismans. Það sé hins vegar dularfullt, að maður með þessa skoðun skuli taka afstöðu með Brussel-kerfinu, sem snúist í kringum forréttindastjórnendur og byggist á því, að halda meirihluta fólks frá töku allra ákvarðana eða jafnvel hafa skoðun á þeim. Ljóst sé hins vegar að Hambermas skilji ekki kapítalismann eða hvernig markaðskerfið virki.

 

Habermas er hugmyndafræðingur andstæðinga Davíðs Oddssonar og okkar skoðanabræðra hans. Þessir andstæðingar, til dæmis í Samfylkingunni, leggja eins og kunngt er áherslu á umræðustjórnmál og vilja aðild að Evrópusambandinu, án þess að hampa þeirri stefnu sérstaklega gagnvart kjósendum. Þeir eiga erfitt með að sætta sig við sigur kapítalismans í hinni hugmyndafræðilegu baráttu við sósíalismann og kjósa að binda trúss sitt við Evrópusambandið í þeirri von, að í gegnum það verði tryggð áhrif forréttindastéttar, sem sé best til þess fallin að fara með málefni almennings í krafti evrópskrar embættisstjórnar.   

 

Óhjákvæmilegt er að hafa slík meginsjónarmið í huga, þegar rætt er um brottför Davíðs úr stjórnmálabaráttunni og skipan hans í embætti seðlabankastjóra. Talsmenn sérfræðingaveldis að evrópskri fyrirmynd eru til dæmis andvígir því, að stjórnmálamenn setjist í bankastjórn seðlabanka, slíkum stofnunum eigi aðrir að stjórna, fulltrúar sérfræðingaveldisins eða að minnsta kosti góðvinir þess.

 

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslnanna í Frakkalandi og Hollandi um mánaðamót maí/júni, þegar meirihluti kjósenda snerist gegn stjórnarskrá Evrópusambandsins, var mikið áfall fyrir þann málstað sérfræðingaveldisins, að það geti treyst á endurteknar þjóðaratkvæðagreiðslur í þágu Evrópusambandsins, þar til kjósendur segja já. Stjórnarskráin verður aldrei borin upp að nýju og áhugi talsmanna sérfræðingaveldisins á þjóðaratkvæðagreiðslum mun minnka í samræmi við það. Ein af þverstæðunum í málflutningi talsmanna aðildar að Evrópusambandinu hefur verið viðleitni þeirra til að hampa sjálfum sér sem meiri lýðræðissinnum en keppinautar þeirra í stjórnmálum, það er talsmenn þjóðríkjanna og valds kjósenda innan þeirra.

 

Átakamál af þessum toga eru mér ofarlega í huga við þau þáttaskil, að Davíð Oddsson tilkynnir brottför úr stjórnmálunum. Hann hefur markvisst unnið að því að draga úr valdi ríkisvaldsins og þar með sett stjórnmálavaldinu þrengri skorður en áður. Gagnrýni á hann hefur jafnan orðið einna hörðust, þegar hann hefur talið sérfræðinga- eða viðskiptavald komið úr hófi og snúist gegn því sem málsvari lýðræðislegra stjórnarhátta.

 

Málsvarar sérfræðingaveldis, tveir prófessorar við viðskiptadeild Háskóla Íslands, bregðast að sjálfsögðu ókvæða við, þegar Davíð verður seðlabankastjóri. Þeim er meinilla við að fá mann með hans reynslu og sjónarmið inn í hin helgu sérfræðingavé, sjálfan seðlabankann. Þeir eru einnig eindregnir pólitískir andstæðingar Davíðs, þótt því sé ekki hampað, þegar talið er, að gagnrýni þeirra verði áhrifameiri með því að nefna Háskóla Íslands til sögunnar frekar en stjórnmálaskoðanir þeirra eða afskipti.

 

Mörg atvik verða brotin til mergjar, þegar lagt verður mat á stjórnmálaferil og störf Davíð. Í flokki sérkennilegra atvika er eftirleikur þess, að Davíð bauð Hallgrími Helgasyni rithöfundi að hitta sig í skrifstofu sinni, eftir að Hallgrímur hafði skrifað samsærisgrein gegn Davíð í þágu eins viðskiptaveldis í þjóðfélaginu. Hallgrímur virðist ekki samur maður eftir þetta samtal og nú skilst mér, að hann undrist skrif mín hér á vefsíðuna vegna Baugsmálsins svonefnda og telji þau utan velsæmis fyrir mig sem dómsmálaráðherra ef ekki eithvað enn verra. Rithöfundur gegn málfrelsi er einkennilegt fyrirbrigði og sýnir hve langt er gengið, ef miklir hagsmunir eru taldir í húfi.

 

Davíð nefndi í viðtölum miðvikudaginn 7. september, þegar hann kynnti ákvörðun sína, að hann væri ánægður með að skilja við formennsku í Sjálfstæðisflokknum á þann veg, að ekki væru þar flokkadrættir milli manna og þingflokkurinn væri til dæmis ein sterk heild öndvert því sem var fyrir árið 1991, þegar við komum inn í þingflokkinn. Ég get sagt hið sama um þróun mála innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna, sem var illilega klofinn á síðasta kjörtimabili eins og sannaðist með sérframboði Ólafs F. Magnússonar.

 

Eftir yfirlýsingu Davíðs sé ég, að álitsgjafar eru farnir að tala um einhvern Björns-arm innan flokksins og gefa til kynna, að ég leiði þar  fylkingu manna gegn annarri í flokknum, sem þá er kennd við Geir H. Haarde, varaformann flokksins, og væntanlegan flokksformann. Þetta tal kemur mér spánskt fyrir sjónir, því að ég hef ekki gefið hið minnsta tilefni til slíkra ályktana. Sé einhverjum í nöp við mig, verða þeir að finna aðra ástæðu en þessa til að hallmæla mér.

 

Þegar ég var spurður um formannskjör í flokknum af fréttamanni sjónvarps um borð í varðskipinu Ægi síðastliðinn fimmtudag, 8. september, þar sem ég kynnti átak til stóreflingar landhelgisgæslunni, sagði ég eitthvað á þá leið, að á þessum tímamótum í sögu Sjálfstæðisflokksins væri síst af öllu ástæða til að rugga bátnum, menn ættu frekar að taka höndum saman til að fylla það skarð, sem óhjákvæmilega myndaðist við brotthvarf Davíðs. Ég ætlaði að minnsta kosti að vinna í þeim anda. Við Morgunblaðið sagði ég, að ég væri að sinna svo mörgum og skemmtilegum verkefnum, að þau nægðu mér og dagskrá minni.

 

Frá því að ég hóf beina þátttöku í stjórnmálum haustið 1990 og síðan í formannskjörinu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1991 hefur það legið eins skýrt fyrir og unnt er, að ég er eindreginn stuðningsmaður Davíðs Oddssonar og tel mig hafa fylgt honum í gegnum þykkt og þunnt og tekið til varna fyrir hann, þegar ég hef talið þess þörf, til dæmis margoft hér á síðunni, eins og dæmin sanna. Að kenna slíkt við flokkadrætti innan Sjálfstæðisflokksins eða myndun fylkingar er að sjálfsögðu fráleitt. Mínir nánustu samherjar innan flokksins hafa verið sama sinnis og ég um þetta, þótt okkur kunni að greina á um annað, þar á meðal afstöðu til annarra stjórnmálamanna jafnt í Sjálfstæðisflokknum og öðrum flokkum.

 

Ég sé ekki heldur nein efnisleg rök fyrir því um þessar mundir að tala niður til mín eða annarra, sem staðið hafa þétt að baki Davíð Oddssyni. Mér er sagt, að meira að segja Helga Guðrún Jónasdóttir, fyrrverandi formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, hafi tekið undir gagnrýni stjórnmálaandstæðinga minna í útvarpsþætti. Er þetta talið nauðsynlegt til að upphefja einhverja aðra innan Sjálfstæðisflokksins á minn kostnað eða annarra? Er þetta gert í þeirri von, að unnt sé að koma illu af stað innan flokksins eða spilla góðum samstarfsanda? Við einlægir og eindregnir stuðningsmenn Davíðs getum af stolti glaðst yfir mörgum góðum dögum og árum, miklum árangri og glæstum sigrum. Ég ætla að leggja mitt af mörkum til að óvinum Sjálfstæðisflokksins verði ekki að þeirri ósk sinni, að óöld verði innan flokksins, þegar Davíð kveður með reisn.

 

Einhverjir láta eins og ég hafi glutrað niður einhverjum tækifærum í stjórnmálum með því að taka boði um fyrsta sæti á lista flokksins fyrir síðustu  borgarstjórnarkosningar. Fáir gerðu sér líklega betri grein fyrir því heldur en ég, að það yrði á brattann að sækja og líklega þyrfti tvær atrennur til að ná settu marki í Reykjavík. Ég tel mig á þessu kjörtímabili hafa lagt góðan skerf af mörkum til að búa í haginn fyrir sigur sjálfstæðismanna í komandi borgarstjórnarkosningum og hef haft mikla ánægju af störfum innan borgarstjórnarflokksins með því áhugasama fólki, sem þar situr. Vona ég, að öllum félögum mínum þar vegni vel í komandi prófkjöri og síðan í kosningunum sjálfum með vel ígrundaða og skynsamlega stefnu að leiðarljósi.

 

Fyrir þingkosningarnar 2007 mun ég taka ákvörðun um, hvort ég býð mig fram að nýju, eða sný mér að öðru. Allar vangaveltur um, að ég ætli ekki að sitja út þetta kjörtímabil eru úr lausu lofti gripnar.

 

Valdabarátta innan flokka og milli flokka er óhjákvæmilegur liður stjórnmálastarfs og margir hafa miklu meiri áhuga á þessum þætti þess en framgangi hugmynda og hugsjóna. Ég hef meiri áhuga á því, sem Paul Johnson var að tala um í grein sinni í The Spectator en vangaveltum um stöðu þess eða hins stjórnmálamannsins á líðandi stundu. Án öflugra og samhentra stjórnmálamanna komast hins vegar góðar hugmyndir ekki í framkvæmd, eins og stjórnmálatíð Davíðs Oddssonar hefur sannað.