13.8.2005

Mótmælendur - endalok R-listans - brátt 100 dagar - samhentur hópur.

Í vikunni fór ég að Kárahnjúkum og í Reyðarfjörð til viðræðna við sýslumenn, lögreglu og stjórnendur framkvæmda á þessum slóðum. Í sumar hefur orðið að grípa til sérstakra öryggisráðstafana í því skyni að verja vinnusvæðin fyrir mótmælendum, sem flestir eru útlendir, og koma hingað vegna umhyggju þeirra fyrir íslenskri náttúru.

Lögregla hefur brugðist við þessum mótmælum í því skyni að tryggja almannafrið og sjá til þess, að vinnufriður sé ekki rofinn við þessar miklu framkvæmdir. Þá hefur lögregla einnig séð ástæðu til að fylgjast með ferðum mótmælenda, eftir að þeir yfirgáfu Austurland. Þeir eru greinilega til alls vísir, eins og sést á því, að slagorð þeirra hafa verið máluð á alþingishúsið og stöpulinn undir styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli.

 

Fréttir af ferðum þessa fólks og eftirliti lögreglu með því hafa einkum verið áberandi í RÚV og sú mynd dregin, að lögregla hafi gengið of hart fram í eftirliti sínu. Ég hef séð þrjá álitsgjafa leggjast á sveif gegn lögreglunni í þessu máli, þá Össur Skarphéðinsson, Mörð Árnason og Egil Helgason. Ég er þeim ósammála og tel þá vega ómaklega að lögreglunni.

 

Endalok R-listans.

 

Fréttir af endalokum R-listans eru ekki orðum auknar og koma mér ekki á óvart. Lesendur síðu minnar vita, að ég komst að þeirri niðurstöðu fyrir löngu, að R-listinn væri dauður. Hann er hættur að snúast um annað en útdeilingu á völdum, hugmyndafræðilegt inntak hans er ekkert og stjórn hans á málefnum Reykjavíkurborgar er sorglegt dæmi um, hvernig fer, þegar hver höndin er uppi á móti annarri og allir eru með hugann við að skara eld að eigin köku.

 

Ég er mest hissa á því, hve lengi R-lista flokkarnir telja sér sæma að halda þessum pólitíska hráskinnaleik áfram. Þótt það geti verið einhvers virði, að sitja ekki undir ámæli fyrir að hafa verið sá, sem tók af skarið um samstarfsslitin, er komið að þeim punkti núna, að það skaðar trúverðugleik allra, sem láta eins og það sé unnt að blása nýju lífi í R-listann.

 

Á sínum tíma var sagt, að læknir og prestur hefðu orðið að láta til sín taka í því skyni að tryggja R-listanum líf, þegar Ingibjörg Sólrún hrökklaðist úr borgarstjórastólnum, sökuð um svik við samstarfsmenn sína á R-listanum. Nú hefur læknirinn, Dagur B. Eggertsson, gert úrslitatilraun til að halda lífi í R-listanum með því að hóta því, að bjóða sig ekki fram til borgarstjórnar, nema listinn lifi áfram. Þessi ógnvænlega hótun virðist meira að segja ekki hafa nein áhrif. Og sjálfur Alfreð Þorsteinsson sá ástæðu til að minna samstarfsfólk sitt í R-listanum á, að rof á samstarfi um framboð í maí 2006 kunni að setja svip á starfsandann fram að kosningum.

 

Allt kemur fyrir ekki: Samfylkingin er staðráðin í að rjúfa samstarfið til að hún fái tækifæri til að sýna, hve sterk hún er ein og sjálfstæð undir formennsku Ingibjargar Sólrúnar, sem auk þess telur, að aðeins á þann hátt geti hún náð sér niðri á þeim, sem hrökktu hana úr borgarstjórastólnum. Ég heyrði ekki betur, en Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, teldi Samfylkinguna eiga um 40% fylgi í Reykjavík og hún þyrfti sko ekki á öðrum að halda í baráttunni við íhaldið.

 

Brátt 100 dagar.

 

Óðfluga líður að því, að Ingibjörg Sólrún hafi setið 100 daga sem formaður Samfylkingarinnar.  Nú er hún þingmaður að nýju, eftir að Bryndís Hlöversdóttir sagði af sér þingmennsku og tók við starfi deildarforseta á Bifröst.

 

Fróðlegt verður að sjá, hvað álitsgjafar segja um fyrstu 100 daga Ingibjargar Sólrúnar sem formanns stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Frá mínum bæjardyrum séð hafa þessir dagar einkum einkennst af vandræðagangi. Þrjú dæmi:

 

1.     Dylgjur vegna sölu Símans bæði um að verðið væri kannski of lágt og óeðlilegt samband væri á milli forstjóra Símans og einstaklinga í hópi kaupenda hans. Óvarleg orð hennar um þetta urðu til þess, að Ingibjörg Sólrún varð að skrifa afsökunar- og skýringagrein í Morgunblaðið. Henni hefur síðan verið svarað með sterkum málefnalegum rökum af Jóni Sveinssyni, formanni einkavæðingarnefndar.

2.     Dylgjur um Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra vegna sölunnar á Búnaðarbankanum á sínum tíma. Ingibjörg Sólrún þurfti einnig að skrifa grein í Morgunblaðið til að fylgja órökstuddum fullyrðingum eftir. Hún virtist gera sér vonir um, að umboðsmaður alþingis gæti komið sér til hjálpar, úr því að hún þorði ekki að leggja fyrir eigin lögfræðinga spurninguna um hæfi forsætisráðherra eða vanhæfi.

3.     Vandræðagangurinn vegna dauðastríðs R-listans. Samfylkingin vill ekki samstarf nema á eigin forsendum. Hvers vegna tekur hún ekki af skarið og slítur samstarfinu í krafti stærðar sinnar og styrks. Hvers vegna lætur hún draga sig niður í svaðið með R-listanum? Þar ræður hik formanns flokksins mestu.

 

Ef litið er til skoðanakannana um fylgi flokkanna, frá því að Ingibjörg Sólrún tók við formennsku, hefur bilið heldur breikkað milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, sjálfstæðismönnum í hag, og var 38% á móti 32% síðast, þegar Gallup birti tölur. Í júní hækkaði Sjálfstæðisflokkur úr 37% í 38% í Gallup og Samfylking úr 32% í 34% og þá birti Gallup eftirfarandi í þjóðarpúlsi sínum:

 

„Til fróðleiks var athugað hvort landsfundur Samfylkingar hefði í för með sér sviptingar á fylgi flokka innan mánaðarins. Þá kom í ljós að fylgi Samfylkingar mældist talsvert meira eftir landsfund (tæplega 38%) en fyrir hann (33%). Þessi uppsveifla fylgis Samfylkingar mælist á kostnað allra hinna flokkanna, nema Framsóknarflokks. Varast ber þó að oftúlka þessar sveiflur innan mánaðarins, því tiltölulega fá svör liggja að baki niðurstöðum eftir landsfund, eða tæplega 200 (af um 800 svörum alls).“

 

Í júlí var Samfylking með rúmlega 34% fylgi en Sjálfstæðisflokkur tæplega 38%,. Sjálfstæðisflokkurinn hélt sínu í ágúst en Samfylking fór niðir í 32%, þótt Gallup kynnti niðurstöður á þann veg, að fylgi flokka væri óbreytt. Samkvæmt þessu er fylgi Samfylkingarinnar orðið minna en það var, áður en Ingibjörg Sólrún varð formaður flokksins.

 

 

 

Samhentur hópur.

 

Eins og áður hefur komið fram hjá mér hef ég haft mikla ánægju af því að starfa með borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna á þessu kjörtímabili; fyrst sem oddviti hans, þar til ég varð ráðherra að nýju, og síðan undir forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, en það var eindreginn stuðningur allra í borgarstjórnarflokknum við þá tillögu mína, að hann tæki við sem oddviti af mér.

 

Undir forystu Vilhjálms og með þátttöku okkar allra, sem störfum í borgarstjórnarflokknum, hefur verið unnið mikið málefnalegt starf á kjörtímabilinu og mun það skila sér í góðri og vel ígrundaðri stefnuskrá fyrir næstu kosningar, verði rétt á málum haldið. Þá hafa fulltrúar borgarstjórnarflokksins einnig verið einstaklega eljusamir við að rækta tengsl við borgarbúa með heimsóknum í fyrirtæki og stofnanir. Þessar heimsóknir skipta tugum og hafa verið vel skipulagðar af Magnúsi Þór Gylfasyni, starfsmanni borgarstjórnarflokksins. Vegna anna sem ráðherra og þingmaður hef ég ekki haft tök á að taka þátt í þessum kynnisferðum, en ég veit, að þær hafa aukið þekkingu og skilning þátttakenda á atvinnulífi í borginni.

 

Innan borgarstjórnarflokksins hefur verið lögð áhersla á að ræða öll mál til hlítar og leita eftir sameiginlegri afstöðu til einstakra mála og með slíka samstöðu að leiðarljósi hafa stefna og störf borgarstjórnarflokksins verið kynnt. Eitt stórmál er þess eðlis, að ekki hefur enn verið tekið af skarið í nafni alls borgarstjórnarflokksins og það er hvort flugvöllurinn eigi að fara eða vera. Ég tel í raun ekki tímabært að taka af skarið um þetta, fyrr en meiri heimavinna hefur verið unnin og fyrir liggur niðurstaða í viðræðum fulltrúa Reykjavíkurborgar og samgönguráðuneytis, sem stofnað var til með samkomulagi Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgartjóra og Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra á liðnum vetri.

 

Við sjálfstæðismenn höfum hvergi slakað á í gagnrýni á R-listann, um leið og margar tillögur hafa verið fluttar í borgarstjórn um einstök mál.

 

Sjálfstæðismenn gengu klofnir til borgarstjórnarkosninganna vorið 2002, eftir að Ólafur F. Magnússon sagði skilið við félaga sína í þáverandi borgarstjórnarflokki og bauð fram sem óháður með Frjálslynda flokknum. Síðan held ég, að Ólafur F. hafi gengið í lið með frjálslyndum, en staða þeirra hefur almennt versnað mikið á síðustu fjórum árum og er Frjálslyndi flokkurinn í sárum eftir að Gunnar Örn Örlygsson, alþingismaður, gekk úr honum í Sjálfstæðisflokkinn nú í þinglok. Fylgi við frjálslynda er vart mælanlegt, þegar spurt er um fylgi flokkanna í borgarstjórn en á vormánuðum ræddi Ólafur F. varla annað en friðun húsa við Laugaveg í borgarstjórn og flutti margar tillögur um það efni. Hann hefur lagt áherslu á umhyggju sína fyrir umhverfinu en treysti sér þó ekki til að styðja tillögu okkar sjálfstæðismanna um umhverfismat vegna atlögunnar að svæðinu milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar í þágu Háskólans í Reykjavík.

 

Málefnaleg staða okkar sjálfstæðismanna innan borgarstjórnar er sterk og við höfum þar fulltrúa, sem hafa lagt sig fram um að vinna að einstökum úrlausnarefnum af alúð á sama tíma og unnið hefur verið að stefnumótun vegna komandi kjörtímabils, þegar Sjálfstæðisflokkurinn verður vonandi í forystu í borgarstjórn.