4.8.2005

Heim frá Ítalíu.

Eftir að hafa verið í Flórens og skroppið til Písa og Lucca, þar sem Júlíus Sesar kallaði Pompíus til fundar um fimmtíu árum fyrir Krist, til að ráða ráðum sínum um stjórn Rómaveldis, ókum við til Veróna og fórum þar í hina frægu útióperu í Arenunni, eða hringleikahúsinu, og sáum Aidu eftir Verdi við góðan fögnuð.

Síðasti áfangastaðurinn á Ítalíu var síðan Lignano Sabbiadoro, staður, sem við heimsóttum oft, þegar börn okkar voru yngri og þótti okkur öllum ánægjulegt að heimsækja aftur. Þar er flest í sömu mynd og áður, ströndin jafn gyllt og falleg. Frá Lignano er aðeins um klukkutíma akstur til Feneyja og enn styttra að fara til Aquileia, þar sem er gömul kirkja og aðrar minjar frá tímum Rómverja. Í kirkjunni er stærsta mósaikgólfi í allri Evrópu. Þar hélt Pólýfónkórinn með hljómsveit tónleika undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar árið 1977 og var Rut konsertmeistari í þeirri ferð. Nú var okkur sagt, að þessir tónleikar hafi verið hinir síðustu í kirkjunni. Til að vernda hana og listaverk hennar hefur hún nú verið friðuð fyrir öðru en gestum, sem ganga á glerbrú yfir mósaikgólfinu. Minjarnar í Aquileia eru á heimsminjaskrá UNESCO eins og Þingvellir.

 

Þá var okkur einnig sagt, að bannað væri að efna til tónleika í Markúsarkirkjunni í Feneyjum, en Pólýfónkórinn söng  þar einnig á sínum tíma.

 

Við flugum heim frá vellinum við Trieste en borgin er við landamæri Slóveníu og voru Íslendingar að koma þaðan í vélina, en flestir íslensku ferðamennirnir í flugvélinni höfðu líklega verið í Króatíu, en hún hefur sótt mjög í sig veðrið sem ferðamannaland undanfarin ár og er verðlag þar ennþá hagstæðara en á Ítalíu. Ítalskir ferðamálafrömuðir, sem við hittum, töldu, að næstu tvo til þrjú ár yrði Króatía áfram ódýrari en Ítalía, en síðan mundi nást jafnvægi Ítölum í hag.

 

Við sáum á hraðbrautinni frá Lignano til Trieste, að örstutt var til Goraziu, en inn í þá borg ókum við í ágúst á síðasta ári, þegar við fórum hringferðina um Slóveníu – yfirráð yfir Goraziu olli ágreiningi milli Ítala og Júgóslavíu Títós og lét hann reisa nýja Goraziu sín megin (Slóveníu-megin) við landamærin og þar ber spilavíti hæst.

 

Ég ætla að láta hjá líða að ræða um íslensk málefni í þessum pistli, þar sem ég hef ekki fylgst náið með þeim á ferðalaginu. Mér kom á óvart í Lignano, að þar skyldi ekki vera neinn straður til að tengjast þráðlaust inn á netið og var það ekki fyrr en á flugvellinum í Trieste, sem ég gat það. Raunar einnig gott, að þurfa að hafa fyrir því að opna tölvupóstinn í Lignano.

 

Frétta aflaði ég mest með því að lesa The International Herald Tribune en eitt eintak af því blaði kom í strand-blaðabúðina, sem var næst okkur. Þar var hins vegar mikið úrval af þýskum og austurrískum blöðum, enda flestir útlenskir strandgestir af þeim uppruna. Nokkra enska blaðatitla sá ég einnig.

 

Fyrir þá sem vilja njóta sólar á einstaklega góðri sandströnd, þar sem auðvelt er að vera með lítil börn, er Lignano kjörinn staður. Á sínum tíma settu Útsýnar-farþegar mikinn svip á bæinn og er Íslendinga almennt að góðu getið, ef marka má orð viðmælenda okkar, sem hafa mikla reynslu af ferðaþjónustu þarna.

 

Það er langt síðan ég hef tekið tveggja vikna samfellt frí. Af fréttum sýnist mér, að um sé að ræða fasta liði eins og venjulega, en í þriðja sinn sem dómsmálaráðherra hef ég tækifæri til að fagna því, hve vel og skipulega var staðið að löggæslu um verslunarmannahelgina.

 

Enn og aftur er um það rætt í Vestmannaeyjum, að þar þurfi menn að greiða of mikið til lögreglunnar vegna gæslu á þjóðhátíð. Lögum samkvæmt ber að greiða fyrir löggæslu sé sótt um skemmtanaleyfi. Hvernig væri ástandið, ef menn þyrftu ekki að bera slíkan kostnað sjálfir? Hvað er athugavert við að hluti aðgangseyris renni til þess að standa straum af kostnaði við að tryggja öryggi þeirra, sem greiða fyrir aðganginn? Alþingi hefur að minnsta komist að þeirri niðurstöðu með setningu laga, að svona skuli þetta vera. Ég hef ekki hug á að leggja fram breytingu á þeim lögum, eins og ég hef margoft sagt, meðal annars í svörum við fyrirspurnum á þingi.

 

Á komandi vikum tekur við lokaundirbúningur vegna fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2006 auk frágangs á lagafrumvörpum, sem ég hef hug á að flytja á haustþinginu.

 

Þá verður spennandi að starfa í borgarstjórnarflokknum síðustu mánuði fram að kosningum, en nú hafa tvær skoðanakannanir sýnt Sjálfstæðisflokkinn með sterkari stöðu en R-listann. Borgarstjórnarflokkurinn hefur unnið vel og skipulega á þessu kjörtímabili og undir forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar hefur undanfarið verið unnið jákvætt og gott málefnalegt starf auk þess sem tugir vinnustaða hafa verið heimsóttir.

 

Samheldni okkar sjálfstæðismanna innan borgarstjórnar er mikil og góð og er ég viss um, að væntanlegt prófkjör verður ekki til að spilla þeim góða anda, sem myndast hefur í þessum hópi. Andinn í okkar hópi er að minnsta kosti í hróplegri andstöðu við sundrungina innan R-listans, þar sem hver höndin er upp á móti annarri og vinnubrögðin eftir því.