26.7.2005

Bréf frá Flórens.

Hitinn er um 30 stig og mannfjöldinn á götunum leitar í skuggann frá húsunum, þegar hann liðast um þröngar, aldagamlar götur Flórens innan um fleiri minningar og menningarafrek en orð fá lýst.

Við biðum í um það bil 90 mínútur eftir að komast í dómkirkjuna – Santa Maria del Fiore – Hin heilaga María blómsins – en hafist var handa við að reisa hana í lok 13. aldar, Giotto-turnin við hlið hennar var reistur um miðja 14. öld en Brunelleschi gerði hvolfþakið mikla á árunum 1420 til 1434.

 

Fyrir framan dómkirkjuna á Piazza del Duomo stendur áttstrend kirkja kennd við Jóhannes skírara – San Giovanni. Nútíma fornleifafræði styður ekki þá kenningu, að Skírnarkirkjan hafi þróast úr rómversku hofi í kirkju kristinna manna. Þarna hafi hins vegar staðið minni kirkja og hún hafi stækkað með auknu ríkidæmi Flórens á árunum 1059 til 13. aldar.

 

Að Skírnarkirkjan er áttstrend hefur sérstaka táknræna skírskotun samkvæmt kenningum kirkjufeðranna um skírnina. Byggingarlagið minnti á octava die – áttunda daginn – utan vikudaganna sjö og þar með utan markaðs tíma hins jarðneska lífs. Átthyrningurinn sýnir „dag án sólarlags“ hins upprisna Krists og hann var notaður við gerð skírnarkirkja, þar sem skírnin lyftir trúuðum frá dauða vegna syndar til nýs lífs í Kristi; þeir hafi þegar kynnst „áttunda degi“ eilífðarinnar vegna trúar sinnar.

 

Á fyrri öldum stóð Skírnarkirkjan í Flórens í miðjum grafreit og þeir, sem sóttu kirkjuna urðu að fara um leiði hinna dauðu, áður en þeir komu á hinn helga stað, sem gaf fyrirheit um endurfæðingu í skírninni. Í lítilli bók um listir, trú og sögu  þeim til leiðbeiningar, sem heimsækir Flórens, er höfuðáherslan á gildi endurfæðingarinnar í list, trú og sögu borgarinnar, vöggu endurreisnarinnar.

 

Höfundar segja, að líta eigi á byggingarnar á Piazza del Duomo með endurfæðinguna í huga – listaverkin innan veggja þeirra staðfesti aðeins þessa skoðun.

 

Það var eftirminnilegt að heyra ungan Breta lýsa boðskapnum í áttstrendu hvolfþaki Brunelleschis, þegar við gengum um dómkirkjuna. Hann sagði, að við gætum litið á hvolfþakið eins og geimskip á leið til jarðar með nýjan og gleðilegan boðskap um, að við endurfæðinguna yrðu allir í paradís og nytu leiðsagnar Krists, sem hafnaði sverði, hann væri ekki kominn til að dæma heldur til að bjarga í kærleika. Við fætur Krists er lítið barn að búa sig undir að reka fleyg í himinhvelfinguna og þar með stöðva gang himintunglanna.

 

Fyrir ofan höfuð Krists eru orð Pontíusar Pílatusar: „Ecce Homo“. Fyrr á öldum var á altari dómkirkjunnar risastór stytta af hinum látna Kristi. Hún var flutt í San Croce kirkjuna í Flórens 1843. Þegar Kristur lá á altari dómkirkjunnar blasti við söfnuði hennar hinn niðurlægði Kristur á altarinu og hinn upprisni í hvelfingunni. Listaverkin tvö sýndu í sjónhendingu hið sanna gildi lífs kristins manns, þann heilagan tilgang skírnarinnar að verða þátttakandi í þjáningu og ósigri Krists til að öðlast hlutdeild í sigri hans.

 

Með því að gera orð Pílatusar að þungamiðju í listaverki hvelfingarinnar, er minnt á að sannasta gildi mannsins birtist í Kristi.

 

Þegar byggingunum og listaverkunum á Piazza del Duomo er lýst á þennan hátt, öðlast þau gildi umfram fegurðina, sem við blasir. Og hið sama á við um annað í Flórens. Húsin og listaverkin segja sögu um afrek í krafti mikils listfengis, ríkidæmis og trúar. Hvarvetna tvinnast þetta saman og að baki eru metnaðarfullir stjórnmála- og peningamenn, sem vildu öðlast hlutdeild í eilífðinni með stuðningi við fagrar listir á öllum sviðum – bókasöfnin og umgjörð þeirra eru ekki síður glæsileg en kirkjunnar, svo að ekki sá talað grafhýsi Medici-ættarinnar á bakvið kirkju hennar, sem kennd er við San Lorenzo.

 

Í San Croce kirkjunni eru þeir grafnir Michelangelo, Dante, Machiavelli og Galileo, svo að ég nefni aðeins fáein heimsþekkt nöfn og skipar hún merkan sess í sögu Ítalíu.

 

Eftirminnilegt var einnig að skoða kirkjuna og safnið, sem kennt er við heilagan Markús, San Marco. Safnið er í klaustri og er unnt að ganga á milli munkaklefanna og sjá þar einstakar freskur eftir bróðir Beato Angelico. Þá er farið inn í klefann, þar sem Savonarola dvaldist sem munkur, áður en hann var brenndur á báli í Flórens fyrir villu sína.

 

Uffizi-safnið verða allir að skoða, sem til Flórens koma, og til að sneiða hjá biðröðum, sem geta hæglega verið tveggja tíma langar, er betra að ákveða heimsóknartíma fyrirfram og panta hann, til dæmis á netinu, eða í gegnum hótel. Við höfðum ekki hugað að þessu og þótt við værum fjóra daga í borginni, var ekki nokkur leið að fá sérpantaðan miða á þeim tíma. Við fórum því á vettvang fyrir klukkan 08.00 sunnudagsmorgun, en safnið opnar 08.15 og klukkan var um 09.00, þegar röðin kom að okkur, það tók okkur síðan um þrjá tíma að skoða dýrgripina í safninu.

 

Það var hins vegar engin biðröð, þegar ég skoðaði Medici-höllina, skammt frá dómkirkjunni. Þar var mesta tækni við að sýna listaverk notuð af þeim stöðum, sem ég heimsótti. Mynd var varpað á risastóran skjá og gesturinn steig inn í afmarkaðan reit og síðan benti hann á þann hluta myndarinnar, sem hann vildi skoða sérstaklega og birtist hann þá stækkaður og þularrödd lýsti á ensku eða öðru tungumáli því, sem þótti merkilegt við þennan hluta myndarinnar.

 

Vegna hryðjuverka í London og Egyptalandi og hótana í garð Ítala var öryggisgæsla mikil á götum Flórens. Hvarvetna mátti sjá lögreglumenn og bifreiðar þeirra. Leitað var á gestum dómkirkjunnar og farið í gegnum leitarvélar í Uffizi-safninu. Miðað við hugarfar hryðjuverkamanna væri ekki ólíklegt, að þeir íhuguðu að láta að sér kveða á vinsælum ferðamannstað, þar sem kristin menningararfleifð er þungmiðja ásamt endurreisn vestrænnar menningar, sem varð, þegar maðurinn og hæfileikar hans voru settir í öndvegi í nafni trúarinnar á betra mannlíf.

 

Í blaði fyrir ferðamenn hér í Flórens má lesa, að Ítalir séu uggandi um sinn hag vegna færri ferðamanna en áður, þeir séu bæði að tapa í samkeppni við önnur ferðamannalönd í Evrópu og gagnvart Kína, sem sé sífellt að verða vinsælla ferðamannaland. 2004 kusu 75 milljónir manna að heimsækja Frakkland sem ferðamenn eða í viðskiptaerindum, 53 milljónir Spán, 43 milljónir Bandaríkin og 41 milljón Kína. 37 milljónir heimsóttu Ítalíu 2004 en þeir voru 41 milljón 2003.

 

12% af þjóðarframleiðslu Ítalíu má rekja til ferðamannaiðnaðarins og við hann starfa 2 milljónir manna, enginn ein atvinnugrein er jafnöflug, svo að það vekur áhyggjur, ef áhugi útlendinga á að heimsækja Ítalíu er að minnka. Ítalskir ferðamálafrömuðir telja land sitt ekki nægilega vel auglýst, árið 2004 hafi 25 milljónum evra verið varið til þess en Frakkar hafi varið 105 milljónum evra til auglýsa sitt land. Þá sé virðisaukaskattur á hótelgistingu 10% á Ítalíu en 7% á Spáni og 5,5% í Frakklandi. Ítalir líta sér þó nær í leit sinni að því, sem betur má fara til að ná í ferðamenn. Þeir telja verðlag hjá sér einfaldlega of hátt miðað við þjónustuna, sem boðin er. Það dugi ekki að vísa til menningar og góðra baðstranda, ef verðlagið sé of hátt. Á Ítalíu hafi menn jafnvel gengið lengra en í öðrum Evrópulöndum við að hækka verð við upptöku evrunnar. Það dugi ekki að bregðast við minni áhuga ferðamanna með því að hækka verð á þá, sem þó taki sér ferð á hendur til Ítalíu! Samanburður sýni, að hótelverð hafi hækkað að meðaltali um 10% milli áranna 2004 og 2005.

 

Ég ætla ekki að rekja þessar hagtölur frekar en þær eru ágæt áminning um, að jafnvel þeir, sem búa yfir slíkum dýrgripum sem Ítalir geta verðlagt sig út af ferðamannamarkaðnum.  Umræður hafa verið um það á Ítalíu, að besta leið þeirra til að ná vopnum sínum, sé líklega að segja skilið við evruna og taka að nýju upp gömlu, góðu líruna.