16.7.2005

Umferðaröryggi – raunasagan endalausa – aðförin að forsætisráðherra

Yfirlögregluþjónarnir Geir Jón Þórisson og Jón Bjartmarz sáu ástæðu til þess í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins föstudaginn 15. júlí að mótmæla ummælum á Morgunvakt hljóðvarpsins þennan sama dag um að umferðareftirlit lögreglunnar hefði minnkað. Guðbrandur Bogason, formaður Ökukennarafélags Íslands, hafði uppi stór orð um þetta efni á Morgunvaktinni og Ragnheiður Davíðsdóttir, öryggisfulltrúi hjá VÍS, tók í sama streng.

Guðbrandur hélt því fram, að umferðarlöggæslu hefði farið aftur og á 7. áratugnum, það er fyrir 40 árum, hefði umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík verið öflugri en nú!  Geir Jón sagði réttilega, að ekki væri hægt að bera saman löggæsluna í dag og þá. Tækninni hefði fleygt fram og gert lögreglunni kleift að fylgjast nánar með umferð en áður.

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, sagði: Við erum gagnrýndir fyrir það að við séum ekki nógu sýnileg. Það er alveg rétt að umferðin og fjöldi ökutækja hefur magnast í borginni en á sama tíma og ef við skoðum núna síðustu fimmtán árin þá er alvarlegum slysum í Reykjavík að stórfækka. Þau eru mun færri heldur en þau voru hérna fyrir tíu, fimmtán árum síðan.

Um gagnrýnina sagði Geir Jón:  Nei, mér finnst hún ranglega upp sett af því það er bara verið að bera saman hvað umferðardeildin sem bara vann mjög vel fyrir fimmtán eða tuttugu árum síðan og fjöld lögreglumanna þar og svo er borið saman hvað eru þeir margir í dag í deildinni og sagt: Þarna sjáið þið. Magnið og vinna lögreglumanna er í samræmi við þetta. Það er bara ekki rétt.

Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, tók í sama streng og Geir Jón og sagði að umferðalöggæsla hefði eflst gríðarlega síðastliðin ár og tækjabúnaður hefði verið endurnýjaður.

Jón Bjartmarz sagði:  Jú, ég held ég geti fullyrt það að það er meiri umferðarlöggæsla núna á þjóðvegakerfi landsins heldur en að nokkurn tíma hefur verið áður þessar vikurnar. Það hefur orðið gríðarleg aukning vegna þessa samkomulags við Umferðastofu um þessar 40 milljónir sem við fengum í þetta verkefni og þess vegna finnst mér nú kannski svona gagnrýni eins og kom nú fram í hádegisfréttunum[þar var endurtekið úr Morgunvaktinni] að mér finnst hún nú ómálefnaleg og mér finnst hún eiginlega einkennast meira af niðurrifsstarfsemi á þeim tíma sem er verið að gera meira heldur en nokkurn tíman áður og kannski stafar af þekkingarleysi viðkomandi.

 

Ég hef í raun ekki neinu við þessi orð yfirlögregluþjónanna að bæta. Þau segja allt, sem segja þarf, um það, hvernig lögreglan lítur á stöðu mála um þessar mundir. Af hennar hálfu er lögð áhersla á að nýta nýja tækni sem best til að halda uppi virku og auknu eftirliti með umferðinni. Samhliða þessu er verið að hrinda í framkvæmd nýjum lagaákvæðum um sektarinnheimtu, sem heimila lögreglu að sekta menn og ljúka sektargreiðslu á staðnum. Ég er sannfærður um að þessi nýju úrræði munu enn auka virkni lögreglunnar í þessum mikilvægu störfum.

 

Ég hlustaði með öðru eyranu á spjallið á Morgunvaktinni og undraðist, hvað þeir, sem þar létu ljós sitt skína, lögðu mikla áherslu á eftirlit lögreglunnar og hneigðust til að skella skuldina á hana, af því að þeim þótti skorta á öryggi í umferðinni.

 

Lögreglan tekst í raun á við sjúkdómseinkenni í umferðarmálum, það er þá, sem ekki virða lög og reglur. Galdurinn er að fá menn til að virða lögin og reglurnar og höfða til þess hjá ökumönnum frekar en láta í það skína, að öryggi í umferðinni ráðist af því, hve margir lögreglubílar eða lögreglumenn á bifhjólum séu sýnilegir á þjóðvegum eða miklum umferðargötum. Má ekki túlka það sem uppgjöf við eigin störf hjá ökukennurum eða öryggisfulltrúum, ef þeir setja allt sitt traust á eftirlit lögreglunnar?  Spurningin snýst um hugsunarhátt og innrætingu ökumanna – ekki viljum við að lögreglan stjórni ferðinni í þeim efnum?

 

Raunasagan endalausa.

 

Raunasaga R-listans heldur áfram. Fulltrúar flokkanna, sem að listanum standa, komu saman mánudaginn 11. júlí. Fyrir fundinn var látið í veðri vaka, að þar væri úrslitastundin upp runninn. Nú ætti að taka af skarið um framtíðina – af eða á. Niðurstaðan varð sú, að gefin var út tilkynning um, að á fundinum hefði orðið „vendipunktur“ í samstarfinu og hefði verið ákveðið, að setja framtíðina í þrjár nefndir – þær mundu starfa fram eftir sumri.

 

Fjölmiðlum þótti þetta þunnur þrettándi eins og gefur að skilja. Síðan var samtal við aðstandendur flokkanna í Kastljósi þriðjudaginn 12. júlí. Hrannar B. Arnarson, samfylkingarmaður, sem hefur verið talinn einn af arkitektum R-listans á sínum tíma, var meðal Kastljósgesta og fór ekki á milli mála, að hann hefur afskrifað listann og er nú talsmaður þess, að leitað verði samstarfs um meirihluta í borgarstjórn við Sjálfstæðisflokkinn. Stefán Pálsson frá vinstri/grænum sagði, að nýleg skoðanakönnun um meirihluta Sjálfstæðisflokksins meðal reykvískra kjósenda sýndi, að R-listinn væri kominn að fótum fram. Guðjón Ólafur Jónsson, málsvari Framsóknarflokksins, lét eins og enn væri líf í R-listanum, sem kom á óvart, því að enginn flokkur innan samstarfsins hefur orðið eins illa fyrir barðinu á því og Framsóknarflokkurinn.

 

Ég dró þá ályktun af þessum umræðum í Kastljósinu, að enn einn naglinn hefði verið rekinn í kistu R-listans – dánarvottorðið hefði verið samið á fundinum 11. júlí, undirritun og útgáfu hefði verið frestað. Samfylkingin hefði reynt það af langvinnri formannsbaráttu fyrr á þessu ári, að skynsamlegt væri að hafa átakatíma yfirlýstra samherja sem stystan.

 

Flokkarnir þrír í R-listanum bera enn ábyrgð á stjórn Reykjavíkurborgar. Þótt stjórn borgarinnar veikist með hverjum deginum, tæki fyrst steininn úr, ef opinberlega yrði lýst yfir slitum samstarfsins – nefndirnar þrjár gegna því hlutverki að fela hinn raunverulega vendipunkt – slit samstarfsins.

 

Ég sannfærðist enn betur um þá skoðun, sem hér er lýst, við fréttir um, að átök væru milli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og Stefáns Jóns Hafstein um borgarstjórastólinn vegna komandi kosninga. Steinunn Valdís var lægsti samnefnari R-listans við óvænt brotthvarf Þórólfs Árnasonar – hún verður enginn samnefnari R-listans í komandi kosningum og því síður Stefán Jón – þau eru að búa sig undir átök innan Samfylkingarinnar en ekki R-listans.

 

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hefur lagt til, að Samfylkingin hafi opið prófkjör og þannig gefist hinum óháða stuðningsmanni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í formannsátökunum við Össur, Degi B. Eggertssyni, færi á að bjóða sig fram sem samfylkingarmaður. Vefsíðan Visir.is leggur tillögu Össurar úr á þennan veg: „Þannig má segja að Össur mælist til þess að í prófkjörinu verði kosið um borgarstjórnarefni R-listans, þar sem Dagur hefur kost á því að keppa um hituna við Stefán Jón Hafstein og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, núverandi borgarstjóra. Kjósendur gætu þannig fengið óháðan borgarstjóra, beri Dagur sigur úr bítum.

 

Hver segir, að vinstri/grænir eða framsóknarmenn hafi samþykkt samfylkingarmann sem borgarstjóraefni R-listans?  Jafnvel þótt hann sé hinn „óháði“ Dagur – honum var hafnað, þegar Steinunn Valdís varð að samnefnara.

 

Aðförin að forsætisráðherra.

 

Össur Skarphéðinsson hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarið. Hann er iðinn við að skrifa á vefsíðu sína og tekur oftar en ekki þann pól í hæðina, sem er til þess fallinn að koma síðunni í fjölmiðla. Það geta stjórnmálamenn auðveldlega tryggt með því að skrifa dálítið á svig við  stefnu eða gjörðir eigin flokksmanna. Össur hefur verið tíður gestur í Staksteinum Morgunblaðsins, en þar á bæ eru menn kannski að bæta fyrir ákúrurnar, sem Össuri voru veittar fyrir að breyta færslum á síðunni sinni, þegar hitinn var mestur í stríði hans við Ingibjörgu Sólrúnu, en í því stríði dró Morgunblaðið taum Ingibjargar Sólrúnar, eins og ég hef áður rökstutt hér á síðunni. Og nú vill blaðið, að við sjálfstæðismenn í borgarstjórn tileinkum okkur miðjumoð í stjórnmálum til að ná eyrum sem flestra kjósenda – vonandi telur blaðið slíkt moð ekki vænlegast fyrir sig í stríðinu við Baugsmiðlana eða Blaðið, sem segir skoðun sína oft á skemmtilega einarðan hátt og með góðum rökum.

 

Stjórnmálabaráttan undanfarið hefur einkum snúist um viðleitni stjórnarandstöðunnar til að sverta heiður og mannorð Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Fyrst í vetur með árásum vegna Íraksstríðsins og nú síðustu vikur og mánuði vegna sölunnar á Búnaðarbankanum til S-hópsins. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, heggur enn í þann knérunn í miðopnugrein í Morgunblaðinu föstudaginn 15. júlí.

 

Grein sína nefnir Ingibjörg Sólrún Sorglegt en satt. Þegar greinin er lesin, má draga þá ályktun, að formaður Samfylkingarinnar telji sorglegt, ef Halldór Ásgrímsson hafi verið vanhæfur en samt komið að sölu Búnaðarbankans, en samt sé það líklega satt. Þetta minnir á þá tíð, þegar barist var á innlendum stjórnmálavettvangi undir kjörorðinu: Það gæti verið satt. Og um Richard Nixon er í minnum haft, að hann hafi ráðist á pólitíska andstæðinga með orðunum: Let them deny it!

 

Áður hefur verið vakið máls á því hér, að líklega hafi stjórnarandstæðingar ekki þorað að spyrja hina tvo lögfræðilegu álitsgjafa sína spurningarinnar um hæfi eða vanhæfi Halldórs Ásgrímssonar – þeir hafi óttast svarið. Ef svarið hefði verið á þann veg, að Halldór hefði verið hæfur, tapaði stjórnarandstaðan glæpnum. Ef álitsgjafarnir hefðu sagt Halldór vanhæfan, sæti stjórnarandstaðan uppi með slíkt álit trúnaðarmanna sinna og hefði orðið að bregðast við í samræmi við það til að halda eigin trúverðugleika.

 

Sorglegt en satt segir hins vegar Ingibjörg Sólrún í dylgjutón og bætir um betur, þegar hún lætur að því liggja, að kalla eigi á umboðsmann alþingis til að aðstoða stjórnarandstöðuna, þótt allir frestir til að skjóta málum til hans vegna sölu Búnaðarbankans séu löngu liðnir. Formaður Samfylkingarinnar segir: „Hagsmunir almennings af því að þar til bær aðili fjalli um hvort hæfisreglur stjórnsýslulaga nái til æðstu handhafa ríkisvaldsins eru þó svo miklar að ég tel nauðsynlegt að það verði skoðað hvort beina megi erindi þar að lútandi til umboðsmanns Alþingis.“

 

Ingibjörg Sólrún telur sér greinilega sæma að halda aðförinni að Halldóri Ásgrímssyni áfram og næst ætlar hún að leita leiða til að kalla umboðsmann alþingis á vettvang.