3.7.2005

Landhelgisgæsla efld - Geldof og innflytjendur - hræðsla stjórnarandstöðunnar.

Miðvikudaginn 29. júní kynntu starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands (LHG) og ráðgjafar frá IMG ráðgjöf árangur stefnumótunar- og skipulagsvinnu, sem hefur verið unnin innan gæslunnar undanfarna mánuði. Var ánægjulegt að kynnast hinum mikla metnaði og áhuga, sem einkenndi kynninguna og markmiðin, sem verið er að setja í starfi LHG.

Samhliða því, sem hugað hefur verið að innviðum LHG af starfsmönnum hennar, hefur verið unnið að því að undirbúa ákvarðanir um nýtt varðskip og nýja flugvél fyrir LHG. Þá er ljóst, að lög LHG, sem eru tæplega 40 ára gömul, eru ekki að öllu leyti í takt við nýjar kröfur við gæslu öryggis á hafinu.

Fimmtudaginn 23. júní hitti ég Sören Gade, varnarmálaráðherra Dana, og yfirmenn danska hersins og ræddi meðal annars við þá um samstarf LHG og danska flotans, sem skiptir miklu fyrir eftirlit, leit og björgun á N-Atlantshafi. Dönsk yfirvöld annast gæslu á höfunum beggja vegna Íslands og dönsk eftirlitsskip eru tíðir gestir í íslenskum höfnum. Er mikill áhugi hjá danska varnarmálaráðuneytinu á að þróa samstarfið við LHG enn frekar og sé ég marga góða kosti felast í slíkri samvinnu. Finnst mér nauðsynlegt að hafa hana í huga, þegar teknar eru ákvarðanir um nýtt varðskip.

Síðastliðinn föstudag hitti ég Thomas Collins, yfirmann bandarísku strandgæslunnar, U. S. Coast Guard. Hann kom hér við á leið sinni frá Evrópu en þar var hann meðal annars þátttakandi í 200 ára afmælishátíð sjóorrustunnar við Trafalgar. Bandaríska strandgæslan hefur tekið miklum breytingum eftir árásina 11. september 2001 og fellur hún nú undir hið nýja heimaöryggisráðuneyti Bandaríkjanna.

Við vitum öll, hve öflug öryggisgæsla er á flugvöllum. Löngum hefur verið litið öðrum augum til gæslu við hafnir eða skráningu þeirra, sem vinna um borð í skipum eða ferðast sjóleiðis. Þetta viðhorf hefur gjörbreyst og nú er stig af stigi unnið að því að koma á svipuðum öryggiskröfum til skipaferða og flugferða. Slíkar kröfur stangast harkalega á við það frelsi, sem menn tengja sjóferðum, en það lendir af sífellt auknum þunga á lögreglu hafsins, strandgæslu eða landhelgisgæslu, að framfylgja þessum reglum. Starfsmenn bandarísku strandgæslunnar eru til dæmis á stöðugum ferðum um heiminn til að kynna sér öryggisráðstafanir í höfnum, ef siglt er þaðan til Bandaríkjanna. Sætti þeir sig ekki við þessar ráðstafanir er það á valdi yfirmanns strandgæslunnar að setja siglingabann til Bandaríkjanna frá slíkum höfnum.

Í áratugi hefur verið náið samstarf milli LHG og bandarísku strandgæslunnar. Heimsókn  Thomas Collins verður enn til þess að efla hin góðu tengsl.

 

Íslendingar og Danir gegna lykilhlutverki við eftirlit á meginhluta Norður-Atlantshafs og með nánu samstarfi við Bandaríkjamenn auk Kanadamanna, er lagður traustur grunnur að sem bestu öryggi þeirra, sem ferðast um þetta hafssvæði eða yfir því í lofti.

 

Breytingarnar á LHG falla vel að að nýjum kröfum og sjónarmiðum og munu gera gæslunni betur kleift að sinna mikilvægum verkefnum sínum.

 

Geldof og innflytjendur.

 

Síðustu daga hefur athygli alls mannkyns, að minnsta kosti þeirra, sem hafa sjónvarp, beinst að Live8, en undir því heiti hefur Bob Geldof beitt sér fyrir því að virkja tónlistarmenn um heim allan í þágu þess málstaðar, að létta skuldabyrði af ríkjum Afríku og vekja athygli á bágum kjörum íbúa álfunnar. Fellur átakið saman við fund átta helstu iðnríkja heims, G8 ríkjanna, sem haldinn er í Gleneagles í Skotlandi 6. til 8. júlí.

 

Bob Geldof hefur látið verulega að sér kveða í fjölmiðlum í aðdraganda átaksins, eins og eðlilegt er. Hann var til dæmis í sjónvarpsþættinum Friday Night with Jonathan Ross í BBC1 hinn 10. júní síðastliðinn. Þar sagði hann frá því, að á ítölsku smáeyjunni Lampedusa, sem er nálægt Sikiley, væru yfirvöld í miklum vandræðum vegna þess að þúsundum sjórekinna líka skolaði þar á land. Þetta væru konur, karlar og börn, sem væru að reyna að flýja frá Afríku. Borgarstjórinn á eyjunni hefði sent neyðarkall til ítalskra yfirvalda með bón um, að þau létu honum í té flutningaskip til að flytja lík afrískra barna, sem skolaði dag hvern á strendur eyjarinnar. Fjöldi líkanna væri svo mikill, að það væri ekki neitt rými á eyjunni til að jarða þau. Frá Ítalíu hefðu verið send flutningaskip og þau væru fyllt af líkum, sagði Geldof.

 

Ég hef ekki séð frásögn af ummælum Geldofs í íslenskum fjölmiðlum heldur rakst ég á hana í vefritinu spiked. Brendan O'Neill blaðamaður vefritsins tók sér fyrir hendur að kanna ástandið á Lampedusa og komst þá að raun um, að þar töldu menn Geldof segja „tóma vitleysu“ þegar hann lýsti ástandinu þar á þann veg, að eyjan væri svo full af látnum innflytjendum, að ekki væri rými til að grafa þá þar lengur. Talsmaður borgarstjórans sagði 15 innflytjendur grafna í grafreit kristinna á eyjunni. Vissulega hefðu slys orðið hjá þeim, sem reyndu að flýja yfir Miðjarðarhaf, en þeir færust um borð í bátum en skolaði ekki upp á strendur eyjarinnar - hinir látnum kæmu í bátum með lifandi flóttamönnum.

 

Borgarstjórinn hefur aldrei óskað eftir flutningaskipi frá Ítalíu til að sækja lík og hjá ítalska innaríkisráðuneytinu kannaðist enginn við að tilmæli um að slíkt skip yrði sent til Lampedusa. Blaðamaðurinn segir, að vissulega glími Lampedusa við vanda vegna ásóknar innflytjenda, eyjan sé ekki nema 20 ferkílómetrar og nær Afríku en Ítalíu - 113 km frá Túnis og 205 km frá Sikiley. Þar sem eyjan sé sá hluti Evrópusambandsins, sem sé næstur Norður-Afríku, komi margir Afríkumenn þangað í von um að komast inn á Schengen-svæðið. Frá 1. janúar 2004 til 15. september 2004 voru 9.666 ólöglegir innflytjendur teknir í Sikiley-héraði á Ítalíu en Lampedusa telst til þess. Þeir, sem koma til Lampedusa, eru flestir sendir áfram til Sikileyjar, þar sem útlendingastofnun rannsakar mál þeirra og gefur þeim síðan  15 daga frest til að yfirgefa landið og flestir taka þá áhættu að halda frekar áfram til meginlands Evrópu en að snúa aftur til Afríku. Nokkrum er haldið eftir í „móttökustöð“ í Lampedusa, sem er hönnuð til að hýsa 200 manns en þar eru að jafnaði miklu fleiri og sætir meðferð fólks þar gagnrýni Amnesty og Lækna án landamæra. Talsmaður Lækna án landamæra á Lampedusa sagðist aldrei hafa heyrt um, að lík karla, kvenna og barna skolaði upp á strendur Lampedusa.

 

Blaðamaður Spiked spurði blaðafulltrúa Geldofs, hvaðan hann hefði upplýsingar sínar og fékk þau svör, að hann hefði séð frétt um þetta í La Repubblica, þegar hann var á Ítalíu í maí. Blaðamaðurinn fann enga slíka frétt í blaðinu. Blaðafulltrúinn sagði þá, að kannski hefði hann séð þetta annars staðar, það sem skipti máli, væri, að Geldof vildi vekja fólk til samúðar með þessu fólki. Það væru hræðilegir atburðir að gerast við dyrnar hjá okkur.

 

Ég ætla ekki að rekja þessa frásögn frekar, en blaðamanninum finnst nóg um, ef farið er svona frjálslega með sannleikann og veltir fyrir sér, hvort það sé nauðsynlegt til að vekja athygli fólks á bágum lífskjörum í Afríku.

 

Á þessari frásögn er hins vegar önnur hlið, það er sú, sem lýtur að flótta fólks á bátum til annarra landa. Bátafólkið frá Víetnam var mjög í fréttum fyrir nokkrum áratugum, en það voru Víetnamar, sem lögðu á haf út í kænum eða lélegum skipum og lögðu á flótta frá einræðisstjórn kommúnista í landi sínu. Nú heyrum við ekki lengur um slíkt flóttafólk í fréttum og raunar lítið af hinum mikla fjölda bátafólks, sem reynir að komast frá N-Afríku um Miðjarðarhaf til Evrópu. Þetta fólk er ekki úr N-Afríkulöndum heldur kemur flest langt sunnan úr Afríku og hefur farið yfir Sahara-eyðimörkina, áður en það leggur á haf út og út í algjöra óvissu. Herskip á vegum NATO halda uppi gæslu á Miðjarðarhafi og er mjög óvenjulegt, að herfloti sé nýttur til slíkra lögregluaðgerða, en staðfestir einungis, hve ástandið er alvarlegt.

 

Tæplega 10.000 manns vísað frá Sikiley á tæplega 10 mánuðum 2004. Þetta er há tala miðað við það, að hingað til lands leita um 80 hælisleitendur á ári og Ísland er aldrei fyrsti viðkomustaður þeirra á Schengen-svæðinu - þeim hefur öllum verið hafnað annars staðar eða þeir kjósa, að dvelja ekki í því landi, þar sem þeim hefur verið veitt hæli.

 

Hafi Íslendingar þá skoðun, að hér sé beitt meira harðræði en annars staðar við meðferð á hælisleitendum, er hún úr lausu lofti gripin. Hjörtur J. Guðmundsson fjallaði einmitt um þessa skoðun í nýlegum pistli á www.ihald.is.

 

Hræðsla stjórnarandstöðunnar.

 

Það var dálítið kyndugt, að stjórnarandstaðan skyldi bregðast við skýrslu ríkisendurskoðunar um að Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, hefði ekki verið vanhæfur til að taka ákvarðanir um sölu Búnaðarbankans, með því að ráða tvö lögfræðinga til að segja álit sitt á málinu, án þess að spyrja þá um hæfi eða vanhæfi Halldórs.

 

Davíð Oddsson utanríkisráðherra segir réttilega í Fréttablaðinu sunnudaginn 3. júlí, að stjórnarandstaðan hafi ekki leitað svara við þessari spurningu vegna þess að hún óttaðist svarið - sem sé, að Halldór hefði ekki verið vanhæfur.

 

Hvað sem þessum kjarnapunkti í málinu öllu líður, er það þó allt þannig vaxið, að erfitt er að átta sig á því, hvers vegna stjórnarandstaðan kaus að kalla til þessa tvo lögfræðinga og láta þá skrifa þessar hugleiðingar, sem þegar upp er staðið snúast frekar um ríkisendurskoðun og starfshætti hennar en pólitísk álitaefni.

 

Eftir að álit lögfræðinganna lá fyrir, hefði mátt ætla, að stjórnarandstaðan teldi sig þar hafa fengið efnivið til að leggja til enn harðari pólitískrar atlögu með útleggingu sinni á álitinu. Nei, ekkert slíkt gerðist.

 

Í Morgunblaðinu 1. júlí er frásögn af því, sem talsmenn stjórnarandstöðunnar höfðu að segja um það, sem tæki nú við hjá þeim í stríðinu við Halldór Ásgrímsson vegna þessara álita og minnisblaða. Morgunblaðið hefur meðal annars þetta eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar:

 

„Mér finnst niðurstaðan í málinu það afgerandi og athugasemdirnar það veigamiklar að ríkisstjórnin hljóti að taka þetta til alvarlegrar skoðunar.“ Spurð um næstu skref stjórnarandstöðunnar í þessu máli, segir hún að þau hljóti að ráðast af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar.“

 

Þetta svar nýkjörins flokksformanns er með ólíkindum. Hvers vegna skyldi ríkisstjórnin leggjast yfir álit unnið fyrir stjórnarandstöðuna um minnisblað ríkisendurskoðunar? Hvers vegna skyldi ríkisstjórnin taka þennan bolta frá stjórnarandstöðunni og gefa hann upp aftur, svo að hún geti gripið hann og haldið áfram eltingarleik við forsætisráðherrann?

 

Það er ekki nóg með að stjórnarandstaðan undir forystu Ingibjargar Sólrúnar þori ekki að spyrja álitsgjafa sína spurningar um hæfi forsætisráðherra af ótta við svarið, hún þorir ekki heldur að fylgja eigin áliti eftir heldur vill að ríkisstjórnin geri það - síðan skuli stjórnarandstaðan sjá, hvað henni þóknast að gera!