25.6.2005

Páll Skúlason hættir – fylgi Alfreðs – einleikur Stefáns Jóns.

Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands (HÍ), er að láta af farsælum rektorsstörfum um þessar mundir, en hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs og um mánaðamótin tekur Kristín Ingólfsdóttir við rektorsembættinu.

 

Við Páll áttum náið og gott samstarf, eftir að hann varð rektor í tíð minni sem menntamálaráðherra. Kom í okkar hlut að vinna saman að því að tryggja framgang nýrra laga um Háskóla Íslands og hrinda þeim í framkvæmd. Einnig kom það í okkar hlut að gera samning um framlag úr ríkissjóði til kennslu innan háskólans og leggja grunn að samningi um rannsóknarfé til skólans.

 

Ég tek undir með Páli, þegar hann leggur áherslu á þá grundvallarbreytingu, sem hefur orðið á HÍ undanfarin ár með eflingu rannsóknarnáms, það er meistaranáms og doktorsnáms. Vænti ég þess, að einhvers staðar í skýrslum skólans sé að finna sögu þessara breytinga og fjárveitinga til þeirra, en þörfin fyrir fé vex að sjálfsögðu í samræmi við umsvifin – spurningin er hve miklu af fjárþörfinni skuli svarað með auknum álögum á skattgreiðendur. Þessari spurningu þarf að svara með samningi milli ríkis og skólans. Hitt er skýrt í mínum huga, að öll fjárfesting ríkisins í Háskóla Íslands ber meiri ávöxt með því að gera skólanum, kennurum hans og nemendum, kleift að teygja sig eins langt og frekast er kostur í rannsóknum og vísindum.

 

Fyrir nokkru birti ríkisendurskoðun skýrslu um gerð og framkvæmd háskólalaga. Af þeirri skýrslu má ráða, að undir minni stjórn sem menntamálaráðherra hafi ekki verið haft nægilegt samráð við háskólasamfélagið um gerð háskólalaga og síðan sérlaga um einstaka háskóla. Mér er óskiljanlegt, hvernig ríkisendurskoðun kemst að þessari niðurstöðu, að minnsta kosti var ekki leitað eftir upplýsingum hjá mér um það, hvernig þessu samráði var háttað.  Ég veit, að það var mikið og hlustaði ég á alla háskólamenn, sem vildu ræða málið við mig en í hópi þeirra vó álit Páls Skúlasonar hvað þyngst.

 

Þegar fram líða stundir, verður litið til rektorsskeiðs Páls Skúlasonar sem eins mesta breytingaskeiðs í 90 ára sögu Háskóla Íslands. Á þessu skeiði tókst rektor að vinna að framgangi mikilvægra umbóta í góðri sátt innan háskólasamfélagsins og í samvinnu við stjórnvöld. Páll var réttur maður á réttum stað og á réttum tíma í sögu háskólans.

 

 

Fylgi Alfreðs.

 

Fréttablaðið segir frá því á forsíðu sinni laugardaginn 25. júní, að samkvæmt tölum, sem hafi verið unnar úr Gallup-könnun á fylgi stjórnmálaflokkanna í maí, komi í ljós, að stuðningur við Framsóknarflokkinn í Reykjavík sé innan við 5%, það er 4,6%. Er þetta í annað sinn, sem kannanir benda til þess, að Framsóknarflokkurinn njóti milli 4 og 5% fylgis í Reykjavík.

 

Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður í Orkuveitu Reykjavíkur, er tákngervingur Framsóknarflokksins í Reykjavík og R-listinn hefur nú kjörið hann forseta borgarstjórnar Reykjavíkur í síðustu lotunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar vorið 2006. Hlutverk forseta borgarstjórnar er að vera andlit Reykjavíkur við hvers kyns opinber tækifæri, gestgjafi í veislum fyrir utan að stjórna fundum borgarstjórnar.

 

Í tilefni af þessum tölum Fréttablaðsins segir Alfreð: „ Ég fer ekkert úr jafnvægi við þetta því ég hef oft séð það svartara. Reynslan sýnir að við spjörum okkur í kosningum.“ Blaðamaður leitar því miður ekki eftir því hjá Alfreð, hvenær hann hefur séð svartari tölur en þær, sem blaðið nefnir í þessari frétt sinni.

 

Alfreð Þorsteinsson er fremstur í hópi þeirra framsóknarmanna, sem mælir með því, að áfram verði haldið samstarfi innan R-listans. Sú spurning er áleitin, hvort ástæðan fyrir því, að Alfreð heldur þessu dauðahaldi í R-listann sé sú, að hann vilji ekki láta mæla fylgi Framsóknarflokksins beint í borgarstjórnarkosningum – það er að gefa kjósendum til að segja milliliðalaust álit sitt á því, hvernig þeim finnst fulltrúar Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur standa sig.

 

Reynslan af því að starfa með Alfreð í borgarstjórn Reykjavíkur segir mér, að tilgangslítið sé að rökræða við hann á málefnalegum forsendum. Þegar að Alfreð er sótt, beitir hann þeirri aðferð við svör sín að slá undir belti og ata andstæðing sinn auri. Hann virðist einnig geta skákað í því skjóli, að það sé ekki hermt upp á hann í fjölmiðlum, sem hann lætur frá sér fara. Alfreð ætlaði að selja Perluna fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar og á þessu kjörtímabili ætlaði hann að láta Orkuveitu Reykjavíkur kaupa Símann. Hvorugt hefur náð fram að ganga, enda sagt út í bláinn til þess eins að draga athygli frá umræðuefni, þegar að Alfreð er sótt út af einhverjum umdeildum ráðstöfunum hans á fjármunum borgarbúa.

 

 

Í forsíðufrétt Fréttablaðsins er gefið til kynna, að þetta litla fylgi Framsóknarflokksins geri kröfu hans um tvö sæti á R-listanum í næstu borgarstjórnarkosningum marklausa. Ráða má af fréttinni, að hún sé runnin undan rifjum samstarfsmanna framsóknarmanna á vettvangi R-listans til að styrkja þar stöðu Samfylkingarinnar eða vinstri/grænna á kostnað framsóknar – líklega helst Samfylkingarinnar, enda er sagt, að Gallup-könnunin sýni hana með 36,9% fylgi í Reykjavík og vinstri/græna með 17,1% (Sjálfstæðisflokk með 38,5% og frjálslynda aðeins með 2,7%).

 

Í fréttinni segir, að næsti fundur viðræðunefndarinnar, sem ræðir framtíð R-listasamstarfsins sé mánudaginn 27. júní, en samfylkingarmenn undir forystu Stefáns Jóns Hafstein (Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri virðist ekki með í ráðum), hafa viðrað tillögur um framtíð R-listans, sem taka aðeins mið af hagsmunum þeirra. Vinstri/grænir eru forystulausir í borgarstjórninni og Alfreð þorir ekki að stíga fyrsta skrefið til að brjóta upp R-listann.

 

Einleikur Stefáns Jóns.

 

Stefán Jón Hafstein hefur sagst stefna að því að verða næsti borgarstjóri Reykjavíkur. Hann hefur kynnt skipulagstillögur í borgarstjórn, sem hafa ranglega verið túlkaðar sem tillögur R-listans. Þær eru hans einkatillögur. Hann hefur fallið frá þeirri skoðun sinni, að hábrú yfir Elliðavog sé hluti Sundabrautar. Hann beitir menntaráði gegn Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, þegar hann fær þar samþykkta tillögu um, að Reykjavíkurborg komi að endurskoðun grunnskólalaganna. Stefán Jón sendi frá sér fréttatilkynningu um, að menntamálaráðherra hefði ekkert samráð haft við Reykjavíkurborg eða Samband íslenskra sveitarfélaga um endurskoðun laganna. Ráðherrann segir þessa tilkynningu sýna, hve Stefán Jón sé illa upplýstur um málið, þetta sé „dæmi um tækifærismennsku í pólitík...Hann [Stefán Jón] er bara í borgarstjóraleik sem hann er að byggja upp.“ Endurskoðun grunnskólalaga hefur verið kynnt í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, þar sem Steinunn Valdís borgarstjóri og Árni Þór Sigurðsson, forystumaður vinstri/grænna í borgarstjórn, eiga sæti. Við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna og undirbúning hans var ekki haft samband við einstök sveitarfélög heldur Samband íslenskra sveitarfélaga. Stefán Jón er formaður menningar- og ferðamálaráðs borgarstjórnar og undir hans forystu hefur nú verið gerð breytingar á samþykktum Listasafns Reykjavíkur, sem stangast á við sjónarmið stjórnenda safnsins, starfsmenn þess og Samtök íslenskra listamanna. Stefán Jón er orðinn formaður borgarráðs og mun örugglega halda einleik sínum áfram í krafti þess embættis fram að kosningum. Honum er ekki sérstaklega sýnt um, að Steinunn Valdís sé í sviðsljósinu.