4.6.2005

Vandi ESB – Deep Throat – flugvöllurinn – Samfylkingarstaða.Þótt við í Evrópunefndinni værum ekki að blanda okkur í vandræði Evrópusambandsins (ESB) vegna nei-sigursins í Frakklandi og síðar Hollandi, var sérstakt að vera úti í Brussel í vikunni og hitta þar Olli Rehn, stækkunarstjóra ESB í framkvæmdastjórninni, sérfræðinga, sendiherra auk stjórnenda EFTA. Eftir að ég kvaddi nefndina miðvikudaginn 1. júní, hélt ég til Lúxemborgar og tók þar á fimmtudaginn þátt í hátíðarhöldum í tilefni af því, að 20 ár voru liðin frá því að skrifað var undir Schengen-samkomulagið - það er samkomulagið um landamæralausa Evrópu. Ísland varð virkur aðili að Schengen-svæðinu í mars 2001, en í febrúar 1995 ákváðu forsætisráðherrar Norðurlandanna á fundi sínum í Reykjavík, að það mundi hagkvæmt, að Norðurlöndin yrðu öll aðilar að Schengen. Þátttaka okkar og Norðmanna er sérstök, þar sem við eigum ekki aðild að ESB og er flókið reglu- og stjórnskipulag í kringum Schengen-þátttöku okkar, en eyríkin tvö í ESB, Bretland og Írland, eru ekki í Schengen. .

Ég ætlaði ekki að ræða Schengen en má þó til með að segja frá því, að einn ráðherranna, sem tók þátt í hátíðarhöldunum sagðist glaður að geta nú loksins áttað sig á því fyrir hvað þetta nafn Schengen á samkomulaginu stæði. Hann hefði ekki gefið sig að því að afla sér upplýsinga um nafngiftina á þessu viðamikla samstarfi - en nú væri sér ljóst, að nafnið væri rakið til þessa litla lúxemborgska þorps við ána Mósel, þar sem Frakkland, Lúxemborg og Þýskaland mætast. Þegar við sigldum eftir ánni var Lúxemborg á aðra hönd og Þýskaland hina og við stíflu rétt fyrir neðan var Frakkland.

Það, sem ég ætlaði að segja, er, að lestur blaða eða skýrslna um afleiðingar nei-sigursins í Frakklandi og Hollandi fær á sig aðra mynd, þegar tækifæri hefur gefist til að kynnast í samtölum viðhorfum til sama máls. Ég ætla að nefna sex punkta:

 

1. Höfnun Frakka og Hollendinga á stjórnarskránni á eftir að hafa djúpstæð áhrif. Þessar þjóðir hafa ekki sömu sögulegu stöðu í ESB og til dæmis Írar eða Danir, sem eru ekki meðal stofnþjóðanna, en báðar þjóðirnar hafa sagt nei í þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæga þætti samstarfsins innan ESB, en síðan kosið aftur, þegar líkur á já-sigri voru fyrir hendi vegna breyttra aðstæðna. Frakkar og Hollendingar munu ekki greiða atkvæði að nýju eftir einhverjar smávægilegar breytingar á samningnum um stjórnarskrá ESB. Frönsk og hollensk stjórnvöld munu ekki heldur geta staðið að því að mynda einskonar harðkjarna innan ESB, sem gengur lengra en aðrir, í að sætta sig við yfirþjóðlegar ákvarðanir í Brussel.

 

2. Það er eins og biðja lækni að framkvæma aðgerð á sjúklingi, sem þegar er látinn, að krefjast þess, að aðrar þjóðir gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá ESB, eftir að hún hefur verið felld af Frökkum og Hollendingum. Krufning leiðir aldrei til þess, að unnt sé að lífga við sjúkling, en hún kann að upplýsa um orsök dauðans - slík krufning er nauðsynleg innan ESB. Hættan er sú, að henni verði skotið á frest með vífilengjum. Við sjáum þær til dæmis með yfirlýsingum um, að það sé lýðræðislegur réttur allra ESB-þjóða að segja álit sitt á stjórnarskránni. Þessar yfirlýsingar eru enn til þess fallnar að veikja trú á pólitísku raunsæi þeirra, sem gefa þær, væntanlega til efla trú á ESB.

 

3. Tony Blair, forsætisráðherra Breta, kynnti óvænt fyrir um það bil ári, að hann mundi beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-stjórnarskrána í Bretlandi. Hann gerði þetta til að geta siglt lygnan sjó og án deilna um málið í gegnum tvennar kosningar, það er kosninga til Evrópusambandsþingsins á síðasta ári og breska þingsins nú í maí. Frumkvæði Blairs knúði Jacques Chirac Frakklandsforseta til að heita Frökkum því, að þeir gætu einnig gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu. - Chirac fékk herfilega útreið á sunnudaginn en Blair mun að öllum líkindum segja, að óþarft sé að kjósa í Bretlandi - stjórnarskráin sé dauður bókstafur í orðsin fyllstu merkingu.

 

4. Þegar þeir hittust á fundi í dag, laugardaginn 4. júní, í Berlín Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, og Jacques Chirac, forseti Frakklands, gátu þeir ekki áréttað óskorað forystuhlutverk stjórna sinna innan ESB. Pólitískir straumar eru þeim ekki hagstæðir. Valdahlutföll hafa breyst með fjölgun ESB-ríkjanna og nýju ríkin eru ekki eins áköf í að takmarka fullveldi sitt og stjórnendur sumra eldri ríkjanna.  Pólitískur styrkur Chiracs hefur minnkað og sigurlíkur Schröders eru ekki miklar í sambandsþingskosningunum næsta haust, sem hann heldur nauðbeygður eftir afhroðið í Nordrhein-Westfalen á dögunum. Haft var eftir talsmönnum þeirra, að á fundinum í Berlín hefðu þeir talið nauðsynlegt, að allar ESB-þjóðir fengju að segja álit sitt á stjórnarskránni hvort heldur á þjóðþingum eða í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

5. The Economist segir í óvenjulega neikvæðum leiðara um val Chiracs á Dominique de Villepin sem forsætisráðherra Frakklands, að forsetanum hefði verið nær að víkja sjálfum eins og Charles de Gaulle gerði, eftir að hafa tapað þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1969, í stað þess, að gera Jean-Pierre Raffarin, fráfarandi forsætisráðherra, að blóraböggli. Með valinu á de Villepin tekur Chirac mann úr innsta hring sínum, sem aldrei hefur hlotið kosningu í nokkurt stjórnmálastarf, og gerir að forsætisráðherra. Chirac varð einnig að skipa Nicolas Sarkozy innanríkisráðherra að nýju og númer tvö í ríkisstjórninni en forsetinn hafði skipað Sarkozy að segja af sér ráðherraembætti, þegar hann varð formaður UMP-flokksins í óþökk forsetans. Laurent Fabius leiðtogi nei-liðsins meðal franskra sósíalista var rekinn úr varaformannsembætti flokksins 4. júní fyrir uppreisn gegn flokksformanninum og stuðningsliði hans.

 

6. Ef einhver ein skýring er á nei-sigrinum, er hún sú, að fólk hafi fengið nóg af valdabrölti í nafni ESB í Brussel. Þessi skýring dugar ekki ein, því að hennar er einnig að leita í ótta við afleiðingar af stækkun ESB, þegar líklegt er, að ódýrt, innflutt vinnuafl auki enn á atvinnuleysi þeirra, sem fyrir eru í gömlu ESB-löndunum. Þá vilja sumir stíga á bremsuna núna í von um að draga úr líkum á aðild Tyrklands að ESB. Enn aðrir voru að láta í ljós óánægju sína með evruna.

 

Ég get áfram talið en læt hér staðar numið að sinni. Atriðin hér að ofan sýna, að vandinn vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar er margvíslegur. Stjórnarskrárvinnan hófst vegna þess að þörf var nýrra starfsreglna fyrir Evrópusambandið, ekki síst til að einfalda stjórnkerfi þess vegna stækkunar úr 15 ríkjum í 25 ríki auk þess sem markmiðið var að koma á embætti utanríkisráðherra og leggja grunn að sameiginlegri utanríkisþjónustu og sendiráðum ESB. Þessum markmiðum er unnt að ná, án alls þess umbúnaðar, sem samningurinn um stjórnarskrána er. Spurning hefur vaknað, hvort nú verður reynt að fara bakdyraleið að þessum markmiðum, sérstaklega að því er utanríkisþjónustu ESB varðar. Ef það yrði gert, telja margir, að þar með mundi ESB-forystan bíta höfuðið af skömminni og staðfesta enn frekar en áður, að henni sé í raun alveg sama um viðhorf almennings.

 

Eins og sagði í upphafi var það aukageta hjá okkur í Evrópunefndinni að velta þessum málum fyrir okkur, á meðan við vorum í Brussel. Að því er erindi okkar varðar, það er að afla upplýsinga í samræmi við erindisbréf nefndarinnar og skýra íslensk sjónarmið, er það mín skoðun, að okkur hafi verið mjög vel tekið og EES-samningurinn sé í fullu gildi og standi vel fyrir sínu. Ég er þeirrar skoðunar, að hann sé besti grundvöllurinn fyrir samskiptum Íslands við Evrópuríkin í ESB. Í erindi, sem ég flutti í ferðinni, leitaðist ég við að skýra, að það væri fleira en spurningin um fisk, sem ylli því, að Íslendingar hefðu ekki ákveðið að sækja um aðild að ESB.

 

Deep Throat.

 

Fyrir okkur, sem fylgdumst með því, þegar Richard Nixon varð að segja af sér sem forseti Bandaríkjanna, af því að The Washington Post hélt lífi í fréttum af innbrotinu í Watergate-bygginguna er óneitanlega sögulegt að fá staðfestingu á því, að Mark Felt, annar æðsti maður FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, hafi verið heimildarmaður blaðsins.

 

Bob Woodward lýsir málinu frá sínum sjónarhóli á þessari slóð:

 

http://www.washingtonpost.com/wp-dyn/content/article/2005/06/01/AR2005060102124_pf.html

 

Hér er lýsing á því sem Mark Felt gerði frá hans sjónarhóli:

 

http://www.vanityfair.com/commentary/content/articles/050530roco02

 

Flugvöllurinn.

 

Við sjálfstæðismenn í borgarstjórn höfum lagt fram stórhuga tillögur í skipulagsmálum og hafa þær vakið verðuga athygli og almennt jákvæð viðbrögð. Að sjálfsögðu var við því að búast, að einstökum atriðum yrði mótmælt. Minn ágæti flokksbróðir séra Þórir Stephensen hefur til dæmis mótmælt því harðlega, að af tillögunni má ráða, að brú verði smíðuð út í Viðey. Um 100 manna byggð í Viðey skiptir að sjálfsögðu ekki neinum sköpum í þessari tillögusmíð, en spurning er, hvort með henni yrði ekki betur tryggt en núna, að líf verði í eyjunni, hvort sem brú yrði smíðuð eða ekki. Séra Þórir var sannkallaður brúarsmiður milli lands og Viðeyjar á meðan hann var þar staðarhaldari. Eftir að hann lét af starfi staðarhaldara  hefur hallað undan fæti fyrir allt starf í eyjunni. Hvernig eigum við að tryggja tengsl Viðeyjar við borgarlífið?

 

Þá hefur ýmsum orðið tíðrætt um, að í tillögum okkar sé ekki tekið af skarið um flugvöllinn. Við látum það einfaldlega liggja milli hluta á þessu stigi, hver verði niðurstaðan um framtíð Vatnsmýrarinnar, vegna þess að kostirnir eru ekki nægilega skýrir til að komast að flugtæknilegri, fjárhagslegri og skipulagslegri niðurstöðu. Ef aðeins væri tekið mið af vilja meirihluta kjósenda Sjálfstæðisflokksins, ættum við að leggja til, að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni.

 

Samkvæmt nýrri Gallup-könnun vill meirihluti landsmanna, 55%,  hafa flugvöllinn þar sem hann er. Mikill munur er þó á viðhorfum fólks til vallarins eftir búsetu og fylgi við stjórnmálaflokka. Rúmur helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins vill færa völlinn en rúm 68% íbúa landsbyggðarinnar vilja að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram þar sem hann er.

Meirihluti fylgismanna Vinstri-grænna og Samfylkingarinnar vill að flugvöllur fyrir innanlandsflug verði fluttur frá Reykjavík, 58,2% í báðum tilfellum. Fylgismenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru annarrar skoðunar og eru rúm 78% fylgismanna Framsóknarflokks andvíg því að flugvöllurinn verði færður og rúm 58% fylgismanna Sjálfstæðisflokks.

 

Alfreð Þorsteinsson, forystumaður Framsóknarflokksins í R-listanum, segist nú ætla að bjóða sig fram að nýju í komandi borgarstjórnarkosningunum undir þeim baráttufána í flugvallarmálinu, að ný völlur verði á Lönguskerjum í Skerjafirði – Alfreð hefur verk að vinna við að breyta skoðun framsóknarmanna í flugvallarmálinu.

 

Samfylkingarstaða.

 

Í tilkynningu Gallup um fylgi flokkanna nú í upphafi júní-mánaðar, eftir að Samfylkingin hélt flokksþing sitt og formannskjör segir:

 

„Helstu breytingar á fylgi flokka frá síðasta mánuði eru þær að Samfylkingin bætir við sig tveimur prósentustigum, fer úr 32% fylgi í 34%.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir einnig við sig fylgi frá því í apríl, fer úr 37% í 38%.  

Fylgi Framsóknarflokks er nú í sögulegu lágmarki, eða 8,5%. Svo lágar fylgistölur hafa ekki sést áður hjá Framsóknarflokknum í Þjóðarpúlsi Gallup.

 
Fylgi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs er enn nær óbreytt, fimmta mánuðinn í röð, rúmlega 15%. Frjálslyndi flokkurinn mælist nú með 5% fylgi og dalar örlítið miðað við síðustu tvær mælingar.

Ríkisstjórnin mælist með 49% stuðning eins og í apríl.“

 

Með sterkum rökum má velta því fyrir sér, hvort hið fréttnæma í þessari könnun sé, að Samfylkingin hafi bætt við sig tveimur prósentustigum í flokksþingsmánuðinum. Í maí og júní á síðasta ári mældist Samfylkingin með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn.  Hin sterka og sífellt styrkari staða Sjálfstæðisflokksins samkvæmt Gallup-könnunum er athyglisverðari staðreynd en 2 % aukning Samfylkingarinnar á þessum tíma.

 

Stefna Samfylkingarinnar hefur alls ekki skýrst við flokksþingið. Varaformannskjörið varpar skugga á vinnubrögð í innra starfi flokksins.