29.5.2005

Frakkar segja nei - kynbundið ofbeldi - stórhuga skipulag.

Á slaginu 20.00 í kvöld, sunnudaginn 29. maí, mátti sjá á frönsku sjónvarpsstöðinni France 2 útgönguspá, sem sýndi, að 55% Frakka hefðu hafnað samningnum um stjórnarskrá Evrópusambandsins en 45% höfðu sagt já. Síðan hófust umræður um úrslitin í sjónvarpssal og þar voru annars vegar við borðið fulltrúar hægri-mið-flokkanna, sem standa á bakvið Jacques Chirac Frakklandsforseta, ráðamaður innan franska sósíalistaflokksins og fulltrúi græningja, þessir voru talsmenn já-liðsins. Hinum megin við borðið sat Marine le Pen, dóttir Jean-Marie le Pens, formanns þess flokks í Frakklandi, sem er lengst til hægri vegna þjóðernisstefnu sinnar, fulltrúar vinstri arms sósíalistaflokksins og kommúnistar, þetta voru fulltrúar nei-liðsins.

Umræðurnar endurspegluðu þá staðreynd, að franski sósíalistaflokkurinn er klofinn ofan í rót vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrána og af frönsku stjórnmálaflokkunum verður hann líklega verst úti af flokkunum vegna þessara átaka. Laurent Fabius, sem var forsætisráðherra á sínum tíma, er þekktastur leiðtoga nei-liðsins meðal sósíalista og kann þessi sigur arms hans innan flokksins að nægja honum til framboðs í forsetakosningunum í Frakklandi árið 2007.

Jacques Chirac flutti stutt ávarp til frönsku þjóðarinnar klukkan 20.30 að okkar tíma, 22.30 að frönskum, en hann ávarpaði þjóðina síðast fimmtudagskvöldið 26. maí og hvatti þá Frakka til að segja já, því að annars lentu þeir á hliðarlínunni í Evrópu og yrðu enn minni á heimsvísu. Nú sagðist forsetinn mundu gæta hagsmuna Frakka á næsta leiðtogafundi Evrópuþjóðanna, Evrópusambandið stæði óhaggað, en það væru alvarleg tíðindi, að Frakkar, ein stofnþjóðanna hefði tekið þessa ákvörðun. Það hlyti að hafa áhrif innan ESB og einnig mundi hann huga að stöðu ríkisstjórnar Frakklands.

Í sjónvarpsumræðunum var því haldið fram af talsmönnum nei-armsins, að forsetinn ætti sjálfur að draga ályktun af niðurstöðunni og hypja sig, en því var svarað á þann veg af já-liðum, að það hefði ekki verið spurt um afstöðu til forsetans, það var ekki heldur spurt um afstöðu til ríkisstjórnarinnar, en forsetinn virðist búa sig undir að breyta henni vegna nei-sigursins.

Frönsk stjórnmál eru sérkennileg og hefur verið gaman að fylgjast með þeim í áratugi - hið einkennilega er, hve lítið hefur breyst á þessum tíma bæði að því er varðar menn og málefni. Það tók François Mitterrand 17 ár að ná kjöri sem forseti og Chirac hefur verið í fremstu röð í 40 ár eða svo. Nú er talað um, að hann verði gerður að öldungadeildarþingmanni fyrir lífstíð hætti hann sem forseti, því að annars eigi hann yfir höfði sér málsókn vegna spillingar á þeim árum, þegar hann var borgarstjóri í París.

Árið 1992 var tekist á um Maastricht-sáttmálann, stjórnarskrá ESB á þeim tíma, og náði já-liðið þá að sigra í Frakklandi með Mitterrand á forsetastóli - líklega vegna þess að honum tókst að halda sósíalistum saman. Þá eins og nú var spáð illa fyrir Frakklandi á hvorn veginn sem færi.               

Efnahagsástandið er ekki gott í Frakklandi, forsetinn og ríkisstjórnin njóta lítilla vinsælda, atvinnuleysi er um 10%. Vinstrisinnar hafa rekið þann áróður, að með stjórnarskránni yrði lagður grunnur að frjálshyggjusamfélagi í Frakklandi, félagsleg réttindi yrðu látin gjalda þess, ef menn segðu já, atvinnuleysi ykist, fyrirtæki flyttu starfsemi sína þangað sem vinnuafl væri ódýrara, það er til dæmis til Mið-Evrópu. Hægrimenn hafa óttast afsal fullveldis. Þá býr undir ótti við frekari stækkun ESB með inngöngu Tyrkja.

Eitt er hvað gerist í Frakklandi eftir nei-sigurinn - annað hvað gerist innan Evrópusambandsins. Sýnt hefur verið í fréttum, að leiðtogar sósíalista í öðrum Evrópulöndum, þ. á m. kanslari Þýskalands og forsætisráðherra Spánar, hafa blandað sér í frönsku kosningabaráttuna til að hvetja já-liðið til dáða. Það dugði ekki og eru úrslitin áfall fyrir alla evrópska jafnaðarmenn vegna þess hve þeir lögðu mikið undir.

Spánverjar hafa þegar samþykkt stjórnarskrána í þjóðaratkvæðagreiðslu og þýska þingið hefur einnig samþykkt hana. Var sagt í sjónvarpsumræðunum í kvöld, að þetta kynni að skapa vandræði í samskiptum Þýskalands og Frakklands, ríkjanna, sem telja sig einskonar eimreið ESB.

Í Þýskalandi ríkir pólitísk óvissa vegna fylgishruns jafnaðarmannaflokks Gerhards Schröders kanslara og væntanlegra sambandsþingkosninga þar.

Þjóðaratkvæðagreiðsla verður um stjórnarskrá ESB í Hollandi 1. júní og er nei-liðinu spáð sigri. Öll aðildarríki verða að samþykkja stjórnarskrána til að hún öðlist gildi.

Fyrir kosningarnar í Frakklandi hefur almennt verið kveðið svo fast að orði, að sigur nei-liðsins, sérstaklega ef hann yrði afgerandi, þýddi hið sama og dauði stjórnarskrárinnar í núverandi mynd. Sé munurinn 10% á jái og neii er um afgerandi neitun að ræða.

Þegar minniháttar ríki fella eitthvað ESB-skjal í þjóðaratkvæðagreiðslu er beðið um tíma og síðan kosið aftur, þegar talið er víst, að já-liðinu hafi aukist fylgi, eða samið er um takmarkaða aðild viðkomandi ríkis að einhverju samstarfi á vettvangi ESB. Öðrum augum er litið á Frakka og þess verður áreiðanlega langt að bíða að póltíska-elítan, sem fór fyrir já-liðinu í Frakklandi vilji aftur láta á það reyna, hvort afstaða hennar nýtur hylli almennings eða ekki. Þegar já-liði sagði, að nú væri hætta á bresti í samstarfi Þjóðverja og Frakka vegna þess, að Þjóðverjar hefðu samþykkt en Frakkar hafnað stjórnarskránni, var nei-liði fljótur að minna, að þýska þingið hefði sagt já en málið hefði ekki verið borið undir þýsku þjóðina.

Stjórnkerfi ESB hefur sætt síþyngri gagnrýni undanfarin ár fyrir að fjarlægjast um of hinn almenna borgara aðildarþjóðanna. Úrslitin í Frakklandi verða talin staðfesta réttmæti þessarar gagnrýni og krafan um minni miðstýringu og aukið samráð við aðildarþjóðir mun aukast.

Á þessari stundu ætla ég ekki að segja meira um úrslit þessara kosninga, en snemma í fyrramálið held ég til Brussel með félögum í Evrópunefndinni og verðum við þar á fundum fram á miðvikudag og síðan fer ég á ráðherrafund Schengen-ríkja, svo að ég fæ tækifæri til að kynnast viðbrögðum við franska neiinu í návígi í sjálfu höfuðvígi ESB.

Kynbundið ofbeldi

Miklar umræður hafa verið um kynferðisbrot og lagareglur um þau undanfarin misseri. Þingmenn stjórnarandstöðu hafa flutt tillögur um breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga um brot af þessum toga. Hefur mátt ráða af málflutningi þessara þingmanna, að sum ákvæði hegningarlaganna séu barns síns tíma og nauðsynlegt sé að laga þau að nýjum kröfum. Ég hef ekki gert athugasemdir við, að um breytingar á þessum ákvæðum sé rætt og því síður, að einhverjir telji þau barns síns tíma. Virðist ekki sama, hvenær þannig er talað um gildandi lög á þann veg, að þau standist ekki kröfur tímans.

Kolbrún Halldórsdóttir í vinstri/grænum flutti á þinginu 2003/2004 tillögu um vændi, og vildi hún, að farið yrði að fordæmi Svía, en með lögum hafa þeir gert kaup á vændi refsiverð. Tillagan náði ekki fram að ganga en skapaði miklar umræður, einkum utan þings. Á liðnum vetri skipaði ég starfshóp með fulltrúum allra þingflokka, ásamt fulltrúa dómsmálaráðuneytisins, til að kynna sér reynslu af mismunandi löggjöf um vændi, klámiðnað og mansal í Evrópu. Sérstaklega var þess farið á leit, að hópurinn kynnti sér reynsluna af fyrrgreindri löggjöf Svía.

Ég veit ekki hvað nefndin segir í væntanlegu áliti sínu, en á fundum um refsivert athæfi, sem ég hef setið erlendis undanfarna mánuði, hefur þessa leið Svía aldrei borið á góma, hefði þó til dæmis verið kjörið tækifæri til að afla henni alþjóðlegs fylgis á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um glæpi og refsingu í Bangkok í lok apríl sl.

Á síðasta þingi flutti Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar og nýkjörinn varaformaður (í umdeildri kosningu), tillögu um að afnema fyrningu á kynferðisbrotum gegn börnum. Tillaga hans naut stuðnings víða utan þings en refsiréttarfræðingar og þingmenn veittu tillögunni ekki brautargengi. Ég varð undrandi á því, að Ágúst Ólafur skyldi ekki taka því fagnandi, þegar meirihluti myndaðist í allsherjarnefnd alþingis um að taka hluta af tillögu hans til afgreiðslu. Vegna andstöðu Ágústs Ólafs og ágreinings innan allsherjarnefndar um leið meirihlutans lá málið óafgreitt í heild í þinglok.

Á liðnum vetri hefur hópur kvenna úr mörgum félagasamtökum tekið höndum saman um gerð aðgerðaáætlunar gegn kynbundnu ofbeldi og barst bréf frá hópnum til mín 21. mars sl. og skömmu síðar hitti ég fulltrúa aðgerðahópsins á fundi í ráðuneytinu. Ég sendi eftir hann bréf til allsherjarnefndar alþingis í apríl síðastliðnum, þar sem vakin var athygli á því, að erindi hefði borist frá aðgerðahópnum og sagt frá því, að tillögurnar beindust m.a. að breytingum á réttarkerfinu.  Ég hefði hug á því, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið myndi vinna úr þessum tillögum hópsins.

Í nóvember sl. óskaði ég eftir áliti refsiréttarnefndar á  sjónarmiðum, sem fram hefðu komið um, hvort setja bæri í almenn hegningarlög sérrefsiákvæði um heimilisofbeldi eða hvort áfram skyldi stuðst við núgildandi ákvæði hegningarlaga sem fjalla um ofbeldi. Þá fól ég ríkislögreglustjóra í febrúar sl. að setja verklagsreglur um skráningu og meðferð heimilisofbeldismála hjá lögreglu til að taka af tvímæli um vafaatriði við rannsókn þeirra og að breyta viðhorfum lögreglu til heimilisofbeldismála.

Á opnum, fjölmennum morgunverðarfundi, sem aðgerðahópurinn boðaði til föstudaginn 27. maí, rakti ég það, sem gert hefði verið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og skýrði jafnframt frá því, að ég hefði falið Ragnheiði Bragadóttur, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, að huga að breytingum og semja drög að frumvarpi á þeim ákvæðum í kynferðisbrotakafla almennra hegningalaga, sem eru um nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks, kynferðisbrot gegn börnum og vændi.

Ég tel miklu skipta, að við endurskoðun á ofangreindum ákvæðum í kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga verði byggt á traustum refsiréttarlegum grunni og tekið mið af alþjóðlegri þróun á þessu sviði auk íslenskrar lagahefðar. Jafnframt er nauðsynlegt að fá yfirlit yfir beitingu hinna íslensku lagaákvæða á þeim 13 árum, sem liðin eru frá samþykkt þeirra. Almennu hegningarlögin eru grundvallarlög og ekki megi rasa um ráð fram við uppbrot eða breytingar á þeim, þótt þau verði að sjálfsögðu að svara kalli tímans.

Stórhuga skipulag.

Við borgarfulltrúar sjálfstæðismanna kynntum fimmtudaginn 26. maí hugmyndir okkar um skipulag Reykjavíkur, sem miðar að því að tengja eyjarnar, Akurey og Engey, borginni og leggja Sundabraut í einum áfanga upp á Kjalarnes með íbúabyggð á Geldinganesi.

Þetta eru stórhuga skipulagstillögur og hafa almennt fengið góðar undirtektir. Þær endurspegla hinn góða samstarfsanda í okkar hópi og viljann til að ganga til næstu borgarstjórnakosninga með skýra og þaulrædda stefnu.

Sú gagnrýni, að í tillögunum sé ekki tekin afstaða til framtíðar Vatnsmýrarinnar, sýnir, að enn virðast þeir, sem þannig tala ekki átta sig á því, hve ófullburða allar umræður um þetta mál eru, vegna þess hve illa R-listinn hefur haldið á því í tæp tólf ár. Vandræðagangurinn vegna Vatnsmýrarinnar lýsir sér vel í því, hvernig staðið er að tilboðinu til Háskólans í Reykjavík, en mér sýnist æ fleiri vera að átta sig á því, að það er í raun gefið út í loftið, þegar hvorki hefur verið rætt um það í umhverfisráði né skipulagsráði, áður en það er lagt fyrir stjórnendur skólans.

Með tillögum okkar í skipulagsmálum höfum við sjálfstæðismenn tekið frumkvæði í umræðum um þau.