15.5.2005

Þingfrestun – ný lög – skipt um flokka.

Fundum alþingis var frestað fram á haust miðvikudaginn 11. maí og var það í samræmi við starfsáætlun þingsins. Strax daginn eftir klukkan 06.30 var haft orð á því við mig í Sundhöllinni, að nú væri ég kominn í frí. Ég andmælti því eins og svo oft áður. Það er mikill misskilningur, að ráðherrar og þingmenn fari í frí, þótt ekki séu fundir á alþingi – vissulega er frí frá þeim fundum en verkefnin, sem við er að fást eru fleiri en þau að sitja á fundum í þinginu. Raunar má færa að því rök, að því meiri tíma, sem menn hafi til að sinna heimavinnu, því árangursríkari séu fundirnir í þingsalnum.

Það fór fram skrýtin umræða á þingi um hádegisbilið 11. maí, eftir að Halldór Ásgrímsson hafði sem forsætisráðherra flutt tillögu um frestun þingsins. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, kvaddi sér hljóðs og tók að ræða starfsáætlun þingsins og taldi að haga ætti þingstörfum á allt annan veg en samkvæmt henni. Hópur þingmanna tók til máls, eftir að Kristinn hafði riðið á vaðið, en ég hlustaði ekki á neina af þessum ræðum og get því ekki sagt neitt um það, hvernig orð féllu í henni.

 

Ég segi, að umræðan hafi verið skrýtin vegna þess að hún hófst, eftir að samkomulag hafði tekist á milli þingflokksformanna um það, hvernig staðið skyldi að þinglokum þennan sama dag. Virtist mér einna helst, að Kristinn H. Gunnarsson teldi það sér til framdráttar utan þings að gera það tortryggilegt, að fundum þingsins yrði frestað. Þá var endurtekinn gamli frasinn um, að þingfrestun byggðist á tilliti til sauðburðar, en við aðra þjóðfélagshætti var ekki óeðlilegt að miða við slíkar skyldur – auðvitað ráða þeir hættir ekki tímasetningum nú á tímum.

 

Morgunblaðið endurflutti boðskap sinn um, að alþingi mætti ekki ljúka með því að afgreiða mörg mál of fljótt, því að það yki hættu á mistökum við lagasetningu. Blaðið hefur oft á undanförnum árum fundið að því, að mál safnist upp undir þinglok og þeim sé síðan rennt í gegn með hraði. Um þetta gildir hið sama og í blaðamennsku, margir draga því miður eins lengi fram eftir degi og þeir geta að skila efni sínu fyrir næsta dag, þótt æskilegra væri fyrir alla, sem að útgáfu blaðsins starfa, að efnisflæðið væri jafnt og þétt allan daginn.

 

Starf stjórnenda blaða snýst  mjög um að sjá til þess, að menn virði það, sem á máli blaðamanna er kallað deadline eða síðustu mínútu til að koma efni í blaðið – á öllum ritstjórnum ganga menn á það lag að hafa slíkar tímakröfur að engu. Síðustu forvöð til að skila málum á þingi er 1. apríl ár hvert og hefur virðing fyrir þeirri dagsetningu aukist, ef mikið liggur við er unnt að fara fram á afbrigði frá henni. Auðvitað er ekki til fyrirmyndar, að mál hrúgist inn á þing rétt fyrir þessa dagsetningu, því að þá verður álag á nefndir meira en góðu hófu gegnir, en ekkert mál er afgreitt, án þess að það sé grandskoðað í þingnefnd og með sérhæfingu nefndanna og langri setu margra þingmanna í þeim hefur sérþekking einstakra þingmanna stóraukist og auðveldað þeim að taka á flóknum málum á skemmri tíma en ella væri.

 

Innan þeirra ráðuneyta,  þar sem ég verið ráðherra, hef ég lagt áherslu á, að nokkur frumvörp séu tilbúin strax í upphafi þings á haustin og síðan sé önnur kippa lögð fram í upphafi vorþings, það er eins fljótt og unnt er eftir jólaleyfi. Ég hef ekki heldur hikað við að kalla frumvörp til baka eða láta þau liggja á milli þinga í heild eða að hluta, ef ég tel, að það verði máli til framdráttar. Um sum mál næst að sjálfsögðu aldrei sátt milli stjórnar og stjórnarandstöðu en þau eru miklu fleiri málin, sem afgreidd eru í sátt á alþingi en ágreiningi.

 

Undanfarin ár hafa nýjar starfsaðferðir verið að mótast á alþingi og innan hins hefbundna þingtíma frá 1. október fram í miðjan maí, er reglulega gert hlé á þingfundum til að greiða fyrir nefndarstörfum eða ferðum þingmanna um kjördæmi sín. Ef mönnum finnst of skammur tími, að alþingi sitji þennan tíma formlega að störfum, mætti hugsa sér að skipta árinu í þrjár þinglotur, til dæmis átta mánuði samtals með nokkurra vikna hléum á milli. Hitt er síðan sjónarmið, sem hafa verður í huga, að ekki er til neins að þing sitji bara til þess að sitja, það verður að hafa verðug viðfangsefni.

 

Ný lög.

 

Af frumvörpum, sem ég lagði fram á þessu þingi, var ágreiningur einna mestur um breytingu á lögum um gjafsókn. Það náði ekki fram að ganga á vorþingi 2004 en var samþykkt á miðju þingi, sem nú var að ljúka.

 

Í fyrra afturkallaði ég frumvarp um fullnustu refsinga og lagði það fram í breyttri mynd á haustþingi, það varð að lögum með sameinaða allsherjarnefnd að baki, hið sama er að segja um frumvarp til happdrættislaga en þar var verið að breyta um 80 ára gömlum lögum. Næsta verkefni þar er að fara yfir sérlög um happdrætti, lottó o.fl. og laga þau að nýjum aðstæðum.

 

Síðustu daga þingsins var samþykkt breyting á lögum um innheimtu sekta. Af þeim frumvörpum, sem ég flutti í vetur, snertir þetta ef til vill okkur mest í daglegu lífi okkar, fyrir utan frumvarpið, sem gerir fleiri verslunum en áður kleift að veita þjónustu föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag. Reglurnar um breytingu á sektarinnheimtu heimilar lögreglu að ljúka málum á staðnum, til dæmis við brot á umferðalögum og menn eiga að geta greitt sekt beint til lögreglu, samþykki þeir, að hafa brotið af sér.

 

Frumvarp samgönguráðherra, sem ég ræddi í síðasta pistli, varð að lögum. Á síðasta stigi málsins snerust umræður um það, hvort ákvæði ættu frekar heima í þessum lögum eða lögum um meðferð opinberra mála. Segja má, að slíkar vangaveltur lúti öðrum þræði að ritstjórn á lagasafni. Nú er unnið að endurskoðun laga um meðferð opinberra mála og hafa þeir, sem það verk vinna, heitið mér því, að frumvarp liggi fyrir næsta haust. Þá væri unnt að flytja ákvæði úr fjarskiptalögum inn í það frumvarp, ef menn teldu það til bóta.

 

Í vetur hefur töluvert veður verið gert út af frumvarpi Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmann Samfylkingarinnar, um fyrningu kynferðisbrota. Sérfræðingar í refsirétti, sem komu á fund allsherjarnefndar alþingis, lögðust gegn því, að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Meirihluti nefndarinnar flutti breytingartillögu og þá gerði Jónína Bjartmarz, þingmaður Framsóknarflokksins, einnig breytingartillögu næst síðasta dag þingsins. Ágúst Ólafur sætti sig ekki við neina breytingu á frumvarpi sínu og féll málið því milli stafs og hurðar síðustu daga þingsins.

 

Mér þótti mikil skammsýni hjá Ágústi Ólafi að taka því ekki fagnandi, að í allsherjarnefnd var vilji til þess að samþykkja hluta af tillögu hans. Ef hann hefði slegist í hóp með þeim, sem að þeirri breytingu stóðu, hefði hún orðið að lögum núna í vor. Ágúst Ólafur kaus hins vegar að heimta allt eða ekkert og sat eftir með sárt enni – því að hann fékk ekkert. Síðasta dag þingsins þótti honum síðan sæma að ráðast á forseta alþingis fyrir að málið væri ekki á dagskrá lokafundarins!

 

Ég sendi allsherjarnefnd alþingis bréf á dögunum og skýrði frá því, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið mundi skoða ákvæði laga, sem lúta að kynferðislegu ofbeldi laga í ljósi umræðna og nú síðast aðgerðaáætlun, sem mér hefur verið kynnt af fulltrúum ýmissa félagasamtaka. Verður gengið til þess verks af hálfu ráðuneytisins nú í sumar.

 

Þingnefndir gegna lykilhlutverki við afgreiðslu allra mála á alþingi og miklu skiptir, að þeim sé stjórnað á þann veg, að frekar sé stuðlað að sátt um mál en þau séu í uppnámi. Oft getur verið erfitt og viðkvæmt að finna sáttaflöt innan nefndar, en til að það takist þurfa bæði flutningsmenn og nefndarmenn að sýna sáttavilja. Stundum tekst að sjálfsögðu ekki að ná einróma niðurstöðu um mál. Flokksfélagar mínir, sem sitja í allsherjarnefnd, en hún fjallar um mál frá dóms- og kirkjumálaráðherra, leggja sig mjög fram um vönduð vinnubrögð undir formennsku Bjarna Benediktssonar. Hefur nefndin áunnið sér virðingu langt út fyrir veggi alþingis fyrir störf sín undanfarin misseri.

 

Skipt um flokka.

 

Síðasta dag þingsins þótti hvað fréttnæmast, að Gunnar Örlygsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, tilkynnti úrsögn sína úr þingflokki frjálslyndra og inngöngu í þingflokk okkar sjálfstæðismanna. Þingflokkur okkar kom saman á ellefta tímanum að kvöldi 11. maí og samþykkti einum rómi að taka á móti Gunnari. Hann hafði fengið sig fullsaddan á samstarfi eða réttara sagt samstarfsleysi innan þingflokks frjálslyndra auk þess sem hann taldi flokkinn hafa flotið of langt til vinstri.

 

Atburðir af þessu tagi eru sjaldgæfir á alþingi og augljóst, að þeir þrír, sem sitja eftir fyrir frjálslynda á þingi, vita ekkert, hvernig þeir eiga að taka á málinu. Líklega væri skynsamlegast fyrir þá að segja sem minnst um það og einbeita sér að því að halda lífi í flokkskrílinu, sem virðist nú komið á sömu braut inn á spjöld sögunnar og aðrir skammlífir smáflokkar. Stjórnmálasagan geymir mörg dæmi um, hve fljótt slíkir flokkar geta horfið í gleymskunnar dá, þótt þeir þyki sæta miklum tíðindum um þær mundir, sem þeir fæðast.

 

Frjálslyndi flokkurinn missti fótanna í kvótamálinu fyrir ári, þegar alþingi samþykkti breytingu á lögunum um fiskveiðistjórnun og smábátar fóru inn í kvótakerfið. Enginn flokkur lifir til lengdar án skýrrar stefnu eða á því einu að vera sífellt að jagast í öðrum.

 

Fram undir formannskjörið í Samfylkingunni börðu talsmenn hennar sér á brjóst og ræddu um nauðsyn þess að efla lýðræði og auka gagnsæi í öllum störfum stjórnmálaflokka. Starfsemi flokka ætti að vera eins og opin bók og var það talin meðal helstu meinsemda íslensks stjórnmálalífs, hve lokaðir stjórnmálaflokkarnir væru. Þá var einnig gumað af siðareglum Samfylkingarinnar og þær taldar sanna, að hún væri opnari og betri en allir aðrir stjórnmálaflokkar í landinu.

 

Það hefur heldur betur fallið á þetta skrautsilfur Samfylkingarinnar í hita leiksins.

 

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður flokksins og einn helsti siðapostuli hans á þingi, hefur sagt, að siðareglurnar frá 1999 séu lítils ef nokkurs virði, af því að enginn sé að fylgja þeim eftir.

 

Síðustu daga hefur verið upplýst, að leynd eigi að hvíla yfir því, hverjir ganga í Samfylkinguna og hefur starfsmaður á skrifstofu flokksins verið rekinn vegna grunsemda um, að hann hafi stuðlað að því að upplýst var, að Helga Jónsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður Steingríms Hermannssonar og kjarnamanneskja í Framsóknarflokknum, hafi gengið í Samfylkinguna. Hún hafi skipt um flokk með því skilyrði, að hún gæti kosið Ingibjörgu Sólrúnu, án þess að nokkur vissi um vistaskiptin. Henni hefði verið lofað algjörum trúnaði og leynd.

 

Vissulega er munur á því fyrir þingmann að skipta flokk en einn æðsta embættismann Reykjavíkurborgar, en Helga Jónsdóttir er í hópi þeirra. Það hefði aldrei komið til álita fyrir Gunnar Örlygsson að skipta um flokk, án þess að kynna það á þann veg, sem hann gerði í ræðustól á alþingi. Að það þurfi SMS-boð vegna pylsupartýs Össurar Skarphéðinssonar og brottrekstur starfsmanns Samfylkingarinnar til að upplýsa okkur um pólitísk vistaskipti Helgu Jónsdóttur er ekki til marks um eðlislægt gagnsæi í starfi stjórnmálaflokks. Hvers vegna þetta pukur?