30.4.2005

Ásdís Halla til Byko - flugvellir og Ingibjörg Sólrún - HR í Nauthólsvík

Ásdís Halla Bragadóttir, sem var um árabil aðstoðarmaður minn í menntamálaráðuneytinu, hefur ákveðið að hætta sem bæjarstjóri í Garðabæ og taka við starfi forstjóra Byko. Um leið og ég óska henni til hamingju með vistaskiptin, get ég tekið undir það, sem sagt var í einhverjum umræðuþætti, þar sem á málið var minnst, að kannski megi líta á þetta sem nýtt upphaf á þátttöku Ásdísar Höllu í stjórnmálum. Hvort sé í raun áhrifameira að stjórna Garðabæ eða Byko? Þessi spurning á rétt á sér, þegar litið er til framvindu mála í þjóðfélaginu - en stjórnmálastarf á einmitt að snúast um, að skapa borgurum sem best kjör og mest rými til orðs og æðis. - Stefnir ekki heiðarleg samkeppni í verslun og viðskiptum á sömu sömu markmiðum?

Orðið „atvinnustjórnmálamaður“ er notað í niðrandi merkingu og starfsgreinin ekki talin merkileg - eins og ég hef áður sagt, leggja stjórnmálamenn sjálfir verulega mikið af mörkum til að niðurlægja eigin starfsgrein og gera hana að blóraböggli fyrir allt, sem miður fer. Þeir fá góðan og vaxandi stuðning í því efni frá fjölmiðlum.

Eftir að dagblöð hættu að vera í eigu stjórnmálaflokka eða ritstjórar töldu það best til að sanna eigið ágæti, að þeir ættu ekki neitt trúnaðarsamstarf við stjórnmálamenn, sneru fjölmiðlar athygli sinni í vaxandi mæli að stórfyrirtækjum og öðrum auglýsendum, uppsprettu tekna sinna. Nú kemur Viðskiptablaðið út tvisvar í viku og Morgunblaðið og Fréttablaðið heyja harða baráttu um það, hvort sé með besta viðskiptablaðið og mest efni um viðskiptaleg málefni.

Um nokkurt árabil hefur því verið haldið fram af fjölmiðlamönnum, að þjóðfélagsþróunin mótist meira af því, sem er að gerast í viðskiptalífinu en á vettvangi stjórnmálanna. Fjölmiðlafrásagnir af því, sem gerist í alþingi eða sveitarstjórnum, eru mun viðaminni og yfirborðskenndari en það, sem sagt er um viðskiptalífið, strauma og stefnur þar. Í þessu sambandi er þess einnig að geta, að öflugasta verslunarkeðja landsins er með hlutdeild í um 70% fjölmiðla og notar þá til að gæta hagsmuna sinna, enda er það bábilja, að eigendur fjölmiðla láti sér efni þeirra eða efnistök í léttu rúmi liggja.

 

Inntak stjórnmálastarfs hefur breyst á undanförnum árum, en í dag 30. apríl, eru 14 ár liðin, frá því að Davíð Oddsson myndaði fyrsta ráðuneyti sitt og síðan hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið leiðandi afl og þungamiðja stjórnmálalífsins. Á þessum árum hafa stjórnmálamenn dregið markvisst úr afskiptum sínum af viðskiptalífinu og með sölu Símans, sem nú er á döfinni, hafa öll stóru ríkisfyrirtækin fyrir utan ríkisútvarpið og Landsvirkjun auk annarra orkufyrirtækja verið seld.

 

Þróunin á fjölmiðlamarkaði og sérstaklega innan ríkisútvarpsins er smátt og smátt að sannfæra mig um, að ríkið eigi í mesta lagi að láta við það eitt sitja að standa fjárhagslega (með framlagi á fjárlögum) að baki rásar 1. Hvergi hefur þjónusta við almenning versnað með því að sleppa hönd ríkisins af henni. Ef orkufyrirtækin yrðu seld, væri hins vegar óhjákvæmilegt að leggja á þau ævarandi gjald vegna auðlindanýtingar - vatnsaflið er sameign þjóðarinnar.

 

Hin nýja þjóðfélagsgerð leiðir til breytinga á eðli stjórnmálastarfs. Hún felur í sér, að í stað þess að bera ábyrgð á opinberum rekstri, er það hlutverk stjórnmálakerfisins að veita öflugt, sanngjarnt og nútímalegt aðhald. Að sumu leyti er þetta gert með setningu laga og reglna og að hinu með því að tryggja öflugt eftirlit af hálfu stofnana, sem starfa fyrir opnum tjöldum.

 

Ásdís Halla Bragadóttir hóf starfsferil sinn sem blaðamaður í viðskiptafréttum á Morgunblaðinu, síðan starfaði hún fyrir þingflokk sjálfstæðismanna, þá varð hún aðstoðarmaður minn og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, hún fór í meistaranám við John F. Kennedy skólann í Harvard, skrifaði bók um leiðtoga og starfaði við Háskólann í Reykjavík en varð síðan bæjarstjóri í Garðabæ fyrir fimm árum.

 

Ef Ásdís Halla hefði haldið áfram á þessari braut, hefði hún líklega fljótlega  verið kölluð „atvinnustjórnmálamaður“ og ekki hefði liðið á löngu, þar til fjölmiðlamenn færðu hana í þá skúffu, þar sem þeir telja, að slíkir gripir séu best geymdir. Þeir eigi að skýra frá eignum sínum, það eigi að skamma þá, ef laun þeirra séu hækkuð, og það sé eitt stórfellt hneyksli, að eftirlaunakerfi þeirra taki mið af því, að almennt eru þeir skamma stund í ráðherraembættum.

 

Ég átti nokkur ár í fimmtugt, þegar ég ákvað að hefja beina þátttöku í stjórnmálum og gefa kost á mér í prófkjöri sjálfstæðismanna haustið 1990 - ég hefði áður getað valið mér starfsframa við bókaútgáfu, á vettvangi stjórnarráðsins sem embættismaður eða sem blaðamaður en kaus að taka áhættuna, sem felst í stjórnmálastarfi. Ég er sannfærður um, að ég valdi rétt og að á undanförnum 14 árum hafi okkur samflokksmönnunum tekist að koma jafnvel meiru í verk en við væntum, þegar ferðin hófst.

 

Um leið og menn tala stjórnmálastarf niður, verða þeir að hugleiða, hvernig fólk þeir vilja hafa á þeim væng þjóðlífsins. Staðreynd er, að deilur á vinnustað, hvort heldur opinberum eða einkareknum, eru síst til þess fallnar að laða fólk að vinnustaðnum og sé síðan vegið af ósanngirni að þeim, sem þar vinna, og jafnframt látið í veðri vaka, að starfið sé oflaunað og eftirlaunakjörin of góð, þótt samanburður við kjör þeirra, sem gegna ábyrgðarstörfum annars staðar í þjóðfélaginu, sýni, að slíkt tal á ekki við nein rök  að styðjast, er ekki endilega stuðlað að því, að slíkur vinnustaður sé hinn fyrsti, sem komi í hugann, svo að ekki sé minnst á þá fjármuni og baráttu, sem það kostar að taka þátt í prófkjöri og komast þá leið inn í starfið.

 

Ég sé ekki eftir að hafa farið inn á þennan vettvang og ég vil, að hann sé aðlaðandi fyrir öfluga einstaklinga, sem hafa heilbrigða afstöðu til þess, hvernig þjóðfélagið á að dafna.  Undanfarin 14 ár hefur okkur tekist að þróa þjóðfélagið til réttrar áttar og gífurlega mikill árangur hefur náðst, vegna þess að við bárum gæfu til að virkja afl og frumkvæði einstaklinga og gefa fyrirtækjum þeirra ný tækifæri og gömul og stöðnuð ríkisfyrirtæki hafa gengið í endurnýjun lífdaga með frelsinu.

 

Ekkert af því, sem gert hefur verið á stjórnmálavettvangi, er sjálfgefið, heldur ræðst af því, að teknar séu ákvarðanir, sem byggjast á lífsskoðun og trú á því, hvað þjóðinni sé fyrir bestu. Að lokum er það þetta, sem skiptir mestu, þegar lagt er mat á stjórnmálastarf og áhrif en ekki hversdagslegar deilur um fjárveitingu til þessa verkefnis eða hins eða val á þessum einstaklingi eða hinum við embættaveitingu.

 

Ég hóf þessa hugleiðingu vegna ákvörðunar Ásdísar Höllu um að hverfa til starfa hjá Byko, þótt hún ætti að allra mati vísan frama á vettvangi  atvinnustjórnmálamanna. Hún á þann frama vafalaust vísan síðar, eins og allt hæfileikafólk, sem vill helga sig stjórnmálastarfi í hefðbundinni merkingu. Ásdís Halla kveður vettvang stjórnmálanna alls ekki með því að tala niður til hans, hún veit, hverju er unnt áorka þar með skýrri stefnu og markvissum vinnubrögðum. Ég lít á það, sem viðurkenningu á pólitískum árangri liðinna 14 ára, að Ásdís Halla  kjósi að láta að sér kveða sem leiðtogi eins öflugasta fyrirtækis í íslensku atvinnulífi.

 

Flugvellir og Ingibjörg Sólrún.

 

Í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins í dag, 30. apríl. var sagt frá orðaskiptum vegna skýrslu Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra til alþingis 29. apríl milli ráðherrans og Jóns Gunnarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og oddvita Vatnsleysustrandarhrepps. Jón, sem er stuðningsmaður Ingibjargar Sólrúnar í formannskjöri Samfylkingarinnar, gagnrýndi, hve hægt miðaði í viðræðum við Bandaríkjamenn um framtíð varnarliðsins. Davíð fór yfir stöðu málsins en benti síðan á, að þessi gagnrýni frá Jóni kæmi úr einkennilegri átt, þegar litið væri til afstöðu Ingibjargar Sólrúnar til varnarliðsins, en hún skipaði sér á sínum tíma í raðir herstöðvaandstæðinga. Ég hef fjallað um þessa afstöðu hennar oftar en einu sinni hér á síðunum. Hinn 5. júlí 2003 sagði ég til dæmis í pistli:

 

„Í Morgunblaðsgrein laugardaginn 15. mars síðastliðinn sagði ég frá skoðunum Ingibjargar Sólrúnar á grundvelli frétta úr kosningabaráttunni:

 

„Á dögunum fékk ég fyrirspurn frá jafnaðarmanni, sem hafði verið á Samfylkingarfundi með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Reykjanesbæ. Hún teldi varnarsamninginn ekki lengur í gildi og áréttaði, að hún hefði verið herstöðvaandstæðingur. Bað hann mig að skýra stöðu samskiptanna við Bandaríkjamenn fyrir sér, því að málflutningur Ingibjargar Sólrúnar hafði greinilega vakið fleiri spurningar en svör.

 

Frásögn Morgunblaðsins í gær af ræðu Ingibjargar Sólrúnar á Höfn í Hornafirði segir okkur, að hún búist við því, að ekki líði á löngu, þar til Íslendingar taki við stjórn Keflavíkurflugvallar af Bandaríkjamönnum og þá verði Reykjavíkurflugvelli lokað. Hvaða viðhorf til varnar- og öryggismála Íslendinga felst í þessum orðum?““

 

Athyglisvert er, að fréttastofu hljóðvarps ríkisins þótti það ekki fréttapunkturinn í orðaskiptum þeirra Davíðs og Jóns á alþingi 29. apríl 2005, að Davíð benti á andstöðu Ingibjargar Sólrúnar við varnarliðið, heldur hitt, að Jón taldi Davíð vera að skipta sér af formannskjöri Samfylkingarinnar með því að benda á þessa skoðun Ingibjargar Sólrúnar!

 

Eins og tilvitnunin hér að ofan sýnir, var það skoðun Ingibjargar Sólrúnar í mars 2003, að Keflavíkurflugvelli yrði fljótlega stjórnað af Íslendingum, líklega vegna brottfarar Bandaríkjamanna, og þá yrði Reykjavíkurflugvelli lokað.

 

Ef það er túlkað, sem íhlutun í kosningabaráttu Samfylkingarinnar, að ræða þessa skoðun Ingibjargar Sólrúnar, tek ég hiklaust þá áhættu. Hvorki Jón Gunnarsson né fréttastofa hljóðvarps ríkisins koma í veg fyrir umræður um þessi mál með vísan til þess, að stjórnmálamenn í öðrum flokkum ræði skoðanir hugsanlegs formanns Samfylkingarinnar. Þær skoðanir skipta máli, án tillits til þess, hver vekur á þeim athygli.

 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formannsframbjóðandi sat fyrir svörum í Íslandi í dag á Stöð 2 13. apríl síðastliðinn þar sem þau Þórhallur Gunnarsson (ÞG) og Svanhildur Hólm (SH) voru spyrjendur. Í þættinum urðu þessi orðaskipti:

 

„SH: En hvað þá með flugvöllinn? Ertu ennþá á þeirri skoðun að hann eigi að fara?

 

ISG: Sko, Reykvíkingar eru búnir að greiða atkvæði um það mál, þeir greiddu ?

 

SH: Það var nú tiltölulega lítil þátttaka í þeim kosningum og ekki bindandi að ykkar mati.

 

ISG: Það breytir ekki því ?

 

ÞG: En hver er þín skoðun á því?

 

ISG: Það breytir ekki því að þetta er niðurstaðan í allsherjaratkvæðagreiðslu hjá borgarbúum.

 

ÞG: Hvað vilt þú?

 

ISG: Ég vil að við stöndum um það nema önnur ákvörðun sé tekin, við getum ekki hunsað þennan vilja. Hins vegar verðum við að athuga það núna að það eru 11 ár þangað til eitthvað á að fara að gerast í þeim málum og að ætla sér að vera í þeirri umræðu af þeim krafti sem núna er það er svona að ætla að stökkva yfir lækinn úti á miðju túni.

 

ÞG: Við hljótum að spyrja þig að því hver er afstaða þín til flugvallarins því að þetta varðar allt landið.

 

ISG: Já, ég segi það. Ég stend við þessa við þessa niðurstöðu sem að Reykvíkingar komust að, að sjálfsögðu, ég lít svo á að ég sé siðferðilega bundin af þeirri niðurstöðu. En ef að ?

 

ÞG: Að þú viljir að flugvöllurinn fari ?

 

ISG: ? menn koma upp með einhverjar aðrar hugmyndir þá er auðvitað ? þá er ekkert á móti því að þær séu bornar undir Reykvíkinga en það verður að gerast þannig. Og við hefðum auðvitað gjarnan viljað að það kysu fleiri um þetta mál en okkar umboð náði bara til Reykvíkinga.“

 

Ég ætla að fara aðeins yfir þetta:

 

Í mars 2003 telur Ingibjörg Sólrún, að fljótlega taki Íslendingar við stjórn Keflavíkurflugvallar og þá verði Reykjavíkurflugvelli lokað.

 

13. apríl 2005 telur Ingibjörg Sólrún ekki ástæðu til að ræða framtíð Reykjavíkurflugvallar af neinum krafti, því að það séu 11 ár þangað til „eitthvað á að fara að gerast í þeim málum“ og séu menn að ræða þau sérstaklega núna sé það „svona að ætla að stökkva yfir lækinn úti á miðju túni“ (svo!).

 

Ingibjörg Sólrún segist siðferðilega bundin af atkvæðagreiðslu, sem ekki er bindandi, en komi aðrar hugmyndir megi kjósa um þær aftur (!) og þá jafnvel með þátttöku fleiri en Reykvíkinga - en þetta er einmitt tillaga, sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti okkar sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, hefur hreyft án mikilla undirtekta hjá R-listanum. Breytti Vilhjálmur skoðun Ingibjargar Sólrúnar? Er hún ein innan R-listans með þessa nýju skoðun?

 

HR í Nauthólsvík.

 

Ég ætla ekki hér og nú að setja þessi ummæli Ingibjargar Sólrúnar um Reykjavíkurflugvöll inn í frekara samhengi, hvorki við hennar fyrri yfirlýsingar né annarra R-listamanna. Ég ætla aðeins að endurtaka það, sem ég sagði í síðasta pistli mínum, að mér er óskiljanlegt, hvernig stjórnendum Háskólans í Reykjavík datt í hug að láta draga sig og skóla sinn inn í þá ruglandi, sem ríkir hjá R-listanum vegna Vatnsmýrarinnar.

Að ég skyldi líkja verndun svæðisins við Nauthólsvík, Öskjuhlíðina og ströndina fyrir neðan Fossvogskirkjugarðinn við verndun Stórasands og Kárahnjúka fór fyrir brjóstið á einhverjum. Mér er ljúft að nefna þetta allt aftur í sömu andránni.

Ég hef ekki verið andstæðingur framkvæmda við Kárahnjúka og ekki tekið afstöðu gegn vegi yfir Stórasand. Að baki ákvörðuninni um Kárahnjúka bjó margra ára vísindastarf. Ákvörðun verður ekki tekin um framkvæmdir á Stórasandi án vísindalegra athugana og umhverfismats.

Ég hef ekki undir höndum, þó sit ég í borgarstjórn Reykjavíkur, niðurstöður neinna rannsókna eða umhverfismats vegna þeirrar ráðstöfunar, að Háskólinn í Reykjavík skuli verða við Nauthólsvík,  þennan viðkvæma stað. Eina skjalið, sem ég hef um þetta mál, er áróðurskenndur bæklingur, sem var saminn í flýti til að ganga í augun á Háskólanum í Reykjavík. Í  borgarstjórn var látið í það skína, að bæklingurinn ætti ekki að fara fyrir sjónir almennings.

Barnaleg sjónarmið eins og þau, að eyðilegging á þessu svæði við Nauthólsvík sé í lagi, þar sem HR starfi ekki á sumrin, duga ekki til að breyta skoðun minni. Nú snýst samkeppni háskóla hér og annars staðar um skólastarf allt árið.  Slík rök breyta ekki skoðun minni frekar en tal vinstri/grænna um umhverfisvænan háskóla. Ætlar HR að verða háskóli án einkabíls? Af hverju er þeirri spurningu ekki svarað. Á nemendafélagið að gera það?

Hvernig væri að byrja á því að láta framkvæma umhverfismat á HR og umsvifum vegna hans við Nauthólsvíkina? Að minnsta kosti áður en umhverfissinnar taka af skarið og fullyrða, að háskóli á þessum stað skipti engu fyrir umhverfið.