9.4.2005

Þórshöfn - Helsinki - Róm - Reykjavík.

Margt hefur á dagana drifið í vikunni. Eftir að hafa setið ríkisstjórnarfund í hádeginu á mánudag, ók ég út á Reykjavíkurflugvöll og tók þotu færeyska flugfélagsins Atlantic Airways til Færeyja - þetta félag er hið eina, sem fær að reka áætlunarflug með þotu frá Reykjavíkurflugvelli. Var óneitanlega þægilegt og sparaði tíma að þurfa ekki að aka til Keflavíkur til að komast í þessa Færeyjaferð, en hana fór ég að ósk landstjórnarinnar þar til að ræða við hana og embættismenn hennar um Evrópumálefni. Fundurinn var liður í röð málþinga landstjórnarinnar til að ræða álitamál, sem hafa munu áhrif á framtíð eyjanna, stjórnmál og stöðu þeirra í alþjóðasamfélaginu. Þennan sama mánudag, 4. apríl, var Jóannes Eidesgaard lögmaður eða forsætisráðherra Færeyja einmitt í Kaupmannahöfn að rita undir samstarfsamning við Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, sem skilgreinir stöðu Færeyja betur en áður innan danska ríkisins og þau málefni, sem næstu ár munu falla undir valdsvið landstjórnarinnar. Hvenær Færeyingar stíga næsta skref í átt til sjálfstæðis og þá líklega fulls sjálfstæðis mun ráðast af því, hvort eða hvenær olía finnst innan færeyskar lögsögu.

Johannes Eidesgaard setti málþingið og lét þess getið, að ég væri ekki fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í þessari málþingsröð landstjórnarinnar, því að Þorvaldur Gylfason prófessor hefði verið málshefjandi á undan mér. Samtímis mér voru þeir Claus Grube, sendiherra Dana hjá Evrópusambandinu, og William Rossier, framkvæmdastjóri EFTA, ræðumenn og ræddum við Evrópumálin, hver frá okkar sjónarhóli.

Rossier er svissneskur diplómat og tók þátt í EES-viðræðunum á sínum tíma og telur, að Svisslendingar hefðu betur samþykkt þátttöku í EES, því að tvíhliða samningar þeirra við Evrópusambandið (ESB) byggist ekki á hinu lifandi eðli, sem einkennir EES-samninginn, það er að innan ramma hans breytist inntak hans stöðugt með framvindu löggjafarmálefna innan ESB. Rossier er síður svo þeirrar skoðunar, að EES-samningurinn hafi veikst í áranna rás, hann haldi auðvitað óhögguðu gildi sínu sem alþjóðasamningur.

Vangaveltur um afstöðu okkar Íslendinga til ESB eru greinilega töluverðar meðal Færeyinga og þangað berast eins og annað fréttir öðru hverju, sem menn túlka á þann veg, að einhver þáttaskil séu að verða í íslenskum Evrópuumræðum. Eins og við vitum, sem þekkjum til mála, er hér jafnan um óskhyggju þeirra að ræða, sem vilja Ísland í ESB og ofurtúlkun þeirra á opinberum ummælum, sem stundum eru greinilega viljandi tvíræð - kannski til að komast í fjölmiðla, en þeir bíta ótrúlega fljótt á agnið, þegar Evrópumál ber á góma.

Margot Wallström er fulltrúi Svía í framkvæmdastjórn ESB og fór með umhverfismál undir forsæti Romanos Prodis en sér núna um stofnana- og samskiptamálefni. Hún heldur úti blog-síðu: http://weblog.jrc.cec.eu.int/page/wallstrom/ og segir þar meðal annars frá ferðum sínum. Nýlega var hún í Ósló og sagði eftir þá heimsókn:

Two negative referenda on EU membership has made the political parties in Norway very prudent in handling EU affairs and it will take a lot of courage to arrange another referendum..
But my impression is that if Iceland applies for EU membership soon that will create a push for Norway too: more than if Sweden or Denmark would try to influence them?
And it was after all only a hundred years ago that Norway broke up the union with Sweden? “

Af þessum orðum má ráða, hvers vegna norskir stjórnmálamenn og fjölmiðlar fylgjast svo náið með því, sem hér er að gerast í Evrópumálum. Á hinn bóginn er tvíræðni í garð ESB hér um þessar mundir og hugsanleg áhrif hennar barnaleikur miðað við þann ótta, sem sækir að málsvörum ESB vegna væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi um stjórnarskrá ESB. Málsvarar ESB þar hafa nú hafið gamalkunnan hræðsluáróður um, að sjálfur friðurinn sé í húfi í Evrópu, ef sagt verði nei við stjórnarskránni. Hver trúir því í raun?

Helsinki.

Frá Færeyjum hélt ég til Helsinki, þar sem dómsmálaráðherrar aðildarríkja Evrópuráðsins komu saman til tæplega tveggja daga fundar. Umræðurnar snerust um ofur-skuldasöfnun almennings og greiðsluvandræði, uppbyggilega réttvísi (restorative justice), baráttuna gegn hryðjuverkum og evrópskar fangelsismálareglur.

Allt eru þetta mikilvæg viðfangsefni. Umræður um skuldasöfnun og ráðstafanir til að forða almenningi undan því að taka of mikið að láni eru ekki nýjar af nálinni fyrir okkur Íslendinga. Finnar búa yfir dýrkeyptri reynslu eftir efnahagsþrengingar sínar á síðasta áratug og telja, að búa þurfi almenning betur undir að skilja hvað felst í ofurtilboðum banka og kortafyrirtækja - ef harðni á dalnum, sem hljóti að gerast, geti verið erfitt að vera með þunga skuldabagga á herðum. Einn ræðumanna vakti máls á því, að kannski ætti að setja þak á auglýsingar banka og lánastofnana til að koma í veg fyrir, að almenningi sé freistað með gylliboðum. Við Íslendingar lifum tíma, þar sem slíkar freistingar eru á hverju strái, eins og kunnugt er, og hefur þjóðin raunar aldrei fyrr í sögu sinni lifað sambærilega tíma að þessu leyti - þeir eru í hrópandi andstöðu við fyrri biðraðamenningu á bankastjórabiðstofum.

 

Í frumvarpi til laga um happdrættismál, sem ég mælti nýlega fyrir á þingi, er ákvæði um að setja megi þak á útgjöld happdrætta til auglýsinga og einnig um að gera megi kröfu til þess, að þau leggi fé af mörkum til rannsókna og aðgerða til að sporna gegn spilafíkn. Umræður á ráðherrafundinum í Helsinki vöktu til umhugsunar um, hvort gera yrði svipaðar ráðstafanir til að sporna gegn lánafíkn. Raunar hafa slíkar ráðstafanir verið gerðar með ráðgjöf og miðlun upplýsinga en margir telja að enn megi betur gera í þessu efni. Hér er hins vegar meðalhófið vandratað og við, sem erum talsmenn frelsis einstaklingsins til orðs og æðis, viljum að sjálfsögðu, að hann sjái sjálfur fótum sínum forráð, þótt fleiri og hærri lán séu í boði en nokkru sinni fyrr.

 

Uppbyggileg réttvísi er nýtt hugtak innan refsiréttarins, að minnsta kosti hér á landi. Eitt dæmi um verkefni í anda hennar er að finna undir heitinu Hringurinn, en að því hefur verið unnið með góðum árangri í Grafarvogi í samvinnu lögreglu, félagsmálayfirvalda, skóla og foreldra. Verkefnið miðar að því að taka á málefnum þeirra, sem eru ósakhæfir vegna aldurs en hafa framið afbrot og beina þeim á rétta braut að nýju með viðræðum og sáttaumleitunum milli þeirra og hinna, sem urðu fyrir misgjörðinni. Á næstunni verða stigin frekari skref í þessu efni - en á fundinum í Helsinki luku allir miklu lofsorði á þá nýju hugsun í refsirétti, sem endurspeglast í þessum nýju vinnubrögðum. Athygli mín var vakin á þessu nýmæli skömmu eftir að ég varð dóms- og kirkjumálaráðherra og hef ég auðveldað áhugasömum lögfræðingum að sækja ráðstefnur og kynningarfundi um málið. Eftir umræðurnar í Helsinki er mér meira umhugsunarefni en áður, hvers vegna ekki hafa orðið opnar refsiréttarlegar umræður um þetta mál hér á landi í tímans rás.

 

Róm.

 

Að morgni sunnudagsins 3. apríl fórum við Gunnar Eyjólfsson til Karmelsystranna í Hafnarfirði og tókum þátt í klausturmessu, þar sem  séra Húbert Th. Óremus minntist Jóhannesar Páls páfa II. með bænum og hlýjum orðum. Síðan hittum við systur Agnesi, príorinnu klaustursins, og fluttum henni samúðarkveðjur.

 

Ég segi frá því í pistli, sem ég skrifaði 17. janúar 1999, þegar við Rut bjuggum í Casa Santa Marta í Vatíkaninu í viku vegna ráðstefnu, sem þar var haldin. Af þeim pistli og öðru, sem ég hef skrifað eða sagt um hinn nýlátna páfa má auðveldlega ráða aðdáun mína á honum. Ég hafði stundum áhyggjur af því, þegar ég hafði umsjón með erlendum fréttum Morgunblaðsins, að ég beitti mér um of fyrir því, að myndir birtust af páfanum í blaðinu, einhverjum kynni að þykja nóg um, en segja má hins vegar, að jafnan hafi verið mikið að frétta af páfanum vegna stöðugra ferðalaga hans og alls þess, sem hann tók sér fyrir hendur.

 

Áhrif hans ná út fyrir gröf og dauða eins og mannmergðin í Róm undanfarna daga hefur sýnt. Sérstaka athygli vekur áhugi ungs fólks á að votta páfanum virðingu sína - því að gagnrýni á skoðanir hans byggjast helst á því, að hann hafi viljað snúa klukkunni til baka í stað þess að laga kirkjuna að nýjum tíma; að í tíð hans hafi dregið úr kirkjusókn og erfiðara reynst að fá presta til starfa en áður. Í röðum þeirra, sem biðu tímunum saman eftir að geta gengið fram hjá líkbörum páfa í Péturskirkjunni, voru ungar konur áberandi, þótt gagnrýnendur hans segi hann síður en svo hafa viljað bæta hlut kvenna innan kirkjunnar.

 

Sumir spá því, að valinn verði kardínáli vel við aldur til að taka við af Jóhannesi Páli II. Hann hafi þjónað og stjórnað kirkjunni svo lengi og sett svo mikið mark á hana, að skynsamlegt sé að kjósa einhvern í hans stað, sem brúi frekar bil en sé kjörinn til setu á páfastóli til langframa. Þetta eru þó getgátur eins og allt annað, sem varðar páfakjörið, en kardínálarnir hafa nú heitið hver öðrum þagmælsku um áform sín og afstöðu, þar til kjörinu er lokið.

 

Útför páfa fór að skýrum fyrirmælum hans og hann hefur einnig búið í haginn fyrir þá, sem eiga að velja eftirmann hans með því að láta innrétta góða gistiaðstöðu fyrir kardínálanna innan veggja Vatíkansins, það er í Casa Santa Marta, þar sem við Rut bjuggum 1999 og getum borið vitni um, að aðstaða þar til gistingar og máltíða er prýðileg auk þess sem í húsinu er einstaklega falleg kapella. Páfanum þótti nóg um aðstöðuleysi kardínálanna, þegar hann kom sjálfur til að kjósa og var kjörinn.

 

Í vikunni var erfðaskrá páfa kynnt og snerist hún um annað en veraldlegar eignir, því að þær átti hann engar. Í blöðum um heim allan birtust fréttir um, að páfinn hefði velt fyrir sér að láta af embætti sínu. Í erfðaskránni, sem er frá 17. mars 2000, skrifar Jóhannes Páll II: „Forsjónin hefur ætlað mér að lifa erfiða öld, sem er að hverfa, og nú á því ári, sem ég verð áttræður, er eðlilegt að maður spyrji sjálfan sig, hvort ekki sé kominn tími til að endurtaka með hinum biblíulega Símeon „Nunc dimittis.““

 

Ýmsir draga í efa, að túlka eigi þessi orð páfa á þann veg, að hann hafi ætlað að segja af sér. Hitt sé eins líklegt í ljósi biblíutextans, sem páfi nefnir, að hann hafi verið að búa sig undir eigin dauða, enda þjáður af Parkinsonveiki. Í 2. kapítula Lúkasarguðspjalls versum 25 til 32 segir:

 

„Þá var í Jerúsalem maður, er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti huggunar Ísraels, og yfir honum var heilagur andi. Honum hafði heilagur andi vitrað, að hann skyldi ekki dauðann sjá, fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. Hann kom að tillaðan andans í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins, tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:  „Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara,eins og þú hefur heitið mér, því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingju og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.““

 

Reykjavík.

 

Víðar eru formannskosningar meðal jafnaðarmanna en hér á landi. Um hádegi á mánudag lýkur kosningu um formann danskra jafnaðarmanna eftir afsögn Mogens Lykketofts, en hann sagði af sér eftir tap flokksins í þingkosningunum á dögunum. 52.000 manns hafa kosningarétt og samkvæmt könnunum nýtur Helle Thorning-Schmidt, þingmaður á Evrópusambandsþinginu, stuðnings 44% en Frank Jensen, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, 39%. Innan danska jafnaðarmannaflokksins hafa menn tekist á um pólitísk markmið, Thorning-Schmidt er á hægri væng flokksins en Jensen hallast til vinstri, það er Thorning-Schmidt vill fara svipaða leið inn á miðjuna og til hægri og Tony Blair valdi en Jensen segist fulltrúi klassískrar vinstri jafnaðarstefnu.

 

Þess verður ekki vart í formannskjörinu innan Samfylkingarinnar, að þar takist menn á um frambjóðendur með slíkan stefnumun þeirra til leiðbeiningar. Í ljósi þess, sem hefur verið að gerast innan evrópskra jafnaðarmannaflokka er næsta sérkennilegt, að fjölmiðlamenn skuli ekki leitast við að skilgreina og skýra kosningabaráttuna á slíkum málefnalegum forsendum. Nú eða Samfylkingarfólkið sjálft.

 

Í herbúðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er reynt að bregða birtu af borgarstjóraárum hennar á hana og sýnist Morgunblaðið oft bíta á það agn. Henni var til dæmis boðið í einkakynnisferð um nýtt hótel við Aðalstræti, áður en það var formlega opnað, og fékk hún af sér nokkurra dálka skrautmynd í Morgunblaðinu af því tilefni. Þar var ekki sagt frá því, að Ingibjörg Sólrún er formaður verkefnisstjórnar vegna sýningar á landnámsminjum í kjallara hótelsins, þar sem kostnaður hleypur á hundruð milljóna og enginn sér enn fyrir endann á honum - hitt er síðan síður en svo til að hreykja sér af, að ætla minjunum stað í hótelkjallara.

 

Í leiðara í DV í dag, laugardaginn 9. apríl,er hins vegar ekki litið af neinni vinsemd til borgarstjórnarára Ingibjargar Sólrúnar. Páll Baldvin Baldvinsson skrifar þennan leiðara undir fyrirsögninni: Hallelújakór gagnrýndur. Minnt er á vitnanir um ágæti Ingibjargar Sólrúnar á heimasíðu hennar og síðan segir Páll Baldvin:

 

„Lofrullan birtist þegar lóðaskortur í Reykjavík nær sögulegu meti...Ánægjukórinn kvakar meðan umferðarástand í Reykjavík verður æ verra viðfangs...Hamingjuóskir henni til handa hljóma þegar ráðstafað er stórum skákum úr Vatnsmýrinni til hagsmunaaðila...Sokkinn er sá kostnaður sem Ingibjörg og félagar létu viðgangast í hallarekstri Línu.Nets sem þau hafa aldrei viljað gangast við að hafi verið glópska.

 

Arfleifð Ingibjargar Sólrúnar í borginni brennur því á borgarbúum. Samfylkingarmenn ganga til formannskjörs eftir tæpan mánuð. Framgangur í pólitísku starfi heimtar hollustu við stefnumið sem menn vilja ná. Frambjóðendum er hollari grunduð gagnrýni en látlaust hól.“

 

Undir það skal tekið með Páli Baldvini, að upphafið lof á borð við það, sem Ingibjörg Sólrún kýs að hafa á vefsíðu sinni, er ekki til þess fallið að hvetja til gagnrýnna umræðna um stjórnmál eða stefnumið. Í Íslandi í dag föstudagskvöldið 8. apríl taldi Jónína Benediktsdóttir, að þáttaskil hefðu orðið á stjórnmálaferli Ingibjargar Sólrúnar með Borgarnesræðunni fyrir rúmu ári, sú stefna, sem þar var boðuð ætti ekki heima meðal sannra jafnaðarmanna. Á að nota hollustu við stórfyrirtæki sem kvarða á formannsframbjóðendur í Samfylkingunni? Eða er unnt að nota sama kvarða og notaður er meðal danskra jafnaðarmanna? Með öðrum orðum: Fyrir hvað stendur Samfylkingin? Er hún kannski aðeins til í því skyni að koma Ingibjörgu Sólrúnu til æðstu metorða? Það mætti halda af lofsöng sumra stuðningsmanna hennar.